mánudagur, 26. september 2011

Stefnt í næsta hrun?

(Uppistaða þessa pistils er úr pistli sem birtist á þessari síðu í des. 2009.)

Sömu menn eru enn að störfum í greiningardeildunum, þó svo þessir menn hafi orðið uppvísir að því, að allt sem þeir greindu og allar spár þeirra, reyndust vera rangar. Það eru 100 menn sem eru í leiðandi stöðum helstu greiningarhúsanna og starfa þar án nokkurra laga og reglna. Enn er greint á sömu forsendum og gefnar út spár. Stjórnmálamenn halda því fram að ástæða hrunsins hafi verið áhættusækni í fjárfestingum. Það er keppni í öllu og markaðurinn ræður og hann leiðréttir sig. Hefur hann gert það?

Allir bíða eftir ábendingum greiningardeildanna og hlaupa svo til eftir þeirra spádómum og fjárfesta. Allir veðja á sömu forsendum og verðið getur í raun ekki annað en hækkað. Þjóðir keppa í lækkun skatta vegna fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars en lakari skóla, veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða.

Ef haldið er áfram á þessari braut getur það ekki leitt til annars en að þau samfélög sem við byggðum upp á síðustu öld munu hrynja. Fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það verður að setja alþjóðlega stjórn á kerfið sem tekur mið af heildarhagsmunum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera.

Kerfið eins og það er nú tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við uppbyggingu samfélaga eru að glatast og viðhorf fjármálanna hafa tekið yfir. Barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei áður, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar og hungrið í heiminum vex.

Margir kenna nýfrjálshyggjunni um Hrunið. Ef við skoðum þróunina á Íslandi síðustu áratugina fyrir Hrun voru við völd menn sem boðuðu frjálshyggju. Þrátt fyrir það var þróunin á Íslandi fullkomlega andstæð stefnumiðum frjálshyggjunnar. Skattar hækkuðu og urðu þeir hæstu í heimi, hér verður að taka mið af því að kostnaður vegna lífeyrisgreiðslna og veikinda á vinnumarkaði fer ekki í gegnum skattakerfið á Íslandi.

Undirrótin að þessu öll var pólitísk spilling, samskonar spilling og ræður ríkjum í þróunarríkjum Afríku. Ísland er ríkt af auðlindum og þar af leiðandi er herfang ráðandi stjórnarflokks mikið. Foringjarnir þeirra sköffuðu vel og með því að deila út herfanginu til þeirra sem sýndi flokkshollustu tryggðu þeir um leið stöðu sína. Þeir sem ekki fylgdu foringjanum fengu ekkert.

Íslendingar glötuðu á síðustu tveim áratugum þeim norrænu samfélagsgildum sem þeir höfðu áunnið með mikilli kjarabaráttu og blóðugum verkföllum fram eftir síðustu öld. Ísland var flutt frá hinu norræna velferðasamfélagi. Íslenskur almenningur er að átta sig á þessari stöðu sættir sig ekki við þann ójöfnuð sem hér ríkir og hafnar því að samfélaginu verði splundrað til þess að verja hagsmuni fárra. Í nýlegri könnun kom fram að um 85% ungs fólks sér ekki framtíð sína á óbreyttu Íslandi.

Við Hrunið afhjúpaðist hin gengdarlausa spilling. Ef einhver benti á hvert stefndi fyrir nokkrum árum lenti hann í deilum við þáverandi stjórnarþingmenn sem þrættu fyrir öll gögn. Íslenskir ráðamenn þrættu við kollega sína í hinum Norðurlöndunum þegar þeir bentu þeim góðfúslega á hvert Ísland óhjákvæmilega stefndi.

Stjórnlagaráð kom inn með ferskan vind inn í íslensk stjórnmál, gömlu stjórnmálaflokkarnir óttast það og berjast hatrammlega gegn innsetningu nýrrar stjórnarskrár. Þar var valið fólk utan flokka, almenningur setti til hliðar tilskipanir stjórnmálaflokkanna um val á fulltrúum á Stjórnlagaþing.

Flokksræðið hefur minnkað og um helmingur kjósenda á Íslendinga í dag hefur valið að standa utan stjórnmálaflokkanna. En það skortir aðra valkosti, eða að núverandi stjórnmálaflokkar skipti um fólk. Í þeirri umræðu hefur komið fram harkaleg viðbrögð stjórnmálavaldsins við því að hér verði myndað nýtt stjórnmálaafl á miðjunni og tekið verði undir að nýrri stjórnarskrá verði komið á.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður pistill,

Það er rétt, það er annað hrun framundan ef Ísland verður ekki aðili að evrunni og ESB.

Ísland er í kapphlaupi við tímann við að komast í skjól af stórum gjaldmiðli. Lang hagkvæmasta leiðin í því smabandi er evran með aðild að ESB.

Þetta er svo mikilvægt til að hægt sé að lækka vexti hér á landi og endurfjármagna skuldir, fá erlend lán og auka traust á landinu.

Það verður ekki hægt, án upptöku annars gjaldmiðils.

Því lengur sem það dregst að taka upp nýjan gjaldmiðil - því meiri líkur eru á nýju hruni.

Verði ekki búið að taka upp annan gjaldmiðil eða koma á samstarfi í gjaldmiðlamálum við t.d. evruna - innan 3-4 ára, er augljóslega nýtt hrun framundan.

Annað hrun til viðbótar við hrunið 2008, gæti gert stöðu Íslands miklu verri vegna þess vanda sem fyrir er.

Þess vegna er svo mikilvægt að flýta viðræðum við ESB, eins mikið og kostur er.

Nafnlaus sagði...

Í Silfri Egils á Eyjunni, í dag, er vitnað í einn þingmann,, sem segir,,,,

"Eitt mikilvægasta verkefnið i dag er að vinna á reiðinni sem er í samfélaginu. Við erum föst í reiðinni eftir áfallið vegna bankahrunsins vegna þess að byrðum fjármálakreppunnar hefur ekki verið deilt á alla hópa á sanngjarnan hátt. Engin önnur þjóð hefur lagt jafn þungar byrðar á skuldsett heimili í kjölfar bankahruns. Í ár verður vaxtastig á óleiðréttum húsnæðislánum hér á landi sennilega um 14% (með verðbólgu) á meðan írsk heimili eru aðeins að greiða um 3,5%. Á sama tíma eru laun flestra stétta mun lægri en almennt gerist á Írlandi. Það er bara ekki hægt að sætta sig við þetta!“

=======
Hvernig væri nú að fólk færi almennt að vakna - af krónusvefninum - m.a. forsvarsmenn heimilanna - og beita sér fyrir því að Ísland geti tekið upp alvöru gjaldmiðil evruna, til að minnka þennan skelfilega fjármagnskostnað - og koma í veg fyrir stökkbreytingu skulda vegna gengisbreytinga eða vísitöluhækkunar.

Ef hér hefði verið evra hefði þessi skelfilega skuldaaukning og eignaupptaka ekki átt sér stað - og vextir væru miklu lægri.

Jafnvel í Grikklandi þar sem allt er talið í rugli - lentu heimilin ekki í stökkbreytingu skulda, þar eru vextir líka 3,5% eins og á Írlandi. Á Íslandi fór allt í klessu vegna krónunnar, sem sumir vilja halda áfram með eins og ekkert hafi gerst,

Hvernig væri að launþegasamtök og samtök heimilanna (eða þingmaðurinn sem vitnað var í) reiknuðu út þennan kostnaðarmun á milli Íslands og Írlands - vegna skulda heimilanna - og upplýstu heimilin um þennan mun - sem stafar af ónýtum, hættulegum og allt of litlum gjaldmiðli - krónunni. Hvað er það á mánuði, ári og af 40 ára láni?

Hvernig væri að upplýsa fólk um það fyrir laugardaginn!!!!

Eða er fólk kannski að bíða eftir öðru hruni - með þvi að hafa krónuna áfram mótmælalaust - þannig að hægt sé að taka enn meira frá því?