laugardagur, 16. apríl 2011

Óásættanleg staða

Nú liggur á skrifborði sáttasemjara nánast tilbúinn 3ja ára kjarasamningur sem búið er að leggja gríðarlega vinnu í af aðilum vinnumarkaðs og stjórnvöldum. Hluti af samningnum er annar 6 mánaða aðfarasamningur sem er í forminu einnig skammtímasamningur.

Þessi skammtímasamningur var búinn til 11. febrúar þegar samningamenn iðnaðarmanna höfnuðu alfarið að vinna við gerð kjarasamninga undir hótunum LÍÚ og ætluðu að slíta samstarfinu. Í samningnum átti að vera trygg undankomuleið fyrir launamenn með launahækkanir frá 1. marz út september tef þessi staða kæmi aftur upp á lokastigi langtímasamnings. Nú hefur sú staða komið upp, en þá hafna SA menn að skrifa undir samninginn nema með skilyrðum sem ekki er hægt að fallast á.

Í samningnum eru mörg mjög verðmæt atriði fyrir ekki bara launamenn heldur einnig samfélagið. Allir sammála um að rífa þurfi atvinnulífið upp úr þeim doða sem það er í. Gert ráð fyrir að okkur takist að vinna tilbaka um helming af þeim kaupmátt sem við töpuðum við Hrunið.

Í gær hafnaði SA að skrifa undir 3ja árasamninginn, og sögðust einungis ætla að skrifa undir skammtímasamninginn en lögðu ofan á hann pólitíska yfirlýsingu. Samningamenn stéttarfélaganna sögðust ekki geta skrifað undir hana og það væri reyndar einfaldlega ólöglegt að setja þetta inn í samning.

Þar fyrir utan væri þarna álitamál sem væri mjög umdeild meðal landsmanna, sem væru flestir reyndar launamenn og ættu að fara að greiða atkvæði um þennan samning. Þetta myndi leiða til enn einnar atkvæðagreiðslu þar sem verið væri að kjósa samtímis um óskyld mál, sem myndi næsta örugglega leiða til þess að samningurinn yrði felldur.

Samningamenn stéttarfélaganna biðu í 4 klst. eftir því að SA menn endurskoðuðu hug sinn, og fóru síðan heim um miðnætti. Samningarnir liggja á skrifborði sáttasemjara, penninn ofan á og efst liggur þessi yfirlýsing.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú þarf ríkisstjórnin að koma fram með frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótaatillögurnar.
.
LíÚ hlýtur að sætta sig við vilja þjóðarinnar er það ekki?

Nafnlaus sagði...

Núna finnst mér eins og SA sé með valdið.
Hvers vegna látið þið þá hafa valdið.
Fyrirtækin ganga ekki án fólks.

Þetta er ekki spurning hvor eigi að beygja sig eftir sápunni.
Þetta er spurning um að koma landinu af stað með góðu eða illu.

mbk

Nafnlaus sagði...

Ja það er satt. ASÍ ætti að drífa sig niður í karphús og rífa upp pennan og skrifa undir. Það liggur samningur á borðinu!

Nafnlaus sagði...

LÍÚ er í raun fjórða valdið á Íslandi, um það er því miður engum blöðum að fletta. Nú vilja þeir meira og ætla að taka sér væna sneið af löggjafavaldinu líka.

Að kveða þennan ófögnuð niður verður ekkert áhlaupsverk og kallar á samstöðu og skilning allra launþegafélaga. Hvernig gengur þeim í Líbíu að losa landið við þarlenda olíugreifa sem einmitt eru ekki annað en klíka sem rændi gríðarlegum þjóðarauðævum og komst upp með það í áratugi vegna sofandaháttar landsmanna.

Fiskurinn okkar íslendinga og raunar annað hágæðaprótin einnig mun ekki gera annað en hækka í verði, trúðu mér, you aint seen nothing yet.
Þessvegna ríður á samstöðu almennings og allra forystumanna að styðja við ríkisstjórnina af öllu afli og láta þessa kóna ekki komast upp með neinn moðreyk.

Þeir tuða og bulla um hagkvæmni gjafakvótans, um gjaldþrotahættu og tapaða markaði sem raunar eru nákvæmlega sömu rök og beitt var gegn afnámi þrælahalds í usa á sínum tíma.

Gangi þér vel Guðmundur og bkv. Kristjón Másson

Unknown sagði...

Ég er algjörlega sammála þér Guðmundur að LÍÚ á ekki að sitja lengur við sama samningaborð og okkar samningamenn, það er til háborinnar skammar hvernig þessir menn láta. Þeir eru að nota kjarabaráttu hins almenna launamanns til að reyna að þvinga fram umdeilt pólitískt mál þeim til hagsbóta. Þessir menn kunna ekki mannasiði. Áfram á þessari braut.