Maður er orðin æði þreyttur á því hvernig stjórnmálamenn þvælast kringum staðreyndir og geta bara alls ekki komið sér að því að horfast í augu við stöðuna. Maður er fullkomlega gáttaður á málflutning þingmanna sjálfstæðismanna, þeir eiga að vita nákvæmlega hver staðan er. Þeir voru við stjórnvölinn þegar við flugum fram af bjargbrúninni án þess að þar væri svo mikið sem sentimeters bremsufar, nei þeir voru á ferðalagi um heiminn til þess að sannfæra ráðamenn um að allir spádómar um að Ísland væri að falla væri endaleysa. Þeir voru í fyrstu viðræðum við nágrannalönd okkar og AGS og vita nákvæmlega hvaða kröfur eru gerðar til okkar.
Síðustu tvö af stjórnunartíma þeirra settu aðilar vinnumarkaðs margítrekað fram kröfur um viðbúnað við falli og bentu á að krónan væri a.m.k 30% of hátt skráð og viðskiptahalli væri óviðunandi. Fjöldi erlendra hagfræðinga sendi hingað skýrslur með ábendingum hvert stefndi. Allar þessar aðvaranir virtu ráðherrar Flokksins og stjórn Seðlabanka að vettugi. Fyrrv. menntamálaráðherra veittist að undirrituðum á iðnsýningu og sagði mig kjaftask, auk þess krafðist hún þess að þeir sem hefðu eitthvað við efnahagsstefnuna að athuga færu á eftirmenntunarnámskeið.
Allir landsmenn vita hver staðan er utan nokkurra þingmanna, en svo kemur Atli Gíslason og spyr; Er ný sjálfstæðis- og fullveldisbarátta hafinn?!! Og lætur eins og hann sé ákaflega undrandi. Frá þeim degi sem bankarnir hrundu hefur blasað við öllum landsmönnum að þá hófst ný sjálfstæðisbarátta fyrir tilveru okkar eða þá lóðbeint í gjaldþrot.
Lykillinn að endurreisn er að ná samningum við helstu viðskiptalönd okkar og koma atvinnulífinu í gang. Jón Bjarna ráðherra skilur þetta greinilega ekki. Enda er hann út á þekju í allri umræðu. Gengur hiklaust erinda fárra kjósenda sinna, þvert á hagsmuni annarra atvinnustétta í landinu, þó svo að þær séu mun fjölmennari.
Skuldirnar svakalegar og hegðan íslendinga í alþjóðasamfélaginu varð til þess að engin treysti okkur, jafnvel ekki nágrannalönd okkar. Hér á ég ekki bara við þjófahyskið, sem kallað hefur verið útrásarvíkingar. Heldur ekki síður þá ráðherra og forseta Íslands sem fóru um heimsbyggðina og mærðu þjófanna og lýstu þeim sem sérstöku efnahagsundri.
Það hefur komið ítrekað fram hjá öllum nágrannalöndum okkar að við fengjum ekki krónu að láni fyrr en við tækjum til í okkar ranni. Gerðum upp öll okkar fjármál og breyttum um efnahags- og peningastefnu. Lánafyrirgreiðsla frá Norðurlöndum er skilyrt starfsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Aðkoma lánadrottna að íslensku bönkunum hangir ennfremur saman við Icesavesamkomulagið og viðræður við Evrópusambandið er ekki inn í myndinni ef við stæðum ekki við skuldbindingar okkar gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu.
Allt atvinnulífið (fyrir utan nokkra bændur og kvótaeigendur) er búið að benda stjórnmálamönnum að lánafyrirgreiðsla væru lífsnauðsynleg til að bjarga fyrirtækjunum, endurreisa bankakerfið, endurfjármagna gjaldþrot Seðlabankans og tryggja blóðrennsli til íslenska hagkerfisins.
Þrátt fyrir þessar staðreyndir veltast þingmenn um dag eftir dag, viku eftir viku í alls konar útúrsnúningaræðum þar sem þeir keppast við að lýsa því yfir að þeir hafa enn ekki áttað sig á þeirri stöðu sem Ísland er í. Jóhanna og Steingrímur eiga sannarlega heiður skilið fyrir hversu staðföst þau hafa verið. Getuleysi þingmanna endurspeglast svo vel í spurningu Atla um hvort þjóðin sé komin í fullveldis- og sjálfstæðisbaráttu að nýju. Það höfum við öll hin vitað í eitt ár.
Við vitum einnig að heimili okkar og fyrirtækin eru að verzlast upp á meðan þingmenn forðast allar ákvarðanir og víkja sér undan ábyrgð. Það verður ekki undan því vikist að samþykkja samninginn. Þingmenn eiga að gera eins og oft er gert við samþykkt kjarasamninga, að samþykktinni fylgi klár yfirlýsing á því hvernig Íslendingar skilji samninginn.
Höfnun Icesave-samkomulagsins mun seinka endurreisn efnahagslífsins. Þess vegna eru ummæli Jóns Bjarna ráðherra algjörlega út í hött. Því má heldur ekki gleyma að hluti af Icesavepeningunum fór í neyslu og fjárfestingu á Íslandi á undanförnum árum. Við verðum einnig að horfast í augu við að á undanförnum árum höfum verið í gengdarlausu eyðslufylleríi sem var grundvallað á fölskum lífskjörum á Íslandi sem þáverandi stjórnvöld héldu gangandi með erlendum peningum sem dælt var inn í hagkerfið. Met var sett í halla á viðskiptum við útlönd á hverju ári á þessu árabili. Nú er komið að skuldadögum, við verðum einfaldlega að horfast í augu við það.
8 ummæli:
Hvert orð sem hér er skrifað er eins talað frá mínum munni. Sjálfstæðismenn ættu allir sem einn að fara í endurmenntun og naflaskoðun. Hvað er svo Kjartan Gunnarsson að setja ofan i við Þorgerði Katrínu. Væri ekki nær að hann fengi rækilega ofanígjöf frá sínum flokki fyrir hans klúður í Landsbankamálunum!
"Er ný sjálfstæðis- og fullveldisbarátta hafinn?!! Og lætur eins og hann sé ákaflega undrandi. Frá þeim degi sem bankarnir hrundu hefur blasað við öllum landsmönnum að þá hófst ný sjálfstæðisbarátta."
Dæmalaust kjaftæði
og þú að halda fram að við séum í fullveldis og sjálfstæðisbaráttu
menn sem segja svona ættu kannski að kíkja í orðabók og fletta þessum orðum upp
Orð í tíma töluð, þótt fyrr hefði verið. Það hefur verið snautlegt að horfa á þingmenn hlaupast undan því að taka þær ákvarðanir sem þeir þó voru kjörnir til að taka, ekki síst í sambandi við ESB. Hafi einhvern tíma verið kosið um Evrópumál þá var í síðustu kosningum. Á framboðsfundum var hver einasti þingmaður spurður í þaula um afstöðu sína til ESB og þeir voru ekki síst kosnir vegna þeirrar afstöðu, hvort sem þeir voru með eða á móti. Þegar svo kom að því að standa við skuldbindingar sínar vildu þeir vísa svarinu til þjóðarinnar, sem þó hafði kosið þá til að taka afstöðu akkúrat í því máli. Nú er sagan að endurtaka sig í IceSafe málinu; þar er það fram komið sem koma þarf fram til að menn geti afgreitt málið, en þá hengja menn sig í skæklatog.
Haukur Már
Gott innleg, ég meina það....
Sjálfstæðismenn ættu að sjá sóma sinn í því að leggja sjálfa sig niður og þetta flokksskrípi sem í mínumm huga er bara sérhagsmunasamband fyrir glæpamenn.
Orð í tíma töluð - frábær pistill. Hjartanlega sammála þér og veit um mjög marga sem hugsa á sömu nótum. Jón Bjarnason beit síðan höfuðið af skömminni með yfirlýsingum sínum í dag. Hann ætti að segja af sér ráðherradómi einsog skot. Með þessu áframhaldi verða þingmenn VG búnir að sprengja stjórnina áður en langur tími er liðinn og opna dyrnar fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn að völdum á ný.
Hvaða bull er þetta Guðmundur minn:-)
Er ekki svolítil einföldun í þessari löngu grein þinni? Að ganga í ESB er meira en að kasta sjávarútveginum og landbúnaðinum á haugana sem mér finnst þú ekki gráta. Eigum við að lifa á styrkjum frá ESB? Mér finnst vanta skýringar á því á hverju þessi þjóð á að lifa, ekki sjávarútvegi ekki landbúnaði og örugglega ekki fjármálastarfssemi, er möguleiki að lifa á álframleiðslu eða er kannski lausnin sé að endurvekja "byggingastarfsemi" ? Þar voru allavegana mörg störf á græðgistímanum. Það er einföldun að segja að þessar og hinar greinarnar skipti ekki máli og þeir sem þær stundi skipti ekki máli, ég held að þeir sem eru í þínu stéttarfélagi eigi fullan rétt á að hafa vinnu rétt eins og bændur og þeir sem eru í sjávarútvegi, við þurfum allar stéttir í landinu til að endurreisa það sem hefur verið skemmt undanfarin ár en við getum vel lifað án ESB og að mínu mati betur án en með.
Kær kveðja
Logi Þ. Jónsson
Mikið rétt, ég á bara erfitt með að samþykkja að okkur beri að greiða skuldir einkafyrirtækis erlendis, þó fyrirtækið sé banki. En eins og þú segir þá misstum við sjálfstði okkar fyrstu vikuna í okt 2008 undir styrkri stjórn sjálfstæðisflokksins og samfylkingarinnar eftir góðan undirbúning framsóknar. Þessu skulum við ALDREI geyma.
Skrifa ummæli