miðvikudagur, 24. febrúar 2010

Facesave fólkið

Icesave-deilan hefur valdið því að allmörg fyrirtæki eru í umtalsverðum vanda vegna fjármögnunar og skulda. Deilan er búinn að koma Íslandi á ruslahauginn, áhættuálag er hátt og vextir svo háir að fyrirtækin geta ekki tekið lán til framkvæmda.

Sama hvernig á það er litið þá eru það launamenn á almennum vinnumarkaði, sem eru helstu þolendur í þeirri stöðu sem stjórnmálamenn eru búnir að koma Icesave-málinu í. Það eru nefnilega svo mörg önnur mál sem hanga á því að þetta mál verði leyst.

Lauslega má áætla að a.m.k. 1.000 manns hafi misst vinnuna vegna deilunnar og líklega mun að auki tvöfaldur sá fjöldi missa vinnuna vegna Icesave á næstu vikum. Það er ekki hægt með nokkru móti að sjá að Ísland sé að vinna einhver lönd með þessari deilu, nema þá að einhverjir stjórnmálamenn telja sig þurfa að komast í "facesave" eins maður heyrir svo víða á kaffistofum vinnustaðanna. (Hér vísa ég í síðasta pistil)

Í umræðu um Icesave á kaffistofunum er bent á að „facesave“fólk séu undantekningalaust einstaklingar í öruggum störfum, sem standi að því að kynda þetta bál og viðhalda. Þingmenn og einstaklingar sem vinna hjá hinu opinbera eða hjá hálfopinberum fyrirtækjum eru gerendur í deilunni og skópu hana með innihaldslausu málþófi og sundrungarræðum á Alþingi síðasta sumar, til þess að komast í „facesave“ með því að komast hjá því að ræða þann gríðarlega vanda sem þessir hinir sömu einstaklingar höfðu komið Íslandi í og leiddu til Hrunsins.

„Facesave“fólki virðist vera slétt sama þó það leggi í rúst fjölmörg fyrirtæki og heimili launamanna á almennum vinnumarkaði. Ef einhver bendir á öll götin í málflutningi þeirra, eru þeir hinir sömu úthrópaðir sem landráðamenn, eða eitthvað álíka geðfellt, sem reyndar einkennir allan málflutning „facesave“fólks.

Hér með er skorað á „facesave“fólkið að stíga út úr hinu örugga kampavínsumhverfi sem þeir hafa skapað sjálfum sér, kostað af hinum venjulega launamanni með kaupmáttarrýrnun, og koma út á hin almenna vinnumarkað og sjá hvaða hryðjuverk þeir hafa unnið. Hverjir það eru sem eru í raun landráðamenn.

Á leikvangi „facesave“fólksins liggja í valnum störf venjulegs launafólks og heimili venjulegs fólks sem stendur í venjulegri baráttu við að halda saman sinni venjulegu fjölskyldu og skapa henni venjulegt mannsæmandi líf.

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

facesave er fallegra orð heldur en ICESLAVE.

Ásta Hafberg sagði...

Þú ert ágætur. Ég er einn af þessum svokölluðu "facesave" einstaklingum og þekki þó nokkra llíka. Það er alltaf mjög slæmt að alhæfa um hluti og fólk.
Ég var skorin niður í meðallaunuðu starfi rétt fyrir Jól, jólagjöfin í ár.
Ég þekki marga í svipaðri stöðu.
Icesave fyrir mér snýst ekki um hvort eigi að borga eða ekki, heldur að samningar sem gerðir verða séu viðráðanlegir fyrir mig og komandi kynslóðir. Þetta snýst um réttlæti og siðferði.
Ég keypti mér gamalt ódýrt hús út á landi og tók enginn myntkörfu lán. Ég fór ekki offari í skuldasetningu heimilisins og á þó 5 börn. Samt mun ég þurfa að greiða skuldir manna sem létu eins og litlir strákar í sandkassa og bjuggu til peninga úr engu.
Ég hef sjálf unnið með frumkvöðlum innan ferðaþjónustunnar og veit hvernig fyrirtækja umhverfið lítur út í dag.
Eftir því sem ég best veit er þorri meðalstórr og lítilla fyrirtækja í betri málum en hin stóru.
Ég var venjulegt launafólk fram að jólagjöfinni fínu og þykir málflutningur þinn í þessari færslur frekar ódýr og settan fram án þess að taka til fleiri þátta í þessu máli, sem er þó nauðsynlegt ef einhver heildarmynd á að skapast.

Hjörtur J. Guðmundsson sagði...

Það hefur nú ítrekað sýnt sig að vel var hægt að komast að mun betri samningum við brezk og hollenzk stjórnvöld ef aðeins hefði verið haldið almennilega og af þfestu á málum strax í upphafi, á fyrst og fremst af núverandi ríkisstjórn. Ef það hefði verið gert hefði vafalítið ekki þurft allan þann tíma sem farið hefur í þetta mál. Ábyrgðin er þannig fyrst og fremst núverandi stjórnvalda.

Nafnlaus sagði...

Ásta - það hefur aldrei staðið til að þú greiðir skuldir annarra. Það eru inneignir fyrir umtalsverður hluta Icesave. Auk þess verður haldið áfram að greiða inn í Tryggingarsjóðinn og hann mun endurgreiða það sem upp á vantar.

Hjörtur - Andstæðingar samninga og hafa alltaf skautað framhjá að það eru endurskoðunarákvæði í núgildandi samningum. Auk þess er það að koma þessa dagana að það sem okkur stendur til boða er ekkert annað en það sem alltaf hefur staðið til boða. Það er heimild til endurskoðunnar vaxta í núgildandi samningum

Nafnlaus sagði...

hahaha facesave - mjög sannleikshlaðið orð...

en eru rafiðnaðarmenn jarðtengdari í þessu máli en aðrir? Mér finnst eins og allt samfélagið sé búið að tapa sönsum og núna þora fáir að taka málstað raunsæis í þessu máli.

kv.
Haukur

Nafnlaus sagði...

Vel mælt og hverju orði sannara Guðmundur.

Unknown sagði...

Mér finnst Guðmundur setja þetta rétt upp. Þetta er bara eins og launabarátta. Hvað ertu tilbúin(n) að fórna miklu fyrir hærri laun. Spurningin er hvað þarftu að fá mikla launahækkun til að geta staðið í rúmlega árs verkfalli?
Ég held að við þyrftum að losna algerlega við Icesave til að vinna upp fórnarkostnaðinn sem er búinn að fara í þessa vitleysu

Blár sagði...

Það sem þú ert einn af betri "verkalýðsrekendum" tek ég mark á þér.

Á hinn bóginn finnst mér það vera ódýr lausn að kyngja þessum pakka sem fjárglæframenn bjuggu til. Ég efast ekki um herkostnaðinn við að láta fara illa með sig. En við eigum pínulitla sjálfsvirðingu eftir þeir sem þú kallar "facesave" fólk.

Nafnlaus sagði...

Ég ráðlegg þér nafni að hætta að moka í þessari holu, eftir því sem hún dýpkar meira þá verður erfiðara að komast upp. ;-)
Guðmundur Jónsson

Nafnlaus sagði...

Hér á þessari síðu hefur farið fram einhver raunsæasta umræðan um Icesave. Bent hefur verið á hvernig stjórnarandstaðan hefur vísvitandi villt um fyrir fólki og farið með rangar og alltof háar tölur. Ætíð talað um heildarskuldir og vexti af allri upphæðinni, þó svo að fyrir liggi að það eru til innistæður fyrir umtalsverðum hluta skuldarinnar. Og hér hefur verið dregið afskaplega skilmerkilega fram hver ábyrgð íslendinga er. Hvernig fyrri ríkisstjórnir og Alþingi hafa gengið frá málum. Einungis hér hefur verið bent á hvernig stjórnarandstaðan hefur í raun verið að ráðast að grunni þessa samfélags. Þess vegna verður maður svo sorgmnæddur þegar lesnar eru sumar athugasemdanna.
Gunnólfur

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir frábærar greiningar á Icesave. Haltu áfram, þú ert sá eini sem stendur í fæturna fyrir verkafólkið

Nafnlaus sagði...

Þaðer greinilegt að þeim fer hratt fjölgandi sem eru sömu skoðunnar og þú Guðmundur

"Liggur það ekki ljóst fyrir að Íslendingar samþykkja greiðslu innstæðna upp að lágmarkstryggingu og afgangurinn af deilunni snýst um vexti og greiðsluskilmála? - Eignir Landsbankans eru taldar duga fyrir 90% af þeirri upphæð, hugsanlega allri upphæðinni. Bretar og Hollendingar bjóða vaxtaleysi fyrir 2009 og 2010. Ef tækist að koma eignum Landsbankans í verð fyrir árslok væri hægt að greiða lánið strax og sleppa við vexti.

Ég er ekki að segja að það gangi fullkomlega upp. En erfitt er að sjá af þessu að mikið beri í milli. Hvers vegna drífa menn einfaldlega ekki í því að leysa þetta mál svo hægt sé að snúa sér að öðru?

Er meira freistandi að draga það á langinn, stuðla að frosti í atvinnulífinu vegna fjármagnsskorts (enginn vill lána okkur á skikkanlegum kjörum) og stíga síðan í pontu á Alþingi til að skamma ríkisstjórnina fyrir aðgerðaleysi í atvinnumálum?

Hvers konar lýðræði er það að við séum á valdi Framsóknarflokksins, 14 prósenta flokks, um það hvort við leysum Icesave-deiluna eða höldum áfram að dýpka kreppuna?"

Þetta er á Pressunni
Höf. er Ágúst Borgþór Sverrisson

Kv Úlfur

Nafnlaus sagði...

Góður Guðmundur - eins og venjulega
Kv Ásta

Nafnlaus sagði...

Úff, ég mæli nú með því að þú haldir áfram að vinna fyrir þá sem borga launin þín.
Ég kannast ekki við að IMF, ESB eða Parísarklúbburinn borgi þér fyrir hagsmunagæslu, nema ég hafi rangt fyrir mér.
Sú staða sem uppi er, var ekki tilkomin vegna þess sem þú nefnir.
Það sem þínir launagreiðendur þurfa á að halda er sterk verkalýðsforysta sem berst fyrir því að hlutirnir séu færðir í rétt lag.
Í dag eru bara fimm sjálfboðaliðar að vinna fyrir fjölskyldurnar í landinu, það er Hagsmunasamtök heimilanna. Enginn, og ég endurtek enginn, af öllum þeim sem þiggja laun og fríðindi frá launþegum, þar með talin verkalýðshreyfingin öll, er að gera rassgat til að hjálpa þeim tug þúsundum heimila sem eru á beinustu leið í gjaldþrot vegna gjörða annarra. Ég vil bara vinsamlegast benda þér á að nota tíma þinn í annað en að lobbía fyrir Alþjóða Gjaleyrissjóðinn á launum frá rafiðnamönnum.

Ég skil reyndar vel þína afstöðu, en málið er bara alvarlegra en svo að það sé bara hægt að kvitta upp á greiðsluseðil fyrir hundruða milljarða skuldir sem okkur ber engin skylda til að greiða og mun aðeins gera íslendinga að skuldaþrælum um alla framtíð.

Ég hef fulla samúð með þeim sem skortir vinnu en það er ekki þeim að kenna sem ekki vilja borga skuldir Landsbankans og bjórgólfanna. Það er algerlega þeim að kenna sem stofnuðu til þessarra skulda, þeir eru Björgólfur og félagar. Það veist þú vel.

Kveðja, feisseif.

Nafnlaus sagði...

Jóhann Hauksson á DV.is

En var fall íslensku bankanna kerfishrun?

Þrír íslenskir bankar fóru á hausinn.
Aðeins skuldbindingar eins þessara banka, Landsbankans, féllu á Tryggingasjóðinn.
Þriðjungur Landsbankans, það er innlendi hlutinn, var færður úr hinum fallna banka í nýjan NBI-banka.
Þá stóðu eftir tveir þriðju hlutar af gamla bankanum sem féllu á Tryggingasjóðinn.
Allt bendir til þess að þrotabú gamla Landsbankans eigi nú um 90 prósent upp í þær skuldbindingar sem féllu á Tryggingasjóðinn.
Þannig má áætla að 10 prósent af tveimur þriðju hluta gamla Landsbankann falli á Tryggingasjóðinn.
Það hlýtur að teljast afar ámælisvert að Tryggingasjóður innstæðueigenda standi ekki undir 10 prósentum af 2/3 hlutum af falli eins banka, Landsbankans. (Þetta eru varla nema 6 til 7 prósent af falli Landsbankans.)
Horft á málin frá þessum sjónarhóli hefur ekkert kerfishrun orðið. Aðeins féllu 6 til 7 prósent af einum banka – og ekki þeim stærsta – á Tryggingasjóð innstæðueigenda.

Auðvitað var bankakerfið orðið of stórt fyrir Tryggingasjóðinn og íslenska hagkerfið. Þarna liggur mikil vanræksla og tómlæti íslenskra embættismanna og stjórnmálamanna.
Engu að síður verður það að teljast fráleit staða að Tryggingasjóður innstæðueigenda standi ekki undir skitnum 6 til 7 prósentum af falli eins banka.