föstudagur, 17. júní 2011

17. júní og ný stjórnarskrá

Grein sem ég var beðinn að skrifa fyrir norskt dagblað og birtist þar í dag.

Á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní veltir maður gjarnan fyrir sér stöðu lýðveldisins. Í dag spyr maður um hvers vegna Ísland sé í lakari stöðu en aðrar Norðurlandaþjóðir. Létum við þjóðernislegt oflæti blinda okkur sýn enn eina ferðina? Hinn umdeildi forseti Íslands fór árin fyrir Hrun víða um heimsbyggðina með íslenskum fjármálamönnum og kynnti hið „Íslenska efnahagsundur“. Forseti okkar fullyrti að hinn einstaki árangur íslensku útrásarvíkinganna byggðist á því að í gegnum aldirnar, allt frá landnámsöld, hefði þróast á Íslandi einstakur frumkvöðlaandi, þar sem sköpun og uppgötvun fléttuðust saman í einstaka viðskiptasnilli, sem hvergi annarsstaðar væri að finna. Með aukinn hnattvæðingu hefðu íslensku útrásarsnillingarnir einfaldlega breitt út vængi sína og hafið sig til flugs á alþjóðlegum fjármálamarkaði þar sem þeir urðu óhjákvæmilega óðara í forystu hins nýja alþjóðlega þekkingarhagkerfis.

Þáverandi forsætisráðherra skipaði nefnd í marz 2008, sem fékk það verkefni að skilgreina þjóðareinkenni Íslendinga, hvernig mætti nota þau einkenni til að byggja upp jákvætt alþjóðlegt orðspor, einkum í þágu viðskiptaútrásarinnar. Skýrsluhöfundar notuðu þar kunnugleg stef um hinn séríslenska kraft, sem býr í þjóðinni og leggur grunn að kröftugu viðskiptalífi. Hinn náttúrulega kraft sem greinir þjóðina frá öðrum þjóðum og hafi skilað okkur í hóp samkeppnishæfustu landa heimsins. Ísland sé best í heimi, land sem bjóði mestu lífsgæði sem þekkjast og þar sé minnst spilling. Í skýrslunni var fjallað um hin náttúrulega kraft sem einkennir það ferskasta í menningunni og einstakan hljóm nýsköpunar í tónlist og sjónlistum, sem kallast á við hrynjanda rímna og Íslendingasafna. Já minna mátti það nú ekki vera.

Það er ekki langur vegur milli oflofs og háðs og grunnhygginnar sjálfumgleði byggðri á efnishyggju. Eftir efnahagshrunið snérist við hinn einkennilegi oflátungsháttur um yfirburði og eigið ágæti við. Nú varð niðurlægingin og vandræðin öðrum þjóðum eða alþjóðlegum stofnunum að kenna. Yfirburðarþjóðin varð í orðræðu forsetans og stjórnmálamanna að saklausu fórnarlambi erlends umsáturs. Eftir bankahrunið reyndist ekki aðeins auðvelt að gera Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Hollendinga og Breta að óvinum þjóðarinnar heldur örlaði einnig á vaxandi fjandskap í garð frændþjóðanna á Norðurlöndum sem treguðust við að lána fé til uppbyggingar nema gegn tryggingum.

Öll umræða er pólitísk og einkennist af mati á aðstæðum og umræðu um stöðuna hverju sinni. Staða umræðu hefur verið á undanhaldi, hún hefur vikið fyrir sérhagsmunum fjármálalífsins, samfara því að maðurinn hefur í vaxandi mæli orðið að hlutlausum móttakanda, fjarlægst sérstöðu sína og nálgast aðrar lífverur. Við sjáum einstaklinga hugsunarlaust ástunda hrifsun af græðgi, sem endurspeglast í fullkomnu tillitsleysi í garð náungans. Sama og einkennir hátterni annarra lífvera. Markaðs- og efnahagsöflunum var gefin laus taumurinn og stjórnmálamenn stefndu markvisst að því að gera sig óþarfa. Losa sig undan allri ákvarðanatöku með afreglun og ábyrgðarleysi.

Íslandi var sett stjórnarskrá árið 1944 þegar lýðveldið var stofnað. Hún var snaggaraleg þýðing á danskri stjórnarskrá með rætur í konungsveldi. Lengi hefur staðið til að endurskoða hana og færa til nútímans, en stjórnmálaöflin hafa ætíð komið í veg fyrir það. Hér þróaðist ráðherraræði í skjóli ákvæða um konungsveldið og Alþingi varð valdalaus stofnun. Löggjafar- og framkvæmdavaldið færðist á hendur fárra.

Eftir Hrun koma fram skýr krafa um nýtt samfélag byggt á nýrri stjórnarskrá. Skýr mörk yrðu sett milli framkvæmda og löggjafarvalds. Staða löggjafavaldsins yrði styrkt gagnvart ráðherraræðinu. Gegn þessu var unnið af stjórnmálaöflunum, en almenningur hafði það í gegn síðastliðið haust að kjósa sitt Stjórnlagaþing. Stjórnmálaöflin fengu það dæmt ógilt með ákaflega umdeildum aðferðum. En Stjórnlagaráð var sett með þeim 25 einstaklingum sem hlutu kosningu almennings og það situr nú við að gera nýja Stjórnarskrá.

Það starf grundvallast á kröfunni um að hefta möguleika ríkisvaldsins til þess að hygla sérhagsmunum og ganga gegn mannréttindum. Á nokkrum áratugum hefur þróast hér samfélagskerfi af svo miklum hraða og krafti að ekki stendur steinn yfir steini. Siðferðið hefur setið á hakanum en yfirborðsmennskan orðið hið ráðandi afl.

Markmið Stjórnlagaráðs er að ný Stjórnarskrá endurspegli þær reglur sem við viljum hafa við að leiða sameiginleg mál farsællega til lykta. Valdið sé hjá fólkinu og það geti leitt mál sín til lykta eftir reglum og leiðum sem það sjálft virðir. Fólkið geti vísað málum til þjóðaratkvæðis og sett ýtarleg ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindum. Stefnt er að því að drögum að nýrri Stjórnarskrá verði skilað til þjóðarinnar í sumar. Margir óttast að stjórnmálamenn munu snúast gegn tillögum Stjórnlagaráðs og beita afli til þess að hún nái ekki fram að ganga.

Engin ummæli: