þriðjudagur, 7. júní 2011

Auðlindamálin

Sá tími sem Alþingi gefur til umsagnar um þær breytingar sem gera á stjórn fiskveiða er of skammur, mikilvægt er að eðlilegur tími gefist til málefnalegrar umfjöllunar og samráðs. Óneitanlega tengist umræðan í mínum huga við það sem maður er að fást við þessa dagana.

Stjórnlagaráð vinnur nú að tillögum um nýja stjórnarskrá og í drögunum stendur m.a:
Náttúruauðlindir
Náttúruauðlindir Íslands eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta öllum landsmönnum. Enginn getur fengið þær til varanlegrar eignar eða afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.


Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds vernda auðlindirnar og geta veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Til auðlinda í þjóðareign teljast jafnframt náttúrugæði, sem ekki eru í einkaeigu, svo sem nytjastofnar, landsvæði, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

Náttúra Íslands
Náttúra Íslands er friðhelg. Hverjum og einum ber að virða hana og vernda.

Nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar skal haga svo að þær skerðist ekki til langframa og réttur komandi kynslóða sé virtur.

Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni og óspilltri náttúru til lands, lofts og sjávar þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið og fyrri spjöll bætt eftir föngum.

Almenningi er frjálst að fara um landið eins og lög leyfa.


Þessi málaflokkur skiptir okkur öll mjög miklu máli, t.d. má benda á að forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa undanfarnar vikur bent á að tekjur af orkulindum gætu auðveldlega staðið undir allri heilsugæslunni. Samfara því hafa margir bent á að tekjur af auðlindinni í hafinu umhverfis landið gæti stuðlað að því að tryggja atvinnuöryggi í dreifðum og fámennum byggðum.

Við vorum værukær á meðan öll orkufyrirtækin voru í eigu almennings og veiðarnar fóru fram frá hverju sjávarplássi. Auðlindirnar voru nýttar af almenning án endurgjalds, sem birtist í atvinnutækifærum og lágu orkuverði til almennings. Takmarkinu var náð.

Almenningur hefur sett fram kröfu um að til náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar teljist m.a. nytjastofnar á Íslandsmiðum, auðlindir undir hafsbotninum og náttúruauðlindir í þjóðlendum. Á grundvelli stefnu um nýtingu og verndun náttúruauðlinda geti stjórnvöld veitt heimild til nýtingar á auðlindum sem eru í eigu þjóðarinnar gegn gjaldi að því tilskyldu að nýtingarrétturinn sé tímabundinn eða að honum megi breyta.

Í umdeildu frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem er til umræðu þessa dagana eru lagðar til margskonar breytingar. Þar má helst nefna aukningu aflaheimilda til strandveiða og byggðakvóta. Hagfræðingar hafa bent á að þetta muni veikja rekstargrundvöll sjávarútvegsins.

Samtök sjómanna hafa bent á að það mun veikja stöðu þeirra sem hafa aðalstarf sitt af fiskveiðum. Þau benda á að með því að færa stærri hluta aflaheimilda til strandveiða sé verið að færa störf frá þeim sem hafa meginatvinnu sína af fiskveiðum. Hagkvæmni slíkra veiða er takmörkuð þar sem einungis má veiða fáa daga í mánuði yfir sumartímann og hefur ákaflega litla þýðingu atvinnulega séð. Fjárfestingar í skipum, veiðarfærum og öðrum búnaði til strandveiða nýtist því afar illa.

Samkvæmt frumvarpinu eiga handhafar aflamarks að standa undir því aflamarki sem varið er til byggðakvóta, strandveiða og línuívilnunar. Hafi útgerð skips ekki yfir að ráða nægum aflaheimildum til að mæta þessari skerðingu fái hún frest til að flytja eða leigja fullnægjandi veiðiheimildir á skipið eða greiði gjald fyrir sömu heimildir. Slíkt fyrirkomulag er óhagkvæmt og er hætt við að það ýti undir frekara leigubrask.

Skorður eru settar við tilfærslum milli tegunda innan einstakra útgerða þannig að þær geti ekki orðið hærri en 30% af aflamarki þeirra hverju sinni. Ráðherra hafi til úthlutunar 2.000 tonn af sumargotsíld og 1.200 tonn af skötusel gegn gjaldi. Færa á stærri hluta aflaheimilda til stuðnings minni byggðarlaga sem lent hafa í vandræðum vegna samdráttar í sjávarútvegi. Telja má að það væri hagkvæmari og skilvirkari leið til að koma til móts við umrædd byggðarlög að nýta hluta veiðigjaldsins til uppbyggingar atvinnu á viðkomandi stöðum.

Með frumvarpinu er lögð til hækkun veiðigjalds, eðlilegt er gjaldið hækki þannig að þjóðin fái notið eðlilegs arðs af sjávarútvegsauðlindinni. Í fljótu bragði virðist um hógværa hækkun að ræða sem ekki ætti ekki að ógna rekstarskilyrðum sjávarútvegsins.

Æskilegt væri að gerði yrði hagfræðileg úttekt á því hve hátt veiðigjald sjávarútvegurinn getur borið án þess að það bitni á eðlilegum rekstarskilyrðum. Hér skiptir miklu máli hvaða ákvarðanir ráðherra tekur og hvaða hagsmuni hann velur að vernda. Ætlar hann að jafna stöðu þeirra útgerðarflokka sem óhagkvæmari eru við þá sem hagkvæmari? Slík ráðstöfun telst ekki skynsamleg.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ætlar íslenska þjóðin að slá eign sinni á alla fiskana í sjónum eða bara þá sem svamla allt árið í íslenskri lögsögu?

Mér finnst að þetta gangi ekki nógu langt. Íslenska þjóðin á auðvitað að slá eign sinni á alla fiskana í sjónum og allt ræktarland. Þá gætum við endurvakið bæjarútgerðirnar og byggt samyrkjubú. Hættum þessu hálfkáki og endurvekjum sameign og alvöru sósíalisma á Íslandi. Það vita það allir að kommúnisminn svínvirkar...

Jón Ármann Héðinsson sagði...

Það eru rétt um 41 ár síðan ég kom
fyrstur manna með hugmynd um að
skipuð yrði sérstök nefnd, er
skyldi semja lög um EIGNARRÉTT
á landinu, gögnum þess og gæðum.

(Seinna varð svo löggjöf um
hálendið).
Auðlind hafsins er l i f a n di
auðlind og hlýtur að lúta
sérstökum lögum og nýtingu.
eðli sínu samkvæmt.

Tilbúningur á "nýtingarrétti"
til fárra aðila er fjarstæða
um tugi ára skeið.
Nauðsynlegt getur verið í langan
eða stuttan tíma á setja hömlur
á veiðina- kvótakerfi-.
Ég tel að enginn geti lofað
einhverjum sérstökum nýtingu
á sameiginlegri eign okkar.
ÁRLEG úthlutun er því EINA ráðið
Jón Ármann éðinsson

Nafnlaus sagði...

Mér sýnist að með þessari tillögu sé verð að festa í sessi að öll landsbyggðin verði einn allsherjar þjóðgarður og útivistarsvæði sem einungis er opið fyrir fáa í stuttan tíma í einu.

Með þessari tillögu á að taka stór svæði á landsbyggðinni í gíslingu og tryggja þannig að engar verulegar frakmvæmdir né framfarir eigi sér stað úti á landi.

Núverandi stjórnlagaráð vill í raun leggja landsbyggðina í eyði sem blómalega byggð með blómlegu atvinnulífi.

Síðasti naglinn í líkkistu landsbyggðarinnar á svo að vera að landið allt verði eitt kjördæmi með persónukjöri.

Það myndi þýða að ca. 95% allra þingmanna kæmu frá Höfuðborgarsvæðinu og þá helst þjóðþekktir einstaklingar.
Kosningin til stjórnlagaráðs sannaði svo ekki var um vilst að einungis landsþekktir einstklingar (rich and famous) af Höfuðborgarsvæðinu verað kjörnir á þing í framtíðinni verði landið eitt kjördæmi með personukjöri.

Ég mun aldrei samþykkja slíka stjórnarskrá og ég er ekki einn um það.