Björn Ólafsson stjórnmálahagfræðingur skrifar áhugaverða grein í síðustu Vísbendingu um hlutverk innistæðutrygginga. Þar rekur hann ástæðu þess hvers vegna innistæðutryggingakerfum var komið á fót fyrir rúmri öld og hvers vegna flest ríki hafi staðfest að þau undirgangist þær reglur sem um þau ríkja, þar á meðal Ísland.
Innistæðistæðutryggingakerfi voru meðal annars sett á fót til að tryggja að venjulegt fólk, sem ekki hefur tök á að meta gæði útlána eða stöðu fjármálastofanna geti lagt sparnað sinn í viðskiptabanka, undir eftirliti hins opinbera, fullvisst um að fá þetta fé aftur tilbaka, án mikilla tafa eða óvissu um endurheimtur, ef bankinn fer í gjaldþrotameðferð.
Fjármálastöðugleiki og þjóðarhagsmunir hafa vegið þungt í umræðunni á seinni árum. Vantraust á bönkum og áhlaup gera engan greinarmun á vel eða illa reknum bönkum. Innistæðutryggingar eru taldar vera ein leið til þess að draga úr líkum á bankakreppum og minnka þá áhættu sem felst í óstöðugu fjármálakerfi.
Ein helsta forsenda fyrir innistæðutryggingum er að almenningur er yfirleitt ekki í aðstöðu til þess að meta gæði banka. Þetta kom glögglega fram hér á landi, því það var ekki aðeins almenningur sem lét blekkjast, heldur einnig innlendir og erlendir eftirlitsaðilar og þeir gáfu út heilbrigðisvottorð fram á síðasta dag.
Að teknu tillit til þess er það harla langsótt að íslenskum almenningi sé nú ætlað það vandasama hlutverk að leggja mat á áhættuna af nýgerðum Icesave-samningi, þar sem verðmæti eignasafns Landsbankans skiptir miklu máli, auk mats á fleiri þáttum svo sem gengisþróunar.
Alþingi samþykkti að senda samninganefnd til Breta og Hollendinga. Valdir voru bestu menn til þess starfs af Alþingi af fulltrúum allra stærstu flokkanna. Samninganefndin hefur notið aðstoðar færustu sérfræðinga. Yfirgnæfandi meirihluti Alþingis samþykkti samninginn, eftir að hafa haft aðgang að færustu sérfræðingum til þess að meta niðurstöðu samninganefndarmanna. Þetta atriði eitt út af fyrir sig segir til um stöðu þessa samnings og Íslands.
Lagaleg ábyrgð Íslands er útskýrð í áliti ESA vegna Icesave og hefur röksemdafærslunni ekki verið hnekkt að neinu leyti. Í áliti ESA er einnig sýnt fram á að jafnræðisregla EES hafi verið brotin. Verði þessu máli vísað til dómstóla eru yfirgnæfandi líkur á því að Íslendingar tapi málinu. Bæði hvað varðar ríkisábyrgð á innistæðutryggingunni og fyrir brot á jafnræðisreglu. Samningstaða íslands er næsta vonlaus eftir þann dóm.
Sé litið til þeirra vaxta sem íslenskum fyrirtækjum og sveitarfélögum standa til boða vegna stöðu Íslands í ruslflokki lánamála, má benda á að Reykjanesbær var að fá lán með 7% vöxtum. Orkufyrirtækin taka ekki lán þó þeim standi það til boða vegna þess að arðsemi þeirra framkvæmda sem nota á lánin til er þá kominn út í hafsauga. Hátæknifyrirtækni eru annað hvort að flytja höfuðstöðvar sínar til útlanda eða stofna þar útibú, svo þau hafi aðgang að erlendum lánum á viðráðanlegum vöxtum.
Þetta er sú staða sem blasir við ef Icesave samningurinn verður felldur. Það var áhættusækni núverandi kynslóðar sem leiddi yfir okkur Hrunið. Það er því verið að bera í bakkafullan lækinn að bæta um betur og vísa enn meiri áhættu til barna okkar og barnabarna.
3 ummæli:
Það er ljóst að Icesave-samningurinn er flókinn og óvissuþættir margir.Nýlega hefur hagfræðingur ritað grein þar sem hann virðist sýna framá að gengisáhætta í Icesave sé ekki mikil. Skýrist það m.a. af því að eignir þrotabús Landsbankans eru að miklu leyti erlendis. Söguleg séð er gengi krónunnar núna í lágmarki þrátt fyrir öll höft.Vöruskiptajöfnuður hefur verið jákvæður en fjármagnsjöfnuður er eðlilega neikvæður. Þess vegna er ólíklegt að krónan styrkist. Það er umdeilanlegt hvort kjósa eigi um fjárhagsskuldbindingar og greiðslusamninga. Aðildarsamningur við ESB er afar flókinn. Allir eru sammála um það að um þann samning eiga þjóðin að kjósa.
"Orkufyrirtækin taka ekki lán þó þeim standi það til boða vegna þess að arðsemi þeirra framkvæmda sem nota á lánin til er þá kominn út í hafsauga." Þetta er eitthvað sem fyrri stjórnendur OR telja greinilega engu máli skipta og margir aðrir sem um málið fjalla, smbr frétt um ónotaðar lánalínur í Landsbanka. Arðsemi er öllum fyirtækjum nauðsyn líka opinberum.
Bara svona að minna enn einu sinni á að ef menn eru að senda inn aths. verða þær að fjalla um innihald pistilsins, vera lausar við rætnar aðdróttanir í garð fólks og svo kórónað með hinni venjubundnu klisju um að allt sé fullt af staðreynda vitleysum en ekki bent á neitt og engin rök lög fram. Það upplýsir okkur um að viðkomandi veit ekkert um málið og er í raun að staðfesta það sem í pistlinum stendur
Þakka svo fyrir þann mikla fjölda sem heimsækir þessa síðu. GG
Skrifa ummæli