föstudagur, 3. júlí 2009

Hvar er sómatilfinningin?

Hvar er sómatilfinning þeirra sem létu allar aðvaranir sem vind um eyri þjóta? Hlustuðu ekki á aðvörunarbjöllurnar glymja. Hvað segja Bjarni Ben, Þorgerður Katrín og Guðlaugur Þór núna? Þau höfnuðu alfarið aðvörunum vinaþjóða okkar og hafa hreytt ónotum í norræna velferðarkerfið. Hér á eftir eru nokkur brot úr pistlum mínum frá október og nóvember 2008.

Íslensk stjórnvöld voru virkir þátttakendur á hömlulausu eyðslufylleríi bankanna og ýttu undir skuldaaukningu almennings með því að láta krónuna vera 30% of sterka. Þau messuðu yfir þjóðinni um að allt væri í toppstandi. Felldu niður skatta til þess að ýta undir enn meiri eyðslu. Vitanlega vildi almenningur trúa þessu og 40 þúsund Íslendingar keyptu 70 þúsund bíla hvattir af íslenskum bönkum sem slógu 120 milljarða króna lán fyrir kaupunum frá breskum, hollenskum, þýskum, japönskum og svissneskum almenningi. Sami hópur tók lán og stækkaði við sig og endurbætti húsnæði. Allt eftir ráðleggingum sérstakra ráðgjafa bankanna og undir hvatningu þáverandi stjórnarþingmanna.

Þetta er helmingur landsmanna á lántökualdri. Stór hluti þeirra eiga erfitt með að standa við greiðslur vaxta og afborgana af lánunum. Nú er þess krafist að tekið sé sparifé fólks í lífeyrissjóðum til þess að greiða upp þessar skuldir ásamt því að þeir útlendingar sem féllu fyrir gylliboðum íslenskra banka og létu þeim í hendur sparifé sitt. Ákaft hvattir af íslenskum ráðherrum, forsetanum og helstu efnahagsráðgjöfum Flokksins, sem fóru um heimsbyggðina og lýstu hinu íslenska efnahagsundri. „Við erum fremst í heimi og þeir sem ekki trúa því eiga að fara á endurhæfingarnámskeið. Við stöndum við skuldbindingar okkar.“

Íslensk þjóð hefur glatað trausti nágranna sinna ekki bara útrásarvíkingarnir. Í nágrannalöndum okkar er talað um íslensku þjóðina, hvernig fyrir henni er komið og hvaða ábyrgð hún ber. Ráðherrar vinaþjóða okkar vöruðu árangurslaust íslenska ráðherra við um alllangt skeið. Hingað komu erlendir sérfræðingar og bentu íslenskum ráðherramönnum á að það stefndi í óefni.

Seðlabankar norðurlandanna lýstu sig tilbúna til þess að koma okkur til hjálpar en það yrði ekki gert nema að tekið væri til á Íslandi. En íslenskir ráðherrar þráuðust við allt síðasta haust þar til almenning þraut þolinmæðina og hrakti þá frá völdum. Svo fór að öll vinaríki okkar tóku sig saman og sögðust ekki lána okkur krónu nema í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

„En þá verðum við að taka á móti ráðleggingum og ganga að kröfum um að taka til hjá okkur“ svöruðu íslensku ráðherrarnir óttaslegnir. „Það er einmitt lóðið“ sögðu norrænu ráðherrarnir, „Við treystum ykkur ekki til þess að gera það sjálfviljugir.“ Íslensk þjóð er rúin trausti. Hún fær einungis lán í skömmtum eftir að hafa uppfyllt skilyrði hvers áfanga í betrunarbótinni.

Að þessu upprifjuðu er algjörlega útilokað að skilja málflutning þingmanna og fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins þessa dagana.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, þú ert leiðinlega fastur í flokkapolitík vinstri og hægri. ALLIR stjórnmálaflokkar á Íslandi (nema trúlega VG og Borgarahreyfingin) eru uppvísir að landráðum og hryðjuverkum gegn eigin þjóð. Finnst þér í lagi að þeir fari áfram með völdin?

Guðmundur sagði...

Ert það ekki frekar þú sem ert bundin við þessa skiptingu?

Ég er í þessum pistili að tala um málflutning tiltekins fólks í dag litið til hvernig það talaði fyrir tæpu ári. Auk þess hvernig stór hluti þjóðarinnar hefur hagað sér. Ég minnist ekki á vinstri eða hægri. En eins vo oft áður þá þá er manni gerðar upp skoðanir og svo skotið.

Fyrir stuttu fékk ég aths. frá atvinnurekenda sem ég þekki allvel, mikinn og einlægan hægri mann. Ég var þá að gagnrýna Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann Hann réðist á verkalýðshreyfinguna fyrir að hún hefði ekki haft nægilegt aðhald í stjórnum sjóðanna, ég spurði á móti hvernig það væri hvort hann hefði ekki skipað helming stjórnarmanna, hann væri í SA. Ég hefði orðið var viðtöluverða gagnrýni úr röðum verkalýðsfélaganna, en ekkert úr röðum atvinnurekenda.
Svar hans var; Það er ekki hægt að tala við þig eins og fullorðinn mann??!!

Nafnlaus sagði...

Við vitum nú flest að þú ert nú frekar vinstra megin við miðju. Enn það er ekki málið, ég spyr hvar voru verðbréfaguttar lífeyrissjóðana? Þeir vissu alveg í hvað sefndi í um mitt ár 2008 einsog svo margir sem störfuðu í þessum geira. Enn einsog ég hef sagt áður þá er mesta hættan að fólk flytji í burtu og þá meina ég fólk á aldrinum tvítugt til fimmtugs. Og þá helst það fólk sem getur auðveldlega farið skuldar lítið og á ekki húseign. Það fólk kemur ekki aftur.

Guðmundur sagði...

Veistu að ég hef aldrei skilið hvar skilin eru. Í hugum allnokkurra, þá helst Sjálfstæðismanna, virðist það vera tvennt, að vera fylgjandi þeim skoðunum sem Sjálfstæðisflokkurinn gefur út og svo er það þá vinstra liðið.
Það eru allnokkrir sem voru fylgjandi Sjálfstæðisflokknum, en fóru frá honum þegar hann sveiflaðist til últra hægri. Þar á meðal var ég, og ég sat m.a. í borgarstjórn fyrir þann flokk.

Ég hef aldrei skilgreint mig sem vinstri mann. En ég er klárlega fylgjandi norrænu stefnunni, sem flestir sem ég þekkja telja vera hægri miðja eða miðja.

En þetta skiptir reyndar engu í mínum huga.

Tek undir þetta með unga fólkið, ef ekki tekst að koma atvinnulífinu af stað þá fer það.

Ef menn ætla að stefna á að fara ekki í ESB og halda krónunni og koma með því í veg fyrir að sprotafyrirtæki og tækniiðnaður byggist upp, er það trygging fyrir því að ungt fólk fer. Eftir sitja þeir sem ætla að vinna við landbúnað og fiskvinnslu og við þá litlu þjónustu sem þær iðngreinar kalla á.

Hef reyndar fjallað um þetta í allmörgum pistlum.

Nafnlaus sagði...

Ég er bara 100% sammála. Þetta hefur ekkert með það að gera hvar í flokki maður er, þetta eru bara staðreyndir.
Björn ólafs

Nafnlaus sagði...

Ég er ríflega þrítug og háskólamenntuð og ég fer ef það á að þröngva okkur í ESB. Flyt til Kanada eða Noregs sem virðast spjara sig prýðisvel án ESB "himnaríkisins".

Kolbrún

Nafnlaus sagði...

Góður

Nafnlaus sagði...

Fottur pistill - að venju

Nafnlaus sagði...

Við almenningur erum svo heimsk að við kunnum okkur ekki forráð, réttast væri að verkalýðsforkólfarnir tryggðu að skattfé yfirvalda verði 100% af launum og við fáum eingöngu vasapeninga frá Steingrími J. Það myndi að sjálfsögðu einnig tryggja að ríkisapparatið bólgni enn frekar út því allir vita jú að ríkisstarfsmenn skapa einhver mestu framleiðsluverðmæti allra vinnandi stétta.

Guðmundur sagði...

Af hverju að tala alltaf niður til sjálfs síns.

Allir hafa rétt á sinni skoðun. Þó önnur komi andstæð þá er ekki verið að tala niður til almennings eða yfir höfuð nokkurs.

Setja fram skoðun og rökstyðja hana. Vera þátttakandi í virki umræðu.

Setja fram skoðun án þess að rökstyðja hana með persónulegum svívirðingum.

Um það snýst málið og við náum fram eitt skref í þróuninni.