mánudagur, 23. apríl 2012

Mildur dómur

Niðurstaða Landsdóms var mildur dómur og fullur skilnings. En Geir H. Haarde missteig sig illilega þegar hann felldi á blaðamanna fundi þungan dóm yfir Landsdómi, Alþingi og íslensku samfélagi. Öllum nema sjálfum sér.

Geir á væntanlega eftir að sjá eftir því að hafa ausið úr skálum reiði sinnar, honum hefði farið betur að kasta ekki rýrð á dóminn.

Landsdómur telur ekki rétt að Geir H. Haarde hafi einungis brotið formreglu þegar hann fór ekki eftir 17. grein stjórnarskrárinnar og boðaði ekki til funda með ríkisstjórninni til að ræða slæma stöðu í íslensku með því hafi hann stuðlað að því að ekki hafi verið mörkuð pólitísk stefna til að takast á við þann mikla vanda, sem honum hlaut að vera ljós í febrúar 2008, steðjaði að íslensku efnahagslífi.

Geir H. Haarde er sakfelldur fyrir að hafa af stórfelldu gáleysi látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Ef sú stefna hefði verið til og Geir H. Haarde hefði fylgt henni markvisst eftir, hefði verið hægt að draga úr tjóni sem hlaust af falli bankanna í hruninu.

Það er út í hött að vísa til fyrri vinnubragða ríkisstjórna. Geir mátti vel vera ljóst  að hér var við að etja margfallt umfangsmeira mál og fordæmislaust en áður hafði komið á borð ríkisstjórnar. Með þessu orðalagi eru Geir og fylgismenn hans enn eina ferðina að gera lítið úr þeim vanda sem hann og samstarfsmenn hans komu Íslandi og íslenskum almenning í. Eða að lýsa því yfir að þeir einfaldlega hafi ekki getu og burði til þess að sinna stjórnsýslu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Geir finnst hann fjarska mikið fórnarlamb og það eru vanaleg viðbrögð sjálfstæðismanna. Og svo að benda á aðra.

Þetta hljómaði bara eins og grenj og væll í honum í dag.

ÞÚB