þriðjudagur, 21. júlí 2009

Landráðamenn og svikarar

Mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja þann málflutning að Þorgerður Katrín og Ragnheiður hafi "svikið" málstað síns flokks. Það hefur legið fyrir að meirihluti sjálfstæðismanna er fylgjandi þeirri skoðun að látið verði reyna á hvað standi íslendingum til boða í samningum við ESB og það borið undir þjóðina. Margir áberandi sjálfstæðismenn, sérstaklega úr atvinnulífinu, eru eindregið þeirrar skoðunar að kanna eigi möguleika Íslands á þessum vettvangi.

Á þessum forsendum er mér einnig fyrirmunað að skilja hvernig menn geti fengið það út, eins og svo oft kemur fram í athugasemdakerfinu, að allir sem fylgi ESB umsókn séu sjálfkrafa Samfylkingarmenn. Stærsta hóp fylgenda ESB er að finna innan Sjálfstæðisflokksins, sé litið til landsfunda flokksins.

Mér er líka fyrirmunað að skilja þann málflutning að þeir VG þingmenn sem studdu aðildarumsókn hafi "svikið" einhvern. Það stendur einfaldlega í stjórnarsáttmálanum að það muni verða gert. Það eru því þeir þingmenn VG sem greiddu gegn aðildarumsókn sem sviku gildandi stjórnarsáttmála, ekki öfugt.

Sama má segja um Borgaraflokkinn. Þar "svíkja?" 3 og Þráinn stendur einn með því sem flokkurinn sagði í kosningabaráttunni.

Mér er líka fyrirmunað að skilja þann málflutning eins og t.d. hjá Jóni landbúnaðarráðherra, að þeir sem séu fylgjandi þessari skoðun liggi marflatir fyrir ESB. Séu skoðanalausir og viljalausir sakleysingjar í höndunum á einhverjum öðrum. Það sé hann og hans skoðanabræður sem sé fólkið með skoðanirnar. Hér er ég að vitna til einstaklega ósmekklegs máflutnings ráðherrans í fréttum nýverið.

Ég þekki allmarga og umgengst í mínu starfi sem eru þeirrar skoðunar að sú efnahags- og peningastefna sem fylgt hafi verið hér á landi gangi ekki lengur og leita verði annarra leiða ætli Íslandi að byggja upp vinnumarkað með nægilega fjölgandi atvinnutækifærum og eðlilegum hagvexti. Það er reyndar grundvöllur þeirrar sjónarmiða sem standa undir tilveru ESB.

Engin þeirra sem ég þekki liggur marflatur fyrir ESB, þeir sjá marga galla við ESB, en meta það sem svo að þeir séu minni en kostirnir. Þetta fólk er ekki landráðmenn, heimóttarlegir og óupplýstir svikarar.

Mér er einnig fyrirmunað að skilja hvernig sumir fá það út að það séu svik mín sem verkalýðsleiðtoga að hafa þessa skoðun, ég sé að ganga gegn hagsmunum félagsmanna minna og annarra launamanna og að ganga hagsmuna Samfylkingarinnar. Með þessu er reyndar verið að fullyrða að Samfylkingin gangi gegn hagsmunum launamanna umfram aðra stjórnmálaflokka, en hún er svo víðtæk þversögnin í hinni löskuðu íslensku umræðulist. Þetta mál hefur ítrekað verið rætt á fundum rafiðnaðarmanna. Þar hefur verið samþykkt að láta reyna á hvað íslendingum standi til boða.

Þetta er gert m.a. vegna þess að sé litið til atvinnuþróunar þá blasir það við að öll fjölgun atvinnutækifæra rafiðnaðarmanna hefur á undanförnum tveim áratugum verið í hátæknistörfum. Allir forsvarsmenn þeirra fyrirtækja hafa ítrekað komið fram og sagt að þeir sjái ekki framtíð sinna fyrirtækja hér á landi við óbreyttar aðstæður.

Hér á ég m.a. við forsvarsmenn Össur, CCP og Marel. Öll þessi fyrirtæki hafa vaxið meir innan ESB en á Íslandi og hafa forsvarsmenn þeirra lýst því yfir að ef ekki verði breytt um gjaldmiðil hér á næstunni þá muni þau alfarið flytja frá Íslandi á næstu 2 – 3 árum.

Það hefur ekki verið nein fjölgun atvinnutækifæra í landbúnaði, eða fiskvinnslu. Sama má segja um byggingariðnaðinn hann er ekki að taka við neinni fjölgun undanfaran áratugi og er notaður sem kæliskápur á hagkerfið. Í þessum grunnstoðum, svo ég noti algegnt orðalag andstæðinga ESB, eru láglaunastörf sem í vaxandi mæli eru unnin af erlendum launamönnum.

Menntaðir íslendingar sækja ekkert í þessar grunnstoðir. Það eru hátækni og sprotafyrirtækin sem hafa verið að taka við fjölgunina á íslenskum vinnumarkaði og þar hefur launaþróun verið í samræmi við það sem félagsmenn minna samstaka ætlast til að séu hér á landi, annars flytji þeir og fylgi atvinnutækifærunum til ESB landanna og þá helst Norðurlandanna eða Þýskalands.

Hér er ég að vitna til hvernig þróunin hefur verið í félagatali Rafiðnaðarsambandsins:
Árið 1995 voru 300 í orkugeiranum, 300 í landbúnaðar- og sjávarútvegi 700 í byggingargeiranum og 500 í tækni- og þjónustustörfum.

Árið 2008 voru allar þessar tölur svipaðar utan þess að það voru tæplega 5.000 í tækni- og þjónustörfum. Sem sagt öll fjölgunin þar.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þeir þingmenn VG sem studdu ESB sviku auðvitað kjósendur sína. Þar sem að þeir voru og ERU á móti ESB.

Stjórnarsáttmálinn var ekki skrifaður fyrr en eftir kosningar eða í það minnsta ekki birtur fyrr en eftir þær.

Allveg furðulegt með suma menn hvað skoðun þeirra á tilteknu málefni, í þessu tilfelli ESB litar dómgreind þeirra á gerðum annara.

Allt í góðu að ath hvað býðst í ESB en að halda því fram að VG hafi ekki farið á bak orða sinna er vitleysa.

Jón Ottesen

Nafnlaus sagði...

Ég veit um hátæknifyrirtæki sem er í örum vexti og ætlaði að vera staðsett hérlendis af tryggð og ástúð við land og og þjóð þrátt fyrir að staðsetning erlendis væri mun hagkvæmari. Og þá hefur það ekkert með evrur að gera heldur einungis það að umsvifin eru á erlendri grundu. Eftir aðildarumsókn að ESB eru þjóðræknitilfinningar í raun óþarfar, og því ekkert til fyrirstöðu að huga að flutningi. Þannig að þú sérð Guðmundur að það er önnur hlið á teningnum líka. VG lofaði sínum kjósendum að standa á móti aðild að ESB þó svo þeir segðu að þeir myndu ekki setja sig á móti þjóðaratkvæðagreiðslu. Því sviku þeir sína kjósendur og ég veit um hartnær tug manna sem ætla aldrei að kjósa þá aftur vegna þessara svika.

Særindi kjósenda VG eru mikil þessa dagana. Um sjálfstæðisflokkinn veit ég ekki. Nenni ekki að eyða tíma í að hlusta á þeirra landsfundarályktanir eða annað. En VG kýs ég aldrei aftur.

Unknown sagði...

Innilega er ég ósammála þér Jón Ottesen (og nafnlaus). Það var alveg á hreinu löngu fyrir kosningar að SF og VG væru á öndverðum meiði hvað varðar inngöngu Íslands í ESB. Þetta áréttuðu allir helstu talsmenn VG en um leið var tekið fram að þó að VG og forysta VG væru þeirrar skoðunar að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan sambandsins þá ætlaði flokkurinn ekki að koma í veg fyrir að fjallað yrði um málið á skynsaman og yfirvegaðan hátt og að aðildarsamningur yrði borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er þjóðarinnar að meta hvort hagsmunum Íslands sé betur borgið utan eða innan ESB. Þetta er mjög lýðræðisleg og heilbrigð afstaða. Að vísu var uppi á teningnum hjá VG fyrir kosningar að framkvæma tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu en með ríkisstjórnarsáttmálanum var allur vafi tekinn af hvað varðar eina eða tvær þjóðaratkvæðagreiðslur.

Einu "svik" VG (og nú tala ég sem kjósandi VG) eru að bakka með tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu en að sama skapi hlýtur hverjum og einum, sem að einhverju leyti býr yfir ómengaðri og sjálfstæðri (þ.e. ekki flokksmengaðri) skoðun, að vera ljóst að það er út í hött að framkvæma tvöfalda þjóðaratvkvæðagreiðslu þar sem þjóðin er ekki í aðstöðu til að taka afstöðu til þessa stóra máls. Ég lít alalveganna svo á að ég geti ekki tekið afstöðu til ESB aðildar þar sem ég treysti hvorki andstæðingum né fylgjendum. Rök óg mótrök beggja fylkinga einkennast nefnilega af því að annar hópurinn trúir á jólasveininn og hinn trúir á grýlu. Ég trúi á hvorugt og ætla því frekar að kynna mér samninginn þegar hann liggur fyrir og leyfa honum að móta skoðun mína á hugsanlegri aðild að ESB.

Ég kýs VG hiklaust aftur.

Annars mjög fínn pistill hjá þér Guðmundur.

Nafnlaus sagði...

Sæll Haluni.
Þú færð ekki að kjósa sem slíkt eftir að aðildarsamningur liggur fyrir. VG samþykkti líka þann hluta frumvarpsins sem tiltekur að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli einungis ráðgefandi, ekki bindandi. Þú færð öðrum orðum að taka þátt í skoðanakönnun sem samfylkingin kallar þjóðaratkvæðagreiðslu. Tilgangslaust í raun vegna þess að þeir eru ekki þekktir fyrir málamiðlanir í þeim efnum. Við förum semsagt inní ESB nema stjórnin falli og aðrir taki við sem vilja leyfa okkur að vera með. Semsagt flokkur sem enn virðir hugtakið lýðræði hér á landi. Er hann til???

Nafnlaus sagði...

Flottur pistill hjá þér Guðmundur; þakka fyrir hann.

Ég fagna orðum Haluni, kjósanda VG, alveg sérstaklega af því að þau bera með sér skynsamlega og upplýsta afstöðu. Fyrst verðum við að sjá hvað er í boði og þá tökum við upplýsta afstöðu. Því miður er afstaða alltof margra VG liða afar þröngsýn hvað þetta varðar.

Ég þekki fullt af fólki sem er fylgjandi aðildarviðræðum við ESB, en engan sem vill fortakslaust vaða þangað inn. Ég þekki heldur engan sem telur aðild að ESB lausn allra okkar vandamála; það er ein bábyljan sem tröllríður umræðunni.

Héðinn Björnsson sagði...

Stjórnarsáttmálinn segir að utanríksiráðherra fái að bera fram umsóknarfrumvarpið og að VG muni ekki koma í veg fyrir að frumvarpið verði tekið til afgreiðslu í ríkisstjórn en að þingmennirnir séu ekki bundnir í atkvæðagreiðslu sinni. Það er því tóm steypa að halda því fram að það hafi verið stjórnarsáttmálinn sem hleypti þessu máli í gegn eða hafi valdið því að forusta VG kaus með frumvarpinu.

Er ekki eðlilegast að ætla að forusta VG sé einfaldlega hlynt umsókn um aðild að ESB og þar með aðild. Það er a.m.k. mín sýn á málið þó ég sé ekki ESB-sinni sjálfur. Ekki er hægt að ætla þeim að hafa sent það út til alls umheimsins að meirihluti stjórnvöld á Íslandi vildu ganga í ESB ef það væri ekki tilfellið.

Jónas Tryggvi sagði...

Ég þekki marga kjósendur VG, og vel flestir af þeim styðja aðildarviðræður við ESB og gerðu það þegar þau kusu VG í síðustu kosningum. Enda segir í stefnu VG fyrir síðustu kosningar; "Stórákvarðanir á borð við aðild að ESB á að útkljá með þjóðaratkvæðagreiðslu að undangenginni upplýstri og lýðræðislegri umræðu", og til þessa vísuðu stuðningsmenn VG sem kusu hann, trúandi því að þeir myndu fá að kjósa um hvort þeir vildu í ESB eða ekki, með samningana í höndunum.

Benedikt Sigurðar sagði...

Býsna langt síðan ég lenti í því að vera sammála þér.
Góður pistill
Kveðja
Bensi(nafnlaus Akureyringur)

Nafnlaus sagði...

Það sem VG á eftir að læra er að vera stjórn, hvort sem það er ríkisstjórn eða bæjarstjórn. Í þessari ríkistjórn kemur í ljós hvort þau verða talin stjórntæk ef svo verður ekki mun fylgið hrynja af þeim. Ef menn hafa ekki vit á að halda saminga þá eru viðkomandi ekki stjórntækir, það er svo auðvelt. ESB eða ekki það kemur í ljós eftir að samingar hafa náðst hvort það sé eitthvað vit að fara þarna inn. Enn einsog staðan er í dag með gengið er ekki slæmt að vera með fyrirtæki á Íslandi í útflutningi og svo erum við að verða með svo láglaun miðað við helstu samkeppnis lönd okkar.Ég fanga því að þettað ESB mál sé komið í höfn því að þessir 63 þurfa að fara að snúa sér að því að koma atvinnulífinu í gang, það fer ekkert að birta í okkar efnahagsmalum fyrr. Kveðja Simmi