föstudagur, 17. júní 2011

17. júní og ný stjórnarskrá

Grein sem ég var beðinn að skrifa fyrir norskt dagblað og birtist þar í dag.

Á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní veltir maður gjarnan fyrir sér stöðu lýðveldisins. Í dag spyr maður um hvers vegna Ísland sé í lakari stöðu en aðrar Norðurlandaþjóðir. Létum við þjóðernislegt oflæti blinda okkur sýn enn eina ferðina? Hinn umdeildi forseti Íslands fór árin fyrir Hrun víða um heimsbyggðina með íslenskum fjármálamönnum og kynnti hið „Íslenska efnahagsundur“. Forseti okkar fullyrti að hinn einstaki árangur íslensku útrásarvíkinganna byggðist á því að í gegnum aldirnar, allt frá landnámsöld, hefði þróast á Íslandi einstakur frumkvöðlaandi, þar sem sköpun og uppgötvun fléttuðust saman í einstaka viðskiptasnilli, sem hvergi annarsstaðar væri að finna. Með aukinn hnattvæðingu hefðu íslensku útrásarsnillingarnir einfaldlega breitt út vængi sína og hafið sig til flugs á alþjóðlegum fjármálamarkaði þar sem þeir urðu óhjákvæmilega óðara í forystu hins nýja alþjóðlega þekkingarhagkerfis.

Þáverandi forsætisráðherra skipaði nefnd í marz 2008, sem fékk það verkefni að skilgreina þjóðareinkenni Íslendinga, hvernig mætti nota þau einkenni til að byggja upp jákvætt alþjóðlegt orðspor, einkum í þágu viðskiptaútrásarinnar. Skýrsluhöfundar notuðu þar kunnugleg stef um hinn séríslenska kraft, sem býr í þjóðinni og leggur grunn að kröftugu viðskiptalífi. Hinn náttúrulega kraft sem greinir þjóðina frá öðrum þjóðum og hafi skilað okkur í hóp samkeppnishæfustu landa heimsins. Ísland sé best í heimi, land sem bjóði mestu lífsgæði sem þekkjast og þar sé minnst spilling. Í skýrslunni var fjallað um hin náttúrulega kraft sem einkennir það ferskasta í menningunni og einstakan hljóm nýsköpunar í tónlist og sjónlistum, sem kallast á við hrynjanda rímna og Íslendingasafna. Já minna mátti það nú ekki vera.

Það er ekki langur vegur milli oflofs og háðs og grunnhygginnar sjálfumgleði byggðri á efnishyggju. Eftir efnahagshrunið snérist við hinn einkennilegi oflátungsháttur um yfirburði og eigið ágæti við. Nú varð niðurlægingin og vandræðin öðrum þjóðum eða alþjóðlegum stofnunum að kenna. Yfirburðarþjóðin varð í orðræðu forsetans og stjórnmálamanna að saklausu fórnarlambi erlends umsáturs. Eftir bankahrunið reyndist ekki aðeins auðvelt að gera Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Hollendinga og Breta að óvinum þjóðarinnar heldur örlaði einnig á vaxandi fjandskap í garð frændþjóðanna á Norðurlöndum sem treguðust við að lána fé til uppbyggingar nema gegn tryggingum.

Öll umræða er pólitísk og einkennist af mati á aðstæðum og umræðu um stöðuna hverju sinni. Staða umræðu hefur verið á undanhaldi, hún hefur vikið fyrir sérhagsmunum fjármálalífsins, samfara því að maðurinn hefur í vaxandi mæli orðið að hlutlausum móttakanda, fjarlægst sérstöðu sína og nálgast aðrar lífverur. Við sjáum einstaklinga hugsunarlaust ástunda hrifsun af græðgi, sem endurspeglast í fullkomnu tillitsleysi í garð náungans. Sama og einkennir hátterni annarra lífvera. Markaðs- og efnahagsöflunum var gefin laus taumurinn og stjórnmálamenn stefndu markvisst að því að gera sig óþarfa. Losa sig undan allri ákvarðanatöku með afreglun og ábyrgðarleysi.

Íslandi var sett stjórnarskrá árið 1944 þegar lýðveldið var stofnað. Hún var snaggaraleg þýðing á danskri stjórnarskrá með rætur í konungsveldi. Lengi hefur staðið til að endurskoða hana og færa til nútímans, en stjórnmálaöflin hafa ætíð komið í veg fyrir það. Hér þróaðist ráðherraræði í skjóli ákvæða um konungsveldið og Alþingi varð valdalaus stofnun. Löggjafar- og framkvæmdavaldið færðist á hendur fárra.

Eftir Hrun koma fram skýr krafa um nýtt samfélag byggt á nýrri stjórnarskrá. Skýr mörk yrðu sett milli framkvæmda og löggjafarvalds. Staða löggjafavaldsins yrði styrkt gagnvart ráðherraræðinu. Gegn þessu var unnið af stjórnmálaöflunum, en almenningur hafði það í gegn síðastliðið haust að kjósa sitt Stjórnlagaþing. Stjórnmálaöflin fengu það dæmt ógilt með ákaflega umdeildum aðferðum. En Stjórnlagaráð var sett með þeim 25 einstaklingum sem hlutu kosningu almennings og það situr nú við að gera nýja Stjórnarskrá.

Það starf grundvallast á kröfunni um að hefta möguleika ríkisvaldsins til þess að hygla sérhagsmunum og ganga gegn mannréttindum. Á nokkrum áratugum hefur þróast hér samfélagskerfi af svo miklum hraða og krafti að ekki stendur steinn yfir steini. Siðferðið hefur setið á hakanum en yfirborðsmennskan orðið hið ráðandi afl.

Markmið Stjórnlagaráðs er að ný Stjórnarskrá endurspegli þær reglur sem við viljum hafa við að leiða sameiginleg mál farsællega til lykta. Valdið sé hjá fólkinu og það geti leitt mál sín til lykta eftir reglum og leiðum sem það sjálft virðir. Fólkið geti vísað málum til þjóðaratkvæðis og sett ýtarleg ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindum. Stefnt er að því að drögum að nýrri Stjórnarskrá verði skilað til þjóðarinnar í sumar. Margir óttast að stjórnmálamenn munu snúast gegn tillögum Stjórnlagaráðs og beita afli til þess að hún nái ekki fram að ganga.

miðvikudagur, 15. júní 2011

Skuldbindingar lífeyrissjóðanna

Því er oft haldið fram að B-deild LSR sé lokuð og ekki komi fram nýjar skuldbindingar til viðbótar hinum eldri. Kerfinu var á sínum tíma einungis lokað fyrir nýliðun, en þeir opinberir starfsmenn sem telja sig hafa af því betri hagsmuni fá að greiða til loka starfsaldurs gera það, sem leiðir til þess að á hverju ári orðið til nýjar viðbótarskuldbindingar vegna þessa.

Heildarskuldbindingar lífeyrissjóða opinberra starfsmanna voru 1.271 milljarður króna í árslok 2009, þar af voru 869 milljarðar vegna áfallinna réttinda og 402 milljarðar vegna framtíðarréttinda. Af þessu voru 753 milljarðar króna vegna B-deildarkerfisins. Á móti þessum réttindum hafa safnast í lífeyrissjóðnum eignir uppá 471 milljarð króna og framtíðarvirði iðgjalda þeirra sem nú greiða í sjóðina eru um 300 miljarðar króna. Samtals gerir þetta 771 milljarð króna eignir á móti 1.271 milljarða skuldum. Halli kerfisins er því 500 milljarðar króna, eins margoft hefur komið fram, m.a. hér þessari síðu.

Heildarskuldbindingar lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði voru í árslok 2009 eru1.907 milljarðar króna, en heildareignir og framtíðariðgjöld samtals 1.707 milljarðar. Halli þessa hluta kerfisins er því tæplega 200 milljarðar króna og var að mestu jafnaður með lækkun réttinda vorið 2010. Nýgerðir kjarasamningar munu hækka skuldbindingar vegna B-deildarfyrirkomulags ríkis og sveitarfélaga um 50 milljarða króna.

Í þessu sambandi má auk þess benda á að tengsl lífeyriskerfisins og almannatrygginga eru ekki hagstæð launamönnum á almennum markaði, fyrstu 75 þúsund krónurnar sem greitt er úr lífeyrissjóðum skerða réttindi frá almannatryggingum um krónu á móti krónu, eða 100% jaðarskattur.

Þetta eru afleiðingar ákvarðana þingmanna sem lifa í því lífeyrisumhverfi sem þeir hafa skapað sér. Það er ekki hægt að kalla það annað en sjálfsköpuð forréttindi að þurfa ekki að horfast í augu við vanda kerfisins heldur vísa honum eitthvað annað. Alþingismenn og ráðherrar sem hafa skapað þessa stöðu umfram aðra geta ekki undrast það þótt þeir sem fá reikninginn sendan með skattseðlinum bregðist við með einhverjum hætti.

Samkomulag almennu stéttarfélaganna við ríkisstjórnina frá júní 2009 miðast við að það sé forgangsverkefni að taka upp frítekjumark vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum til að koma í veg fyrir þetta og munu allir lífeyrisþegar njóta þess, líka þeir sem voru í opinberu starfi.

Hagdeild ASÍ hefur reiknað út hver greiðslubyrði skattborgaranna er af halla B-deildarkerfisins m.v. að það taki um 30 ár að ljúka þeim greiðslum. Ef halli kerfisins er settur á 30 ára skuldabréf með jöfnum afborgunum miðað við 3,5% raunvexti á ári þá er greiðslubyrði ríkisins 21,3 miljarðar króna og sveitarfélaganna 2,9 milljarðar króna, samtals 24,1 milljarður króna á ári.

Hvert ár sem þingmenn draga að gangast í að leysa þetta mál hækkar sú greiðsla. Með öðrum orðum það er verið að senda digra reikninga inn í framtíðina til barna okkar. Sumir ráðherrar og þingmenn segja það endurtekið í fjölmiðlum að þetta sé ekkert eða í mesta lagi 7 – 9 milljarða króna. Þessar upplýsingar eru ástæða þess að ég tók þá ákvörðun að senda smá nótu til þingmanna, þar sem sumir þeirra hafa verið að senda mér tóninn fyrir þá pistla sem ég hef skrifað og bent á framantalið.

Framantalið sýnir okkur öllum hvað það skiptir miklu að öll umræða um lífeyrisréttindi sé vönduð og byggi á ítarlegum upplýsingum og tryggingafræðilegum forsendum, ekki einhverjum rakalausum upphrópunum. Hér er um að ræða ein af mikilvægustu réttindum íslenskra launamanna, og ástæða til þess að hér er verið að höndla með allt sparifé almennra launamanna.

Birting tölvupósta

Það er vart fréttaefni að fólk skiptist á skoðunum með tölvupóstum. Varla getur það talist fréttaefni ef fólk sem er ráðið til þess að koma á framfæri skoðunum og vinna þeim fylgi, að það sendi frá sér tölvupósta til þess að kynna sínar skoðanir.

Það getur vart talist fréttaefni að ég taki undir það að ástunduð sé hér á landi mikil mismunun á réttindum starfsmanna á almennum vinnumarkaði og hluta þeirra sem starfa á opinberum vinnumarkaði. Þetta er fréttamönnum Eyjunnar framar öðrum kunnugt um, þar sem ég hef skrifað á sama fréttamiðil og þeir starfa á síðan 2007 um 1.100 pistla og margir þeirra hafa einmitt snúist um það efni.

Það er heldur ekki fréttaefni að ég fái sent frá starfsmönnum ASÍ töluvert af talnaefni frá hagdeild ASÍ og nýti það. Þetta hefur komið fram í mörgum pistlum sem ég skrifað á fréttamiðilinn Eyjuna og fréttamenn á þeim miðli þekkja.

Það er heldur ekki fréttaefni að ég sem starfsmaður stéttarfélags hafi sent nokkrum sinnum efni á 63 þingmenn þessa lands. Ég er sannfærður um að allmargir íslendingar gert slíkt hið sama. T.d. eru það vart mikil tíðindi að ég hafi sent öllum þingmönnum bréf þegar ég fékk ítarlegar talnaupplýsingar sem staðfesta hversu ofboðsleg mismunum á sér í lífeyrisréttindum tiltekinna opinberra starfsmanna sem standa utan ASÍ og svo þeirra 13.000 opinberu starfsmanna sem eru innan ASÍ ásamt launamönnum á almennum vinnumarkaði og staðfestir að ekki stendur steinn yfir steini í málflutningi margra þingmanna og ráðherra, sem reyna að réttlæta athafnir sínar með röngum tölum.

Fréttamenn Eyjunnar vita einnig að við erum nokkrir Stjórnlagaráðsmenn sem skrifa á Eyjuna m.a. um störf Stjórnlagaráðs. Þar hefur komið fram að í því efni sem við erum að vinna með hafa komið fram margskonar kröfur um hvað standi í Stjórnarskrá Íslands, þar á meðal um lágmörk réttinda launamanna og jöfnun þeirra.

En það er fréttaefni þegar fréttamenn taka sig til að mönnum forspurðum að birta tölvupósta þar sem menn eru að skipast á skoðunum, pósta sem ekki eru sendir á fréttastofuna af þeim sem ritar viðkomandi tölvupósta. Það vekur vitanlega upp pælingar hver það sé sem áframsendi þessa pósta á fréttastofu Eyjunnar. Það þarf svo sem ekki að spandera mörgum heilasellum í sjá hver geri það í þessu tilfelli. En þrátt fyrir það ætlast maður einhverra hluta vegna til þess að þannig efni sé ekki birt, ef það er gert þá setur viðkomandi fréttastofu mikið niður.

En það er fréttaefni þegar fréttamenn taka sig til og spinna upp samtöl sem aldrei hafa átt sér stað og gera fólki upp skoðanir og skálda upp meintar athafnir. Þegar þannig er unnið fellur viðkomandi fréttastofu mikið niður í áliti. Stundum kemur það fyrir fréttastofur sem eru fyrir ekki á háum stól, jafnvel bara á pínulitlum skemli og fallið er innan við tvær tommur.

þriðjudagur, 7. júní 2011

Auðlindamálin

Sá tími sem Alþingi gefur til umsagnar um þær breytingar sem gera á stjórn fiskveiða er of skammur, mikilvægt er að eðlilegur tími gefist til málefnalegrar umfjöllunar og samráðs. Óneitanlega tengist umræðan í mínum huga við það sem maður er að fást við þessa dagana.

Stjórnlagaráð vinnur nú að tillögum um nýja stjórnarskrá og í drögunum stendur m.a:
Náttúruauðlindir
Náttúruauðlindir Íslands eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta öllum landsmönnum. Enginn getur fengið þær til varanlegrar eignar eða afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.


Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds vernda auðlindirnar og geta veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Til auðlinda í þjóðareign teljast jafnframt náttúrugæði, sem ekki eru í einkaeigu, svo sem nytjastofnar, landsvæði, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

Náttúra Íslands
Náttúra Íslands er friðhelg. Hverjum og einum ber að virða hana og vernda.

Nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar skal haga svo að þær skerðist ekki til langframa og réttur komandi kynslóða sé virtur.

Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni og óspilltri náttúru til lands, lofts og sjávar þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið og fyrri spjöll bætt eftir föngum.

Almenningi er frjálst að fara um landið eins og lög leyfa.


Þessi málaflokkur skiptir okkur öll mjög miklu máli, t.d. má benda á að forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa undanfarnar vikur bent á að tekjur af orkulindum gætu auðveldlega staðið undir allri heilsugæslunni. Samfara því hafa margir bent á að tekjur af auðlindinni í hafinu umhverfis landið gæti stuðlað að því að tryggja atvinnuöryggi í dreifðum og fámennum byggðum.

Við vorum værukær á meðan öll orkufyrirtækin voru í eigu almennings og veiðarnar fóru fram frá hverju sjávarplássi. Auðlindirnar voru nýttar af almenning án endurgjalds, sem birtist í atvinnutækifærum og lágu orkuverði til almennings. Takmarkinu var náð.

Almenningur hefur sett fram kröfu um að til náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar teljist m.a. nytjastofnar á Íslandsmiðum, auðlindir undir hafsbotninum og náttúruauðlindir í þjóðlendum. Á grundvelli stefnu um nýtingu og verndun náttúruauðlinda geti stjórnvöld veitt heimild til nýtingar á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar gegn gjaldi að því tilskyldu að nýtingarrétturinn sé tímabundinn eða að honum megi breyta.

Í umdeildu frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem er til umræðu þessa dagana eru lagðar til margskonar breytingar. Þar má helst nefna aukningu aflaheimilda til strandveiða og byggðakvóta. Hagfræðingar hafa bent á að þetta muni veikja rekstargrundvöll sjávarútvegsins.

Samtök sjómanna hafa bent á að það mun veikja stöðu þeirra sem hafa aðalstarf sitt af fiskveiðum. Þau benda á að með því að færa stærri hluta aflaheimilda til strandveiða sé verið að færa störf frá þeim sem hafa meginatvinnu sína af fiskveiðum. Hagkvæmni slíkra veiða er takmörkuð þar sem einungis má veiða fáa daga í mánuði yfir sumartímann og hefur ákaflega litla þýðingu atvinnulega séð. Fjárfestingar í skipum, veiðarfærum og öðrum búnaði til strandveiða nýtist því afar illa.

Samkvæmt frumvarpinu eiga handhafar aflamarks að standa undir því aflamarki sem varið er til byggðakvóta, strandveiða og línuívilnunar. Hafi útgerð skips ekki yfir að ráða nægum aflaheimildum til að mæta þessari skerðingu fái hún frest til að flytja eða leigja fullnægjandi veiðiheimildir á skipið eða greiði gjald fyrir sömu heimildir. Slíkt fyrirkomulag er óhagkvæmt og er hætt við að það ýti undir frekara leigubrask.

Skorður eru settar við tilfærslum milli tegunda innan einstakra útgerða þannig að þær geti ekki orðið hærri en 30% af aflamarki þeirra hverju sinni. Ráðherra hafi til úthlutunar 2.000 tonn af sumargotsíld og 1.200 tonn af skötusel gegn gjaldi. Færa á stærri hluta aflaheimilda til stuðnings minni byggðarlaga sem lent hafa í vandræðum vegna samdráttar í sjávarútvegi. Telja má að það væri hagkvæmari og skilvirkari leið til að koma til móts við umrædd byggðarlög að nýta hluta veiðigjaldsins til uppbyggingar atvinnu á viðkomandi stöðum.

Með frumvarpinu er lögð til hækkun veiðigjalds, eðlilegt er gjaldið hækki þannig að þjóðin fái notið eðlilegs arðs af sjávarútvegsauðlindinni. Í fljótu bragði virðist um hógværa hækkun að ræða sem ekki ætti ekki að ógna rekstarskilyrðum sjávarútvegsins.

Æskilegt væri að gerði yrði hagfræðileg úttekt á því hve hátt veiðigjald sjávarútvegurinn getur borið án þess að það bitni á eðlilegum rekstarskilyrðum. Hér skiptir miklu máli hvaða ákvarðanir ráðherra tekur og hvaða hagsmuni hann velur að vernda. Ætlar hann að jafna stöðu þeirra útgerðarflokka sem óhagkvæmari eru við þá sem hagkvæmari? Slík ráðstöfun telst ekki skynsamleg.

Einfaldar upplýsingar um verðtryggingu

Verðtrygging er óvirk ef ekki eru verðlagsbreytingar. Ef við búum við stöðugleika þá er hún meinlaus. Verðtrygging er ekki einungis til hér á landi hún er víða til, jafnvel í löndum sem búa við stöðugleika. Ef verðgildi krónunnar breytist lagar verðtrygging fjárskuldbindingar að því, hvort sem um er að ræða rýrnun hans í verðbólgu eða hinu gagnstæða í verðhjöðnun, sem er ómetanlegur eiginleiki.

Ef menn líta nokkra áratugi aftur í tímann skilja af hverju verðtryggingu var komið á. Það var í kjölfar stórkostlegustu tilfærslu fjármuna á milli kynslóða í sögu landsins. Það voru stjórnmálamenn sem komu verðtryggingunni á, til þess að skapa vitrænan grundvöll í sparnaði og möguleika til langtímalána.

Fram að þeim tíma voru það fáir útvaldir sem fengu lán og þá til skamms tíma. Samfara þessu var lífeyrissjóðum gert samkvæmt lögum að verðtryggja skuldbindingar sinna sjóðfélaga, en eiga satt að segja í vandræðum með það í núverandi efnahagsumhverfi. Það væri myndi gera rekstur lífeyrissjóðanna mun auðveldari ef verðtrygging væri afnumin.

Verðtrygging tryggir sér til þess að sömu verðmætum er skilað og fengnir eru að láni. Ef verðbólga fer upp úr öllu valdi gerir þetta kerfi það mögulegt að dreifa greiðslubyrðinni af ofurvöxtum. Verðtrygging er forsenda þess að hægt var að taka upp langtímalán hér í landi gjaldmiðils sem stjórnmálamenn hafa nýtt til þess að lagfæra slaka efnahagsstjórn. Hún ver langtímasparnað. Það er henni að þakka að tekist hefur að mynda skyldusparnað sem nú er undirstaða uppbyggingar hér á landi.

Þeir sem krefjast afnáms verðtryggingar verða að gera sér grein fyrir það að það verður ekki gert bara öðrum megin, heldur verður einnig að afnema verðtryggingu örorkubóta og lífeyris. Því fer fjarri að það sé lífeyrissjóðum í hag að verðbólga sé mikil. Skuldbindingar hækka meira en sem nemur hækkun eigna þar sem aðeins hluti eigna er bundinn í verðtryggðum eignum. Það sjá það allir sem vilja.

Það er í hæsta lagi barnalegt að leggja mál upp með þeim hætti að lífeyrissjóðurinn græði ef verðbólga er mikil og sjóðfélagi tapi. Slík framsetning er í besta falli villandi en í versta falli heimska. Ef lífeyrissjóðir yrðu leystir undan þeirri kvöð að verðtryggja skuldbindingar 100% væri viðhorfið án efa öðruvísi.

Markmið lífeyrissjóða er að tryggja sjóðfélögum sínum að lífeyrisgreiðslur dugi fyrir neyslu á hverjum tíma. Það er til lítils að eiga sjóð, ef hann brennur upp í óðaverðbólgu. Vandamál íslenska lífeyrissjóðakerfisins er að of stór hluti sparnaðarins í kerfinu er fjárfestur innanlands í stað erlendis. Kerfið er einfaldlega of stórt fyrir innlendan markað. Á þessu þarf að taka og breyta þeim hlutföllum sem þingmenn hafa sett fjárfestingarstefnu sjóðanna.

Verðtryggingin afnam að miklu leyti þá eignaupptöku sem átti sér stað á sparifé almennings sem hér ríkti fram á níunda áratuginn. Án hennar hefði Þjóðarsátt aldrei orðið að veruleika. Án hennar var einfaldlega ekki neitt við neitt ráðið. Hún er trygging þess stöðugleika sem þó hefur verið.

Það er verðbólgan sem er skaðvaldur hins íslenska hagkerfis, helstu orsök hennar er að finna í örgjaldmiðlinum sem við höldum úti að kröfu valdastéttarinnar. Óhjákvæmilegar sveiflur hennar og sífelldur flótti stjórnmálamanna við að taka óvinsælar en nauðsynlegar ákvarðanir valda sveiflum, þar sem verið er að flytja vandann yfir á og skattborgarana með tilheyrandi kaupmáttarhrapi og eignatilfærslu frá hinum mörgu til fárra.

Einn meginkostur verðtrygginga er að hún krefst fjármálalæsi og refsar fyrir óstjórn og óvarkárni í fjármálum og neyða menn til að taka afleiðingunum. Þetta eiga ábyrgir menn að vita og sjá fótum sínum forráð. Það var ákvörðun stjórnmálamanna að fara út 100% lán á íbúðarmarkaði sem varð til þess að fasteignaverð flaug upp úr öllu valdi. Það var ákvörðun bankanna og vinnulag starfsmanna þeirra sem varð til þess að haldið var að fólki lánum sem fyrirfram var vitað að voru töluvert meiri en raunverð var. Þar er að finna ástæðu vandamálanna, ekki í verðtryggingu.

Það er svo í örgjaldmiðlinum krónunni að finna ástæðu þess að kaupmáttur hefur fallið hér margfalt meir en í öðrum löndum, ekki lélegum kjarasamningum. Eins og þeir sem hafa mestan hag af því að við höldum í krónuna halda ákaft að fólki. Athugaðu lesandi góður að þeir eru í útflutningi og gera sín fyrirtæki upp í evrum, borga laun í krónunni.

Það kostar þrjár krónur að búa til eina krónumynt. Íslenski krónupeningurinn var fyrst settur í umferð árið 1981, en krónan hefur rýrnað mikið í verðbólgu síðan þá. Í dag þarf um 37 krónur til að kaupa það sama og fékkst fyrir eina krónu árið 1981. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að krónan sé vissulega minna virði nú en þegar hún var sett í umferð. Hann segir hugsanlegt að tíu þúsund króna seðill verði framleiddur.

mánudagur, 6. júní 2011

Einfalt dæmi um verðtryggingu

Einhverra hluta vegna virðist það vera nokkuð almenn skoðun á Íslandi að verðtrygging húsnæðislána og annarra neytendalána skaði hagsmuni neytenda. Þessi almenna skoðun Íslendinga er byggð á röngum forsendum. Verðtryggt lán ver lántakanda gegn sveiflum í heildarverðmæti lánsins sem fylgja sveiflum í nafnvöxtum án þess að hann þurfi að taka á sig áhættuna sem fylgir sveiflum í raungildi afborgana og áhættuna sem fylgir sveiflum í raunvöxtum.

Með öðrum orðum ef verðbólguskot koma sem sveifla raunvöxtum upp, eins og t.d. kom í kjölfar Hrunsins þá er lántakandi ekki að greiða nema hluta af vöxtum, lántakandi fær nýtt lán. Það er að segja hann er fyrri helming lánstímans að greiða of lítið.

Sumir virðast telja að hægt sé að velja fasta vexti í stað breytilegra vaxta og strika svo út verðtryggingu. Mjög einfaldað dæmi : Tekið er 20 millj. kr. lán. í 40 ár. Afborganir af höfuðstól er þá 500 þús. á ári. Ef lánið væri á breytilegum vöxtum, sem fóru upp fyrir 20% á tímabili, þá hefði vaxtagreiðsla þessa láns verið 4 millj. kr. það árið. Semsagt viðkomandi hefði þá þurft að greiða af láninu 4.5 millj. kr. það árið, eða tæp 400 þús. kr. á mán.

Með verðtryggingu og föstum 5% vöxtum þá væri afborgunin höfuðstóls vitanlega sú sama 500 þús. kr. á ári og vaxtagreiðsla 1 millj. Afborgun 20% verðbólguárið væri þá 1.5 millj. kr. á mán. eða um 130 þús. kr. á mán. Þarna var fluttur hluta af vaxtagreiðslu það er 3 millj. kr. yfir á seinni hluta lánstímans, eða með öðrum orðum lánið óx um 3 millj. kr. Þetta gleymist oft þegar verið er að gera samanburði.

Sumir hafa lagt til að verðtrygging verði felld niður. Þegar svo gott og gilt en hver á þá að greiða þann brúsa? Hér áður fyrr var það gert með því að gera sparifé launamanna upptækt. Brenna það á verðbólgubólinu, hét það öðru nafni. Ef farið er að tillögum t.d. nýtt stjórnfrumvarps þá eru þessar 3 millj. kr. teknar út af spari- og lífeyrisreikningum fullorðins fólks.

Það liggur fyrir að meðan við höfum ekki stöðugan gjaldmiðil þá verður verðtrygging. Ef hún verður afnumin mun engin setja fjármuni í langtímalán. Kannanir sýna að vextir af verðtryggðum lánum eru að jafnaði lægri en vextir af lánum með breytilegum vöxtum. Verðtryggð lán eru þekkt víða, en það reynir sjaldan á verðtrygginguna vegna þess að það er í umhverfi stöðugs gjaldmiðils.

Margir ráðast að verðtryggingunni. Hún er ekki orsök hún er afleiðing. Vextir hér eru hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill leiðir til enn hærra verðlags. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna. 25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku.

Vextir hér á landi eru töluvert hærri en annarsstaðar og vaxtamunur verður alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins, það er vegna krónunnar. Ef fjölskylda sem kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis rúmlega tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.

laugardagur, 4. júní 2011

Atkvæðavægi

Órökstuddar klisjur einkenna umræðuna. Þeim er hugsunarlaust beitt, jafnvel þó við blasi að þær standist enga skoðun. Þetta er stór þáttur í því hversu hægt gengur að lagfæra íslenskt samfélag og hvers vegna Ísland er að dragast aftur úr nágrannalöndunum.

Í umræðum um stöðu dreifbýlis gagnvart þéttbýlinu á SV horninu stillir dreifbýlisfólk málum gjarnan upp með þeim hætti, að þeir búi við einhverskonar samsæri af hálfu þéttbýlinga. Til þess að vinna gegn þessu samsæri verði að viðhalda mismunandi vægi atkvæða og þar með sé unnið að öflugri atvinnutækifærum í dreifbýlinu og launakjör bætt, samfara því að minnka atvinnuleysi og slaka félagslega stöðu í dreifbýlinu. Um áratugaskeið hefur verið mikið misvægi atkvæða, en þrátt fyrir það er atvinnuleysi er mest í úthverfum höfuðborgarinnar, sama á við slaka félagslega stöðu hún er langmest í þéttbýlinu.

Ef farið væri eftir rökum dreifbýlinga ætti að fara hina gangstæðu leið og auka verulega atkvæðavægi þéttbýlinga á kostnað dreifbýlinga. Þetta er stutt í nýlegum könnunum að 85% ungs fólks sættir sig ekki við þau kjör sem því er búið á Íslandi í dag, Ísland er að dragast aftur úr nágrannalöndum okkar, fólk er ekki einungis að flýja dreifbýlið það er á leið úr landi og reyndar eru flestir þeirra sem flytja frá þéttbýlissvæðinu.

Flestir þeirra sem eru að fara úr landi er vel menntað fólk í góðum störfum, við ákvörðun um brottflutning ráða allt önnur sjónarmið en dreifbýlingar halda fram. Vægi atkvæða hefur ekkert með atvinnu- eða kjaramál að gera. Það eru allt önnur atriði sem ráða því var fólk velur sér búsetu og hvert fyrirtækin leita þegar þau skoða hvar þau koma sér fyrir og byggja upp starfsemi sína.

Dreifbýlingar gera á máli sínu til stuðnings gjarnan samanburð á kjöri til Stjórnlagaþings, það sanni að þeir kæmu mun lakar út yrði landið gert að einu kjördæmi, og benda á að mjög fáir Stjórnlagamanna búi á höfuðborgarsvæðinu. Margir þeirra sem náðu kjöri inn á Stjórnlagaþing, eða vel yfir þriðjungur eru einstaklingar sem eru þekktir fyrir störf sín um allt land, þó svo þeir búi á höfuðborgarsvæðinu. Við val á Stjórnlagaþingsmönnum var viðhaft allt annað mat á fulltrúum en við kjör til Alþingis. Það er út í hött að bera þetta saman. Hér er verið að bera saman epli og appelsínur.

Þegar rætt er um að jafna atkvæði bak við hvern þingmann benda að dreifbýlingar benda gjarnan á að þeir hafi 26 þingmenn og hafna því að fara að kröfum Þjóðfunda og því sem komið hefur fram í skoðanakönnunum um jöfnun atkvæðavægis. Það myndi leiða til þess að þeir væru með um helmingi færri þingmenn.

Margir af helstu þingmönnum dreifbýlis búa á höfuðborgarsvæðinu og þegar leitað er eftir þingmannsefnum fyrir dreifbýlið er oftar en ekki sóttir einstaklingar sem búa í þéttbýlinu. Liðlega helmingur svokallaðra dreifbýlisþingmanna eru í dag búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að samanburður á Stjórnlagaþingskosningunni stenst ekki.

Það er þingræðið sem þarf að efla. Hér hefur ríkt of mikið ráðherra- og flokksræði og þingmenn verið valdalitlir. Í því kosningakerfi sem við búum við í dag er liðlega helmingur þingmanna sjálfkjörinn, hann situr í öruggum sætum og engi skiptir hvernig hann stendur sig. Yfirgnæfandi vilji er í landinu fyrir því að landið verði eitt kjördæmi. Það er hægur vandi í þannig kerfi að tryggja jafnframt að núverandi kjördæmi fái öll eitthvert lágmark þingmanna, eðlilegt væri að lágmarkið væru 5 þingmenn í hverju hinna núverandi kjördæma.

Ef hver kjósandi fengi 5 atkvæði og gæti valið þingmenn þvert á lista í landskjöri eru umtalsverða líkur á því að þeir nýti einhvern hluta atkvæða sinna til þess að kjósa þingmenn sem teljast vera dreifbýlismenn. Um helmingur íbúa þéttbýlisins eru aðfluttir og með mikil tengsl við dreifbýlið.

Með þessu kosningafyrirkomulagi yrði persónukjör tryggt, hin umdeildu prófkjör myndu missa vægi sitt og flokksræðið minnka.

fimmtudagur, 2. júní 2011

Ráðherrar ganga á bak orða sinna.

Það er greinilegt að ráðherrar og aðstoðarmenn þeirra vilja ekki horfast í augu við hvaða munur er sé á almennu lífeyrissjóðunum og þeirra eigin prívat ríkistryggða lífeyrissjóð.

Nú ætla þeir að skattleggja áunninn lífeyrisréttindi launamanna á almennum vinnumarkaði(m.ö.o. sparifé launamanna á almennum vinnumarkaði) til að fjármagna sérstakar vaxtabætur. Aðgerðin mun vitanlega koma illa niður á fólki í almennu lífeyrissjóðunum, því enginn bakábyrgð er á réttindum fólks á almennum vinnumarkaði, heldur er það staða hvers sjóðs fyrir sig í formi hreinnar eignar sem myndar stofn til greiðslu lífeyris.

Hrein eign til greiðslu lífeyris, er öðru nafni og oftar nefnd áunninn lífeyrisréttindi, þennan stofn ætlar ríkisstjórnin nú að skattleggja, sem getur ekki þýtt annað en að stofninn minnkar, sem þýðir að skerða verður áunninn lífeyrisréttindi. Hinn eigin prívat lífeyrissjóður ráðherranna, þingmanna og þeirra vina eru hins vegar varður fyrir þessum áhrifum, ríkissjóður bætir þeim skaðann.

Lesendum er bent á að ráðherrar hafa nýtt öll tækifæri til þess að áréttað að þeir muni nýta ríkissjóð til þess að verja sín réttindi og tiltekinna opinberra starfsmanna.

Ráðherrar sína manndóm sinn með því að rjúka í þetta daginn eftir að búið er að samþykkja kjarasamninga á almennum markaði, þar sem ein aðalforsendan þeirra er yfirlýsing sömu ráðherra um að þeir muni vinna að því að minnka þann mikla mun sem er á áunnum réttindum fólks á almennum vinnumarkaði á við opinbera starfsmenn með jöfnun uppávið.

Með þessu er kominn fram forsendubrestur af hálfu stjórnvalda og það hljóta ráðherrar að vita, það er að segja ef þeir hafi þá lesið eigin yfirlýsingar sem þeir undirrituðu við gerð kjarasamninganna. Nú er að sjá hvaða manndóm þingmenn hafa þegar þetta fer fyrir Alþingi.

Ætla þeir að hafa áfram tvær þjóðir í þessu landi, önnur sem gengur óheft í ríkissjóð í sjálftöku og hin sem er skattlögð til þess að þar sem nægjanlegt fé til þess að fjármagna sjálftekin forréttindi?