miðvikudagur, 15. júní 2011

Skuldbindingar lífeyrissjóðanna

Því er oft haldið fram að B-deild LSR sé lokuð og ekki komi fram nýjar skuldbindingar til viðbótar hinum eldri. Kerfinu var á sínum tíma einungis lokað fyrir nýliðun, en þeir opinberir starfsmenn sem telja sig hafa af því betri hagsmuni fá að greiða til loka starfsaldurs gera það, sem leiðir til þess að á hverju ári orðið til nýjar viðbótarskuldbindingar vegna þessa.

Heildarskuldbindingar lífeyrissjóða opinberra starfsmanna voru 1.271 milljarður króna í árslok 2009, þar af voru 869 milljarðar vegna áfallinna réttinda og 402 milljarðar vegna framtíðarréttinda. Af þessu voru 753 milljarðar króna vegna B-deildarkerfisins. Á móti þessum réttindum hafa safnast í lífeyrissjóðnum eignir uppá 471 milljarð króna og framtíðarvirði iðgjalda þeirra sem nú greiða í sjóðina eru um 300 miljarðar króna. Samtals gerir þetta 771 milljarð króna eignir á móti 1.271 milljarða skuldum. Halli kerfisins er því 500 milljarðar króna, eins margoft hefur komið fram, m.a. hér þessari síðu.

Heildarskuldbindingar lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði voru í árslok 2009 eru1.907 milljarðar króna, en heildareignir og framtíðariðgjöld samtals 1.707 milljarðar. Halli þessa hluta kerfisins er því tæplega 200 milljarðar króna og var að mestu jafnaður með lækkun réttinda vorið 2010. Nýgerðir kjarasamningar munu hækka skuldbindingar vegna B-deildarfyrirkomulags ríkis og sveitarfélaga um 50 milljarða króna.

Í þessu sambandi má auk þess benda á að tengsl lífeyriskerfisins og almannatrygginga eru ekki hagstæð launamönnum á almennum markaði, fyrstu 75 þúsund krónurnar sem greitt er úr lífeyrissjóðum skerða réttindi frá almannatryggingum um krónu á móti krónu, eða 100% jaðarskattur.

Þetta eru afleiðingar ákvarðana þingmanna sem lifa í því lífeyrisumhverfi sem þeir hafa skapað sér. Það er ekki hægt að kalla það annað en sjálfsköpuð forréttindi að þurfa ekki að horfast í augu við vanda kerfisins heldur vísa honum eitthvað annað. Alþingismenn og ráðherrar sem hafa skapað þessa stöðu umfram aðra geta ekki undrast það þótt þeir sem fá reikninginn sendan með skattseðlinum bregðist við með einhverjum hætti.

Samkomulag almennu stéttarfélaganna við ríkisstjórnina frá júní 2009 miðast við að það sé forgangsverkefni að taka upp frítekjumark vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum til að koma í veg fyrir þetta og munu allir lífeyrisþegar njóta þess, líka þeir sem voru í opinberu starfi.

Hagdeild ASÍ hefur reiknað út hver greiðslubyrði skattborgaranna er af halla B-deildarkerfisins m.v. að það taki um 30 ár að ljúka þeim greiðslum. Ef halli kerfisins er settur á 30 ára skuldabréf með jöfnum afborgunum miðað við 3,5% raunvexti á ári þá er greiðslubyrði ríkisins 21,3 miljarðar króna og sveitarfélaganna 2,9 milljarðar króna, samtals 24,1 milljarður króna á ári.

Hvert ár sem þingmenn draga að gangast í að leysa þetta mál hækkar sú greiðsla. Með öðrum orðum það er verið að senda digra reikninga inn í framtíðina til barna okkar. Sumir ráðherrar og þingmenn segja það endurtekið í fjölmiðlum að þetta sé ekkert eða í mesta lagi 7 – 9 milljarða króna. Þessar upplýsingar eru ástæða þess að ég tók þá ákvörðun að senda smá nótu til þingmanna, þar sem sumir þeirra hafa verið að senda mér tóninn fyrir þá pistla sem ég hef skrifað og bent á framantalið.

Framantalið sýnir okkur öllum hvað það skiptir miklu að öll umræða um lífeyrisréttindi sé vönduð og byggi á ítarlegum upplýsingum og tryggingafræðilegum forsendum, ekki einhverjum rakalausum upphrópunum. Hér er um að ræða ein af mikilvægustu réttindum íslenskra launamanna, og ástæða til þess að hér er verið að höndla með allt sparifé almennra launamanna.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"...það skiptir miklu að öll umræða um lífeyrisréttindi sé vönduð og byggi á ítarlegum upplýsingum og [efnahagslega raunhæfum] tryggingafræðilegum forsendum, ekki einhverjum rakalausum upphrópunum."

Ég leyfði mér að bæta inn í tveimur orðum sem mér fannst persónulega vanta, veit þó vel að þú hugsaðir þau þótt þau hafi ekki verið skrifuð niður.

En eins og þú segir, það væri óskandi að alþingismenn bretti upp ermar og taki lífeyriskerfið til gagngerrar skoðunar. Því fyrr, því betra.

Bestu kveðjur,
Ólafur Margeirsson

Nafnlaus sagði...

Þakka góð og rökföst skrif þín um þessi mál. Ég tek upp "jaðarskattana" þ.e. mér virðist lífeyrissjóðirnir séu nær eingöngu að greiða niður eftirlaun og tekjutryggingar hins opinbera. Þannig virðist mér (skv. reikivél TR) eftirfarandi:
Fyrstu 100 þús gefur viðbót 4 þús
næstu 100 þús gefa tæp 17 þús og þriðji 100 þús kallin gefur um 25 þús, eða 300 þús gefa samtals 45 þús þ.e. um 85% skattar og jaðaráhrif. Getur verið að þetta sé rétt???
S.

Nafnlaus sagði...

Bara að leysa upp sjóðina í núverandi mynd og breyta núverandi "eign" hvers og eins í séreign (sem td. erfist) og leggja þessar skuldbindingar af.

Þá er málið að mestu leyst.

Nafnlaus sagði...

Þessar forsendur standast varla er það? Þú gefur þér raunávöxtun sjóðanna þurfiað vera um 3,5% svo þeir geti staðið við sínar skuldbindingar. Hver hefur þessi raunávöxtun verið síðustu árin? Skv. upplýsingum er raunávöxtun síðustu tíu árin að meðaltali um 1,6% á ári. Hvernig geta stofnanir á borð við lífeyrissjóði, sem eiga að heita sérhæfðir í að ávaxta peninga ekki náð nema 1,6% raunávöxtun síðustu tíu árin? Verður ekki að taka þetta sem skandal?

Sem dæmi má nefna að raunávöxtun ríkistryggðra ríkisskuldabréfa síðustu tíu árin hefur verið í kringum 4%. Það er um 150% hærri ávöxtun en öll tilraunastarfsemi lífeyrissjóðanna, sem hafa eytt milljörðum á milljarða ofan í í rekstur sjóðanna, og verið með alls kyns snillinga að vinna við að ná einhverri ávöxtun á fé sjóðsfélaga. Niðurstaðan er 1,6% ávöxtun. Það er er ótrúlega lélegur árangur og verður að skrifast algerlega á stjórnendur lífeyrissjoðanna. Það væri réttast að setja eitthvert þak á þessa sjóði, svo fólk geti flutt peningana sína í aðrar stofnanir ef árangurinn yfir tiltekið tímabil er jafn slakur og þarna kemur í ljós. Það er engin pressa á þessu liði sem vinnu í sjóðunum að ná neinum árangri. Þetta lið virðist of djúpt sokkið í leðursófana.