Einhverra hluta vegna virðist það vera nokkuð almenn skoðun á Íslandi að verðtrygging húsnæðislána og annarra neytendalána skaði hagsmuni neytenda. Þessi almenna skoðun Íslendinga er byggð á röngum forsendum. Verðtryggt lán ver lántakanda gegn sveiflum í heildarverðmæti lánsins sem fylgja sveiflum í nafnvöxtum án þess að hann þurfi að taka á sig áhættuna sem fylgir sveiflum í raungildi afborgana og áhættuna sem fylgir sveiflum í raunvöxtum.
Með öðrum orðum ef verðbólguskot koma sem sveifla raunvöxtum upp, eins og t.d. kom í kjölfar Hrunsins þá er lántakandi ekki að greiða nema hluta af vöxtum, lántakandi fær nýtt lán. Það er að segja hann er fyrri helming lánstímans að greiða of lítið.
Sumir virðast telja að hægt sé að velja fasta vexti í stað breytilegra vaxta og strika svo út verðtryggingu. Mjög einfaldað dæmi : Tekið er 20 millj. kr. lán. í 40 ár. Afborganir af höfuðstól er þá 500 þús. á ári. Ef lánið væri á breytilegum vöxtum, sem fóru upp fyrir 20% á tímabili, þá hefði vaxtagreiðsla þessa láns verið 4 millj. kr. það árið. Semsagt viðkomandi hefði þá þurft að greiða af láninu 4.5 millj. kr. það árið, eða tæp 400 þús. kr. á mán.
Með verðtryggingu og föstum 5% vöxtum þá væri afborgunin höfuðstóls vitanlega sú sama 500 þús. kr. á ári og vaxtagreiðsla 1 millj. Afborgun 20% verðbólguárið væri þá 1.5 millj. kr. á mán. eða um 130 þús. kr. á mán. Þarna var fluttur hluta af vaxtagreiðslu það er 3 millj. kr. yfir á seinni hluta lánstímans, eða með öðrum orðum lánið óx um 3 millj. kr. Þetta gleymist oft þegar verið er að gera samanburði.
Sumir hafa lagt til að verðtrygging verði felld niður. Þegar svo gott og gilt en hver á þá að greiða þann brúsa? Hér áður fyrr var það gert með því að gera sparifé launamanna upptækt. Brenna það á verðbólgubólinu, hét það öðru nafni. Ef farið er að tillögum t.d. nýtt stjórnfrumvarps þá eru þessar 3 millj. kr. teknar út af spari- og lífeyrisreikningum fullorðins fólks.
Það liggur fyrir að meðan við höfum ekki stöðugan gjaldmiðil þá verður verðtrygging. Ef hún verður afnumin mun engin setja fjármuni í langtímalán. Kannanir sýna að vextir af verðtryggðum lánum eru að jafnaði lægri en vextir af lánum með breytilegum vöxtum. Verðtryggð lán eru þekkt víða, en það reynir sjaldan á verðtrygginguna vegna þess að það er í umhverfi stöðugs gjaldmiðils.
Margir ráðast að verðtryggingunni. Hún er ekki orsök hún er afleiðing. Vextir hér eru hærri vegna krónunnar. Vextir leiða til hærra verðlags. Óstöðugur gjaldmiðill leiðir til enn hærra verðlags. Það eru aðstæður og skilyrði sem ákvarða hvort fyrirtæki vaxa og dafna. 25% af launum íslendinga fara í aukakostnað vegna krónunnar. Til þess að hafa svipuð laun og annarsstaðar á norðurlöndunum þurfum við að skila 25% lengri vinnuviku.
Vextir hér á landi eru töluvert hærri en annarsstaðar og vaxtamunur verður alltaf a.m.k. 5% hærri á Íslandi en innan Evrusvæðisins, það er vegna krónunnar. Ef fjölskylda sem kaupir sér eitt hús á Íslandi og önnur kaupir sér hús t.d. í Danmörku. Þá er staðan sú eftir 20 ár að þá hefur íslenska fjölskyldan greitt sem svarar andvirðis rúmlega tveggja húsa, séu greiðslur bornar saman við endurgjald dönsku fjölskyldunnar.
23 ummæli:
Eitt megin vandamálið við verðtrygginguna er að hún skekkir hugmyndir um raunkostnað láns.
1. Neytendur sem taka lán á stöðugleikatímabili horfa ekki til þess að vertryggingin getur gert lánið óheyrilega dýrt í framtíðinni, en telja ranglega að laun muni alltaf fylgja verðtryggingu.
2. Lánastofnanir þurfa ekki að bera megin áhættuna af láninu, þar sem henni er ýtt yfir á grunlausan lántakanda, og eru þar af leiðandi verið of viljugar til að lána.
Niðurstaðan á Íslandi er meiriháttar offjárfesting í einkahúsnæði. Það má sjá auðveldlega með því að bera saman gæði, stærð og þenslu húsakosts á Íslandi, við önnur lönd Evrópu (í BNA eru aðrar en sambærilegar ástæður fyrir offjárfestingu í einkahúsnæði).
Ef Íslendingar hefðu sett meira af auðlindahagnaði sínum í langtíma fjárfestingar, eða niðurgreiðslu skulda, í stað þess að *steypa* sér hurðarás um öxl í gegnum alls kyns feluleiki og pólitík, þá hefði hrun bankanna ekki verið um leið hrun þjóðarinnar. Verðtryggingin er meiriháttar áhrifavaldur í því (þó auðvitað komi fleira til).
Já, en Guðmundur er þú ekki einn af þeim sem vilt ganga í ESB og taka upp Evru?
Það þýðir væntanlegað að með Evru-upptöku hverfur verðtryggingin, eins og þið ESB- og Evru-sinnar haldið fram.....
... og þar með hverfa "kostir" verðtryggingarinnar sem þú lýsir hér í þessum pistli.
Já ég hef skrifað allnokkra pistla um að er við gengjum í ESB myndum við losna við bansettans veðtrygginguna.
Ef við ætlum að standa utan ESB og þar með að halda í krónuna verðum við að búa áfram við verðtrygginguna, annarss væri ekkert fjármagn hér á lánamarkaði, eins og fram kemur í pistlinum.
Ef við gengjum í ESB og værum áfram með verðtryggingu myndi aldrei reyna á hana vegna þess að við værum með stöðugan gjaldmiðil, eins og ég bendi á í pistlinum.
Já mikið erum við Íslendingar heppnir að vera fá að vera með verðtryggingu, þú færð ekki allsstaðar að borga húsnæðislánið þitt margfalt til baka.
Guðmundur, er hugsanlegt að menn myndu hafa stjórn á verðbólgunni ef menn vissu það að ef hún myndi fara á stað þá myndi peningarnir sem þeir lánuðu út brenna ?
Verðtrygging er ekki orsök vanda okkar hún er afleiðing vandans sem er krónan.
Slök efnhagsstjórn er reglulega leiðrétt með því að fella krónuna.
Krónan er mesti óvinur íslenskra launamanna.
Jú, Guðmundur. Ég held að það muni reyna á verðtrygginguna þrátt fyrir að Ísland væri með Evru sem gjaldmiðil.
Það eitt að við þurfum að flytja inn til landsins allar vörur með skipum og flugvélum gerir flutninga hinga til lands dýra.
Ef t.d. olíuverð hækkar, þá hækka væntanlega allir flutnigataxtar, sem færu þá beint út í verðlagið, jafnvel þó að við værum með Evru sem gjaldmiðil.
Einnig geta innlendar kostnaðarverðshækkanir, t.d. vegna hækkunnar á sköttum, aukið á verðbólgu sem myndu þá mælast í verðlagsvísitölum og þar með verðtryggingu, þrátt fyrir Evru-aðild.
Þessi tvö dæmi sýna að Evru er engin gulltrygging fyrir stöðugu verðlagi, því margir aðrir þættir koma til sem hafa áhrif á verðlag.
Verður slök efnahagsstjórn ennþá til staðar, hvort sem gjaldmiðillinn heitir króna eða evra?
M.ö.o. er hægt að afsaka slaka efnahagsstjórn með ríkjandi gjaldmiðli?
Og svo má ekki gleyma því að þó að Evran leysi vissan vanda, þá býr hún til annan vanda, vanda sem við höfum sjálf ekki stjórn á, og það er atvinnuleysi þegar vinnumarkaðurinn verður efnahagsleg sveiflujöfnunartæki í staðinn fyrir krónuna.
Þetta með það að atvinnuleysi sé hér lítið vegna þess að við höfum krónuna er innistæðuslaus fullyrðing.
Við sjáum það t.d í ummælum forsvarsmanna allra helstu tæknifyrirtækja landsins, þeir eru að flytja út verkefni og nánast öll stækkun fyrirtækjanna fer framerlendis. Þeir segja að þar se helst umað kenna krónunni.
Atvinnuleysi er víða innan ESB lægra en það er hér, kaupmáttur er meiri, þú ert ekki að borga húsið þitt mörgun sinnum.
Það er rétt að sumstaðar er það svo að ríki eru knúinn til þess að taka á spillingu og lélegri efnahagsstjórn eins og t.d. Grikklandi.
Þar ríkir t.d. sama spilling hvað varð sértæk lífeyriskjör og ráðherrar og þingmenn hafa tekið sér og úthlutað að auki til ákveðins hóps. Nú liggur fyrir að það verði að hækka tekjuskatt á Íslandi um 5% eftir 6 ár þar sem þeir hafna því að taka á þessum vanda, og eru þar á sama bát og kollegar þeirra í Grikklandi.
Semsagt, þetta er allt í lagi útaf því maður borgar svo lítið í einu.
Ástæðan þess að fyrirtæki flýja til útlanda eru;
- Gjaldeyrishöft = erfitt er að fá erlent lánsfé til fjárfestinga
- Pólítísk óvissa og áhætta sem því fylgir = við erum með óútreikninlega vinstristjórn sem er fjandsamleg atvinnulífinu
- Fyrirtæki vilja vera nær mörkuðum = kostnaðarsamt er að flytja framleiðsluvörur frá Íslandi vegna þess að markaðir eru að stærstum hluta erlendis
- Tæknifyrirtæki finna ekki nægjanlega mikið af hæfu tæknimenntuðu fólki til að vaxa hér á landi = erlent tæknimenntað fólk er ekki viljugt til að flytja til lands sem er efnahagslega hrunið
Veit einungis um fá lönd þar sem að atvinnuleysi er minna en hér á landi, reyndar eru það bara Danmörk, Lúxemborg og Holland, sem njóta kosta þess að vera nálægt stórum markaðssvæðum eins og Þýskalandi = acqured economic advantage based on ripple effects fram larger markets.
Þetta er kostur sem Ísland mun aldrei eiga möguleika á.
Ég tók mín fyrstu lán til ibúðakaupa 1978. Verðbólga var þá viðvarandi 50-80% Afborganir voru þá svimandi háar fyrstu árin vegna ofurhárra vaxta alltaðþví óbærilegar. Fyrsta ársborgun af 1.2 milljón króna láni var tæplega 500 þúsund. Gamlar krónur vel að merkja.Fjögurra mánaða tekjur fátæks iðnnema.Þetta var engann vegin eina lánið en þá var ekki hægt að fá lán til húsnæðiskaupa á einum stað. Síðan voru næstu árin stöðug hlaup á milli banka með víxla til að fleyta sér áfram. Þrátt fyrir þetta náðu þessir ofurvextir aldrei að halda í við verðbólguna og sparifjáreigendur og lífeyrisþegar blæddu. Meðan við höfum ekki betri stjórn á verðbólgunni er borin von að við getum kastað verðtryggingunni. Það er náttúrulega voðalega vinsælt hjá sumum þingmönnum og jafnvel verkalýðsleiðtogum að halda öðru fram en það er fremur grunnt hugsað og hvorki horft til fotíðar eða framtíðar Jafnvægi í efnahagsmálum náum við ekki með krónuræfilinn í farteskinu.
Hverju orði sannara, það sem Guðmundur skrifar.
Hrikalega að geta ekki nálgast nein mál öðru vísi en með einhverjum útúrsnúningum.
Þessi sem talar um að þetta sé allt í lagi af því að maður borgi lítið í einu.
Hér er verið að benda á að ef menn ætli að fella niður verðtryggingu þá standi mönnum til boða tveir kostir, borga raunvexti (breytilega) hverju sinni, eða taka erlend lán. Flestir völdu frekar verðtrygginguna þó hitt stæði til boða.
Það er út í hött að halda því fram að það sé hægt að þurrka í burtu verðtrygginguna og borga bara föstu vextina.
Svo sem ekki einkennilegt að menn vilji fá þan möguleika, þar sem leiddir hafa verið fram hver rugludallurinn á fætur öðrum í umræðuþáttunum með töfralausnir sem eru fjarri öllum raunveruleika.
Það er vítavert að vekja með því óraunsæjar væntingar hjá fólki sem er í miklum vanda, þar hafa margir umsjónarmenn komið fram sem miklir fantar.
Reyndar ekki skrýtið þar sem þeir eru í sama vanda og vilja fá aðra til þess að greiða skuldir sínar.
Það er náttúrlega svo að við sitjum ennþá uppi með krónu sem þarf belti, axlabönd og fallhlíf. En það er óréttlátt að hafa tóbak og brennivín inni í vísitölu sem reiknar höfuðstól íbúðalána. Þessi blessaða vísitala er óréttlátt eins og hún er reiknuð í dag. Það verður að vera hægt að hækka tóbak í forvarnaskyni án þess að lán landsmanna hækki í leiðinni. Einnig, þeir sem tóku lán í "gamla daga", ég tók lán 1984, keypti þá 4ra herb. íbúð í Þingholtunum á 1,650 þús króna. Þá var ég með c.a. 35.000 á mánuði í heildarlaun. Íbúðin kostaði mig sem sagt 47 mánaðarlaun. Sama íbúð myndi seljast í dag á 25 milljónar að minnsta kosti. Sömu mánaðarlaun í dag eru c.a. 300.000 (miðað við svipað starf) heildarlaun. Þá sjáið þið að sama íbúðin kostar í dag 83 mánaðarlaun. Þetta skiptir höfuðmáli þegar verið er að ræða greiðslubyrði fólks í dag. Íbúðirnar miklu dýrari, vísitalan arfavitlaus, háir skattar, atvinnuleysi í tölum sem voru ekki þegar ég keypti mína 4ra herb. íbúð 1984. Svo hvernig væri að miða forsendur við annað en þessa gömlu góðu daga?
Fyrir það fyrsta þá er vond hugmynd bæði fyrir bankann og neytendur að tengja húsnæðislán við neysluverðsvísitölu. Það væri nær að tengja lánin við húsnæðisverðsvísitölu, þannig væri mun betur tryggt að lánið hækkaði ekki umfram veði. Myndi einnig tempa eignarbólur.
Í annan stað þá leiðir verðtrygging til þess að menn taka of há lán þar sem þeir þurfa ekki að mæta sveiflum með sama hætti og í óverðtryggðum lánum. Þetta leiðir til þess að menn skulda hærra hlutfall af íbúðarverði en æskilegt væri. Ennig vegna endurlánsins sem er innifalið í verðtryggingunni þá skulda menn allt of lengi.
Verðtrygging hægir því verulega á eignarmyndun og eykur líkur á skuldafangelsi. Síðan má ekki gleyma því að verðtryggða krónan er langsterkasti gjalmiðill í heimi og því versti miðill sem hægt er að skulda í.
Verðtrygging er hvati til óstöðugleika, þar sem sá sem á verðtryggða eigna honum er alveg sama þó það sé há verðbólga. Sé aftur verðtrygging afnumin eða a.m.k. sett þak á árlegar verðbætur, þá verður það hagur allra að viðhalda stöðugleika í verðlagi.
Menn hafa notað sem afsökun fyrir verðtryggingunni að lífeyrissjóðirnir þurfi á henni að halda. Þegar þeim rök var hrundið, þá fór menn að leita að nýjum. Nú er það verðbólguskot sem réttlætir verðtryggingu. Þetta er algjört bull.
Hvar stendur það að húsnæðislán sem tekið er til 40 ára skuli á hverju einasta ári bera jákvæða raunvexti? Er það ekki ávöxtun yfir lánstímann sem skiptir máli. Síðustu 20 ár hefur verðbólgan 12 sinnum verið 4% eða lægri. Ef þessi 20 hefði verið 4% þak á árlegar verðbætur, þá hefði verðtryggt lán með 5,1% vöxtum samt gefið 3,5% meðalraunávöxtun á ári. Líklegast hefði hún verið meiri, þar sem lægri verðtrygging dregur úr verðbólgu.
Nei, verðtrygging er og verður alltaf slæm fyrir þjóðfélagið, þar sem henni er ætlað að hjálpa þeim fjársterku.
Nú segir einhver (og sérstaklega Pétur Blöndal), en hvað með sparifjáreigendur? Staðreyndin er að verðtryggð innlán heimilanna er um 10% af öllum innlánum í bankakerfinu. Næst á eftir koma verðtryggð innlán lífeyrissjóða sem eru innan við 3%. Ekki segja mér að þetta skipti öllu og varla þarf verðtryggð útlán upp á margfalda þessa tölu til að geta boðið upp á þessi innlán? Nei, vilji menn bjóða upp á verðtryggð innlán, þá er nóg að bjóða aðilum sem geta varið sig fyrir verðbólgu verðtryggð útlán.
Það gildir sama reglan um verðtryggð útlán og menn segja að eigi að gilda um lán í erlendri mynt. Sá eini á að taka verðtryggt lán sem er með verðtryggðar tekjur. Svo einfalt er það. Verðtryggðar krónur eru nefnilega allt önnur mynt en óverðtryggðar krónur.
Höfundur og síðasti Nafnlaus eru með þetta að mestu.
Lánin hækka í raun ekki, það þarf bara fleiri (fallandi) krónur til að fylla í verðgildið.
Að koma á jafnvægi á milli sparnaðar og útlána í haftalausu umhverfi er vandaverk; nokkuð sem okkur hefur ekki lukkast vel til þessa. Lán þar sem maður fær vodkaflösku en greiðir pela til baka eru takmörkuð gæði sem þyrfti að skammta. Slíkt umhverfi á sama tíma og fólki er gert ókleift að spara utan landsteinanna er ekkert annað en eignaupptaka - svona viðlíka sanngjarnt og (háir) eignaskattar.
Verðtryggingin sem slík er hvorki upphaf né endir neins í þessu samhengi. Hins vegar er sjálfsagt að reyna að fikra sig í þá átt að hún verði óþörf, en til að svo megi verða þarf stóraukinn aga í opinberum útgjöldum og peningamálum.
Sæll Marínó
Fullyrðing um að það séu lífeyrissjóðirinir sem vilji verðtryggingu er ástæðan segir þú. Þetta er ein af hinum venjubundnu innistæðulausu og órmerkilegu klisjum.
Tæpur helmingur eigna lífeyrissjóða er í verðtryggðum bréfum. Öll útgjöld lífeyrissjóða eru verðtryggð. Það væri mun auðveldara að reka lífeyriskerfið án verðtryggingar, það yrði vitanlega þegar báðum megin við strik ekki bara öðrum megin.
Það sem forsvarsmenn í atvinnulífinu og og launamenn vilja og hefur margoft komið fram er að ráðist verði að rót vandans það er óstöðugt efnahagskerfi, með gjaldmiðil sem er handstýrt til þess að yfirfæra vandann yfir á launamenn með gengisfellingum og tilheyrandi eignatilfærslu.
Neikvæða ávöxtun eins og þú ert að leggja til er eignatilfærsla frá þeim sem eiga spariféð til þeirra sem borga ekki þau verðmæti sem þeir fá að láni tilbaka. Ef það verður gert vilja eigendur fjármagnsins ekki lána upp á þau kjör og það verða engin langtímalán.
Ef við værum innan ESB og hefðum Evru þá skipti verðtyrgging engu, því sveiflurnar væru það litlar að hún myndi aldrei virka.
En kæru landar hvað verður um útgerðina ef við tökum upp Evru og ekki hægt að lækka gengið til að hjálpa útgerðinni að standa undir allof miklum skuldum?? Grátkórinn myndi gráta úr sér augun, viljum við það?
Guðmundur þú segir:
"Ef við værum innan ESB og hefðum Evru þá skipti verðtyrgging engu, því sveiflurnar væru það litlar að hún myndi aldrei virka."
Ég verð að segja að eitthvað vantar í þetta, halda menn að ef við værum í ESB myndi hækkun á ólíu, matvælum, áfengi og öðru, ekki hækka lánin okkar, þannig verður það aldrei á íslandi, aldrei Guðmundur,ef það er þannig hvers vegna eru þá ekki þessir liðir teknir út strax? Nei ekki trúlegt að þetta verði eins og þú segir, því miður aldrei á íslandi, það vitum við báðir, sama í hvaða ríkjasambönd við gengjum.
Guðmundur, það er alltaf gott að lesa yfir það sem maður er að veita andsvar um.
Ég bendi á að búið sé að hrinda þeirri fullyrðingu að lífeyrissjóðirnir þurfi á verðtryggingunni að halda. Ég setti ekki fram þá fullyrðingu að slíkt væri vilji lífeyrissjóðanna.
Ég er alveg sammála því að verðtrygging létti mönnum lífið við fjárstýringu, en bendi á móti á að á árunum 2003 - 2006 var stærri hluti ávöxtunar sjóðanna frá óverðtryggðum eignum. Það voru þær sem leiddu til hækkunar á lífeyri á þessum árum (þar sem það var gert), en ekki verðtryggði hlutinn.
Ég legg ekki til neikvæða raunávöxtun. Það er tilbúningur hjá þér. Ég bendi hins vegar á að horfa verði til raunávöxtunar yfir líftíma skuldabréfsins eða eignarinnar. Ef neikvæð raunávöxtun er tilfærsla frá þeim sem eiga spariféð til hinna sem skulda, er þá jákvæð raunávöxtun þá ekki eignatilfærsla í hina áttina? Er önnur eignatilfærslan í lagi, en ekki hin?
Varðandi ESB: Hvar er verðbólgan mest innan ESB? Hver er sú verðbólga? Hafa einhver lönd gengið í ESB sem eru með viðlíka hagsveiflur og Ísland? Hvaða trygging er fyrir því að dragi úr hagsveiflum við inngöngu? Hagsveiflur hér á landi undanfarin 20 ár hafa verið a) vegna breytileika í sjávarfangi; b) vegna stóriðjuframkvæmda; c) vegna lélegrar hagstjórnar; og d) vegna bankamanna sem kunnu ekki til verka. Ég fæ ekki séð að neitt af þessu hverfi við inngöngu í ESB. Mun koma stöðugleiki á fiskstofna við inngöngu í ESB? Nei, ef eitthvað er má búast við að stofnarnir minnki vegna meiri veiði. Munu stóriðjuframkvæmdir hafa minni áhrif á efnahag þjóðarinnar, ef við erum innan ESB? Nei, áhrifin eru þau sömu utan og innan ESB. Munum við fá hæfari einstaklinga í hagstjórnina við það að vera innan ESB? Nei, fólkið er það sama og áður. Munum við fá hæfari bankamenn við að vera í ESB? Nei, það sést vel á Írlandi.
ESB innganga er engin trygging fyrir stöðugleika, þó líkurnar vonandi aukist. ESB er engin trygging fyrir því að losna við verðtryggingu, þó líkurnar vonandi aukist.
Mér finnst eitt stórt atriði gleymast hjá þér í greiningunni. Ástæða þess að vextir "þurftu" að fara hér upp í 20% var eingöngu sú að ekkert beit á þensluna í þjóðfélaginu.
Undir eðlilegum kringumstæðum í normal hagkerfi á neytandinn að finna fyrir því þegar stýrivextir og vextir á lánum hækka. Þeir finna fyrir því í formi hærri afborgunar sem þýðir minni laus peningur til að styðja við þenslu. Minni ásættanleiki á verðhækkanir og menn skera því niður. Það þýðir minni viðskipti við fyrirtæki sem síðan þýðir minni verðhækkanir sem endar í minnkun á verðbólgu.
Hér á Íslandi voru stýrivextir gagnslausir þar sem þeir bitu ekki á landsmenn. Þú borgaðir nánast sömu krónutölu af verðtryggða fastvaxta láninu þínu en tapaðir bara eigin fé sem þú áttir mögulega í húsnæðinu. Svo vorum við með líka gengislán og þar voru vextir erlendis þeir sem skiptu máli. Aftur beit þetta ekkert á okkur og því höfðum við alltaf nógan lausan pening til að sætta okkur við verðlagshækkanir og þar með ýta undir þenslu og verðbólgu.
Þessir 2 liðir er það sem telur stærstu útgjöld heimilis og þegar þú ert með ekkert tæki sem herðir að buddunni þá mun hinn almenni neytandi ekki finna svo mikið fyrir auka þúsundkalli hér og þar og því ýtir undir verðbólgu.
En Íslendingar gætu svo sannarlega fellt verðtryggingu sjálfir án þess að fá stjórnvöld í lið með sér en bara með því að taka fastvaxta óverðtryggð lán eða breytileg óverðtryggð lán þá væri hún úr sögunni. Án eftirspurnar er ekkert framboð, svo einfalt er það.
Skrifa ummæli