Við skoðun á velferðakerfinu á þjóðveldisöld þá kemur fram að Grágás tengir Ómagabálk við Kristinna laga þátt, sem bendir til þess að velferðakerfið á þjóðveldisöld hafi í raun verið tveggja stoða kerfi.
Fyrsta stoðin, Ómagabálkur þar sem fram kemur í 1. gr. að „sinn ómaga á hver maður fram að færa hér á landi“. Frumskyldan var að fjölskyldan sá um sína og deildi því skv. Ómagabálk og fjármagnaði með eigin framlagi. Allt niður njörvað og ekki hægt að víkja sér undan á nokkurn hátt. En ef ómagaskyldir menn lýstu yfir vanefnum skv. 10. gr. voru ómagar gerðir að hreppsómaga og hreppnum gert skylt að framfæra viðkomandi þar til dæmt var í málinu.
Hreppurinn varð þannig að einskonar annarri stoð og fjármagnaði þessa framfærslu með skiptitíund skv. tíundarlögum. Talið er að Gissur biskup Ísleifsson hafi sett tíundarlög um 1100, en tíundarlögin eru hluti af „Kristinna laga þátt“ Grágás sem er í báðum elstu handritunum, Konungsbók og Staðarhólsbók. Báðar þessar bækur eru taldar vera ritaðar um 1250 til 1260.
Samkvæmt 45. gr. Kristinna laga þáttar (tíundarlaga) var hreppsmönnum gert skylt að skipta hvers manns tíund á fjóra staði (skiptitíund). Fjórðungur rann til þurfamanna (þurfamannatíund), innanhreppsmanna er þurftu á ómagabjörg að halda. Restinni var skipt á biskup, presta og kirkju skv. 46. og 47 gr.
Það fé sem skylt var að gefa þurfamönnum átti að vera í vaðmálum, vararfeldum, ull, gærum, mat eða kvikfé, öllu öðru en hrossum. Samkvæmt lögunum var öllum körlum og konum 16 ára og eldri skylt að greiða tíund. Erlendis greiddu menn 1/10 hluta tekna sinna sem samsvarar 10% tekjuskatti. Hér var tíundin ekki lögð á annað en þær 10% tekjur sem komu af skuldlausri eign. Hér var því tíundin eignaskattur, af hreinni eign.
Samkvæmt 40. gr. var sá er átti sex álna aura fyrir utan föt sín, hversdagsbúning, skuldlausa, skylt að greiða öln vaðmals eða ullarreyfi það er sex gerði í hespu, eða lambsgæru. Þá hækkaði greiðslan eftir því sem hrein eign var meiri.
Önnur stoðin í velferðakerfi Íslendinga á þjóðveldisöld var því einskonar gegnumstreymiskerfi, fjármagnað með eignaskatt eftir efnahag, þar sem þeir ríkustu lögðu mest af hendi. Skv. 10. gr. Ómagabálks virðist þó ekki hafa verið gert ráð fyrir að hreppurinn væri lengi með hreppsómaga og fjölmörg úrræði til staðar í Ómagabálk til að dæma einstaklinga ómagaskylda, ella sekta þá með háum greiðslum.
Þetta fyrirkomulag er lýsandi fyrir það sem við erum að upplifa í dag. Biskup, prestar og kirkjan tóku ¾ af skatttekjum en létu ¼ renna til lífeyrismála og ekki ólíklegt að hreppsmenn hafi tekið toll fyrir innheimtuna. Hér á landi áttu einungis svokallaðir embættismenn rétt á eftirlaunum á ellidögum. Auk þess að prestlærðir menn fengu hlut af skiptitíundinni, guldu þeir svokallaðan spítalatoll. Hann greiddu prestlærðir menn frá því um 1300 til loka 15 aldar. Spítalatollurinn var notaður til þess að reka „Lærðra manna spítala“ eða prestaspítala. Einn þeirra var að Kvíabekk í Ólafsfirði og annar í Gufunesi hér við Reykjavík og var ætlaður landsetum konungs.
Fyrsti vísir að lífeyrissjóði samkvæmt íslenskum lögum mun vera frá árinu 1855 þegar sett voru lög „um skyldu embættismanna til að sjá ekkjum sínum borgið með fjárstyrk eftir sinn dag.“ Fyrsta frumvarp um alþýðutryggingar eða stofnun styrktarsjóðs handa alþýðufólki var flutt á Alþingi 1887 af Þorláki Guðmundssyni. Frumvarpið var samþykkt í Neðri deild en fellt í Efri deild m.a. með þeim rökum Sr. Arnljóts Ólafssonar að í frumvarpinu fælist „communisme“. Fyrsti lífeyrissjóðurinn í núverandi mynd var stofnaður 1921 fyrir barnakennara og embættismenn sem síðar varð að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
Ríkið sér um sína og þegar skatturinn dugir ekki fyrir réttindum, er það sótt til skattgreiðenda. Fyrir stuttu vildu Hreppsmenn koma á sértækum eftirlaunalögum sér til handa og leggja þeir hinir sömu til að að almennir lífeyrissjóðir verði skattlagðir til að bjarga réttindum ríkisstarfsmanna og viðhalda stjórnlausum ríkisstofnunum, sem þurfa ekki og jafnvel kunna ekki að draga saman í rekstri. Sagan endur tekur sig hjá valdastéttin og finnur sig í tillögum Sjálfstæðismanna um fyrirfram skattlagningu lífeyrissjóða í raun.
1 ummæli:
Fróðlegt og vel skrifað
Takk fyrir
Skrifa ummæli