fimmtudagur, 7. apríl 2011

Efnahagsforsendur og Icesave

Því miður upplifum við það alltof oft að nokkrir alþingismenn og jafnvel ráðherrar upplýsa okkur um fávisku sína um gang og samtvinnun atvinnulífsins og efnahagskerfisins. Þegar gerðir eru kjarasamningar með íslenskri krónu er umfangsmesta umræðuefni samningamanna efnahagsforsendur og hvernig tryggja megi kaupmátt.

Svo maður tali nú ekki um ef menn eru að reyna að ná saman kjarasamningi til 3ja ára. Launamenn þekkja því miður alltof vel hvernig krónan hefur rústað kjarasamningum, valdið stökkbreyttri skuldastöðu og fellt kaupmáttinn.

Það er harla einkennilegt að upplifa það að fréttamenn og nokkrir alþingismenn, ásamt einum ráðherra láti eins og það sé einhver stórkostleg nýjung að já eða nei við Icesave-samning geti haft einhver áhrif á efnahagsforsendur á Íslandi og þá um leið hvaða kröfur eru gerðar af launamönnum við samningaborðið í Karphúsinu og hvaða möguleika fyrirtækin sjá til þess að koma til móts við þær kröfur. Hverslags málfutingur er þetta? Getum við ekki talað saman á vitrænan hátt?

Enn furðulegra er að vera gert að sitja undir ásökunum um að vera með hótanir þegar bent er á þessar einföldu og augljósu staðreyndir, sem sannanlega hafa verið til umræðu í nánast hverjum einasta spjallþætti undanfarinn misseri og áberandi umfjöllunaratriði í fréttatímum.

Allir helstu forsvarsmenn fyrirtækja á Íslandi, sérstaklega í orku- og tæknigeiranum hafa lýst því yfir að Icesave-samningurinn hafi gríðarleg áhrif á afkomu fyrirtækjanna hér á landi, þetta hefur komið fram í nær hverjum einasta fréttatíma undanfarið 2 ár.

Það hefur komið fram hjá samningamönnum Íslands við gerð Icesave-samningsins og öllum ráðgjöfum þeirra, að sá samningur sem nú liggi fyrir muni hafa minnstu efnahagsleg áhrif á Íslandi, nóg sé komið af áhættusækni. Á þeim forsendum samþykkti yfirgnæfandi meirihluta Alþingis samninginn, eftir að hafa ítarlega yfir hann með sínum sérfræðingum. Ástæða er að minna á að það var Alþingi sem ákvað að fara þessa samningaleið og skuldbatt þjóðina þar með við hana.

Þú ferð ekki í vinnu við gerð samninga og segir svo þegar þú ert kominn heim með samning "Allt í plati". Þesskonar háttalag á að uppræta í íslensku samfélagi, það er búið að valda okkur gríðarlegum skaða. Nægir þar að benda á skuldatryggingaálag og samningstöðu íslenskra fyrirtækja.

Þessa dagana er unnið að því í Karphúsinu að ná niðurstöðu í viðræðum við ríkisstjórnina. Einnig er verið að glíma við flókna lagaumræðu um útfærslu á að tvinna saman stuttum 6 mán. samning saman við 3ja ára samning. Samninga sem falli niður ef efnahagsforsendur standast ekki og kaupmáttur haldi ekki. Það er óþarfi að láta sem svo að menn detti fram úr stólnum af undrun við að heyra þessi tíðindi og í því sé falinn einhver hótun gagnvart þjóðinni.

Mörg módel eru í gangi sem miða við mismunandi hagvaxtarforsendur. Í dag eru fjárfestingar í atvinnulífi um 13% af vergri landsframleiðslu og eru inna við 200 MIA og eru að dragast saman. Ein af forsendum SA ef samtökin eigi að fallast á þessar launahækkanir eru að ríkisstjórnin samþykki lækkun tryggingargjalds og lágmarksfjárfestingar í atvinnulífi verði 280 MIA árið árinu 2011, 345 MIA á árinu 2012 og 365 MIA á árinu 2013. Fjárfesting fari þá upp í 21% af vergri landsframleiðslu sem er lágmark fyrir viðunandi hagvexti.

Ekki er búið að ganga frá verðtryggingu samningana, vegna mikillar óvissu um framgang mála. Þar ber vitanlega hæst gengisvísitalan og verðbólgan á þetta hefur niðurstaða Icesave-samnings mikil áhrif, það sjáum við vel á þeirri uppdráttarsýki sem hefur þjáð hagkerfið og atvinnulífið undanfarin misseri. Hér dugar ekki að berja hausnum við steininn og segja eitt feitt nei, það breytir ekki staðreyndum.

7 ummæli:

Hrafn Arnarson sagði...

það gerist margt undarlegt á síðustu metrunum.Öllum má það ljóst vera að forsendur samninga svífa ekki í lausu lofti. Þær eru m.a. háðar því að hagvaxtarspár gangi eftir. Það er sérkennilegt að sumt fólk telji það hótun að benda á sjálfsagða hluti. veruleikinn er harður í horn að taka og við getum ekki kosið hann í burt þó við fegin vildum.

Georg Georgsson (gosi) sagði...

Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að gera þriggja ára samning ef niðurstaðan verður nei með algjöra óvissu frammundan??Í þessu máli hefur verkalýðshreifingin ábyrgð að bera og hana hefur hún borið með þvi að segja satt, um afleiðingar af neitun eða samþykkt Icesave samninganna, sannleikurinn hugnast bara ekki öllum. Hún verður fróðleg umræðan ef niðurstaðan verður nei,og samtök á vinnumarkaði neyðast til að fara í nokkura mánaða samninga í einu,í fullkominni óvissu,þá snúast lýðskrumarnir sér við og kenna verkalýðshreyfingunni um allt saman,og þar munu alþingismenn og ráðherrar fara fremstir.
Kveðja Georg.

Nafnlaus sagði...

Það er stórfurðulegt að fjölmiðlar skuli ítrekað leita til þeirra sem sem hafa sagt sig alfarið frá samningsgerðinni og hafa ekki komið nálægt henni. Þar með ekki þekkingu á hvaða efnahgslegum forsendum kjarasamningurinn er reistur

Reyndar gera þeir hinir sömu þetta alltaf þar sem þeir hafa ekki burði og getu til þess að standa undir þeirri ábyrgð sem hvílir á samningamönnum

Nafnlaus sagði...

Icesave er spennitreyja sem við losnum aðeins úr með því að setja X við já. Við, eins og aðrar þjóðir, erum háð almennilegum samskiptum við umheiminn. Engin fyrirgreiðsla engar framfarir.
Sigursteinn

Nafnlaus sagði...

Hvernig dettur ykkur til hugar að vera að svo mikið sem ræða skitin 8% næstu þrjú árin, eruð þið orðnir alveg klikk?

Nafnlaus sagði...

Hvernig skyldi forseta vorum líða með það að hafa "klofið þjóð sína í herðar niður" með því að skrifa ekki undir Icesave!
Þjóðin fellir hvorki né samþykkir Icesave skv. skoðanakönnunum heldur uþb. helmingur hennar.
Það sem þú segir, Guðmundur, er hárrétt. Það verður ekki gaman fyrir okkur öll þegar við förum að finna "Nei-ið" á eigin skinni.
Mikil er ábyrgð þeirra sem gera okkur að ómerkingum með því að standa ekki við gerða samninga.
Foseti vor fer þar fremstur í flokki. Auðvitað vissi hann að Icesave málið er þess eðlis að það hentar ekkí í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Hvað skyldi hafa vakað fyrir honum þegar hann tók þessa ákvörðun. "Popúlismi og/eða heigulsháttur?"
Honum tókst amk. að vanvirða alþingi og þá samningamenn sem unnum hörðum höndum til að landa samningi sem öll hagsmunasamtök atvinnurekenda og launamanna hvetja til að verði samþykktir.
Verður "húsbóndanum" á Bessastöðum boðið í veislu í Hádegismóum eftir Nei-ið. Þar verður fögnuðurinn mestur!!!

Guðmundur sagði...

Sæll nafnlaus 12.27. Þú hefur greinilega einhverjar allt aðrar upplýsingar en ég, hef þó verið meir og minna niður í Karphúsi undanfarnar vikur.

Mig minnir að SA hafi einhverntíman nefnt þessa tölu
kv GG