föstudagur, 13. apríl 2012

Innistæðutryggingar

Skildi vera vonlaust að ætlast til þess að íslenskir stjórnmálamenn fari að tala eins og ábyrgt fólk, í stað þess að vera sífellt í klækjapólitík og upphrópunum til þess að komast í hasarfréttir fjölmiðlanna. Þessi vinnubrögð hafa valdið Íslandi miklum skaða. Öll lönd ásamt Norðurlöndunum neituðu að koma Íslandi til hjálpar nema tekin væru upp hér á landi alvöruvinnubrögð hjá íslenskum stjórnmálamönnum.

Sigmundur Davíð, Ögmundur og fleiri héldu því blákalt framað andstæðingar okkar myndu ekki þora að fara með þessi mál fyrir dómstóla. Það lá alltaf fyrir að það myndi verða gert. Það eru líkur á því að Íslendingar tapi málinu. Bæði hvað varðar ríkisábyrgð á innistæðutryggingunni og fyrir brot á jafnræðisreglu. Samningstaða Íslands verður vonlaus eftir þann dóm.

Allir sem minnsta vita hafa á efnahagskerfum og samskiptum þjóðlanda vita að innistæðutryggingar eru mikilvæg í alþjóðlegum samskiptum. Innistæðutryggingakerfum var komið á fót fyrir rúmri öld og flest ríki hafa í samskiptum sínum staðfest að þau undirgangist þær reglur sem um þau ríkja, þar á meðal Ísland.

Innistæðistæðutryggingakerfi voru meðal annars sett á fót til að tryggja að venjulegt fólk, sem ekki hefur tök á að meta gæði útlána eða stöðu fjármálastofanna geti lagt sparnað sinn í viðskiptabanka, undir eftirliti hins opinbera, fullvisst um að fá þetta fé aftur tilbaka, án mikilla tafa eða óvissu um endurheimtur, ef bankinn fer í gjaldþrotameðferð.

Fjármálastöðugleiki og þjóðarhagsmunir hafa vegið þungt í umræðunni á seinni árum. Vantraust á bönkum og áhlaup gera engan greinarmun á vel eða illa reknum bönkum. Innistæðutryggingar eru taldar vera ein leið til þess að draga úr líkum á bankakreppum og minnka þá áhættu sem felst í óstöðugu fjármálakerfi.

Ein helsta forsenda fyrir innistæðutryggingum er að almenningur er yfirleitt ekki í aðstöðu til þess að meta gæði banka. Þetta kom glögglega fram hér á landi, því það var ekki aðeins almenningur sem lét blekkjast, heldur einnig innlendir og erlendir eftirlitsaðilar og þeir gáfu út heilbrigðisvottorð fram á síðasta dag.

7 ummæli:

erlingur sagði...

Guðmundur: Þessi færsla er villandi í umræðunni um málshöfðun ESA. Núverandi málshöfðun ESA snýst um skyldu íslenska ríkisins til að tryggja að innstæðueigendur fái lágmarkstrygginguna greidda innan tilskilins tíma. Hún snýst ekki um að dæma íslenska ríkið til að opna budduna eins og Icesave samningarnir gengu út á. Mér vitanlega hefur enginn gert lánasamning við Breta eða Hollendinga vegna þeirra greiðslna sem þeir reiddu af hendi vegna Iceasave. Skattgreiðendum, mér og þér, ber ekki skylda til að greiða Bretum og Hollendingum vexti af einhliða ákvörðun um greiðslu innstæðna vegna Icesave.

Það kemur hvergi fram í Evrópusambandslögum að ríkissjóður aðildarríkis beri skyldu að greiða lágmarkstryggingu með almannafé ef tyrggingasjóðurinn á ekki nægar eignir. Það er TIF sem ber greiðsluskylduna en ríkinu ber vissulega að tryggja að það sé gert, í besta falli með lánveitingu til TIF, sem TIF verður svo að greiða ríkinu til baka. Dómur EFTA dómstólsins mun ekki leggja á herðar ríkissjóðs neina greiðsluskyldu til Breta eða Hollendinga . Þá kröfu þurfa þeir að sækja á annan vettvang kjósi þeir svo.

Nafnlaus sagði...

Flott grein að venju Guðmundur. Verstu mistök Íslendinga eftir hrun eru að þegar búið var að koma Icesave því búið hafi verið að koma málinu í þverþjóðlegt sáttaferli í desember 2008, (þar má t.d. benda á ummæla Bjarna Benediksson form. Sjálfstæðisflokksins. sem nokkrum sinnum hefur verið vísað til hér á þessari síðu) voru að þáverandi ríkisstjórn Íslands ákvað að taka málið út úr því ferli og hefja þess í stað tvíhliða samningaviðræður við fjármálaráðuneyti Breta og Hollendinga sem litu ekki á málið sem sameiginlegt viðfangsefni sem þyrfti að ná sameiginlegri lausn, heldur sem hvert annað innheimtumál. Sú ákvörðun hafði það í för með sér að framkvæmdastjórn ESB gat ekki annað en staðið við hlið aðildarríkja. Afleiðingar þess sjáum við í dag og þar geta íslendingar einir kennt sér um.

Nafnlaus sagði...

Skulum ekki gleyma að neyðarlögin eru ástæðan fyrir Icesave vandamálinu.

Þannig á endanum þurfum við að borga með okkar svita fyrir neyðarlögin.

Nafnlaus sagði...

Sammála "síðasta ræðumanni". Flott grein. Ég furða mig á því hversu fáir kommenta hér. Get ekki trúað því að Guðmundur sé ekki mikið lesinn. Er hann kannski of stilltur, of efnislegur? Legg til við hann að breyta kommenta kerfinu, er frekar leiðinlegt og þungt í vöfum.

Haukur Kristinsson

Haraldur sagði...

Ég veit að þetta er einfeldnigasleg spurning. En hversvegna á almenningur í einu ríki að ábyrgjast einkafyrirtæki sem sá hin sami almenningur getur ekkert haft um að segja hvað þá heldur haft innsýn til og eftirlit með.
Svo hefur þessi sami almenningur ekki heldur neina möguleika á að bregðast við þegar þeirra stjórnvöld standa sig ekki í eftirlitstörfum og benda allir sem ein á hvorn annan, Hvernig getur almenningur (skattborgarar) borð ábyrgð á svona ástandi sem þeir vissu ekki einu sinni af. ?

Haraldur sagði...

SPURNINGIN ER KANSKI FREKAR ÞANNIG - Hversvegna er peninga og auðvaldskerfi heimsins sett upp þannig að almennir skattgreiðendur bera einir ábyrgðina á öllu saman?
Allir þeir sem eru gerendur í málinu, fyrra sig allri ábyrgð og vísa hver á annan og eru þar með án allrar ábyrgðar í raun. Hversvegna eru lögin hönnuð þannig að þeir komast upp með þetta svona arfavitlaust. Er það meining og tilgangur lagana alstaðar í hinum svokallaða siðmenntaða heimi. Þetta er eitthvað meira en lítið skrítið kerfi sem skattgreiðendur lifa í varnarlausir. Eins og málshátturinn Ameríski segir " You are dead, but right ".

halldor sagði...

Góð grein. Það er áhugavert hvernig málefnalegri umræðu um þetta leiðindamál er gjarnan svarað með:

"Hversvegna skyldi almenningur borga skuldir einkafyrirtækis?"

Réttlætanleg spurning í sjálfu sér en ekki það sem málið snýst um. Því miður.

Málið snýst um hvort íslenska ríkið hafi réttilega innleitt reglur, og hvort neyðarlögin hafi mismunað.

Ef við töpum fyrra atriðinu myndi hugsanlega vera höfðað skaðabótamál, og kannski yrði náð dómssátt. Ætli slík sátt myndi ekki vera endurgreiðsla á höfuðstól og vextir. Hljómar kunnuglega. Ætli Bucheit eigi einhverja vinnufélaga með lausan tíma?

Ef við töpum seinna atriðinu vandast málið hinsvegar. Þá er í raun verið að segja að við fall bankanna hafi kökunni verið rangt skipt. Erlendir innistæðueigendur hefðu átt að fá eitthvað af því sem innlendir fengu. Svo ef sá sem spyr: "Hversvegna skyldi almenningur borga skuldir einkafyrirtækis" átti meira en lágmarkstryggingu á bankabók við fall bankanna snýst málið um að hann hafi fengið aðeins meira en hann átti rétt á, og þar með eitthvað sem öðrum bar....Og þá er náttúrulega málið að spurja hann hversvegna almenningur ætti að borga það sem hann fékk ofgreitt?