laugardagur, 27. febrúar 2010

Hver stjórnar?

Eins og staðan er nú þá blasir þjóðaratkvæðagreiðslan við. Ég er fylgjandi því að mál sem hafa afgerandi áhrif á íslenskt samfélag eigi að bera undir þjóðina. En það þarf að vera ljóst um hvað sé verið að kjósa. Nú er liggur fyrir tilboð sem gerir þau lög sem greiða á atkvæði um marklaus.

Það eina sem fæst út úr þjóðaratkvæðagreiðslunni er staðfesting á að landið er stjórnlaust. Vitanlega gerðu Bretar og Hollendingar kröfu um að stjórnarandstaðan kæmi að nýjum Icesave- samning, vegna þess að þó svo ríkisstjórnin hefði afgerandi meirihluta, en hluti þessa meirihluta kaus að starfa með stjórnarandstöðunni og á því stóran þátt á þeirri stöðu sem málið er í.

En með því að samþykkja þetta fyrirkomulag var verið að gefa stjórnarandstöðunni úrslitavald, ríkisstjórnin sett til hliðar. En stjórnarandstaðan hefur sýnt sig í að hafa ekki siðferðislegt þrek til þess að höndla þetta vald. Það er verið að brjóta gegn fullveldisrétti þjóðarinnar um að hún velji sjálf hverjir fara með stjórn mála.

Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað bent á hvaða afleiðingar hin mikli dráttur er að hafa á samfélagið. Auk þess fer þunglyndi og doði hratt vaxandi, sem er afleiðing innihaldslausra sundrungarleikja stjórnmálamanna.

Ábyrgðarleysi fréttamanna kemur fram í umfjöllun og vali á viðmælendum og hefur varðað þá braut sem stjórnmálamenn halda sig við. Það er sem kalt vatn renni niður bak manns þegar fréttastofa sjónvarpsins tekur hvert viðtalið af öðru við formenn framsóknar og xD þar sem þeir segja að það geri ekkert þó Icesave dragist. Það geri ekkert til þó nokkur hundruð launamenn missi vinnuna til viðbótar og fleiri heimili verða gjaldþrota. Aðalmálið sé að þeir fái að halda áfram að vera aðalleikendur í því Drama sem þeir hafa sett upp í beinni útsendingu og komist hjá því að horfast í augu við afleiðingar eigin gjörða.

Ótvírætt er að lög um innstæðutryggingar mæla fyrir um lágmarkstryggingu á innstæðum í íslenskum bönkum. Önnur íslensk lög ákveða að meginmál EES-samningsins hafi lagagildi hér á landi. Allt er þetta til þess að tryggja að sömu lög gildi í öllum EES-löndunum. Íslendingar undirgengust þetta grundvallaratriði með EES-samningnum. Þess vegna eiga allir innstæðueigendur í íslenskum banka rétt til lágmarkstryggingar óháð þjóðerni eða starfsstöð bankans. Þetta er kjarninn í Icesave-deilunni.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Á meðan Davíð stjórnar ekki þá er engin stjórn.

Reynið að skilja það!

Kveðja frá Frjálshyggjumunkinum. Og munið að auðmennirnir eru góðir!

Nafnlaus sagði...

Þá kemur bara annar Davíðsrugludallurinn Sigm. Davíð sem telur sig hafa mestu vissu og getu allra Íslendinga til þess að ráða ráðum okkar þjóðar. Svei ykkur Davíðar. Hef fengið nóg af þeim.

Nafnlaus sagði...

Þú ert greinilega að gera eitthvað rétt Guðmundur, fyrst Björn tekur sér svona mikinn tíma í að andmæla þér.
Stefán Benediktsson

Nafnlaus sagði...

Ég er þér nú oft sammála, en get ekki tekið undir orð þín í Icesave málinu. Vissulega verðum við að semja á endanum, nema að viðunandi samningar náist ekki.

Staðreynd er að ef VG og Samfylking hefðu staðið í lappirnar í sumar og fellt samninginn með 1-2 atkvæða muna, værum við löngu komin aftur að samningaborðinu og líklega búin að ná samningum eða málið endanlega strandað og á leið fyrir dómstóla.

Því miður hefur dáðaleysi vinstri stjórnarinnar kostað það að Icesave málið hefur tafist um 6 mánuði.

Með góðri kveðju,

Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðmundur sagði...

Sæll Guðbjörn
Ef VG og Samfylking hefðu staðið í fæturna hefðum við verið búinn að setja Icesav langt aftur fyrir okkur og uppbygging atvinnulífs vel á veg kominn og atvinnuklausir um 2000 færri í dag.

En í stað þeirrar sundrungarstefnu sem Sjálfstæðismenn hafa haldið upp með Framsón er búið að valda Íslandi mjög miklum skaða.

Ekkert af gífuryrðum þeirra um samningin stenst skoðun. Nú hamast sjálfstæðismenn við að skafa af sér þessa skömm og koma henni yfir á aðra.

Enda er það orðin viðtekin venja hjá þeim að getað aldrei staðið í fæturnar og axlað ábyrgð á eigin voðaverkum á íslensku samfélagi.