sunnudagur, 5. júlí 2009

Hvað annað en ESB?

Með tilliti til þeirra skoðana sem settar eru fram í athugsemda dálkinum við síðust grein spyr ég hvert eigi að stefna með atvinnulífið ef ekki verður sótt um inngöngu í ESB og því jafnframt lýst yfir að það eigi að skipta út krónunni yfir í traustari gjaldmiðil. Þessa skoðun byggi ég m.a. á því sem forsvarsmenn tæknifyrirtækja hafa sagt; þeir sjái ekki vöxt þeirra hér og þau muni halda áfram að flytja starfsemi sína til ESB landa.

Nú þegar eru allmörg fyrirtæki flutt frá Íslandi vegna krónunnar, annað hvort alfarið eða með meirihluta starfsemi sinnar. Má þar nefna Hamiðjuna, 66° norður, CCP, Marel, Össur og Actavis. Allnokkur fyrirtæki þar á meðal nokkur lítil til viðbótar við hin áðurnefndu stóru, eru búin að skipta yfir í Evru þó svo þau séu með starfsemi hér, en þau hafa öll lýst því yfir að þau sjái enga framtíð eða vaxtamöguleika hér.

Það þýðir í raun að ef ekki verður af því að Ísland hverfi frá sinni ofurdýru krónu með þeim okurvöxtum sem henni fylgja, þá verða hér einungis í boði störf í svokölluðum grunnstoðum. Það er fiskvinnslu og útgerð. Landbúnaði og álverum, ásamt opinberum starfsmönnum. Í þessum greinum er atvinnuleysi lítið sem ekkert, á meðan það er allt í þjónustu- og tæknigreinum.

Þetta skýrir líklega hvers vegna formaður opinberra starfsmanna sér ekki ástæðu til þess að grípa til þeirra aðgerða sem forsvarsmenn tæknifyrirtækja telja nauðsynleg og leyfir sér að kalla tillögur þeirra „arfavitlausar“. Ég veit ekki hvort menn sjái fyrir sér fjölgun ríkisstarfsmanna um 20 þús. en það er sá fjöldi nýrra starfa sem þarf að verða hér á Íslandi á næstu 4 árum eigi að koma atvinnuleysi niður fyrir 4%. En það er víst að þá er ekki verið að tala um spennandi tæknistörf fyrir velmenntað ungt fólk.

Eins og ég hef áður komið að sé litið til félagsmanna Rafiðnaðarsambandsins, þá hefur ekki verið nein fjölgun í þessum grunnstoðum á undanförnum árum, einungis í tæknigreinum. Öll fjölgun á vinnumarkaði hefur verið í tækni- og þjónustufyrirtækjum. Auk fjármálageirans sem er hruninn og ekki miklar líkur á að hann bæti við aftur þeim mikla mannfjölda sem hefur orðið að hverfa úr þeim geira í vetur.

Það hefur ætíð verið lítið atvinnuleysi utan höfuðborgarsvæðisins vegna þess að fólk sem ekki hefur haft atvinnu hefur flutt frá landsbyggðinni og unga fólkið hefur ekki flutt til heimaslóða eftir að hafa lokið námi. Nú stefnir í að þetta muni breytast á þann veg að nú muni fólkið á höfuðborgarsvæðinu leita til ESB-landa eftir atvinnu og unga fólkið ekki koma heim eftir að hafa lokið framhaldsnámi í ESB-löndum, eins og t.d. Svíþjóð og Danmörku þar sem stærstu námsmannahóparnir hafa verið.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef ekkert á móti því að ganga í ESB. Ég hef ekkert á móti því að taka upp evruna.

Við eigum að gera þetta allt í réttri röð. Fyrst þurfum við að krefjast þess að Icesave pakkinn verði leystur af EES/ESB þjóðum sameiginlega, enda sameiginlegt vandamál.

Síðan eigum við að fara fram á að við getum tekið upp Evru um leið og við fáum upptöku í ESB. Annars hefur inngangan ekki nándar nærri eins mikla kosti fyrir okkur.

Og við eigum ALLS EKKI að líta á ESB sem "björgun", heldur sem framfaraskref.

Doddi D

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.
Þú talar um og telur upp þau fyrirtæki sem eru farin úr landi eða á leiðinni út en upptalningin er miklu lengri mér finnst að þar eigi að vera líka bankarnir og fjármálafyrirtækin sem við nú sitjum með í fanginu eins og sagt er, einnig sitjum við uppi með Eimskip, Flugleiðir, exista, pontus o.s.f.v. öll þessi fyrirtæki fóru út um víðan völl og eigendur þeirra gerðu það til að vöxtur þeirra yrði meiri en það segir ekkert um arðsemi eða betri afkomu það sjáum við núna og dylst vonandi engum. Það er sitthvað gæfa og gjörvuleiki. Ekki fara fyrirtæk minna úr landi í nágrannalöndum sem eru í ESB heldur en hér gerist nema síður sé. Ég þekki svolítið til í Danmörku og þar tóku menn hressilega við sér þegar austur Evrópuríkin gengu í ESB, Danirnir flykktust með fyrirtækin sín til þeirra því þar voru laun og allur kostnaður lægri. Sem dæmi þá lögðu Danir niður hvert einasta kalkúnasláturhús og kjötvinnslur tengdar þeim og fluttu til þessara áðurnefndu Austurevrópuríkja og nú eða var 2008, ekki eitt einasta fyrirtæki í þessari grein í Danmörku, en áfram framleiða þeir „danska kalkúna“ í Danmörku en þeir flytja þá alla til Póllands og nágrannaríkja þeirra, svo það er bara þannig að flutningur fyrirtækja innan ESB er mikill og það eitt að ganga í ESB breytir ekki því að menn flytja fyrirtæki sín þangað sem best er að reka þau og mest upp úr því að hafa, þetta er minn skilningur á þessu öllu.
Kær kveðja.
Logi Þórir Jónsson

Nafnlaus sagði...

Afhverju snýst allt hjá íslendingum um hversu mikið þeir geta fengið út úr ESB, hvað græðum við ? Það er varla sála sem ræðir um hvað við getum lagt af mörkunum sem þjóð í ESB. Stafar það kannski af því að íslenskt þjóðfélag hefur síðasta áratuginn verið gegnsýrt af ég, um mig, frá mér til mín hugsunarhætti í bland við "skítt með samfélagið" hugsun ?

Ég vona innilega að ríkisstjórninni og þjóðinni allri bera gæfa til fara inn í ESB, jafnvel þó það þýði að við þurfum að lúta öllu regluverki ESB. Afhverju erum við annars svona sérstök þjóð að við getum aldrei hlýtt sömu reglum og aðrar þjóðir ?

Mér finnst allur þessi sérstakleiki sem andstæðingar ESB tala um lykta mikið af eiginhagsmunapoti sem þeir eru hræddir um að missa við inngöngu í ESB.

Nafnlaus sagði...

Já, ef við göngum í Evrópusambandið
verður örugglega gósentíð fyrir
opinbera starfsmenn, því þeim mun
fjölga svo um munar, bæði á Íslandi
og í Brussel. Um það er ekki deilt.Gróðinn er augljós.
Þórður Pálsson

Nafnlaus sagði...

Mikið er þreytandi hvernig þið kumpánar Gylfi Arnbjörns og þú eruð á fullu í pólitík fyrir Samfylkinguna, þegar þið eigð í raun að vera að starfa fyrir umbjóðendur ykkar í þeim aðildarfélögum sem þið standið fyrir.

Þið getið bara ekki talað fyrir inngöngu í ESB fyrir allar aðildarfélaga ASÍ eða Rafiðnaðarsambandsins. Innan þessara félaga eru margir sem eru á móti inngöngu í ESB. En samt teljið þið ykkur tala fyrir munn allra aðildarfélaganna.

Þið ættuð t.d. að útskýra fyrir aðildarfélögum ykkar hvernig vinnumarkaðurinn verður notaður sem sveiflujöfnunartæki í staðinn fyrir krónuna við inngöngu í ESB.

Varanlegt atvinnuleysi í ESB-ríkjunum er að meðatali 8-10%, jafnvel í góðæri. Það er því eins gott að fólk hér á landi fari venja sig við svona hátt atvinnuleysi eins og er hér nú, því við inngöngu í ESB mun þetta háa atvinnuleysi hér á landi verðar varanlegt.

Ég veit ekki til þess að þessi fyrirtæki sem þú nefnir séu að flytja héðan vegna krónunnar. Þvert á móti ætti krónana að vera þeim hagstæð núna eins og fyrir aðra útflytjendur.

Mér þætti gaman að sjá þessi fyrirtæki starfa hér í Evru umhverfi með mjög sterka Evru. Þá er ég viss um að þessi fyrirtæki myndu hvarta yfir allt af sterkan gjaldmiðli sem gerði það að verkum að þessi fyrirtæki væru ekki samkeppnishæf og því væri sterk Evrua að drepa öll útflutningsfyrirtæki.
Munið þið eftir grátkórnum hjá útflytjendum þegar krónan var sterk hér um árið?

Ég hef líka heyrt að mörg fyrirtæki séu að flýja frá Finnlandi til Svíþjóðar og Eystrasaltsríkjanna vegna þess að Evran sé svo sterk og geri þau því ósamkeppnishæf.

Ég er líka orðinn þreyttur á að heyra í sífellu þessa klisjum um það að við inngöngu í ESB muni allt vöruverð lækka hér á landi sem og vextir, auk þess að verðtrygging muni hverfa.

Þetta er ekki rétt. Við þurfum ekki að ganga í ESB til að lækka hé vöruverð né vexti. Og þó að við gengjum í ESB er ég ekki viss um að t.d. lífeyrissjóðirnir myndu vilja sleppa hendinni af verðtryggingunni, hún er þeim svo dýrmæt.

Nafnlaus sagði...

Það er um að gera að sækja um og svo er það annað mál hvað kemur út samningum. Enn afstöðu til þess tökum við þegar þar að kemur. Enn við verðum að muna að þettað ferli tekur að lágmarki tvö ár og svo allavega önnur tvö að taka upp Evru, enn á meðan verðum við að finna út hvað hvernig við ætlum að lifa í landinu fram að því. Enn Guðmundur veit nú alveg að ástæða þess að mörg af þessum fyrirtækjum einsog 66°norður eru bara með starfsemi í þessum löndum vegna lágra launa. Kveðja SImmi