miðvikudagur, 29. júlí 2009

Göngustígar


Gengið á Hrollleifsborg á Drangajökli

Ég hef eins og ætíð áður þvælst víða um landið í sumar. Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað gríðarlega síðustu áratugi. Liðlega hálf milljón erlendir ferðamenn sóttu landið heim árið 2008, reiknað er með að sú tala hafa tvöfaldast árið 2016. Jafnframt er íslenskum ferðamönnum sem kjósa að ferðast innan lands að fjölga.

Sérstaða landsins er fólgin í einstæðri náttúru og hversu stórir hlutar þess eru enn lausir við mannvirki og rask. Í þeim svæðum felast möguleikar sem flestar aðrar vestrænar þjóðir hafa eyðilagt með sínu fjölbýli og geta ekki öðlast aftur. Víða hittir maður erlent fólk sem er hér til þess að njóta þessarar sérstöðu. Hálendið skipar þar mikilvægan sess, t.d. má benda á að 26% erlendra ferðamanna í Landmannalaugar, vinsælustu náttúruperlu hálendisins.

Það verður sífellt erfiðara að njóta náttúrunnar vegna of mikils fjölda ferðamanna. Íslensk stjórnvöld hafa ekki sinnt því nægilega að búa ferðamannastaði undir hina gríðarlegu fjölgun sem átt hefur sér stað. Leiðir um svæði hafa ekki verið nægilega vel markaðar, mikill skortur á að göngustígar séu lagðir og skortur er á vel búnum tjaldsvæðum og aðstöðu fyrir ferðafólk. Landnýtingu á hálendinu hefur ekki verið skipulögð, sem hefur leitt til þess að hópar eiga í útistöðum við hvorir aðra.

Víða erlendis er ferðamönnum gert að greiða fyrir aðgang að vinsælum ferðamannaslóðum, með einum eða öðrum hætti. Öllum er ljóst að það kostar fjármuni að leggja stíga, setja upp snyrtiaðstöðu, eftirlit og viðhald. Þetta er hlutur sem margir íslendingar vilja svo ekki sætta sig við hér heima, þó þeir greiði athugasemdalaust nokkrar evrur/dollara í aðgang annarsstaðar, svo einkennilegt sem það nú er.

Ég var á Hesteyri fyrir nokkru, þar vann hópur erlendra manna á vegum World Wildlife Fund (WWF) við lagningu göngustíga í sjálfboðaliðsvinnu. Þeir fá búnað og matvæli frá Umhverfisstofnun. Þegar maður ræðir við þetta fólk þá kemur í ljós að stór hluti þess eru hámenntaðir háskólaborgar sem kjósa að verja hluta af sumarleyfi sínu á þennan hátt. Ég var síðar í nokkra daga í Skaptafelli og gekk þá fram á stóran hóp sem var að vinnu við lagfæringu á göngustígum og þar hitti ég aftur suma af þeim sem voru á Hesteyri.

Burðargeta íslenskra útivistarsvæða er ákaflega takmörkuð. Vaxandi umferð er víða farinn að setja óafturkallanleg spor í náttúruna. Ef ekki verður tekið myndarlega til hendinni í þessum efnum þá verða sum svæði einfaldlega verða lögð í rúst.

Það er umhugsunarefni fyrir okkur íslendinga að við sjálf erum stærstu skemmdarvargarnir. Ef stígar hér á suðvesturhorninu (reyndar ekki bara stígarnir heldur allt umhverfi þeirra), þá sérstaklega á Reykjanesinu og næsta umhverfi Reykjavíkur, útspólað af torfærumótorhjólum.

Það er virkilega þörf að gert verði skipulagt stórátak í þessum efnum. Leggja stíga, marka svæði, byggja snyrtiaðstöður. Velta má því fyrir sér hvort ástand á vinnumarkaði skapi Umhverfisstofnun möguleika í samvinnu við Atvinnuleysistryggingasjóð tækifæri til þess að vinna að enn stærri verkefnum en WWF er að vinna hér á landi.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mótorhjólakapparnir eru eins og fjármálamennirnir æða áfram tillitslausir.Án gríns hjólamennirnir verða að halda sér á sér svæðum sem virðist vra misbrestur á. hörður halldórsson,

Unknown sagði...

Takk fyrir orð í tíma töluð. Ef nógu margir minna á þetta geta orðið breytingar.

Stefán sagði...

Góð hugmynd að tengja saman uppbyggingu og aðgengi um landið við atvinnulausa. Sú vinna ætti að fara fram án þess að skerða bætur fólks.
Eðlilegt væri að það yrði gert eftirsóknarvert að vinna að bættu aðgengi um landið allt.
Frumhvæði ætti að koma frá samtökum atvinnulífsins, hverju nafni sem þau nefnast.

Unknown sagði...

Alveg sammála þessu. Ég vil bara fara að byrja, hver eru næstu skref!?