þriðjudagur, 9. febrúar 2010

Afleiðingar

Íslenskir stjórnmálamenn sköpuðu skilyrði fyrir útrásina með einkavæðingu ríkisbankanna og voru virkir þátttakendur í að mæra Íslenska efnahagsundrið um víða veröld. Það má finna í mörgum greinum og tilvitnunum í fyrri viðtöl. Þökk sé netinu, blogginu og google.

Stjórnmálamenn geta ekki lengur treyst á að eldri athafnir og ummæli gufi upp í örminni fólks. Þessa dagana hrópar það á okkur hvernig sumir stjórnmálamenn hafa tamið sér í gegnum tímana rás að segja hiklaust eitt í dag og svo allt annað nokkru síðar. Bara eitthvað sem passar við það umhverfi sem viðkomandi er staddur í hverju sinni.

Íslenskir ráðamenn vissu fyrri hluta ársins 2008 að "hrunið" blasti við. Þrátt fyrir það mærðu þeir útrásina erlendis fram að Hruni og jafnvel eftir það og eru nú sakaðir um að hafa blekkt yfirvöld í Hollandi varðandi stöðu Landsbankans. Og um það liggja fyrir gögn á netinu.

Það eru líka til viðtöl m.a. við Davíð Oddsson, sem sýna að íslensk stjórnvöld tóku þátt í að fullvissa bresk og hollensk yfirvöld um að Icesave-reikningarnir væru traustir og lofuðu ríkisábyrgð á innistæðum. Það er því sárgræðilegt að okkur sé gert að hlusta nær í hverjum einasta fréttatíma RÚV viðtöl við Bjarna Ben og Sigmund Davíð þar sem þeir úthúða Icesave-samning, sem núverandi stjórnvöld neyddust til þess að gera við Holland og Bretland í kjölfar stöðu sem sköpuð var af fyrri ríkisstjórnum með sjálfstæðismenn í broddi fylkingar.

Málflutningur stjórnarandstöðu hefur snúist um það eitt að beita öllum brögðum til að komast hjá umræðu um afleiðingar fyrri gjörða. Gjaldþrot Seðlabanka, óstjórnlega útþenslu ríkisbáknsins, innistæðulausa lækkun skatta á þeim hæst launuðu og mestu skattahækkanir sem gerðar hafa verið í vestrænu ríki á þeim sem minnst máttu sín.

Gunnlaug H. Jónsson hagfræðingur birti grein á visi.is þar sem hann dregur fram hvað það kosti þjóðina að ganga ekki frá Icesave málinu og kemst að þeirri niðurstöðu að meðan málið liggur óafgreitt kosti töfin 75 milljarða á mánuði, reiknuð í minnkandi vexti þjóðarframleiðslu.

Gunnlaugur segir m.a. : "Margir hafa bent á að lausn á Icesave-deilunni sé forsenda fyrir sátt við alþjóðasamfélagið. Það er beisk pilla að kyngja. Hafa verður þó í huga að það eina sem þarf til þess að ná samkomulagi í Icesave-deilunni er að skrifa upp á skuldabréf sem reiknað hefur verið að núvirði til 189 milljarða króna. Með öðrum orðum lausnin snýst um peninga. Hvað kostar að skrifa upp á skuldabréfið og hvað kostar að skrifa ekki upp á skuldabréfið. Sé sú tilgáta rétt að lausn á Icesave-deilunni sé forsenda fyrir því að rjúfa kyrrstöðuna og ná 3% hagvexti á ný þá er rökrétt ákvörðun auðveld. Hver mánuður sem líður án þess að eðlilegum 3% hagvexti sé náð kostar þjóðina 75 milljarða króna Icesave-skuldbréfið kostar minna en þriggja mánaða kyrrstaða. Náum sátt við alþjóðasamfélagið, eyðum óvissu, rjúfum kyrrstöðu og stuðlum að hagvexti, minnkandi atvinnuleysi og hærri launum."

Örvæntingarfullir í þessari stöðu mæta Bjarni, Sigmundur og fótgönguliðar þeirra í fréttatímana og boða „Bara einhvernvegin öðruvísi Icesave samning." Þeir viðurkenna nú að gera verði samning og við verðum að borga. Hvað skyldu það nú vera margir sem skildu málflutning þeirra þannig að það væri valkostur að borga ekki og þjóðaratkvæðagreiðslan myndi snúast um það. Núna viðurkennir formaður Framsóknarflokksins að nægar eignir ættu að vera til að borga upp kröfurnar. Það er klárt að enginn vill borga þetta, en menn verða að standa í fæturnar og h0rfast í augu við eigin stöðu, það virðist vera þingmönnum sjálfstæðismanna um megn.

Við blasa stjórnarslit og kosningar. Verkefnin sem komið hefur verið í veg fyrir séu unnin, standa enn óleyst og eru mun erfiðari en Icesave-samningurinn, ekki síst vegna þess hversu miklum skaða er búið að valda með málþófi.

Líklega þarf að skera niður ríkisútgjöld líklega um allt að þriðjung, segja upp umtalsverðum fjölda ríkisstarfsmanna, bæði vegna þess að of margir voru ráðnir á þennslutímum og skattar skornir of mikið niður þegar þenslan stóð sem hæst. Nú ekki síður verður vandi að finna leið til þess að gera upp gjaldþrot Seðlabankans.

Og atvinnulífið er komið með uppdráttarsýki.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er ekki allt í lagi heima hjá Guðmundur minn. Trúir þú því í alvöru að hinir tveir fyrri Isave samningar séu í lagi. Hvernig væri að þú gæfir komment á önnur óhæfuverk ríkisstjórnarinnar eins og t.d. blessaðan umhverfisráðherrann og hennar gjörðir fyrir norðan og sunnan. Er í lagi að Landsvirkjun hendi 3,5 milljörðum út um gluggan vegna þess að fyrirtækið greiddi 19 milljóna króna reikning. Hefur þú kynnt þér samþykktir þorlákshafnar og fleiri sveitarfélaga um slík mál samþykkt af sama ráðuneyti. Þar er fordæmi og hvað segir þú. Ertu álgerlega ófær um að gagnrýna ríkisstjórnina og telur þú virkilega að ríkið eigi að reka banka.

Hólmfríður Bjarndóttir sagði...

Silfurskeiðadrengirnir BB og SDG bera ekki skynbragð á gangverk samfélagsins líkt og fólk sem verður að hafa fyrir öllu sínu. Að fæðast inn í auðlegð er auðvitað ágætt, engar áhyggjur af öflun peninga til daglegra þarfa. Áhyggjurnar eru af því hvernig sé hægt að ávaxta auðinn, gambla með auðæfi ættarinnar og síðar samfélagsins.
Völdin skita öllu, meðan hagur hins almmenna manns er settur til hliðar.

Skelfilegt að slíkir piltar hafiumboð og völd til að teyma þjóðina enn lengra út í fenið.

Guðmundur sagði...

Maður á vitanlega ekki að svara nafnlausum mönnum sem skella fram óröskstuddum fullyrðingum. En mér finnst einkennilegt að blanda heimili mínu inn í þennan málflutning.

Það er allt í fínu heima hjá mér, reyndar eru börn mín í vandræðum vegna þess hvernig efnahagstefna Sjálfstæðismann fór með þau.

Einnig eru þarn fullyrðingar um mér finnist eitthvað, sem ég hef aldrei sagt. Þessi aðferð nafnlausra að gera fólki upp skoðanir og úthúða því svo

Annars þakka ég hinum gríðarlega mörgu sem heimsækja þessa síðu og þau málefnanlegu aths. sem setta eru fram.
Guðmundur

Unknown sagði...

Með því að standa í vegi fyrir því að hægt sé að klára Icesave fá þeir kumpánar BB og SDG tækifæri til að vera daglega í fréttum og segja landsmönnum að ríkistjórnin sé að leika sér að því að skuldsetja þjóðina. Með aðstoð útvarps allra landsmanna fer áróðursbragð þeirra að virka. Margir íslendingar eru svo vankaðir að þeir eru farnir að trúa því að skuldirnar séu núverandi ríkisstjórn að kenna.
Finnst fólki ekki athyglin og tíminn sem SDG fær og hefur fengið í fjölmiðlum ótrúlega langur miðað fylgi flokks hans á landsvísu.

Nafnlaus sagði...

Á hverjum degi verða þingmenn þá sérstaklega Sjálfstæðisflokks uppvísir að lygum og spillingu. Tengslum við gjörspillta veröld útrásarvíkinga.
Það er óásættanlegt að þeir skuli fá að koma fram undir nafni flokksins. Ég er búinn að fá nóg og mun ekki kjósa flokkinn fyrr en Bjarni, Þorgerður, Guðlaugur Þór, Illugi og Tryggvi Þór hverfa úr þingmannaliðinu.
Kristín, fyrrv. kjósandi xD