mánudagur, 15. febrúar 2010

Speki rétttrúaðra

Hún er einkennileg umræðan þessa dagana af hálfu fylgismanna þeirrar efnahagsstefnu sem tekin var upp hér á landi í lok síðustu aldar og fylgt fram yfir Hrun, og var nefnt af rétttrúuðum „Hið íslenska efnahagsundur“.

Umræðulist þessara manna einkennist af því að fárast yfir að ekki sé fjallað um meintar sakir einhverja svokallaðra vinstri manna jafnmikið og einhverja svokallaðra hægri manna.

Ég hef aldrei skilið hvernig hægt er að flokka menn hér á landi í tvo hópa. Þeir sem eru sammála fylgismönnum Davíðs eru rétttrúaðir hægri menn, aðrir eru vinstri menn.

Yfirlýstir sjálfstæðismenn stigu fram á föstudaginn og vilja kanna samninga við ESB og upptöku Evru, þeir urðu svikurum í augum sanntrúaðra. Margir sem telja sig vera fylgismenn hinnar sönnu stefnu Sjálfstæðisflokksins, fóru úr flokknum sakir þess að flokkurinn hvarf frá þeirri stefnu undir stjórn þeirra sem telja sig vera hina rétttrúuðu.

Í hugum hinna rétttrúuðu hugsuða virðist einungis vera ein rétt skoðun, aðrar skoðanir eru áróður. Ef menn vilja ræða um ESB mál með jákvæðum hætti, er það áróður, Ef menn vilja endurskoða kvótakerfið, er það áróður. Ef menn eru ósammála málatilbúnaði Bjarna Ben í Icesave, þá eru menn landráðamenn sem reka áróður gegn hagsmunum Íslands.

Í pistlum þessara manna virðist það jafngilda sakaruppgjöf hjá Baldri Guðlaugssyni að Össur seldi stofnbréf í sparisjóð og hagnaðist um 30 millj. kr. Án þess að ég ætli mér að dæma í þessum málum, þá er þetta harla einkennileg réttarfarsleg hugsun, svo ekki sé nú meira sagt, að ef hægt er finna sök hjá einum jafngildi það sakaruppgjöf hjá öðrum.

Hún er líka harla einkennileg samlíking sanntrúaðra á því hvernig fjallað var um Fjölmiðlafumvarp Davíðs og svo Icesave. Þó augljóslega sé himinn og haf milli þessara tveggja mála.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Minn skilningur á þessu er að þeir telji að það sé einungis ein hlutlaus skoðun (þ.e. þeirra), aðrar skoðanir eru hlutdrægar. Einkennileg röksemdafærsla en þannig virkar þetta samt.
FB

Hólmfríður Bjarnadóttir sagði...

Sá rakalausi málfluttningur sem þú vísar til, tekur á sig ýmsar kynjamyndir þessa dagana. Aðferðir hinna "réttrúuðu" tilað koma "sannleikanum" á framfæri er margar og mismunandi. Formaður Bændasamtakanna hélt því blákalt frami Mogganum um daginn að stuðningur við harðbýl svæði innan ESB væru tómar blekkingar. Vitnaði hann það í breytta höfðatölu kúabænda í Finnlandi eftir inngöngu Finna í ESB.
Réttara hefði að mínu áliti verið að bera saman atvinnutækifæri og afkomu fólksins á þeim svæðum sem teljast harðbýl í Finnlandi, fyrir og eftir ESB

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur það er eins og þessum mönnum sé um megn að taka þátt í málefnanlegri umræðu.
Flottur texti.

Nafnlaus sagði...

Svo innilega sammála um hið snargeggjuðu réttarfarslegu þeirra, Alltaf reynt að finna einhvern annan sem brotið hefur af sér og þá eru menn kvitt. Aldrei geta þeir tekið þátt í málefnanlegri umræðu um brot eigin manna

Nafnlaus sagði...

Svart hvít veröld hinna grunnhyggnu

Nafnlaus sagði...

Já, en sagan sýnir nú svo ekki verður um villst að þetta svínvirkar á íslenska kjósendur. Aftur, og aftur, og aftur. Því miður. (Og má í því sambandi benda á grein Þórólfs Matthíassonar um ábyrgð kjósenda í Fbl í dag.) Að þetta ódýr málflutningur skuli eilíflega eiga greiða leið í hlustir kjósenda hlýtur að vera á ábyrgð allra sem sjá að slíkur málflutningur heldur engu vatni en nenna ekki að andæfa. En, Guðmundur er einn fárra sem stendur sig í þessum efnum og á hrós skilið. Ég tek undir hvert orð pistils hans.

Kveðja,
Jakob