Þegar litið er yfir þá sviðnu jörð sem nokkrir auðmenn hafa með aðstoð misvitra stjórnvalda skilið eftir sig í íslensku samfélagi, rifjast upp hversu oft almenningur hefur mátt sætta sig við sambærilega stöðu. Karl Marx setti fram ýmsar kenningar um eignaskiptingu og verkamanninn. Verkamenn þyrftu ekki að nota nema hluta af tíma sínum til þess að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða, en vegna atvinnuleysisvofunnar væri unnt að halda launum í lágmarki og þess vegna færi drjúgur hluti vinnutímans í að skapa verðmætaauka í vasa eiganda fyrirtækisins. Marxisminn varð fræðilegur grundvöllur í baráttu verkalýðsins í sókn hans gegn auðvaldsskipulaginu.
Marx boðaði að auðvaldsskipulagið yrði hemill á framleiðsluna, andstæður yrðu skarpari milli auðvalds og öreigalýðs og aðeins þjóðfélagsbylting gæti bjargað því frá efnahagslegu hruni. Aðeins verkalýðshreyfingin sem upplýst fjöldahreyfing gæti haft forystu í slíkri byltingu. Þetta leiddi til skelfilegrar þróunar þar sem varð til valdastétt, sem taldi sig yfir almenning hafinn. Sovétið varð til og murkaði lífið úr almennum borgunum til þess að vernda eiginn hag.
Það var gríski heimspekingurinn Plató, sem var uppi á 4. öld f. Krist sem fyrstur er talinn hafa hugsað sér þjóðfélagsskipun byggða á grundvelli jafnaðarins. Hans kenning var að vitrustu og bestu mennirnir ættu að stjórna. Þeir áttu að efla menntun og siðgæði og allt það sem horfði til almenningsheilla. Þeir máttu ekkert eiga sjálfir annað en þau laun, sem þeir fengu hjá þjóðinni fyrir sitt starf. Hver maður átti að stunda það starf, sem hann kaus sér sjálfur og var færastur til eða hneigðastur fyrir. Konur og karlar áttu að hafa sömu réttindi.
Þróun norræna módelsins hófst á víkingaöld og kemur fram í Ómagabálki Grágásar, lagasafni íslenska þjóðveldisins. Ómagabálkur var einskonar framfærslulöggjöf Þjóðveldisins. Þar segir frá því hvernig framfærsluskylda ættmenna og hreppa var háttað. Í fyrstu grein segir að sinn ómaga á hver maður fram að færa. Móður sína fyrst, en ef hann orkar betur, þá skal hann færa fram föður. Ef hann orkaði meir þá skal hann framfæra börn sín, systkini og aftur í fimmta ættlið.
Miðaldir voru hörmulegar en í lok nítjándu aldar tóku ýmsir til við að leggja niður fyrir sér hvernig bæta mætti hag verkalýðsins. Frá Marx kom sú kenning að vinnan væri uppspretta þjóðarauðs. Verkamaðurinn fengi laun sín fyrir vinnu, eigandi framleiðslufjár vexti af því og jarðeigandinn jarðrentu. Laun gætu ekki verið hærri en hrykki fyrir brýnustu nauðsynjum.
John Stuart Mill setti fram þá skoðun, að ríkisvaldið yrði að hlaupa undir bagga með þeim sem stæðu höllum fæti í lífsbaráttunni. Hann vonaði enn fremur að útrýma mætti allri fátækt með réttlátri jarðeignaskiptingu, takmörkun barneigna og með stofnun samvinnufélaga. Hann varaði við því að gera heiminn að ríkisreknum vinnubúðum þar sem sköpunargleði einstaklingsins fengi ekki að njóta sín. Stuart Mill studdi stofnun verkalýðsfélaga sem hefðu verkfallsrétt.
Fjölmörg þeirra réttinda sem vinnandi fólki þykja sjálfsögð í dag kröfðust mikillar baráttu og fórna. Það á við um samningsrétt, uppsagnarfrest, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt og margt fleira. Uppbygging velferðarkerfisins með virkri þátttöku verkalýðshreyfingarinnar er talinn helsta ástæða hvernig norræna módelið hefur mótast og þróast. Fyrstu lögin um almannatryggingar voru sett árið 1936 eftir margra ára þref.
Með almannatryggingunum var viðurkennt að allir í samfélaginu bæru ábyrgð á að framfleyta þeim sem ekki höfðu tök á því sjálfir, hér má vitna til Ómagabálksins. Það er Ríkið sem á að setja leikreglur og tryggja stöðu almennings, en íslenska Ríkið brást skyldu sinni. Þar á bæ var ekki tekið tillit til ábendinga um hvert stefni, æðst menn stjórnvaldsins gleymdu sér í dansinum á tildurhaug markaðshyggjunnar.
Það eru stjórnvöld sem setja lögin, en lögðu til hliðar samkennd og jöfnuð. Þetta sjá helstu forsjármenn íslensks samfélags síðustu tveggja áratuga nú, en hafa ekki bak til þess aðs tanda og horfast í augu við skelfilegar afleiðingar gjörða sinna. Í stað þess láta þeir hirðblaðamenn sína taka þeir drottningarviðtöl við sig, þar sem þeir sverja allt af sér og saka aðra um. Aldrei hefur annað eins lýðskrum sést á síðum íslenskra blaða.
En það er mikilvægt að það gleymist ekki að það var almenningur sem kaus yfir sig það stjórnvald sem klúðraði einkavæðingu bankanna og sleppti þeim lausum á íslenskan almenning með afnámi bindiskyldunnar ásamt því að ljúka ekki að setja þær leikreglur sem þurfti að setja í framhaldi af EES samningnum. Sama stjórnvald jók misvægi með því að lækka skatta á þeim efnameiri en um leið aukið óbeina skatta á þeim sem minna höfðu til hnífs og skeiðar með því að láta skerðingarmörk bótakerfisins ekki fylgja verðlagi.
Við blasir hörmuleg staða íslenskra heimila, niðurstaða og árangur efnahagsstefnu Davíðs og fylgisveina hans. Það var ótrúlegt ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda, að ekki var tekið fyrr á þessum vanda. Þetta skafa menn ekki af sér í viðtali við Agnes sem Mogginn birtir svo á forsíðu. Davíð gleymdi hvar lífsgildi þjóðarinnar liggja og hvar sjálfstæði þjóðarinnar er.
4 ummæli:
"Aðeins verkalýðshreyfingin sem upplýst fjöldahreyfing gæti haft forystu í slíkri byltingu. Þetta leiddi til skelfilegrar þróunar þar sem varð til valdastétt, sem taldi sig yfir almenning hafinn. Sovétið varð til og murkaði lífið úr almennum borgunum til þess að vernda eiginn hag."
Ekki bara Sovétið taldi sig ofar verkamönnunum. Það gera líka yfirmenn íslensku verkalýðshreyfingarinnar.
Þakka þér þennan skemmtilega og málefnalega pistil. Stéttabaráttan heldur áfram þótt lega víggirðinganna breytist og óvinirnir eru alltaf þeir sem verja hagsmuni valdahópsins.
Stefán Benediktsson
Sæl öll sömul. Þið ættuð nú að lesa nýjustu Þjóðmál, þar eru menn að blása til sóknar og ekki líður mönnum þar vel einsog staðan er í dag í stjórnmálum. Og svo er þer ræða Davíðs á landsfundinum, og virðast menn vera ánægðir með hana. Kv Simmi
Frábær pistill og fróðlegur
takk
Skrifa ummæli