miðvikudagur, 15. júní 2011

Birting tölvupósta

Það er vart fréttaefni að fólk skiptist á skoðunum með tölvupóstum. Varla getur það talist fréttaefni ef fólk sem er ráðið til þess að koma á framfæri skoðunum og vinna þeim fylgi, að það sendi frá sér tölvupósta til þess að kynna sínar skoðanir.

Það getur vart talist fréttaefni að ég taki undir það að ástunduð sé hér á landi mikil mismunun á réttindum starfsmanna á almennum vinnumarkaði og hluta þeirra sem starfa á opinberum vinnumarkaði. Þetta er fréttamönnum Eyjunnar framar öðrum kunnugt um, þar sem ég hef skrifað á sama fréttamiðil og þeir starfa á síðan 2007 um 1.100 pistla og margir þeirra hafa einmitt snúist um það efni.

Það er heldur ekki fréttaefni að ég fái sent frá starfsmönnum ASÍ töluvert af talnaefni frá hagdeild ASÍ og nýti það. Þetta hefur komið fram í mörgum pistlum sem ég skrifað á fréttamiðilinn Eyjuna og fréttamenn á þeim miðli þekkja.

Það er heldur ekki fréttaefni að ég sem starfsmaður stéttarfélags hafi sent nokkrum sinnum efni á 63 þingmenn þessa lands. Ég er sannfærður um að allmargir íslendingar gert slíkt hið sama. T.d. eru það vart mikil tíðindi að ég hafi sent öllum þingmönnum bréf þegar ég fékk ítarlegar talnaupplýsingar sem staðfesta hversu ofboðsleg mismunum á sér í lífeyrisréttindum tiltekinna opinberra starfsmanna sem standa utan ASÍ og svo þeirra 13.000 opinberu starfsmanna sem eru innan ASÍ ásamt launamönnum á almennum vinnumarkaði og staðfestir að ekki stendur steinn yfir steini í málflutningi margra þingmanna og ráðherra, sem reyna að réttlæta athafnir sínar með röngum tölum.

Fréttamenn Eyjunnar vita einnig að við erum nokkrir Stjórnlagaráðsmenn sem skrifa á Eyjuna m.a. um störf Stjórnlagaráðs. Þar hefur komið fram að í því efni sem við erum að vinna með hafa komið fram margskonar kröfur um hvað standi í Stjórnarskrá Íslands, þar á meðal um lágmörk réttinda launamanna og jöfnun þeirra.

En það er fréttaefni þegar fréttamenn taka sig til að mönnum forspurðum að birta tölvupósta þar sem menn eru að skipast á skoðunum, pósta sem ekki eru sendir á fréttastofuna af þeim sem ritar viðkomandi tölvupósta. Það vekur vitanlega upp pælingar hver það sé sem áframsendi þessa pósta á fréttastofu Eyjunnar. Það þarf svo sem ekki að spandera mörgum heilasellum í sjá hver geri það í þessu tilfelli. En þrátt fyrir það ætlast maður einhverra hluta vegna til þess að þannig efni sé ekki birt, ef það er gert þá setur viðkomandi fréttastofu mikið niður.

En það er fréttaefni þegar fréttamenn taka sig til og spinna upp samtöl sem aldrei hafa átt sér stað og gera fólki upp skoðanir og skálda upp meintar athafnir. Þegar þannig er unnið fellur viðkomandi fréttastofu mikið niður í áliti. Stundum kemur það fyrir fréttastofur sem eru fyrir ekki á háum stól, jafnvel bara á pínulitlum skemli og fallið er innan við tvær tommur.

1 ummæli:

Halldór Halldórsson sagði...

Fyrir mér er það fréttaefni, að þú virðist hafa haft álit á heiðarleika, starfsheiðri og fagmennsku fréttamanna Eyjunnar; og "for resten" íslenskra blaðamanna!!??