miðvikudagur, 4. apríl 2012

Afnám verðtryggingar

Það vefst fyrir stjórnmálamönnum að standa við loforð um afnám verðtryggingar. Það er að renna upp fyrir þeim að ef verðtrygging er afnuminn þá rísa upp önnur vandamál, sem eru erfið viðfangs.

Verðtrygging er óvirk ef verðbólga er innan við 3,5%. Ef við búum við stöðugleika þá er hún meinlaus.

Það er verðbólgan sem er skaðvaldur hins íslenska hagkerfis ekki verðtryggingin.

Verðbólgan er afleiðing slakrar efnahagsstjórnunar. Stjórnmálamenn nýta reglulegar gengisfellingar til þess að leiðrétta þá óstjórn sem þeir ástunda.

Það var ákvörðun stjórnmálamanna eftir tækifærissinnað kosningabaráttu að fara út 100% lán á íbúðarmarkaði sem varð til þess að fasteignaverð flaug upp úr öllu valdi. Þar er að finna ástæðu vandamálanna, ekki í verðtryggingu.

Verðtrygging ver langtímasparnað. Það er henni að þakka að tekist hefur að mynda skyldusparnað sem nú er undirstaða uppbyggingar hér á landi.

Verðtryggingin afnam að miklu leyti þá eignaupptöku sem átti sér stað á sparifé almennings sem hér ríkti fram á níunda áratuginn. Án hennar hefði Þjóðarsátt aldrei orðið að veruleika.

Ég greiddi á tímabili 49,5% vexti af lánum af minni fyrstu íbúð og tapaði á sama tíma öllum inngreiðslum í lífeyrissjóðinn á árunum frá 1970 - 1983 eða sem nam einum árslaunum.

Það var svo Ólafur Jóh. formaður Framsóknar sem bjargaði lífeyriskerfinu frá hruni, því allir vildu hætta að greiða í þessa tilgangslausu hít. Óli Jóh. setti verðtrygginguna á 1983.

Guðm. Jaki hafnaði á sínum tíma að tengja launahækkanir við verðlagsvísitölu, hann sagði að það myndi koma í veg fyrir tilraunir stéttarfélaganna að ná fram kaupmáttaraukningu umfram verðlagsvísitölu. Hann hafði rétt fyrir sér, því laun hafa hækkað að meðaltali um 30% meira en verðlagsvísitalan hans frá 1983.

14 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert eins og versti hagsmunagæslumaður LÍÚ klíkunnar - nema í þessu tilfelli lífeyrissjóðanna. Sérð hlutina bara frá einni hlið, þ.e. að gæta "eingöngu" að því að sjóðir þeirra skerðist ekki og er greinilega á móti afnámi verðtryggingarinnar, sem þó er örugglega mesta helför íslendinga á seinni árum.

Það er orðið algjört rof milli kynslóða í þessu landi þar sem fólk undir miðjum aldri sem skuldar á að taka á sig að borga allt hrunið - meðan hinir eiga að fá allt bætt uppí topp. Þetta er kerfið sem þú virðist vilja viðhalda.

Hefurðu reynt að setja þig í spor þeirra sem eru með stökkbreytt verðtryggð lán sem eru komin langt framúr greiðslugetu og verðmæti eigna? Bönkum og lífeyrissjóðum er slétt sama um fólk í þeim sporum og sjá sér bara gott til glóðarinnar að geta hirt að þeim íbúðirnar. Lífeyrissjóðirnir geta síðan selt íbúðirnar á markaði og fengið að fullu greitt út veðið, hafa sitt 100% á hreinu.

Að tala um á verðbólgan sé sökudólgurinn skiptir engu máli, nema kannski í einhverju sögulegu samhengi. Það hefur margoft verið sýnt fram á að verðtryggingin ein ýtir undir verðbólgu. Þar að auki mun verðbólgan alltaf vera til staðar meðan við erum með ónýtan gjaldmiðil. Ekki fara að tala um Evru sem lausn - þ.e. eru a.m.k. 5-10 ár í það ef nokkurntíma verður

Nafnlaus sagði...

Góður pistill,

Verðbólga á Íslandi, er að stærstum hluta vegna smæðar gjaldmiðilsins.

Þannig má rekja hrun gjaldmiðilsins 2008, að stórum hluta til smæðar gjaldmiðilsins - enda gerðist ekkert slíkt hrun innan stórra gjaldmiðla eins og evrunnar.

Skuldir og verðbólga á Írlandi, Finnlandi eða Grikklandi hækkuðu ekkert hjá þessum þjóðum.

Gjaldmiðillinn krónan er eins og árabátur á úthafi - sem skoppar upp og niður - eftir hverri öldu - þar sem hann er svo lítill. Þó að allt sé í reglu innan árabátsins - og allir rói í takt - skoppar hann samt. Sam á við um krónuna - sem skoppar eftir því trausti og - gambli spákaupmanna.

Stór skip eins og evra eru hisvegar það stór að þau eru stöðug þó að þau sigli um óveður - vegna stærðarinnar.

Þannig tryggir stærðin stöðugleika.

Það er því mikil - tálsýn að halda því fram að - ef allt væri í lagi í efnahagsstjórn á Íslandi - þá væri ekki verðbólga. Það gæti verið óðaverðbólga þó að efnahagsstjórn væri í lagi - þar sem spákaupmenn geta sveiflað krónunni tugi prósenta upp eða niður og framkallað verðbólgu.

Þess vegna er ekki hægt að ná niður verðbólgu á Íslandi - né að fella niður verðtryggingu - NEMA að taka upp evru.

tilraunir í rær 100 ár - ættu að hafa sýnt fram á það - hjá flestum.

Guðmundur sagði...

Nafnlaus 15:19 upplýsir okkur um að hann veit nákvæmlega ekkert um hvað hann er að tala. Enda felur hann sig undir nafnleysi. Hann ætti að kynna sér betur greiðslur af lánum.

Ef verðtrygginginn hefð ekki verið þá væru hér breytilegir vextir eins og voru áður en verðtrygging var tekinn upp og það væri búið að rukka alla vextina núna. Ég greiddi t.d. 49,5% vexti af láni þegar ég keypti mína fyrstu íbúð 1971.

Þá gufaði allt sem ég reiddi í lífeyrissjóð upp, eftir að hafa greitt í 12 átti ég inneign sem nam einu lanbalæri og hafði tapað sem svaraði til einna árslauna.

Það að verðtrygging ýti undir verðbólgu er barnaleg fullyrðing

Nafnlaus sagði...

Flottur pistill að venju og vel framsettur.

Verðtrygging er víða notuð sem ákvæði í langtímalánum bæði í Evrópu og USA, en það reynir aldrei á hana vegna þess að efnahagskerfið er stöðugt.

Karl Ólafsson sagði...

Guðmundur, því miður virðist þú fastur í þeirri skoðun þinni að verðtryggingin sé snilldaruppfinning Óla Jó, sem verja beri í það óendanlega.

Um verðtrygginguna er margt hægt að segja, gott og slæmt. Þú hefur ekkert rangt fyrir þér að öllu leyti hvað það varðar, en hins vegar hefur hún gengið sér til húðar og er nú einn mesti dragbíturinn á heilbrigðan lánamarkað og hengingaról um háls ótal skuldara sem reynt hafa síðustu áratugina að eignast sitt húsnæði.

Þú hefur rétt fyrir þér að verðtryggingin bjargaði lífeyriskerfinu okkar á sínum tíma, þegar hún var sett á. Þess vegna var það út af fyrir sig rökrétt aðgerð sem varð til þess að hægt var að byggja hér upp öflugt lífeyriskerfi. Það var hins vegar ekki að kostnaðarlausu fyrir þær kynslóðir sem tóku á sig þá uppbyggingu kerfisins og greitt hafa fyrir þann lífeyri sem kynslóðirnar þar á undan eru nú að taka út eða eru við það að fara að taka út.

En, ... verðtryggingin hefur skilað hlutverki sínu og nú verður hún að víkja. Líklega gerist það ekki fyrir tilstilli pólitíkusanna, því þeir hafa heykst á verkefninu, enn einu sinni. Þeir geta ekki og munu ekki geta komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut, nema ef vera skyldi að hrófla ekki við sínu eigin lífeyriskerfi.

Markaðurinn getur hins vegar afnumið verðtrygginguna og ég vona innilega að það sé það sem er að gerast þessa dagana með auknu framboði annarra valkosta. Lántakar dagsins í dag verða að mínu mati að stilla sig um að taka hærri lán en svo að þeir sjái sér fært að staðgreiða vextina af því, þótt þeir kunni að taka ákveðnum sveiflum. Það er lykilatriði!

Þú rifjar upp tíma þegar vextir fóru yfir 40%. Vextir af fasteignaláni sem fara upp í 8% og þar yfir, bíta verulega. Þegar þeir fara upp fyrir þá tölu hlýtur að draga úr neyslu, því ekki kaupa menn flatskjá þann mánuðinn sem svo stendur á, eða ? Einungis þannig hlýtur að draga úr verðbólgu, þ.e. með samdrætti í neyslu. Með verðtryggingu, þar sem vextir eru e.t.v ekki nema 5%, en viðbótin leggst óhindrað við höfuðstólinn, bítur ekki þann mánuðinn og bítur í raun ekki fyrr en löngu síðar. Þar með skapast akkúrat ekkert aðhald og engin stjórn næst á neyslunni. Ef vextir færu upp í 40% á þjóðfélagið hreinlega að fara á hliðina og allt að verða brjálað, þvílík efnahagsóstjórn sem það hlyti að vera að slíkar aðstæður næðu að skapast.

Þú fullyrðir að engin rök séu fyrir því að verðtrygging ýti undir verðbólgu. Ofangreint eru ein rökin fyrir því, en til viðbótar bendi ég þér á að lesa m.a. skrif Ólafs Margeirssonar hagfræðings um þetta efni. Þú hrekur ekki hans rök nema með mótrökum að mínu mati. Fullyrðingar eru ekki rök.

Þú fullyrðir einnig að launavísitala hafi hækkað um 30% umfram verðlagsvísitölu. Ég hef séð þessar fullyrðingar settar fram annars staðar, en ég á satt að segja afar erfitt með að trúa þeirri tölu. Allar launahækkanir sem ég veit til að samið hafi verið um á vegum launþegasamtaka hafa skilað sér fljótt og 'vel' út í verðlagið með tilheyrandi vísitöluhækkunum og því er erfitt að trúa þessum tölum nema að sjá línuritin sem sýna fram á þetta. Tilvísun í þau væru vel þegin.

Guðmundur sagði...

Menn sem segja að tölulegar staðreyndir, séu ekki réttar dæma sjálfa sig út úr umræðunni. Karl Ólafsson gerir það.

Karl Ólafsson sagði...

Guðmundur, ég taldi mig vera að senda þér inn nokkuð málefnalega athugagsemd, eins og þú býður mönnum upp á á bloggi þínu.

Mér þykir þú afgreiða athugasemd mína nokkuð léttvægilega með því að segja mig hafa dæmt sjálfan mig marklausan í umræðunni með því að trúa ekki tölulegum staðreyndum.

Með því svarar þú í fyrsta lagi ekki öðrum atriðum athugasemdar minnar, en í öðru lagi reynir þú einungis að gera lítið úr mér. Það er vissulega alþekkt taktík svo sem í rökræðum, en ber að mínu mati merki um ákveðinn hroka.

Það eina sem ég sagði um þessar tölulegu staðreyndir er að ég ætti erfitt með að trúa þeim og ég óskaði eftir tilvísun í þau gögn sem stæðu á bak við 30% töluna. Ég geri það vegna þess einfaldlega að ég er ekki það mikið með puttann á púlsinum þessa dagana að ég hafi séð þau gögn sem liggja að baki þessari tölu og ég þarf ekkert að trúa tölu sem kastað er fram sem fullyrðingu, án þess að kynna mér og hafa tækifæri til að sannreyna gögnin sem þar liggja að baki. Það er jú ekki óþekkt að tölur séu settar fram sem tölulegar staðreyndir sem reynast síðan við nánari skoðun reiknaðar út frá hæpnum forsendum.

Reyndar hefði ég mikinn áhuga á því að sjá umfjöllun nokkurra annarra hagfræðinga á þessu atriði en þess sem lagði fram þessa tölu í síðustu viku.

En segjum sem svo að þessi 30% tala sé rétt og fullgild. Það breytir ekki því að lántaki með verðtryggt lán til langs tíma hleður upp verðbótum á höfuðstól sinn í stað þess að staðgreiða vexti sem eiga þá að innihalda þær verðbætur sem á þarf að halda. Það gerir það að verkum að greiðslubyrði hans hækkar frekar en að lækka á síðari árum lánstímans og 30% launaskrið nær kannski bara ekkert að vega upp á móti því.

Ég legg kannski ekki fram neinar merkilegar tölulegar staðreyndir hér, en fyrirgefðu, ég tel mig alveg vera marktækan í umræðum um kosti og galla verðtryggingar!

Karl Ólafsson sagði...

Guðmundur, ég vona að síðasta athugasemd mín hafi ekki birst enn vegna páskafrís hjá þér, ekki vegna þess að þú hafir ekki í hyggju að birta hana.

Ég get ekki sætt mig svaralaust við einnar línu lítillækkun þína á mér eftir fyrri athugasemdina. Mér finnst það þér ekki til sóma ef þú blokkar fyrir andsvar mitt. Ég vona bara að þú hafir átt friðsæla og rólega páska og samþykkir athugasemd mína frá því fyrir helgi sem fyrst. Þessari athugasemd máttu hins vegar alveg eyða út ef þú kýst svo.

Guðmundur sagði...

Var að koma til byggða.

Ítreka fyrri ummæli, þegar menn hafna því að hér hafi laun hækkað að meðalatali um 30% umfram verðlagsvísitölu af því að það hentar ekki þeirra málflutning þá eru menn að dæma sig úr leik.

Allar tölur sem ég birti um þróun launa og kaupmáttar koma úr staðreyndum sem eru byggðar á tölum frá Hagstofu viðurkenndum efnahagslegum stærðum.

Karl Ólafsson sagði...

Guðmundur, það er eins og þú sért ekki að lesa athugasemdir mínar. Ég segist eiga erfitt með að trúa þessari 30% tölu, það er ekki það sama og að hafna henni sem staðreynd. Ég skal fúslega fallast á að talan sé rétt, enda hef ég nú fengið hana staðfesta annars staðar frá. Það segir hins vegar ekki alla söguna og réttlætir ekki tilvist og viðhald verðtryggingarinnar til allrar framtíðar. Bendi aftur á skrif Ólafs Margeirssonar og Marinó G. Njálssonar og fleiri góðra manna um þau mál.

Ég tel mig ekki hafa dæmt mig úr leik í umræðunni með athugsemdum mínum og hafna þeirri niðurstöðu þinni að ekki sé mark á mér takandi þó ég hafi 'efast' (ath. ekki 'hafnað') um þessa tölulegu staðreynd.

Það gildir hins vegar um ýmsa að hafna öllum rökum sem ekki styðja tiltekinn málstað. Þannig til dæmis skautar þú alfarið framhjá því að fjalla um öll rök sem benda á neikvæðar afleiðingar verðtryggingarinnar fyrir þína umbjóðendur sem eru jú launþegar þessa lands. Ég er án efa sekur um að tregðast við að samþykkja rök sem benda á jákvæða þætti verðtryggingar, en bendi þó á orð mín í fyrstu athugasemd minni um að verðtryggingin hafi átt rétt á sér, en tími hennar sé liðinn. Ég sé ekki ástæðu til að hætta því að fjalla um þau mál þar sem það hentar mér þrátt fyrir að þú teljir mig ekki marktækan í umræðunni.

Takk fyrir birtingu athugasemda minna.

Karl Ólafsson sagði...

Sæll eina ferðina enn Guðmundur og fyrirgefðu flauminn af athugasemdum frá mér.

Ég hef reyndar eina athugasemd enn, því ég hef nú séð gögn sem byggja á þessum sömu tölulegu staðreyndum og þú segir mig hafa hafnað. Þau gögn staðfesta vissulega að 30% hækkunin sem þú vísar til átti sér stað, en nú langar mig til að biðja þig í anda sanngirni og í ljósi tölulegra staðreynda að útvíkka aðeins það árabil sem miðað er við þegar þessi 30% tala er fundin. Ef þú skokðar t.d. tímabilið frá 1979 til 2011 (eða til dagsins í dag), hvaða tölu færðu þá út?

Samkvæmt þeim gögnum sem ég hef séð og tel vera jafn miklar tölulegar staðreyndir muntu væntanlega sjá að raunhækkun launa er svona cirka sama sem ekki nein!

Ég ætla svo sem ekki að gera mikið úr þessari staðreynd að öðru leyti en því að þessi tala styður í raun á engan hátt þann málstað að það sé bara í lagi að halda hér áfram í verðtryggðu umhverfi. Það eru hliðaráhrif verðtryggingar sem sumir vilja ekki viðurkenna að séu til, sem valda því að kerfið getur ekki gengið upp. Ég bíð leyfis þriðja aðila til að mega nota ákveðin rök í þessu sambandi, ef áhugi er á því að fara út í rökræður um þetta efni. Ef enginn áhugi er á því birti ég þetta efni á mínu eigin bloggi (sem hefur verið steindautt allt of lengi reyndar) innan skamms, auk þess sem vænta má miklu betri útskýringa á þessu atriði frá mér lærðari manni. Bloggið mitt inniheldur reyndar nokkrar gamlar greinar frá mér um galla verðtryggingarinnar (elsta frá haustinu 2008; sjá karlol.blog.is), en þetta er bitlaust og ónýtt miðað við það sem mér klárari menn hafa skrifað um málið og ég hef áður vísað í.

Umræðunni um þörfina, nei, nauðsynina á því að komast út úr verðtryggingunni er hvergi nærri lokið og verður ekki þögguð niður, eins og gerst hefur síðustu áratugi, af hagsmunaaðilum öðrum megin borðsins.

Karl Ólafsson sagði...

Síðasta athugasemd frá mér um þetta mál Guðmundur, lofa því.

Hér er komin greinin um þetta efni sem ég beið eftir með þeim gögnum sem ég vísaði til í síðustu athugasemd.

Ég hvet alla sem vilja kynna sér þessi mál nánar til að lesa þessa grein hér: http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/verdtrygging-og-laun

Guðmundur sagði...

Bara benda þér Karl á að meðal þeirra sem þekkja til eru sárafáir sem taka mark á því sem Ólafur Margeirsson segir, ég þekki engan, það svo mótsagnarkennt og sett lýðskrumi.

Nafnlaus sagði...

Í íslenska ofurvaxtahagkerfinu verður að hafa einhverskonar greiðsludreifingu þegar verðbólgan fer á skrið eftir reglubundnar gengisfellingar. Sá þáttur verðtryggingarkerfisins felur í sér sjálfvirka greiðsludreifingu þeirra ofurvaxta sem fylgja íslensku krónunni og jafna þannig greiðslubyrði lánanna yfir allan lánstímann. Enginn vafi er á því að þetta hefur gert fleiri einstaklingum kleyft að eignast eigin íbúð í stað þess að vera bundnir við þá miklu óvissu og óöryggi sem löngum hefur verið á leigumarkaði fyrir utan hvað það er miklu dýrara en að kaupa.Þetta er lýsandi dæmi um þann mikla herkostnað sem er af krónunni, en um fimmtung tekna okkar þarf til að greiða fyrir þann vaxtamun sem er á milli Íslands og Evrópu!