fimmtudagur, 28. júlí 2011

Hagvöxtur - auknar skatttekjur

Í viðræðum aðila vinnumarkaðs og stjórnvalda undanfarin ár hefur margoft komið fram að vaxandi hagvöxtur sé eina leiðin frá þeim doða sem ríkir í atvinnulífinu. Hagfræðideildir atvinnulífsins benda á að ef hagvöxtur yrði árlega um 2% til ársins 2020, yrðu lífskjör þá svipuð og þau voru 2008. En atvinnuleysi yrði svipað og það er nú og velferðarkerfið verulega laskað, sem er óásættanlegt. Það þarf 5% hagvöxt til ársins 2020 til þess að losna við atvinnuleysið, bæta lífskjör og ná velferðakerfinu úr því falli sem það hefur verið undanfarin 2 ár.

Forsenda þess að ná hagvexti upp er að auka fjárfestingar í atvinnulífinu, en þær hafa um langt skeið verið allt of lágar og voru á síðasta ári komnar niður í um 13% af vergri landsframleiðslu, innan við 200 MIA. Þetta hefur valdið þeim doða sem hér ríkir.

Tekjufall ríkissjóðs hefur þar af leiðandi verið umtalsvert. Aðilar vinnumarkaðs hafa haldið því fram að ef við ætlum að ná settum mörkum og skapa raunverulegar forsendur fyrir uppgangi og bættum kaupmætti verði lágmarksfjárfestingar í atvinnulífi að aukast í um 280 MIA árið 2011, 345 MIA á árinu 2012 og 365 MIA á árinu 2013. Fjárfesting fari þá upp í 21% af vergri landsframleiðslu sem er lágmark fyrir viðunandi hagvexti.

Það samfélag sem við gerum kröfu um er dýrt í rekstri. Lengra verður ekki gengið í skattahækkunum, það mun kalla yfir okkur enn meiri doða. Augljóslega verður að ná jöfnuði í opinberum rekstri. Fyrir lok þessa árs verður að minnka rekstrarkostnað hins opinbera ekki bara verulega, heldur umtalsvert. Það kallar á að skapa verði enn fleiri störf hjá fyrirtækjunum á almennum markaði, eða um 20 þús. ný störf hér á landi á næstu árum, sá möguleiki er einungis fyrir hendi með vexti tæknifyrirtækja, það eru ekki sjáanleg fjölgun starfa í sjávarútvegi eða landbúnaði.

Í öllum alþjóðlegum áætlunum er reiknað er með að orkuverð tvöfaldist til ársins 2030. Það gæti leitt til þess að tekjur Landsvirkjunar fimmfaldast á þessum tíma og orkufyrirtækin gætu þá greitt skatta til samfélagsins, sem samsvari kostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins.

Huga þarf að auðlindagjöldum þannig að þar verði ekki farið í sama farveg og kvótinn fór. Tryggja þarf að ráðandi hlutur í orkufyrirtækin séu í eigu almennings. Vatnsaflsvirkjanir eru gullnámur, ekki er komist hjá því að nýta þær, ef svona fámenn þjóð ætlar að geta staðið undir rekstri á því velferðasamfélagi sem við gerum öll kröfu til. Það er eina leiðin til þess að fyrirbyggja að við drögumst ekki enn meir aftur úr hinum Norðurlöndunum.

Ekki verður lengra gengið í að hækka skatta umfram það sem nú er, engin sátt verður um að draga enn meir úr velferðarkerfinu og láta styrki til þeirra sem minnst mega sín rýrna enn frekar. Þetta verður einungis gert með því að nýta betur þær auðlindir sem þjóðin á. Þar er að finna þá viðspyrnu sem leitað er eftir við að komast út úr doðanum til endurreisnar íslensks atvinnulífs.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mjög skynsamlega mælt.

Þakkir til Guðmundar,

Hlynur Jörundsson sagði...

Eina vitræna lausnin ... en ekki farin af óskiljanlegum ástæðum.

Því miður virðist það ekki skiljast að endurskipulagning á útreikningum og aukin lán til að borga Visareikninginn koma heimilinu ekki á réttan kjöl ef ekki aukast tekjurnar. Það verður ekki mikið lengra komist í aðhaldi á heimilinu nema taka af lífi afa og ömmu og henda ungabörnunum á vergang .. svo eina lausnin er að fleiri fari að afla tekna.

Því miður þrátt fyrir ábendingar AGS og matsfyrirtækjanna ( og þær eru þarna ) þá virðist forgangsröðin vera frekar sú að aflífa afa og ömmu og setja liðið á vergang.

Sem er auðvitað toppurinn á hálfvitaganginum.

Nafnlaus sagði...

Flott blogg - takk fyrir!

Kveðja,

Guðbjörn Guðbjörnsson