laugardagur, 4. júlí 2009

Lækkum vexti og verðlag

Það eru nokkrir sem hafa hafnað því að ræða aðild að ESB og að skipta um gjaldmiðil. Sumir hafa afgreitt málið með því að þeir nenni að ekki að ræða svona skyndilausnir. Það blasir þó við að þetta er ekki skyndilausn, þetta er framtíðarlausn. En það er áberandi meðal andstæðinga þess að skipta út krónunni að þeir hafa ekki bent á neitt annað.

Íslenska krónan hefur verið nýtt af fjármálamönnum og vogunarsjóðum til þess að hagnast á óförum hennar og hún er svo lítil og bakhjarl hennar veikur að þeir geta auðveldlega skapað sveiflur sem eru þeim hagstæðar en bitna á íslenskum heimilum í formi falls krónunnar, hækkandi verðbólgu og vaxta.

Í nágrannalöndum okkar sem eru innan ESB er verðlag lægra, verðbólga 2 – 4%, vextir 4 – 6%. Þar ríkir stöðugleiki og þar er getur fólk gert langtímaáætlanir um uppbyggingu heimila sinna sem standast.

Fram hefur komið hjá öllum forsvarsmönnum sprotafyrirtækja að þau sjá ekki framtíð sína hér á Íslandi vegna krónunnar. Vaxandi fjöldi starfsmanna Össur, Marel, CCP og fleiri íslenskra fyrirtækja er erlendis. Forsvarsmennirnir segja að þeir gætu flutt þessa starfsemi heingað heim ef við værum innan ESB og með Evru.

Með aðild að ESB verður Ísland aðili að tollabandalagi ESB og tollar sem enn eru milli Íslands og ESB landanna falla niður og það mun leiða til töluvert lægra vöruverðs. Matvælaverð mun lækka um allt að 25% með inngöngu Íslands í ESB.

Kostnaður vegna viðskipta milli fyrirtækja innan ESB verða ódýrari og einfaldari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum og mun leiða til lægra vöruverðs.

Allmörg íslensk fyrirtæki hafa þegar skipt yfir í Evru. Það er nánast sama hvar borið er niður í ferðaþjónustu hér á landi öll verð eru tengd við Evru.

Vextir á íbúðarlánum myndu lækka töluvert og hin alræmda verðtrygging hverfa. Talið er að tilvist krónunnar kalli á 3 – 4% hærri vaxta hér á landi en þeir þyrftu annars að vera. Fyrir venjulega launamann þýðir þetta að um ein mánaðarlaun fara í þennan aukakostnað á hverju ári.

Í dag forðast fjárfestar Ísland vegna krónunnar, með aðild myndu viðskipti og fjárfestingar erlendra aðila aukast hér á landi.

Með aðild að ESB opnast aðgangur að mörgum sjóðum. Þar má nefna styrki til landbúnaðar og til byggðamála. Einnig yrði samstarf við lönd ESB öflugra á ýmsum sviðum eins og í mennta- og menningarmálum, rannsóknum og félagsmálum.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur.
Það er hættulegt að vera trúaður á að ESB geri eitthvað fyrir okkur fyrir ekki neitt, við verðum að líta á ókostina líka. Ég sé ekki fyrir mér eins og þú Guðmundur að allt sem þú listar upp fáist fyrir ekki neitt. Það má vera að ýmislegt breytist við inngöngu okkar í ESB en gleymum því aldrei að það verður ekki ókeypis og langt frá því. Ég hef oft farið til Evrópulanda og séð með eigin augum að ekki er allt eins og þú listar í pistli þínum. Til dæmis er auði þessara landa síst jafnara skipt en hér er um það eru allir sammála, mjög víða um lönd eru fátækrahverfi, betlarar á götum svo maður tali nú ekki um Sígauna og aðra minnihluta hópa sem eru forsmáðir af þessu vonda jöfnunarkerfi sem ESB-löndin hafa komið sér upp, þar eru ríkustu menn í heimi og þeir langfátækustu, þannig að fyrir launafólk segi ég NEI við ESB en fyrir auðmenn er gott að vera í ESB eins og á Íslandi því við erum með sömu reglur um allt sem lítur að peningum, þeir eru ofar öllu og stjórna öllu þar eins og hér, þetta veit ég að þú veist.
Ég get ekki með nokkru móti séð hvað kemur mönnum til að halda að ESB muni gera eitthvað fyrir litla þjóð norður við heimskautsbaug sem á auðlindir til sjáfar og sveita, fyrir ekki neitt, ESB er ekki góðgerðasamtök þvert á móti voru þau stofnuð til að gæta hagsmuna stórfyrirtækja í kola og stáliðnaði og eru mjög trú uppruna sínum enn í dag. Nei Guðmundur, minn gamli vinur, við fáum ekkert þaðan (frá þessum gömlu nýlendukúgurum) fyrir ekki neitt og fráleitt að stilla þessu þannig upp að ekkert nema gott hljótist af inngöngu í ESB, því miður er óra langur vegur frá því og ég segi aftur því miður.

Kær kveðja.
Logi Þórir Jónsson

Nafnlaus sagði...

Verðlag hefur alltaf verið lægra í nágrannalöndum okkar í Evrópu. Evra eða Líra, Escudo, Mark eða Frankar. Evran hefur reyndar híft vöruverð upp, td. um tæplega þriðjung í Portúgal eftir upptöku evrunnar. Hins vegar hafa lífskjör jafnast út á móti, laun hækkað.

Réttur mælikvarði á vöruverð er sem hlutfall af launum, ekki krónutalan ein og stök.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur. Þú hefur mikla trú á ESB og talar mikið um kosti þess að Ísland sækji um aðlid að sambandinu. Er það þitt mat að engir ókostir fylgi því að ganga í ESB?

SH

Nafnlaus sagði...

Lækun á verðlagi er í okkar hendi, enn við höfum svo ótrúlegan þrælsótta. Hvað er fólk að hugsa sem er enn að versla við Bónusveldið, lætur þettað veldi fá peningana sína. Ef við myndum hætta að versla þar myndi þettað veldi hrynja og aðrir koma inn á markaðinn. Lækkun vaxta kemur ekkert sjálfkrafa við verðum sjálf að berjast fyrir þvíog eins er með matarverð. Hef aldrei heyrt um að ESB lækki matarverð, hversvegna haldið þið að fólk fari frá Danmörku til Þýskalands og versli matin ? Bæði ríkin í ESB. Það er bara á Íslandi sem talað er um að ESB lækki vexti og matarverð.
Kveðja Simmi