laugardagur, 2. apríl 2011

Kaffiþamb og kjarasamningar

Staða viðræðna er þessa stundina sú að beðið er eftir nákvæmari texta frá stjórnvöldum. Þar er fyrirferðamest hvernig stjórnvöld ætli að stuðla að koma fjárfestingum upp fyrir 20% af landsframleiðslu, sem er grunnur þess að hagvöxtur komist í þá stærð sem sagt að stefnt sé að og sé ásættanleg stærð.

Núverandi texti minnir um margt á það sem lagt var fyrir aðila vinnumarkaðs í Stöðugleikasáttmála, taldar upp sömu framkvæmdir, það er að segja framkvæmdir sem ekki var farið út í og varð tilefni til slita. Það liggur fyrir að ekki verður farið út í þessa uppbyggingu sem talað er um án þess að virkja og um það snýst málið. Stjórnvöld verða að nefna þá staði og þrýsta á um að rammaáætlun verði lokið hið fyrsta og afgreidd. Ekki nýtt sem afsökun og haldið inn í nefnd.

Iðnaðarmannafélögin hafa algjörlega hafna að fara fram með þokukenndan texta og sitja undir yfirlýsingum stjórnvalda um að staðið hafi verið við öll fyrirheit, horfandi upp á allt að 30% atvinnuleysi í helstu greinum. Inn í þetta spila kröfur um lagfæringar á vaxtabótakerfinu.

En fyrir stuttu voru gerðar breytingar á kerfinu sem nánast þurrka út allar vaxtabætur hjá millitekjuhópum og gerir það að verkum að fólk er ekki að fjárfesta. Íbúðamarkaður er í frosti og miðað við eðlilega fjölgun og hreyfingar á íbúðamarkaði væru þær íbúðir sem voru umfram við Hrun að klárast á þessu ári, en ekkert er að gerast. Þetta er afleiðing þess að fjárfesting í atvinnulífinu hefur verið í lágmarki og veldur hinum neikvæða spíral og doða sem við búum við í hagkerfinu.

Einnig er deilt um nokkur önnur atriði, Þar ber hæst deila við menntamálaráðuneytið um að gera þeim ekki hafa lokið framhaldsskólanámi kleift að hefja nám að nýju. Þetta er gömul deila og eitt stefnumálum verkalýðshreyfingarinnar til margra ára.

Krafan snýst um að einstaklingar sem af einhverjum ástæðum hafa ekki lokið framhaldsskólanámi og farið út í atvinnulífið glati ekki þeim samfélagslega rétti og geti nýtt sér hann síðar á ævinni. Farið í nám ef viðkomandi sé atvinnulaus. Þetta fyrirkomulag er annarsstaðar á Norðurlöndunum.

Nýta á tímann um helgina til þess að funda og gera tilraun til þess að koma málum milli ASÍ og SA í lokafasann. Þar er vitanlega fyrirferðamestur slagurinn um launamálin. Hann snýst um hversu hár launakostnaðaraukinn eigi að vera. Á mannamáli þýðir það hvenær kauphækkanir fara yfir það mark að fara að valda aukinni verðbólgu og vinna gegn að kaupmáttarauka.

Og síðan er stóra deilan um hversu mikið af launakostnaðarauka eigi að fara í krónutöluhækkanir lægstu taxta og hversu mikið í prósentuhækkanir, hún er ekki einungis milli vinnuveitenda og launamanna, heldur einnig á milli launahópanna.

Alþekkt er að millitekjuhóparnir sett fram kröfur um að þeir fái sömu launahækkanir og aðrir. Þeir hafi ekki fengið neinar kauphækkanir úr síðustu kjarasamningum, orðið fyrir mesta kaupmáttarhruninu og fari verst út úr öllum skattabreytingum og breytingum á tekjutengingum í bótakerfinu.

Þarna er hið örmjóa einstigi sem samningamenn feta sig eftir þvalir og uppspenntir af kaffiþambi og píreygðir af Excelæfingum og textaglímu, sitjandi undir kröfum úr öllum áttum, allt sanngjörnum og eðlilegum kröfum eftir að stjórnvöld klúðruðu stjórn efnahagsmála og brunuðu fram af hengifluginu án bremsufara með hrikalegum afleiðingum fyrir hinn almenna launamann.

Við þessar aðstæður er ekkert eins pirrandi og að hlusta á stjórnmálamenn. Það er hreint út sagt yfirgengilegt hvernig sumir þeirra tala eins og ekkert sé að og þeir hafi ekkert gert, það sé við verkalýðshreyfinguna að sakast hversu léleg launin séu og bæturnar lágar.

Upp andstyggilegu rugli síðustu daga stendur yfirlýsing eins ráðherra sem sagði að það stefndi í of dýra kjarasamninga vegna of mikilla hækkana á lægstu töxtum vegna of mikilla krónutöluhækkana. Þessi hin sami hefur margoft í ræðupúlti Alþingis og í spjallþáttum hæðst af verkalýðshreyfingunni fyrir það að það sé henni til skammar hversu lág lægstu laun séu og það haldi niðri þeim bótum sem hann vilji svo gjarnan koma út til atvinnulausra og þeirra sem minnst mega sín.

Svo má minna á yfirlýsingar tveggja verkalýðsleiðtoga sem klufu sig frá samfloti við önnur stéttarfélög ASÍ fyrir nokkrum vikum og sögðust auðveldlega geta náð mun betri árangri. Þeir hafa haft allt það svigrúm sem þeir vildu, en birtast núna í fréttatímum og krefjast þess að ASÍ lýsi yfir allsherjarverkfalli. Þarna eru þeir reyndar að upplýsa okkur um að þeir þekkja ekki til þeirra laga sem gilda um stéttarfélög og vinnudeilur og eins að þeir hafi aldrei ætlað að berjast fyrir sínum málum, en ætlast til þess að aðrir geri það.

Engin ummæli: