þriðjudagur, 23. febrúar 2010

Siv biðst vægðar

Siv Friðleifsdóttir er ein fárra stjórnarandstöðuþingmanna sem hefur hingað til ekki verið virkur þátttakandi í þeim sundrungarathöfnum sem ráðið hafa ríkjum á Alþingi undanfarið ár. Hún hefur nú tekið sig til og skammar ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki hlúð að atvinnulífinu.

Allir sem fylgst hafa með Icesave umræðunni vita að á meðan Ísland hafnar því að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar, standa íslendingum, íslenska ríkinu, íslenskum fyrirtækjum og íslenskum heimilum ekki til boða lán nema á afarkjörum og gríðarlega háum vöxtum. Siv kemst ekki undan því að bera ábyrgð á þessari stöðu.

Allir sem fylgst hafa með þessum málum vita að atvinnulífið hefur bent á að það muni leiða til enn stærra hruns verði þetta ekki leiðrétt. Þessari staðreynd hefur stjórnarandstaðan algjörlega hafnað að horfast í augu við. Nú blasa við hinar skelfilegu afleiðingar gjörða þeirra og þá koma stjórnarandstöðuþingmenn fram hver á fætur öðrum og reyna af koma af sér ábyrgð. Það segir okkur mikið hver staðan er orðin meðal þeirra, að nú er Siv komin fram á völlinn til þess að sverja af sér gjörðir sínar.

Ég hef margoft fjallað um það hér að stór hópur sjálfstæðismanna í atvinnulífinu, bæði í forystu fyrirtækja og meðal launamanna hafa verið ákaflega ósáttir við athafnir þingmanna og starfsmanna flokksins. Þetta er nú að koma fram, sé m.a. litið til frétta á AMX.

Rifjum enn einu sinni upp þetta ferli og hvers vegna erlendar nágrannaþjóðir okkar skilja ekki óábyrga afstöðu íslendinga. Hvers vegna Ísland er komið í hóp óráðssíu ríkja.

Þann 8. okt. 2008 sendir Geirs Haarde forsætisráðherra frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að Bretar tryggðu innistæður, þar kom m.a. fram : "Ríkisstjórnin ítrekar að ríkissjóður mun styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár.

Þann 13. okt. 2008 er gert samkomuleg milli hollenskra og íslenskra stjórnvalda. Það kemur m.a. fram "Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur. Hollenska ríkisstjórnin mun veita Íslandi lán til að standa undir þessum greiðslum og hollenski seðlabankinn mun annast afgreiðslu krafna innstæðueigenda."

Ríkisstjórn Geirs Haarde sendi frá sér fréttatilkynningu vegna þessa samkomulags þar sem kom m.a. fram að lánið muni bera 6,7 prósenta vexti, reiknað frá útgáfudegi lánsins, og verða endurgreitt á 10 árum. Falli skuldin í gjalddaga munu vextirnir aukast um 0,3 prósentustig í 7 prósent. Ekkert þarf að greiða af láninu fyrstu 3 árin og þar er vísað til Memory of Understanding, undirritað af Baldri Guðlaugssyni einum helsta efnahagsráðgjafa ríkisstjórnar Geirs.

Þann 16. nóv. 2008 er gert samkomulag við Evrópusambandið fyrir hönd Hollendinga og Breta. Það felur í sér að íslensk stjórnvöld munu ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um til innstæðueigenda í útibúum bankanna erlendis. Fram kemur í fréttatilkynningu sama dag um málið að kostnaður, umfram það sem eignir bankanna hrökkvi til, muni falla á ríkissjóð.

Þann 5. des. 2008 samþykkir Alþingi að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á grundvelli fyrirliggjandi viljayfirlýsingar. Með því staðfestir Alþingi áðurnefndar yfirlýsingar stjórnvalda um ábyrgð ríkisins á Icesave-innstæðunum.

Þennan sama dag leggur Bjarni Ben. form. Sjálfstæðismanna fram þingsályktun um samninga um ábyrgð ríkissjóðs. Ályktunin var samþykkt á Alþingi, þar stendur m.a. "Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.“

Sjálfstæðismenn stóðu einnig fyrir þingsályktun gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem var samþykkt á Alþingi 5. desember. Viljayfirlýsing um áform íslenskra stjórnvalda: "Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum."

Að auki má nefna samþykktir Alþingis um Icesave 28. ágúst og 31. desember. Í báðum er samþykkt að greiða lágmarksinnstæðu. Fyrri lögin voru staðfest af forseta Íslands en þau síðari, breytingalögin, verða borin undir þjóðaratkvæði 6. mars 2010.

Samkv. 10. grein laga um innstæðutryggingar eru fortakslaus fyrirmæli til tryggingarsjóðs að bæta lágmarkið að fullu. Lögin veita enga undanþágu frá þessari tryggingu, hvorki á grundvelli fjárskorts né almennra erfiðleika fjármálafyrirtækja. Eigi Tryggingarsjóðurinn ekki fyrir kröfunni þá er honum heimilt að taka lán og dugi það ekki til verður ríkissjóður leggja það til sem upp á vantar.

Ríkisstjórnin getur innheimt þann kostnað sem á það fellur vegna Icesave, hversu mikið það verður er ekki ljóst vegna ófrágenginna mála hjá Landsbanka. En það verður áfram innheimt gjald í Tryggingarsjóðinn. Eðlilegt er að hækka gjald fjármálafyrirtækjanna og á löngum tíma er hægt að innheimta útlagðan kostnað ríkissjóðs.

Ef það verður ofan á að neita ábyrgð á innstæðum verða áhrifin miklu alvarlegri en ætla má í fljótu bragði. Íslenskir sparifjáreigendur munu þá vitanlega leita til útlanda í öryggið. Að auki munu skuldir Íslenska ríkisins bera umtalsvert hærri vexti. Sama gildir um fyrirtækin og heimilin. Gengi krónunnar mun verða áfram lágt og kaupmáttur minnka.

Fyrirtækin í landinu munu ekki eiga kost á lánum, nema þá á afar kjörum og verða þar af leiðandi ekki samkeppnishæf. Atvinnulífið mun hrynja.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Íslenskir sparifjáreigendur geta ekki "leitað til útlanda í öryggið" vegna gjaldeyrishamla sem eru í gildi.

Nafnlaus sagði...

Góð samantekt
KÞG

Nafnlaus sagði...

Nú reynir nefnilega á Framsókn, ætla menn að samþykkja skilyrði Hollendinga um grundvallaratriði? Hollendingar eru strax hættir að tala um lokatilboð sem er gott en ég held að Framsókn og Sigmundur Davíð séu því miður staðari en Hollendingar.
Pétur

Nafnlaus sagði...

Hvað gerir Siv nú. Hvað gera framsóknarmenn úr atvinnulífinu? Hvað gera sjálfstæðismenn sem eru búnir að fá nóg af þessum málflutning?
Úlfur

Nafnlaus sagði...

Hvað gerir Siv nú. Hvað gera framsóknarmenn úr atvinnulífinu? Hvað gera sjálfstæðismenn sem eru búnir að fá nóg af þessum málflutning?
Úlfur

Nafnlaus sagði...

Þegar þetta ferli er skoðað í þessu samhengi staðreynda þá virðist stjórnarandstaðan hafa algjörlega gleymt sér í lýðskruminu og ekki sést fyrir um afleiðingarnar og enn einu sinni lendir það á almenning og skattborgurum þessa lands. Var þó nóg komið af þeirra hálfu.

Nafnlaus sagði...

Já þeir afsaka sig með göllum í regluverki EES gagnvart bankahruni. En af hverju var það ekki gert í samningum 2008? Og svo eru settir fyrirvarar í Savavarssamninginn um endurskoðunarákvæði.

Bankahrun er líka dáldið stórt orð þegar ljóst er að einu kröfurnar sem falla á Innistæðutryggingarsjóð eru 7% af innlánum eins banka og ekkert af innlánum hinna bankanna
Sverrir

Nafnlaus sagði...

Þingmenn xD eru með allt niðrum sig í þessu máli
Kári

Nafnlaus sagði...

Gott yfirlit Guðmundur, ættir að birta þetta í Fréttablaðinu.
Hvernig væri að Siv og hinn "feiti meirihluti" þmt grunnhyggnir spjallþáttamenn hættu að tala fyrir "málstað Íslendinga" sem gengur út á það almenningur í Bretlandi og Hollandi eigi að borga skuldir íslenskra stjórnvalda en ekki almenningur hér á landi. Þetta væl um peningaleysi okkar er óþolandi þegar lífskjör hér eru borin saman við td England þar sem ég hef búið. Þessi málflutningur "okkar" byggist á heimóttarlegri lágkúru.
Ólafur

Nafnlaus sagði...

Gott yfirlit Guðmundur, ættir að birta þetta í Fréttablaðinu.
Hvernig væri að Siv og hinn "feiti meirihluti" þmt grunnhyggnir spjallþáttamenn hættu að tala fyrir "málstað Íslendinga" sem gengur út á það almenningur í Bretlandi og Hollandi eigi að borga skuldir íslenskra stjórnvalda en ekki almenningur hér á landi. Þetta væl um peningaleysi okkar er óþolandi þegar lífskjör hér eru borin saman við td England þar sem ég hef búið. Þessi málflutningur "okkar" byggist á heimóttarlegri lágkúru.
Ólafur

halldor sagði...

Sverrir,
Hvar finn ég tölur til að bakka upp staðhæfingu þína um að "7% af innlánum eins banka og ekkert af hinum falli á sjóðinn"


Halldór

Nafnlaus sagði...

Þrír íslenskir bankar fóru á hausinn. Aðeins skuldbindingar eins þessara banka, Landsbankans, féllu á Tryggingasjóðinn.

Þriðjungur Landsbankans, það er innlendi hlutinn, var færður úr hinum fallna banka í nýjan NBI-banka.

Þá stóðu eftir tveir þriðju hlutar af gamla bankanum sem féllu á Tryggingasjóðinn.

Allt bendir til þess að þrotabú gamla Landsbankans eigi nú um 90 prósent upp í þær skuldbindingar sem féllu á Tryggingasjóðinn.

Þannig má áætla að 10 prósent af tveimur þriðju hluta gamla Landsbankann falli á Tryggingasjóðinn.

Það hlýtur að teljast afar ámælisvert að Tryggingasjóður innstæðueigenda standi ekki undir 10 prósentum af 2/3 hlutum af falli eins banka, Landsbankans. (Þetta eru varla nema 6 til 7 prósent af falli Landsbankans.)

Horft á málin frá þessum sjónarhóli hefur ekkert kerfishrun orðið. Aðeins féllu 6 til 7 prósent af einum banka – og ekki þeim stærsta – á Tryggingasjóð innstæðueigenda.

Auðvitað var bankakerfið orðið of stórt fyrir Tryggingasjóðinn og íslenska hagkerfið. Þarna liggur mikil vanræksla og tómlæti íslenskra embættismanna og stjórnmálamanna.