miðvikudagur, 21. september 2011

Efnahagslegar þrælabúðir


Helmingur þjóðarinnar vill ekki styðja núverandi stjórnmálamenn. Okkur er daglega boðið upp á stjórnmálamenn skríkjandi í ræðustól að halda þingstörfum í gíslingu í keppni um að halda orðinu sem lengst við að segja ekki neitt. Í hvert sinn sem þingmaður beitir svona brögðum er hann að sýna Alþingi Íslendinga og okkur kjósendum vanvirðingu. Við kusum alþingismenn til þess að setja sig inn í mál svo vel sem þeim eru unnt.
Á árunum fyrir hrun krónunnar vitnuðu þáverandi stjórnarþingmenn helst í tölur um ríflegan afgang af rekstri ríkissjóðs, tölur um góðan hagvöxt, tölur um vaxandi gildi krónunnar og tölur um stöðuga kaupmáttaraukningu og töldu þær sína hversu gott allir hefðu það í hinu íslenska efnahagsundri. Stjórnarandstöðumenn nýttu þessa tölur líka, þeir vildu auka eyðslu ríkisins.

Á sama tíma bentu hagdeildir aðila vinnumarkaðsins ásamt vinum okkar í nágrannalöndunum á tölur sem sýndu vaxandi halla á viðskiptum Íslands við útlönd og ofurþensluna í hagkerfinu og til þess að bjarga okkur frá miklum óförum í hagkerfinu yrði að skera mikið niður og hækka skatta til þess að minnka eyðsluna. Krónan var árið 2008 um 20% of hátt skráð og þjóðin lifði um efni fram á erlendum lánum án þess að nægjanleg verðmætasköpun stæði að baki. Þessar tölur sögðu okkur að það stefndi í hrun gjaldmiðilsins, en þessar ábendingar hentuðu ekki stjórnmálamönnunum.

Útrásarvíkingar fóru um heimsbyggðina í fylgd forsetans og ráðherra og mærðu hið íslenska efnahagsundur. Þar má minna á kaup þeirra á flugfélaginu Sterling, sem allir Danir töldu að væri ekki krónu virði og margfalt gjaldþrota. Í höndum íslenskra fjárfesta jókst verðmæti Sterling úr þremur milljörðum í tuttugu á örskömmum tíma, við það eitt að íslendingar keyptu og seldu sjálfum sér flugfélagið nokkrum sinnum. Forseti Íslands ásamt þáverandi ráðherrum sögðu þeim sem ekki skyldu íslenska viðskiptasnilli að fara á eftirmenntunarnámskeið.

En hin jökulkalda staðreynd er að Íslendingar geta ekki notað krónur til þess að greiða erlendar skuldir. Hætti Grikkir í evrusamstarfinu og taka upp gömlu drökmuna, munu þeir sem lánuðu Grikkjum ekki sætta sig við að fá nýprentaðar drökmur, þeir myndi líklega frekar vilja fá ónotaðan ljósritunarpappír, þeir gætu notað hann. Allir Grikkir sem ættu eitthvað fjármagn myndu gera það sama og gerðist hér heima á hinu ástkæra og ylhýra, flytja allt sitt í erlenda banka.

Þessi hugsunarháttur hefur ráðið ríkjum í íslenskum stjórnmálum frá lýðveldisstofnun og birst almenningi í um 25% meðalverðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga samsvarar færslu fjórðungs tekna frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda. Eða með öðrum orðum íslenskir launamenn hafa eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað af efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem finnst það eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu og reglulegum gengisfellingum.

Íslenskir launamenn búa í efnahagslegum þrælabúðum. Þeim er talið í trú að þeir hafi samningsrétt um launakjör, en hið rétt er að stjórnmálamenn fara með kjarasamninga eins og þeim sýnist. Staðreyndin blasir við, íslenskir launamenn voru búnir að ná þokkalegum kaupmætti árið 2005 í samanburði við nágrannaþjóðir og það ár erum við með rauntölur, það sem gerðist eftir það fram til október 2008 var froða byggð upp með erlendu lánsfjármagni. Krónan var þá orðin 20% of hátt skráð og erlendur gjaldeyrir á útsölu.

Íslenskum launamönnum hafði tekist frá árinu 2000 til 2008, að ná um 13% kaupmáttaraukningu, en töpuðu henni allri við Hrunið, auk þess að fjöldi heimila tapaði öllum sínum eignum og situr eftir skuldum vafin.

Danir féllu ekkert í kaupmætti við efnahagshrunið og hafa bætt við sig 1% eftir 2008 og tæp 6% það sem af er þessari öld. Auk þess að halda þeir sínum eignum.

Svíar hafa gert betur, þeir hafa bætt við sig 2,3% eftir efnahagshrunið og 7,3% það sem af er þessari öld, og halda líka eignum sínum.

Finnland hefur bætt við sig 4,5% í kaupmætti frá efnahagshruninu og bætt við sig 10,8% það sem af er þessari öld. Meðaltal kaupmáttaraukningar í Evrópu það sem af er þessari öld er 12,7%, þar af 2,7% eftir efnahagshrunið. Heimild: Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) árið 2010.

Þau 40 ár sem Rafiðnaðarsambandið hefur verið til hefur það samið um liðlega 3.000% launahækkanir. Á sama tíma hefur danska rafiðnaðarsambandið samið um 330% og býr samt við betri kaupmátt. Danskir rafiðnaðarmenn hafa auk þess ekki þurft að búa við stökkbreytingar skulda. Þeirra gjaldmiðill er tengdur Evrunni. Það er sama hvort krónan er fasttengd, undir höftum eða handstýrð. Það hafa verið reynd ýmis kerfi með krónuna en ekkert virkar.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tókst þú ekki sjálfur þátt í að smíða þessar efnahagslegu þrælabúðir?

Nafnlaus sagði...

Afar góður pistill,

Upplýsingar sem þurfa að koma fram.

"Þessi hugsunarháttur hefur ráðið ríkjum í íslenskum stjórnmálum frá lýðveldisstofnun og birst almenningi í um 25% meðalverðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga samsvarar færslu fjórðungs tekna frá launþegum og sparifjáreigendum til atvinnurekenda. Eða með öðrum orðum launamenn á Íslandi hafa eytt 3 mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf...

..Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað af efnahagsstjórn stjórnmálamanna, sem finnst það eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með verðbólgu og reglulegum gengisfellingum."

Þetta má einnig orða á annan hátt.

Þriðjung starfsævinnar eru Íslendingar að vinna fyrir kostnaði smæðsta og hættulegasta gjaldmiðli veraldar - krónunni - það er kostnaður sem aðilar innan Evrulanda þurfa ekki að greiða.

Kostnað vegna óstjórnar í efnahagsmálum á Íslandi - má beint rekja til krónunar - af mörgum ástæðum.

1. Vextir á Íslandi verða alltaf 5% hærri en erl. vegna óhagkvæmni sem felst í smæð gjaldmiðilsins.

2. Þar sem hægt er að fella gengið þegar stjórnmálamönnum mistekst - að stjórna efnahagsmálum, geta þeir alltaf falið ruglið í verðbólgu og gengiskollsteypum og kennt öllu öðru um. Þetta væri ekki hægt í föstu gengi.

3. Sveiflur á gjaldmiðlum eru upptök að kerfisvanda. Þenna vanda má t.d. skýrt sjá hjá OR, sem er með tæpa 70 milljarðar aukaskuldir, vegan of lágs gengis um 20-30%. sama á viðum önnur fyrirtæki, heimili o.fl. 70 milljarðar eru 35 Perlur !!! og reyna á að krafsa sig út úr þessu með því að hækka rafmagnsreikning Reykvíkinga og selja 1 Perlu !!! Hækkun á rafmangsreikningum OR má beint tekja til - krónunnar - sem nú er allt of lágt skráð. Sama má sjá hjá Hafnarfirði - þar sm þeir ætla að breyta 12 milljarðar erl láni í Íslenskt lán sem er með 4 sinum hærri vexti!!! Þessi dæmi er hrópani allstaðar...

4. Spákaupmenn og vogunarsjóðir geta leikið sér að svoan gjaldmiðli - eins og köttur að mús - á kostnað heimila og fyrirtækja.

5. Miklar gengissveiflur geta framkallað hrun fjármálakerfis, eins og 2008 - hvenær sem er.

6. Mörg onnur atriði mætti nefna.

Íslendingar eru því í einskonar þrælabúðum krónunnar 1/3 ævinnar.

Aðild að evrunni og ESB - snýst sérstaklega um að afnema þennan kostnað sem fylgir krónunni.

Hvað yrði það mikil kaupmáttaraukning ef tekjur vegna 1/3 starfsævinnar færu ekki í að greiða kostnað krónunnar - heldur færu beint til eigin nota? Það er sennilega um a.m.k. 50% prósent kaupmáttaraukning - bara við það að taka upp evru og vera laus við óþarfa þrældóm og kostnað.

Sú kaupmáttaraukning, væri fyrir utan aðra kaupmáttaraukningu, vegna minni fjármagnskostnaðar atvinnulífsins, aukinns útflutnings, lægra matarverðs, aukins hagvaxtar o.fl.

Þetta eru kjarninn í ávinningi lauanfólks að evrunni og ESB.

Stóra spurningin er - hvers vegna skilur fólk þetta ekki. Svarið liggur að einhverju leiti í vanþekkingu og klúðri þeirra sem berjast fyrir aðild.

Hefur annars einhver séð samantekt á kostnaði krónunnar. Nei.

Af hverju er slíkt ekki gert. Af þvi að það má ekki tala um þessi mál.

Niðurstaða - Ísland verður áfram í þrælabúðum krónunar,,,,,,, nema þeir sem koma sér úr landi,,, ef ekki verður fjallað miklu betur um þessi mál, á mörgum stöðum - m.a. í fjölmiðlum.

Héðinn Björnsson sagði...

Ef þú ætlar að sækja samanburð við hin norðurlöndin væri eðlilegra að skoða hvernig þeim gekk þegar þar urðu bankakreppur. Ég efast stórlega um að Svíjar hafi haft kaupmáttaraukningu á tímabilinu í kringum sænsku bankakreppuna. Þá fóru vextir hjá þeim líka upp yfir 20% á tímabili á húsnæðislánum og fór illa með möguleika margra á að eignast húsnæði. Einnig er ég viss um að kaupmáttarbilið milli Íslands og Danmerkur er minna í dag en það var þegar krónurnar voru slitnar í sundur hvað sem verðbólgukerfinu okar líður. Þetta eru flóknir hlutir og ekkert hægt að láta eins og þetta sé svona borðleggjandi.

Nafnlaus sagði...

Þér hefur ekki dottið í hug að ástæðan fyrir því að talan er 3000% er einmitt sú að talan er 3000%. Það er að laun hafi hækkað langt umfram raunverulega framleiðniaukningu í hagkerfinu. Það vita það allir að hækkun kaupmáttar umfram framleiðniaukningar er einn algengasta orsök verðbólgu (ef frá eru taldir heimskir og lélegir stjórnmálamenn)...

Það er fáránlegt að halda því fram að þetta sé niðurgreiðsla á íslensku atvinnulífi því verðbólga og óstöðugleiki er algjört eitur fyrir allan atvinnurekstur.

Nafnlaus sagði...

Glæsilegur pistill. Hér dregur þú glögglega saman öll helstu atriðin.
Takk fyrir góða pistla
Kv Haraldur J.

Nafnlaus sagði...

þetta er einmitt afleiðing af íslensku krónunni. Hún er verkfæri í höndum manna

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill, trúað gæti ég að nokkrum svíði undan honum, sérstaklega þeir sem tilheyra valdastéttinni.

Bankarnir hrundu og Seðlabankinn gjaldþrota undir stjórn stjórnmálastéttarinnar.

Almennu lífeyrissjóðirnir voru þeir einu sem stóðu af sér fárviðrið, þó svo stjórnmálamennirnir hafi gert hverja tilraunina á fætur annarri til þess að komast í þá peninga.

Nafnlaus sagði...

HÉÐINN!
Ég veit ekki hvort ég hef rétt fyrir mér,en varð ekki bankakreppa líka á Íslandi 1990???
Sú kreppa komst ekki upp á yfirborðið vegna þess að henni var leynt.Mannstu eftir litlu kreppunni upp úr 1990.Ég veit ekki hvort þetta er rétt hjá mér,en þegar kreppan skall á 2008 á virðist hafa átt að hafa sama hátt á,en krísan var svo sóðaleg og yfirgengileg, enginn vildi lána okkur,Það var ekki hægt að fela hana eins og allar hinar kreppurnar sem við höfum farið í gegn um.Og eitt enn þetta með að krónan sé svo fábær fyrir Ísland felst ekki nema í einu atriði og það atriði ætti fólk sem er á móti Evrópusambandinu að íhuga. Það er það að geta fellt gengið hvenær sem þeim dettur í hug og láta okkur borga.
Er kannski antíáróðurinn frá fólki sem á nóga peninga og græðir á gengisfellingum?
Spyr sú sem ekkiveit?????????????

Héðinn Björnsson sagði...

Sæll nafnlaus 22. september 2011 13:12!

Ég er ekki neinn hagsögufræðingur en mér skilst að litla kreppan upp úr 1990 hafi verið innflutt að mestu vegna þess að viðskiptaríki okkar fóru að kaupa minna frá okkur vegna kreppu hjá sér.

Það var margt rotið við framsóknarefnahagskerfið sem var hér við líði um áratugaskeið en það var ekki sérlega bólumyndandi og því urðu kreppur á Íslandi á þessum tíma meira vegna afturkippa í raunhagkerfinu (t.d. vegna harðinda, aflabrests eða falli í utanríkisverslun) en vegna fjármálagjörninga.