þriðjudagur, 7. júní 2011

Einfaldar upplýsingar um verðtryggingu

Verðtrygging er óvirk ef ekki eru verðlagsbreytingar. Ef við búum við stöðugleika þá er hún meinlaus. Verðtrygging er ekki einungis til hér á landi hún er víða til, jafnvel í löndum sem búa við stöðugleika. Ef verðgildi krónunnar breytist lagar verðtrygging fjárskuldbindingar að því, hvort sem um er að ræða rýrnun hans í verðbólgu eða hinu gagnstæða í verðhjöðnun, sem er ómetanlegur eiginleiki.

Ef menn líta nokkra áratugi aftur í tímann skilja af hverju verðtryggingu var komið á. Það var í kjölfar stórkostlegustu tilfærslu fjármuna á milli kynslóða í sögu landsins. Það voru stjórnmálamenn sem komu verðtryggingunni á, til þess að skapa vitrænan grundvöll í sparnaði og möguleika til langtímalána.

Fram að þeim tíma voru það fáir útvaldir sem fengu lán og þá til skamms tíma. Samfara þessu var lífeyrissjóðum gert samkvæmt lögum að verðtryggja skuldbindingar sinna sjóðfélaga, en eiga satt að segja í vandræðum með það í núverandi efnahagsumhverfi. Það væri myndi gera rekstur lífeyrissjóðanna mun auðveldari ef verðtrygging væri afnumin.

Verðtrygging tryggir sér til þess að sömu verðmætum er skilað og fengnir eru að láni. Ef verðbólga fer upp úr öllu valdi gerir þetta kerfi það mögulegt að dreifa greiðslubyrðinni af ofurvöxtum. Verðtrygging er forsenda þess að hægt var að taka upp langtímalán hér í landi gjaldmiðils sem stjórnmálamenn hafa nýtt til þess að lagfæra slaka efnahagsstjórn. Hún ver langtímasparnað. Það er henni að þakka að tekist hefur að mynda skyldusparnað sem nú er undirstaða uppbyggingar hér á landi.

Þeir sem krefjast afnáms verðtryggingar verða að gera sér grein fyrir það að það verður ekki gert bara öðrum megin, heldur verður einnig að afnema verðtryggingu örorkubóta og lífeyris. Því fer fjarri að það sé lífeyrissjóðum í hag að verðbólga sé mikil. Skuldbindingar hækka meira en sem nemur hækkun eigna þar sem aðeins hluti eigna er bundinn í verðtryggðum eignum. Það sjá það allir sem vilja.

Það er í hæsta lagi barnalegt að leggja mál upp með þeim hætti að lífeyrissjóðurinn græði ef verðbólga er mikil og sjóðfélagi tapi. Slík framsetning er í besta falli villandi en í versta falli heimska. Ef lífeyrissjóðir yrðu leystir undan þeirri kvöð að verðtryggja skuldbindingar 100% væri viðhorfið án efa öðruvísi.

Markmið lífeyrissjóða er að tryggja sjóðfélögum sínum að lífeyrisgreiðslur dugi fyrir neyslu á hverjum tíma. Það er til lítils að eiga sjóð, ef hann brennur upp í óðaverðbólgu. Vandamál íslenska lífeyrissjóðakerfisins er að of stór hluti sparnaðarins í kerfinu er fjárfestur innanlands í stað erlendis. Kerfið er einfaldlega of stórt fyrir innlendan markað. Á þessu þarf að taka og breyta þeim hlutföllum sem þingmenn hafa sett fjárfestingarstefnu sjóðanna.

Verðtryggingin afnam að miklu leyti þá eignaupptöku sem átti sér stað á sparifé almennings sem hér ríkti fram á níunda áratuginn. Án hennar hefði Þjóðarsátt aldrei orðið að veruleika. Án hennar var einfaldlega ekki neitt við neitt ráðið. Hún er trygging þess stöðugleika sem þó hefur verið.

Það er verðbólgan sem er skaðvaldur hins íslenska hagkerfis, helstu orsök hennar er að finna í örgjaldmiðlinum sem við höldum úti að kröfu valdastéttarinnar. Óhjákvæmilegar sveiflur hennar og sífelldur flótti stjórnmálamanna við að taka óvinsælar en nauðsynlegar ákvarðanir valda sveiflum, þar sem verið er að flytja vandann yfir á og skattborgarana með tilheyrandi kaupmáttarhrapi og eignatilfærslu frá hinum mörgu til fárra.

Einn meginkostur verðtrygginga er að hún krefst fjármálalæsi og refsar fyrir óstjórn og óvarkárni í fjármálum og neyða menn til að taka afleiðingunum. Þetta eiga ábyrgir menn að vita og sjá fótum sínum forráð. Það var ákvörðun stjórnmálamanna að fara út 100% lán á íbúðarmarkaði sem varð til þess að fasteignaverð flaug upp úr öllu valdi. Það var ákvörðun bankanna og vinnulag starfsmanna þeirra sem varð til þess að haldið var að fólki lánum sem fyrirfram var vitað að voru töluvert meiri en raunverð var. Þar er að finna ástæðu vandamálanna, ekki í verðtryggingu.

Það er svo í örgjaldmiðlinum krónunni að finna ástæðu þess að kaupmáttur hefur fallið hér margfalt meir en í öðrum löndum, ekki lélegum kjarasamningum. Eins og þeir sem hafa mestan hag af því að við höldum í krónuna halda ákaft að fólki. Athugaðu lesandi góður að þeir eru í útflutningi og gera sín fyrirtæki upp í evrum, borga laun í krónunni.

Það kostar þrjár krónur að búa til eina krónumynt. Íslenski krónupeningurinn var fyrst settur í umferð árið 1981, en krónan hefur rýrnað mikið í verðbólgu síðan þá. Í dag þarf um 37 krónur til að kaupa það sama og fékkst fyrir eina krónu árið 1981. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að krónan sé vissulega minna virði nú en þegar hún var sett í umferð. Hann segir hugsanlegt að tíu þúsund króna seðill verði framleiddur.

3 ummæli:

Sigurður Sigurðsson sagði...

þetta er ágæt grein um verðtryggingu og hversu mikilvægt sé að tryggja að lánveitandi tapi ekki á lánveitingum sínum.

Ríkið rekur lánastofnun sem lánar námsmönnum á íslandi fyrir námskostnaði. Endurgreiðslur eru verðtryggðar og greitt er til baka í samræmi við tekjur. Ef laun hækka þá ættu endurgreiðslur að hækka og haldast í hendur við verðbólguhraða. Sérstaklega þegar kaupmáttur hefur verið að aukast í kjarasamningum. Þess vegna er mjög undarlegt að þetta lán hjá LÍN sem ég tók á árunum 1996-2000 að upphæð 2,5 milljón skuli standa í 3,5 milljónum þrátt fyrir að ég hafi greitt samviskusamlega af láninu í 10 ár samtals 2,5 milljónir. Er þá ekki ljóst að verðbólga hefur verið talstvert meiri en kaupmáttaraukning. Mér líður satt að segja eins og hamstri á hjóli. Mikið væri gott að greinarhöfundur gæti svarað mér því hvort að það sé einhver von til þess að ég nái einhvern tíman að greiða þetta lán upp án þess að greiða enn meira inn á höfuðstól en lög gera ráð fyrir.

Ég sem lántaki er eðlilega hugsi yfir þessu þegar ég horfi upp á að ríkið fá bætur fyrir það að Steingrími dettur í hug að hækka brjóstbirtuna og tóbak.

Örn Karlsson sagði...

Ruglið ríður ekki við einteyming. Guðmundur þú segir: "Ef verðgildi krónunnar breytist lagar verðtrygging fjárskuldbindingar að því, hvort sem um er að ræða rýrnun hans í verðbólgu eða hinu gagnstæða í verðhjöðnun, sem er ómetanlegur eiginleiki."
Þetta segið þið til að réttlæta núverandi kerfi. Þessia orð eru góð og gild en hvernig er framkvæmdin? Hún er með þeim hætti að verðtryggingin stjórnast ekki einvörðungu af breytingum á verðgildi krónunnar heldur ráða þar þættir einnig sem eru algerlega óháðir verðgildi krónunnar. Þegar lánveitanda eru greiddar bætur vegna olíuverðshækkunar sem stafar af stríðsátökum fyrir botni Miðjarðarhafs þá er um eignatilfærslu að ræða sem er andstæð stjórnarskrá Íslands. Það verður eignatilfærsla vegna þess að hækkun vísitölu neysluverðs hafði ekkert með breytingu á verðgildi krónunnar að gera. Framámenn sem ekki skilja þetta hafa heldur ekki skilning á því að með afstöðu sinni stuðla þeir að fjármálalegum óstöðugleika, eignaupptöku almennings og niðurbroti samfélagsins í andstöðu við stjórnarskrá Íslands. Með öðrum orðum jafnast þessi varðstaða við verðtrygginguna við landráð.

Hægt er að gera bragabót á verðtryggingunni sem lagar þetta. Þá væri miðað við vísitölu nafnverðs í stað vísitölu neysluverðs. Þar sem vísitala nafnverðs mælir breytingar á verðgildi krónunnar á innlendum vörumarkaði.

Örn Karlsson orn@pluskort.is

Nafnlaus sagði...

Ég vil bara þakka þér fyrir þessa grein sem mér finnst frábær og þú greina þessa hluti rétt. Mér finnst ótrúlega lítið gert úr því sem þú nefnir, að það var í raun fasteignabóla sem er meginorsök vandamála fólks með húsnæðislán. Þannig hækkaði fasteignaverð hér á höfuðborgarsvæðinu um nærri 70% umfram byggingavísitölu á árunum 2004 til 2007. Þeir sem keyptu húsnæði á þessu verðum hljóta að vera í vanda og eiga fulla samúð skilið. Síðan er líka væntanlega fullt af fólki sem veðsetti þessa hækkun á húsnæði sem það átti fyrir, samkvæmt gilliboðum bankanna, og lendir líka í vanda. Bankastofnanir og pólitíkin (90 % húsnæðislán og allt að 100% lán bankanna o.s.frv.) bera auðvitað ábyrgð á þessari þróun.
S