laugardagur, 4. júní 2011

Atkvæðavægi

Órökstuddar klisjur einkenna umræðuna. Þeim er hugsunarlaust beitt, jafnvel þó við blasi að þær standist enga skoðun. Þetta er stór þáttur í því hversu hægt gengur að lagfæra íslenskt samfélag og hvers vegna Ísland er að dragast aftur úr nágrannalöndunum.

Í umræðum um stöðu dreifbýlis gagnvart þéttbýlinu á SV horninu stillir dreifbýlisfólk málum gjarnan upp með þeim hætti, að þeir búi við einhverskonar samsæri af hálfu þéttbýlinga. Til þess að vinna gegn þessu samsæri verði að viðhalda mismunandi vægi atkvæða og þar með sé unnið að öflugri atvinnutækifærum í dreifbýlinu og launakjör bætt, samfara því að minnka atvinnuleysi og slaka félagslega stöðu í dreifbýlinu. Um áratugaskeið hefur verið mikið misvægi atkvæða, en þrátt fyrir það er atvinnuleysi er mest í úthverfum höfuðborgarinnar, sama á við slaka félagslega stöðu hún er langmest í þéttbýlinu.

Ef farið væri eftir rökum dreifbýlinga ætti að fara hina gangstæðu leið og auka verulega atkvæðavægi þéttbýlinga á kostnað dreifbýlinga. Þetta er stutt í nýlegum könnunum að 85% ungs fólks sættir sig ekki við þau kjör sem því er búið á Íslandi í dag, Ísland er að dragast aftur úr nágrannalöndum okkar, fólk er ekki einungis að flýja dreifbýlið það er á leið úr landi og reyndar eru flestir þeirra sem flytja frá þéttbýlissvæðinu.

Flestir þeirra sem eru að fara úr landi er vel menntað fólk í góðum störfum, við ákvörðun um brottflutning ráða allt önnur sjónarmið en dreifbýlingar halda fram. Vægi atkvæða hefur ekkert með atvinnu- eða kjaramál að gera. Það eru allt önnur atriði sem ráða því var fólk velur sér búsetu og hvert fyrirtækin leita þegar þau skoða hvar þau koma sér fyrir og byggja upp starfsemi sína.

Dreifbýlingar gera á máli sínu til stuðnings gjarnan samanburð á kjöri til Stjórnlagaþings, það sanni að þeir kæmu mun lakar út yrði landið gert að einu kjördæmi, og benda á að mjög fáir Stjórnlagamanna búi á höfuðborgarsvæðinu. Margir þeirra sem náðu kjöri inn á Stjórnlagaþing, eða vel yfir þriðjungur eru einstaklingar sem eru þekktir fyrir störf sín um allt land, þó svo þeir búi á höfuðborgarsvæðinu. Við val á Stjórnlagaþingsmönnum var viðhaft allt annað mat á fulltrúum en við kjör til Alþingis. Það er út í hött að bera þetta saman. Hér er verið að bera saman epli og appelsínur.

Þegar rætt er um að jafna atkvæði bak við hvern þingmann benda að dreifbýlingar benda gjarnan á að þeir hafi 26 þingmenn og hafna því að fara að kröfum Þjóðfunda og því sem komið hefur fram í skoðanakönnunum um jöfnun atkvæðavægis. Það myndi leiða til þess að þeir væru með um helmingi færri þingmenn.

Margir af helstu þingmönnum dreifbýlis búa á höfuðborgarsvæðinu og þegar leitað er eftir þingmannsefnum fyrir dreifbýlið er oftar en ekki sóttir einstaklingar sem búa í þéttbýlinu. Liðlega helmingur svokallaðra dreifbýlisþingmanna eru í dag búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að samanburður á Stjórnlagaþingskosningunni stenst ekki.

Það er þingræðið sem þarf að efla. Hér hefur ríkt of mikið ráðherra- og flokksræði og þingmenn verið valdalitlir. Í því kosningakerfi sem við búum við í dag er liðlega helmingur þingmanna sjálfkjörinn, hann situr í öruggum sætum og engi skiptir hvernig hann stendur sig. Yfirgnæfandi vilji er í landinu fyrir því að landið verði eitt kjördæmi. Það er hægur vandi í þannig kerfi að tryggja jafnframt að núverandi kjördæmi fái öll eitthvert lágmark þingmanna, eðlilegt væri að lágmarkið væru 5 þingmenn í hverju hinna núverandi kjördæma.

Ef hver kjósandi fengi 5 atkvæði og gæti valið þingmenn þvert á lista í landskjöri eru umtalsverða líkur á því að þeir nýti einhvern hluta atkvæða sinna til þess að kjósa þingmenn sem teljast vera dreifbýlismenn. Um helmingur íbúa þéttbýlisins eru aðfluttir og með mikil tengsl við dreifbýlið.

Með þessu kosningafyrirkomulagi yrði persónukjör tryggt, hin umdeildu prófkjör myndu missa vægi sitt og flokksræðið minnka.

Engin ummæli: