Eitt af því sem maður lærir við þá vinnu að reyna að tryggja stöðu launamanna og að réttmætur hluti arðs renni til hinnar vinnandi handar, eru hin ítrekuðu og ósanngjörnu afskipti stjórnvalda, eða réttara sagt valdhafanna. T.d. er þekkt og hefur komið fram ítrekað undanfarið að forsvarsmenn valdaklíkunnar hafa hiklaust talið að eðlilegt sé að halda í krónuna því þá sé hægt; “blóðsúthellingalaust að leiðrétta ósanngjarna kjarasamninga verkalýðsfélaganna.” Hér er ég að vitna orðrétt í helstu talsmenn valdhafanna undanfarna áratugi, Hannes Hólmstein og Pétur Blöndal.
Ítrekað var það svo að þó samninganefndarmenn launamanna væru á kraftmiklum bílum náðu þeir ekki heim til sín úr Karphúsinu eftir undirritun kjarasamninga, áður en ráðherrar voru búnir að fella gengið um nær sömu prósentutölu og samið var um. Eins og þeir sem hafa fylgst með samningagerð þá hefur frá gerð Þjóðarsáttarsamninga ætíð verið valin sú leið að tryggja stöðugleika og þá um leið vaxandi kaupmátt og það þýddi að gera varð kjarasamninga í samvinnu við stjórnvöld.
Aldrei brást það að stjórnvöld sviku þær yfirlýsingar sem þau gáfu út við gerð kjarasamninga. Daginn eftir að búið var að afgreiða kjarasamning kom ætíð í ljós að ráðherrar Sjálfstæðismanna með Baldur Guðlaugsson yfirráðherra í broddi fylkingar tóku upp allt aðra túlkun á því sem sagt hafði verið. Baldur sýndi okkur svo hvern mann hefur að geyma nokkru áður en Landsbankinn féll. Við landsmönnum blasir hverjir eru innstu koppar í búri Landsbankaspillingarinnar, menn úr forystusveit valdaflokksins.
Við höfum á undanförnum áratugum lifað í þeirri veröld að Kolkrabbinn og Samvinnufélögin skiptu á milli sín öllu sem bitastætt var og forysta stjórnarflokkanna gekk hiklaust erinda útvalinna. Þessa daganna blasir við okkur í hverjum fréttatíma að þó svo valdastéttin hefði skipt með sér ríkisbönkunum, þá sat hún áfram að kjötkötlunum og vinnubrögðin hafa verið hin sömu og afleiðingarnar eru jafnhrikalegar og áður.
Það hefur komið fram undanfarið að bankarnir lánuðu valdastéttinni svimandi upphæðir. Þar blasir svo vel við hið tvískipta þjóðfélag. Valdastéttin sem hyglaði sjálfri sér með lánum sem greinilega var ekki lagt upp úr endurgreiðslu, en okkar hinum stóðu til boða hin hefðbundnu lán með veðum og gjalddögum þar til lánin eru greidd. Valdastéttin lætur svo eins og áður þegar hún hefur staðið að stórfelldum eignatilfærslur látið almenning um að borga brúsann.
Valdastéttin er vön þessu fyrirkomulagi og íslendingum virðist svo eðlislægt að láta fara svona með sig. Hyglingar, klíkuskapur og ófagleg vinnubrögð. Slappir fréttamenn sem slepptu valdastéttinni í spjallþáttunum. En ekki skorti á sjálfshólið um að valdastéttin væri að skapa efnahagsundur og og fréttamennirnir slepptu öllum óþægilegu spurningunum. Enda hefur komið fram að ef þær voru settar fram þá var viðkomandi fréttamaður í raun að segja upp starfi sínu.
Öll þekkjum við hvernig valdastéttin hefur laskað íslenska umræðu með en durteknum upphrópunum og yfirlýsingum sem engar innistæður voru fyrir. Beitt áhrifum sínum til þess að taka af dagskrá óþægileg mál og setja á dagskrá umræðu um eitthvað sem var tómt rugl. Þar blasir t.d. við umræðan um eftirlaunaósóman, fjölmiðlamálið, Eyjabakkanna og þannig má lengi telja.
Það blasir við öllum að annað hvort voru forsvarsmenn og þingmenn valdastéttarinnar gjörsamlega sneiddir getu til þess að takast á við efnahagsstjórn eða þá, sem er reyndar nokkuð víst, valdastéttin var blinduð af græðgi bæði til valda og fjármuna og henni töm þessi vinnubrögð.
Það sem íslensku valdastéttinni þótti eðlileg vinnubrögð, þótti útlendingunum skortur á faglegum vinnubrögðum. Sigurganga íslenska efnahagsundursins, sem m.a. stjórnendur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans ásamt nokkrum ráðherrum reyndu að telja umheiminum í trú um byggðist á því að búta fyrirtæki niður hreinsa út allar eignir og skilja fyrirtækin eftir sem tóma skel sem var ofurveðsett.
Það hefur komið svo berlega fram í viðtölum við ráðamenn nágrannaríkja okkar og þeir treysta ekki íslenskum ráðamönnum. Þeim hefur svo oft ofboðið hvernig íslenskir ráðamenn hafa hagað sér og hvernig þeir láta svik og pretti viðgangast. Sparifé almennings er allstaðar í veröldinni hlutur sem stjórnmálamenn vernda með öllum brögðum. Það hefur ekki gilt hjá íslenskum ráðamönnum, þeir hafa ítrekað staðið fyrir eignatilfærslum og látið sparifé landsmanna gufa upp.
Það er ein helsta ástæða þessa að harðlínuhópurinn í Valdaflokkunum vilja halda í krónuna. Þegar íslenskir ráðamenn slepptu bönkunum lausum í sparifé nágrannaríkja okkar og afnámu bindiskylduna, þá var erlendum ráðamönnum einfaldlega nóg boðið. Þess vegna sitjum við svo illilega í Icesave ruglinu. Rannsóknir sérstaks saksóknara og Rannsóknarnefndar Alþingis mun leiða í ljós að hrunið var af völdum slæmra vinnubragða stjórnvalda og í skjóli þess þrifust svik og svindl og valdastéttin fékk sitt. Uppræting valdastéttarinnar og gagnsæ vinnubrögð eru okkur nauðsyn, svo þetta endurtaki sig ekki. Helsta ástæða andstöðu valdastéttarinnar við ESB umræðu er einmitt ótti hennar við það gagnsæi sem hún verður að taka upp.
12 ummæli:
Heyr Heyr !
- Keilir.
Þessa áminngu á að setja í allar kennslubækur grunnskólanna
Takk fyrir frábæra pistla
Nonni
Eins og talað úr mínu hjarta. Keep up the good work!
Sæll Guðmundur.
Góð grein og ég er sammála öllu sem þú segir, en þá kemur upp sú spurning.
Af hverju gerðuð þið ekkert í þessu?
Af hverju léuð þið þessa kóna koma svona fram við ykkur, gátuð þið ekki líst því yfir að ef ríkið myndi ekki halda sig á mottunni þá yrði farið í alsherjar verkfall?
Með Bestu Kveðju
Friðrik Tryggvason
Sæll Friðrik
Hvernig kaust þú þegar kosið var um kjarasamninga?
Samkvæmt Pálslögum sem valdastéttin setti voru settar miklar hömlur á verkföll.
Og hverjir voru kosnir aftur og aftur til valda á Alþingi?
Eftir að hafa þesið þessa grein get ég aðeins kmoist að einni niðurstöðu.
Rosalega hafið þið, leiðtogar verkalýsðins staðið ykkur illa!
Árum saman var sami leikurinn leikinn. Og þið lékuð með eða fenguð engu breytt.
Sama er hvort á við - þið hafið ekki staðið ykkur.
Takk fyrir fínann pistil.
Algerlega sammála. En til að gera og framkvæma það sem þú talar um þarf hvorki meira né minna en byltingu. Þú áttar þig á því Guðmundur er það ekki?
Það er hrikalegt hvernig þróunin hefur verið. Þingmennn hafa rætt um það á opinberum vettvangi að svo hafi verið komið að tilvist þeirra á Alþingi var tilgangslaus. Ráðherrar settu fram frumvörp og þeim skipað að samþykkja þau umyrðalaust.
Tilgangslaust var fyrir þingmenn að leggja fram frumvörp. Vinir og skoðanabræður settir í stöður héraðs- og hæstaréttardómara og þannig má lengi telja. Fámenn valdstétt var búinn að hrifsa til sín öll völd.
Á hv erju ári tókust aðilar vinnumarkaðs á við ráðamenn til þess að fá þá til þess að standa við gerða samninga. Þetta kölluðu ráðamenn og kallarar þeirra ólýðræðisleg afskipti. Það væru þingmenn sem væru kosnir til þess að fara með völdin ekki aðrir.
En hér skrifa svo senditíkur valdhafanna í aths. dálkinn og saka verkalýðshreyginguna um þetta!!?? (alveg íotrúlegt)
Við vitum öll að hvernig þessar bullur hafa reynt allt sem þær geta til þess að eyðileggja almenna umræða ef þeim þykir hún vera farinn að verða óþægileg.
Og það voru þessar bullur sem smöluðu mönnum til þess að kjósa yfir sig sömu valdahafana aftur og aftur. Þær féngu sínar dúsur fyrir.
Þetta fín greining og alveg rétt sem sagt er um hinar skoðanalausu senditíkur. Þær hafa ekki valdið minni skaða en valdaklíkan og eiga sinn þátt í að skaða umræðuna.
Ég er alveg sammála þettað er allt Guðmundi og þeim kónum sem eru í verkalýðshreyfinguni. Líka það að fólk kýs alltaf sömu mennina á þing eða í bæjarstjórnir, líka það að fólk ferðast um alla veröld og tók svo lán fyrir öllu einsog morgun dagurinn kæmi ekki. Það honum og hans liði líka að kenna að fólk verslar í Bónus og fyrirtækjum þeirra feðga einsog ekkert sé. Enn ég segi enn og aftur þettað fólk kyssir vönd kvalar síns. Orð fyrrum markaðstjóra OLÍS " Fólk er fífl " þau sannast á hverjum degi þegar maður sér fólk hópast í þessar verslanir þessara manna. Það var ótrúlegur fjöldi fólks sem kom sér sjálft í þessar aðsæður í fjármum sjálf, skuldbindingar sem það hafði aldrei möguleika að standa við. Og svo segjum við að við séum velmentuð og upplýst þjóð, samt högum við okkur ekki þannig. Það er um að gera að ráðast á verkalýðsforkálfana og kenna þeim um allt. Nei við skulum frekar taka þá fyrir sem komu okkur í þettað skuldafen sem við erum komin í . Kveðja og óskir um góða helgi Simmi
Frábært Guðmundur. Nú þurfa allir sem vettlingi geta valdið að segja sannleikann eins og hann blasir við okkur.
Byltingar er þörf í þessu samfélagi spillingar og vinavæddrar stjórnsýslu. Það má gera með lagasetningum þar sem æviráðningar eru afturteknar og faglegar ráðningar teknar upp. Og utanþingsstjórn getur ein gert þetta!
Skrifa ummæli