miðvikudagur, 10. febrúar 2010

Að standa í fæturna

Stjórnarandstaðan hefur haldið þjóðinni í gíslingu með aðstoð Ögmundar og forsetans í eitt ár. Það liggur fyrir að þeir muni ekki ná fram neinu nýju sem skiptir einhverju máli og það liggur líka fyrir að þeim hefur verið það ljóst allan tímann. Hver mánuður hefur kostað íslendinga 75 milljarða króna. Þetta fólk er búið að mála sig fullkomlega út í horn og þarf hjálp til þess að komast niður úr trjánum. Sigmundur Davíð og Bjarni Ben vilja nú fá að panta á erlenda sérfræðinga til þess bjarga andlitinu.

Sameiginleg yfirlýsing Íslands og framkvæmdastjórnar ESB frá 13. nóvember 2008 er það einföld að Bjarni Ben skildi hana afskaplega vel, sé litið ummæla hans og flokksbræðra á Alþingi þá. Þar segir Ísland fellst á að tilskipunin um innstæðutryggingar gildi hér á landi. Það er skilningur allra Evrópusambandsríkjanna að innstæðutryggingin skuli tvímælalaust greiða út allar innstæður upp að 20 þús. Evru lágmarkinu.

Allt samningaferlið var í samræmi við það sem Ísland hafði ásamt öðrum Evrópuþjóðum komið sér saman um. AGS veitti Íslandi meiri fjárhagslega fyrirgreiðslu en nokkurt aðildarríki hefur fengið. Norðurlöndin og Pólland bættu við því sem þurfti til viðbótar. Bretar og Hollendingar sömdu síðan um lán með skilmálum sem eru hagstæðari en lán hinna aðilanna hvort sem litið er á vexti, greiðslutíma eða gjaldfrjálsan tíma. Hinu pólitíska ferli málsins lauk í Brussel 13. nóvember 2008.

Sigmundur Davíð, Bjarni Ben og stuðningsmenn hafa reynt að beina athygli frá þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru haustið 2008 og koma sökum á þá sem síðar komu að málinu. Bretar, Hollendingar og Norðurlandaþjóðirnar standa í þeirri trú að Ísland ætli að fara að því sem þeir hefðu undirgengist, að greiða lágmarksinnstæðurnar og endurgreiða lán vegna þeirra. Á grundvelli þessa geta Evrópuþjóðirnar ekki afgreitt AGS mál fyrr en frágangur Icesave væri klár, þar er ekki á ferðinni einhver óvild í garð minni máttar.

Það sem hefur pirrað marga erlendis, og ég komið að nokkrum sinnum hér, er hvort staða Íslands sé yfirhöfuð nokkuð fordæmislaus. Atvinnuleysi hér er og hefur verið minna en í mörgum löndum Evrópu, fall landsframleiðslu áþekkt og víða annars staðar og tekjur á mann þrátt fyrir kreppuna hærri en í flestum ríkjanna. Þetta fólk spyr hvort íslendingar séu svo aumir að þeir geti ekki staðið eins og menn í fæturna án þess að vera með endalausar aðdróttanir í garð annarra þjóða, kröfur um einhverja sérmeðferð og neiti að standa við viðurkenndar skuldbindingar sínar.

Það sé búið að semja við íslendinga 4 sinnum, en þrátt fyrir að þeir samþykki samning og hann sé afgreiddur á Alþingi standi þeir alltaf upp og heimti meira. Þess vegna neita Bretar og Hollendingar að ræða frekar við íslendinga. Þeir segja að það ekkert því til fyrirtsöðu að fara dómstólaleiðina, en þeir ráðleggi íslendingum í fullri vinsemd að gera það ekki. Þá muni allt liggja undir ekki bara 20 þús. Evru ábyrgðin heldur öll áburgðin.

Eftir heimsóknir til Haag og víðar hafa Bjarni og Sigmundur Davíð einfaldlega orðið að viðurkenna að þeir hafi gleymt sér í lýðskruminu og orðið á gríðarlega dýr mistök. Mistök sem setja enn fleiri heimili í vonlausa stöðu. Þarna eru Ögmundur og forsetinn einnig framarlega í ábyrgðarhlutverkum.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, þetta er nefnilega góður pistill.

Er ekki einfaldlega kominn tími til kominn að standa í lappirnar og hætta þessari vitleysu.

Vælandi út um allar koppagrundir yfir marg samþykktu og frágengnu máli - Bara vegna þess að einhver ákvað að setja upp pólitískan skrípaleik hérna uppfrá.

Og kostnaðurinn við uppsetningu þess skrípaleiks aðeins 75 milljarðar á mánuði.


Ómar Kristjánsson.

Nafnlaus sagði...

Í fantaformi að venju - frábær greining á stöðu mála
kv Úlfur

Nafnlaus sagði...

Þetta er góður pistill hjá þér og er ég honum algjörlega sammála.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir Guðmundur.

Bloggið þitt hefur verið sem vin í eyðimörkinni að undanförnu. Rödd heilbrigðrar skynsemi mitt í aulakórnum.

Freyr Björnsson

Nafnlaus sagði...

Þetta fer að verða spurning um teljara, hvað ætlum við að láta marga daga líða án þess að klára Ice-save. Þó mér sýnist upphæðin þín ofreiknuð þá erum við löngu búin að tapa öllu því sem hugsanlega getur áunnist með því að fá betri samninga.

Nafnlaus sagði...

Og stór hluti þjóðarinnar er að gleypa vitleysuna sem þessir kappar gera út á. Ömurlegt. Stundum er það svo að að orð fyrrverandi olíuforstjórans; "fólk er fífl" eru bara sannleikur.
Björn Ólafs

Friðrik Hansen Guðmundsson sagði...

Sæll Guðmundur

Þú gleymir nokkrum þáttum.

Í fyrsta lagi þá gleymir þú því að hér var gerð bylting. Þegar ríkisstjórnum er velt úr sessi með byltingu þá er það aldrei svo að þjóðir eru gerðar ábyrgar fyrir stjórnarathöfnum og síðustu embættisverkum fráfarandi stjórna. Á þeim grunni ber þjóðin ekki neina ábyrgð á rugl samningum þessarar "Þingvallastjórnar" á síðustu mánuðunum fyrir byltingu.

Í öðru lagi gleymir þú því að Icesave samningurinn gengur ekki út á það að tryggja þessar 20 þús evrur. Þú gleymir að nefna það að Bretar og Hollendingar fá rúm 50% af eignum Landsbankans í sinn hlut fyrir að hafa greitt út fjárhæðir umfram þessar 20 þús evrur. Ef eignir Landsbankans væru fyrst látnar ganga upp í þessar 20 þús evrur þá félli ekki króna á okkur. Málið er að okkar 50& dekka ekki þessar 20 þús evrur. Með því að við afsölum okkur 50% af eignum Landsbankans til Breta og Hollendinga þá í raun erum við að tryggja alla Icesave reikningana að fullu. Það stóð aldrei til var það? Af hverju erum við að taka að okkur að tryggja Icesave nánast að fullu? Málið er að með þessum Icesave samning þá erum við að tryggja þessar innistæður langt úr yfir öll lög og reglur. Af hverju?

Í þriðja lagi þá gleymir þú að minnast á vextina sem reiknaðir eru á alla upphæðin frá jan í fyrra. Jón Daníelsson hagfræðingur í LSE, hefur reiknað út að með vöxtum þá verði Icesave skuldin sem við greiðum á endanum 507 milljarðar króna. Það samsvarar því að við þurfum næstu 14 árin að greiða sem samsvarar rekstri Landsspítalans í afborganir og vexti að þessu bulli.

Í fjórða lagi gleymir þú því að þessi upphæð sem fellur á hvern Íslending er þá um 8.800 evrur. Í Versalasamningnum voru Þjóðverjar dæmdir til að greiða sem samsvarar í dag um 400 milljörðum USD. Þeir voru þá 58,5 milljónir. Það samsvarar 4.700 evrum á hvern þjóðverja. Auk þess voru vextirnir á þessum hæstu stríðsskaðabótum sem nokkur þjóð hefur verið dæmd til að greiða "aðeins" 5,0%. Skv Icesave er þjóðin dæmd til að greiða tvöfalt hærra og borga hærri vexti en var í Versalasamningnum. Þegar svo er komið að við værum betur sett með Versalasamninginn en Icesave er þá ekki eitthvað mikið að er það ekki?

Í fimmta lagi hafa margir okkar færustu lögspekingar, Sigurður Líndal og fólks eins og Eva Joly og fleiri og fleiri bent á að samkvæmt lögum og reglum ESB þá ber okkur Íslendingum ekki að borga krónu. Af hverju látum við ekki reyna á það? Hvaða dómstóll mun teysta sér til að dæma okkur Íslendinga til að greiða hærri skaðabætur og borga hærri vexti en þjóðverjar voru dæmdir til að greiða eftir að hafa drepið 4,6 milljónar manna og lagt norður og austur Evrópu í rúst? Mun einhver dómstóll teysta sér til þess?

Í sjötta og síðasta lagi þá gleymir þú þeim þætti í þessu máli sem heitir réttlæti og sanngirni. Það felst ekkert réttlæti í því að bændur í Skagafirði eiga nú allt í einu að fara að borga bretum og hollendingum gríðarlegar fjárhæðir vegna þess að Bretar og Hollendingar tóku yfirvegaða ákvörðun og settu sitt fé inn á hávaxta netreikning i erlendum banka sem bauð hæstu vexti sem boðnir hafa verið í Evrópu frá seinni heimstyrjöldinni. Þegar þetta fé tapast þá eiga þessir íslensku bændur allt í einu að reiða það fram. Þetta fólk gamblað með sitt fé í von um mikinn hagnað og tapaði. Þetta fólk á að bera sjálft sitt tjón dugi tryggingarnar ekki. Þetta tjón eiga íslenskir bændur ekki að bera. Samkvæmt gildandi íslenskum lögum þá bera þessir bændur ekki ábyrgð á þessum erlendu reikningum. Ef ekkert er réttlætið þá verður heldur aldrei neinn friðurinn.

Að ætla að taka auðveldu leiðin og "bara borga þetta", það er engin leið, hvorki í þessu máli né öðrum. Guðmundur, það er nóg komið að slíkum vinnubrögðum, að bara borga og láta engu skipta hvar er rétt og hvað er rangt.

Guðmundur sagði...

Sæll Friðrik. Ég gleymi ekki nokkrum sköpuðum hlut, bara bendi á einfaldar staðreyndir sem hafa legið fyrir á annað ár.

Ég er heldur ekki að úrskurða það að Ísland eigi að greiða það hafa aðrir gert og vísa þar til til gjörða og athafna (reyndar frekar athafnaleysi) fyrri ríkisstjórna.

Ég er heldur ekki að vísa til sanngirni. Ég hef margoft sagt að ég sé ekki sáttur við að borga, en það breyti ekki þeirri stöðu sem fyrri ríkisstjórnir og eftirlitsaðilar hafa komið okkur í.

Málfutningur þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur verið ómerkilegasta lýðskrum sem hér hefur sést.

Þar hafa verið vaktar óraunsæar væntingar um að okkur standi til boða að kjósa okkur frá þessum gjörningum fyrri ríkisstjórna.

Það er klár fantaskapur að standa að slíku. Þessi fantaskapur opinberaðist daginn sem forsetinn hafnaði undirritun.

Þá komu formenn sjálfstæðismanna og framsóknar fram í sjónvarpi og sögðust viðurkenna að það væri engin undankomuleið fyrir íslendinga, þeir yrðu að borga.

Sama sögðu forystumenn InDefence í sama fréttaþætti.

Ég hef í pistlum mínum bent á þessar augljósu staðreyndir og þær eru að breytast í ískalda sturtu fyrir lýðskrumarana.

Kv GG