miðvikudagur, 20. júlí 2011

Mótsagnakenndur málflutningur

Undanfarnar vikur hafa verið áberandi hástemdar yfirlýsingar í fjölmiðlum um að ferðaþjónustan á SA-horni landsins stefndi í þrot. Þessar yfirlýsingar hafa kallað á viðbrögð úr öðrum landshlutum. T.d. hvað gerist ef sólríkt er á norðurlandi en rigningarsumar á suðurlandi, eða kalt fyrir norðan og gott veður fyrir sunnan. Sambærilegt gerist með einhverjum hætti á hverju ári, án hástemmdra yfirlýsinga.

Yfirlýsingar af þessu tagi eru ekki að vinna þessum atvinnuvegi. þær standast ekki. Tekjur fara í aðra farvegi, fólk hættir ekki að ferðast. Starfsfólk á einum stað tapar tekjum, á meðan fólk annarsstaðar fær tekjur. Eiginlega er ekki hægt annað en að túlka hástemmdar yfirlýsingar á þann veg að starfsfólk á sumum svæðum eigi að hafa forgang umfram starfsfólk á öðrum landsvæðum.

Yfirlýsingar á svipuðum grunni eru í fjölmiðlum þessa dagana, þar á ég við einkennilega gagnrýni m.a. verkalýðsforingja á NA-landi, sem er sauðfjárbóndi aukreitis og forsvarsmanna stéttarfélags bænda í sauðfjárbúskap. Þeir eru ná vart upp í nef sér yfir reiði, þegar bent er á að fólk muni líklega hætta við að kaupa lambakjöt í sama magni og áður, ef verð þess hækkaði um fjórðung. Skilja má á oðrum þeira að fólk muni hætta að borða ef það fær ekki lambakjöt.

Hér vill ég taka sérstaklega fram að ég er ekki að sjá eftir að sauðfjárbændur fái launahækkanir, ég er að benda á að þessi málflutningur er ekki að skila sér í betri stöðu fyrir bændur, þvert á móti.

Hér gerist í raun það sama og ég bendi á hér framar hvað varðar ferðaþjónustuna, neysla færist á milli sviða. Aðrir matvælaframleiðendur auka sölu og aðrir starfsmenn fá vinnu. Þeir sem starfa við framleiðslu og úrvinnslu á lambakjöri hafa ekki forgang umfram þá sem framleiða folaldakjöt, nautakjöt eða aðrar fæðutegundir.

Heildarsamtök launamanna mótmæla ekki sérstakri hækkun lambakjöts. En alþekkt er að þau hafa ætíð mótmælt ef opinberir aðilar eða fyrirtæki hækka skattar, álögur, þjónustugjöld, sem leiðir til þess að einhver tiltekin kostnaðarliður heimila er hækkaður umfram umsamdar launahækkanir. Stundum er þetta nefnt að kostnaðarhækkunum er rutt út í verðlag, og þar með er kippt í burtu forsemdum fyrir hófsömum umsömdum launahækkunum sem leiða áttu til þess að kaupmáttur myndi vaxa.

Það er erfitt að skilja umsagnir og framangreindar upphrópanir. Málflutningur forsvarsmanna sauðfjárbænda er almennt sagt ákaflega torskilinn og mikið umtalaður. Þeir vilja njóta þess að geta framleitt lambakjöt með ríkisstyrkjum frá íslenskum skattgreiðendum og flytja það út, en hækka einnig verðið hér landi.

Jafnframt vilja sauðfjárbændur fá að njóta tollafríðinda með sínum útflutning sem Ísland nýtur í gegnum fjölþjóðasamning, samfara því að þeir berjast hatrammlega gegn því að Ísland geri samninga sem muni leiða til þess að neysluverð íslenskra heimila færist niður vegna lægri tolla, stöðugleiki náist, vextir lækki, verðtrygging verði afnumin. Hagsmunir þeirra vegi þyngra en hagsmunir fjöldans.

Maður á svo sem ekki von á málaefnanlegum svörum úr þeirri átt, að venju koma einhverjar dylgjur um samtök launamanna og kjarabaráttu þeirra og fleira í þeim dúr.

8 ummæli:

Hannes Þórisson sagði...

Góður. Alveg rétt séð með bændur og Samtökum.

Hrafn Arnarson sagði...

Þessi umræða er undarleg. Sauðfjárbændur lýsa því yfir að þeir vilji 25% hækkun á skilaverði.Skilaverð fá þeir fá afurðastöðvun/sláturleyfishöfum. Rökin eru tvenns konar; aðföng hafa hækkað mjög mikið og raunhækkun á verði útflutts kjöts er 50% á síðastliðnum árum. Endanlegt verð til neytenda er allt annað mál en auðvitað skylt.Kjötvinnslur og verslun eiga eftir að leggja á vöruna og loks kemur vaskurinn. Sem sagt leiðin er löng frá bónda til neytenda. Bóndinn er einn af mörgum sem hefur áhrif á verð. Í allri Evrópu er landbúnaður styrktur af hinu opinbera. Hér eru heildarstyrkir rúmir 13 milljarðar og stærsti hlutinn er beingreiðslur. Styrkir hér eru með því hæsta sem gerist. Íslenskur landbúnaður framleiðir útvalsvöru en hagkvæmni í rekstri má auka verulega.

T. sagði...

1. Sauðfjárbændur hafa sett fram kröfu um 25% hækkun á verði til sín. Því fer fjarri að það þýði 25% hækkun á útsöluverði. Verð til bænda er á bilinu 400-500 kr/kg en þannig að 25% hækkun er um 100 kr/kg. Meðalútsöluverð er 1000-2000 kr/kg svo 100 kr hækkun er á bilinu 5-10% (allar tölur eru cirka).

2. Kröfur sauðfjárbænda eru órökréttar en ekki endilega óskiljanlegar. Við viljum ekki að útlendingar fjárfesti í sjávarútvegi og orkuauðlindum á Íslandi við styðjum þess háttar fjárfestingar Íslendinga erlendis. Okkur finnst eðlilegt að við getum flutt til annarra landa vegna náms eða starfa en setjum umfangsmiklar takmarkanir á frelsi fólks utan Schengeng til að koma til Íslands...

3. Það hlýtur að teljast óeðlilegt að niðurgreiða kjöt til útflutnings.

Nafnlaus sagði...

Hvenær ætlar þú eiginlega að hætta með þennan eilífa söng þinn um að vextir verði eitthvað betri þó bændur fái sínar niðurgreiddu framleiðslu greidda í gegnum millilið sem hetir ESB, í staðin fyrir að greiða þeim þetta beint í gegnum ríkissjóð?

Hvað er vaxtastigið í þeim löndum þar sem ástandið er svipað og á Íslandi? hefur það eitthvað með landbúnaðarframleiðslu að gera?

Það var nú verið að hækka vexti á evrusvæðinu núna síðast á mánudaginn um 1,5%. Vextir í löndum eins og á ítalíu, Grikklandi, Spáni, Portúgal, Írlandi og fleiri löndum eru gríðarlega háir, síst lægri en hér á landi.

Vextir eru ekki eitthvað fyrirbrigði sem er fundið út með því að sleikja vísifingur og pota honum svo út í loftið. Vextir mæla oftar en ekki áhættuna sem er fólgin í að lána peninga, á bakvið slíka útreikninga eru oftar en ekki flóknir útreikningar, þó margir haldi að þetta sé bara fundið ut eins og að flétta gamla alþýðublaðinu. Eftir því sem áhættan er meiri, þeim mun hærri eru vextirnir. Oft vilja þeir sem lána peninga líka hærri vexti eftir því sem verið er að fjármagna hærri hluta fjárfestingar með lánum, þ.e. með litlu eigið fé.

Það sjá víst flestir á þessu, að ástæðan fyrir háum vöxtum á Íslandi er engin önnur en sú að menn telja mikla áhættu fólgna í að lána einstaklingum, sveitarfélögum, svo ekki sé talað ríkissjóði. Eiginfjárstaðan er léleg, reksturinn er frekar dapur.

Síðan er það jörgeggið sjálft lífeyrissjóðirnir sem eru sér kapítuli út af fyrir sig, og eru að stórum hluta sökudólgurinn fyrir þessu háa vaxtastigi. Þeir hafa hagað sér eins og asnar í fjárfestingum og hafa í raun og veru kynnt undir lélegar fjárfestingar sem hafa svo leitt af sér háa vexti. Voru lífeyrissjóðirnir ekki stórir eigendur bankanna fyrir hrun? Það er því miklu frekar lífeyrissjóðunum að kenna hvert vaxtastigið er á Íslandi, frekar heldur en hvort landið sé meðlimur í einhverju tollabandalagi eða ekki.

Flest lönd í kringum okkur eru nú á fullri ferð að setja lögggjafir og reglur um að vernda svæði svo þau fari ekki undir byggingaland, heldur verði hægt að rækta áfram matvæli. Þetta er vegna þess að miklar áhyggjur eru í þessum löndum að matvælaverð muni enn hækka og erfitt geti verið að fæða þjóðir. Á íslandi eru hins vegar alls kyns trúðar sem vilja helst leggja landbúnaðinn nðiur í heild sinni, svo hægt sé að ganga í evrópusambandið.

Ruglið ríður ekki við einteiming.

Nafnlaus sagði...

Afstaða sauðfjárbænda er fullkomnlega siðlaus og óþolandi.

Hærra verð til þeirra vegna útflutnings ætti vitanlega að ganga á móti niðurgreiðslum skattgreiðenda.

Bændur telja sjálfsagt að nýta einokunarstöðu sína og hækka verð til neytenda.

Á sama tíma telja þeir sjálfsagt að þessir sömu neytendur niðurgreiði nframleiðslu þeirra fyrir útlendinga.

Þessi ósvífni slær öll met.

Jafnvel á Íslandi.

Foringjar þessarar stéttar eru . . .

Nafnlaus sagði...

Allt hárétt og satt.
En það væri gaman að sjá fréttir aftur í tímann, svona 20 ár hversu oft það hækkar allt í kjölfar launahækkana.
Laun hækka og þá koma allir með sínar hækkanir, til hvers þá að hækka laun ?.

Guðmundur sagði...

Það verður að finna þá mjóu línu þar sem hægt er að mæta kauphækkun með aukinni framleiðni og hagræðingu, þá fer kostnaðaraukinn ekki út í verðlagið og verðbólgan verður innan marka og þá hækkar kaupmáttur. Ef hækkað er of mikið á of skömmum tíma verða afleiðingar þær að kaupmáttur minnkar, sakir þess að þeim er mætt með því að ryðja þeim út verðlagig og hið opinbra og sveitarfélög verða að hækka þjónusgjöld og eða skatta. Þá hækkar verðbólga og vextir og allir í tómu tjóni.

Þetta vilja margir ekki skilja og segja að verkalýðsfélögin séu aum í dag, það sé nú annað þegar verkalýðsforingjar gengu um á gúmmístígvélum, fóru í löng og góð verkföll til þess að efla félagsandann og helltu niður mjólk og hækkuðu laun um 30% á 6 mánaða fresti og tókst að halda verðbólgu í 60 - 100% á ársgrundvelli

Nafnlaus sagði...

Það er eins og að bera saman epli og appelsínur að bera saman lífeyrissóðina og verkalýðsfélögin fyrir 30-50 árum og lífeyrissóðina í dag. Það sjá allir.

Í dag sitja helstu forkólfar verkalýðsfélagana við hlið viðsemjenda sinna í stjórnum peningasjoða og fyrirtækja í gegnum lífeyrissjóðina. Það eru sameiginlegir hagsmunir þeirra að dæmið gangi upp í rekstri fyrirtækjanna er það ekki? Það ætti amk að vera þannig. Til þess að það gangi upp má ekki borga fólki of há laun? Ef það er gert fer rekstur fyrirtækjanna úr skorðum? Hvort ætli vegi þyngra kontorinn hjá verkalýðsfélaginu, eða gljáfægt fundarborðið í stórfyrirtækinu með stórgrosserunum?

Það er alveg á hreinu að þessar launahækkanir sem var samið um fyrir nokkrum vikum er ekki á nokkurn hátt hægt að ná fram með aukinni framleiðni. Það er ómögulegt með öllu, ríkið getur bara skattlagt fyrirtæki og almenning, þó það sé aðgerð sem kallast að pissa í skóinn sinn, og þykir ekki mjög sniðug. Einkafyrirtæki hafa ekki möguleika á svona "patent" lausnum, og verða þess vegna að leggja upp laupana, afhenda ríkisbönkunum lyklana, ríkisvæðingin heldur áfram.


Þetta tal verklýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar er í algerum samhljóm. Þar er talað um að háir vextir séu vandamál á Íslandi og það þurfi að ganga í ESB til að fá lægri vexti. Þeir sem fylgjast með fréttum sjá að í gær var verið að semja um niðurgreidda vexti til fjölmargra ESB ríkja, svo kallaðan neyðarpakka. Vaxtastigið er 3,5%á og á niðurgreiddu gengi. Fyrirtæki og skattborgarar innan ESB borga niðurgreiðsluna, vextir til þessara ríkja þyrftu að vera mun hærri.

Ríkið fær alltaf bestu vaxtakjörin, ríkið tekur i mörgum tilfellum lán og endurlánar síðan einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum, væntanlega með einhverju álagi, sem byggir á því hversu áhættusamt það er að lána viðkomandi.

Það er því miður erfitt að sjá hvernig ESB aðild muni færa sveitarfélögum á borð við Hafnarfjörð og Álftanes lægri vexti þó Ísland gangi í ESB? Það er líka erfitt að sjá hvernig einstaklingar sem skulda kannski 130-150% af virði fasteignarinnar sinnar í bankalánum muni fá mikið lægri vexti? Er þetta ekki einhver áróðursbrella ESB sinna? Trúa þeir því virkilega sjálfir að þegar íslenska ríkið fengi lán á 4% vöxtum, þá myndi það geta lánað út á mikið lægri vöxtum en bjóðast í dag?