Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra sagði í viðtali 2002 að upptaka evrunnar yrði, að hans mati, dauðadómur fyrir Ísland sem íslenska sjálfstæða þjóð. Davíð er enn á sömu skoðun og hefur sagt í fjölmiðlum að það sem skiptir máli fyrir sjálfstæða þjóð sé eigin gjaldmiðill. Það skiptir Davíð engu hversu illa fljótandi gjaldmiðill hefur leikið launamenn, enda hugsar hann greinilega frekar um hagsmuni vinnuveitenda sinna sem vilja greiða laun í krónum en gera upp við sjálfa sig í Evrum.
Þekkt eru mörg dæmi um sjálfstæðar þjóðir sem ekki telja brýna þörf að nota eigin mynt. Þar má t.d. nefna Lúxemborg með innan við hálfa milljón íbúa, eitt af stofnríkjum Evrópusambandsins og smáríkið Möltu með tæplega 400.000 íbúa. Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, sem fagna frelsi í Evrópusambandinu eftir langa ánauð og eru að taka upp Evru. Finnar nota Evru, Danir og Færeyingar eru með sinn gjaldmiðil fasttengdan við Evru, þannig mætti lengi telja.
Leiðtogar framangreindra þjóða eru ekki landráðamenn sem vinna gegn sjálfstæði þjóða sinna og geri hana að þrælum. En íslenskir launamenn búa í efnahagslegum þrælabúðum. Þrátt yfir að þeir hafi í raun samningsrétt um launakjör sín, þá fara stjórnmálamenn með kjarasamninga eins og þeim sýnist. Staðreyndin blasir við, íslenskir launamenn voru búnir að ná þokkalegum kaupmætti árið 2005 í samanburði við nágrannaþjóðir, en það var þurrkað út með gengisfalli krónunnar. Þetta hefur gerst reglulega allan lýðveldistímann.
Í könnunum kemur fram að íslenskir launamenn eru harðastir allra Evrópuþjóða í verkföllum og vinnudeilum. Íslenskir launamenn eru ekki öðruvísi fólk en gengur og gerist annars staðar á Vesturlöndum. Skýringanna er frekar að leita í umhverfinu. Aðstæðurnar eru öðruvísi. Það er nánast ómögulegt að semja um laun þar sem efnahagsumhverfi er óstöðugt og verðbólgan og gengisfall eru nýtt til þess að eyðilegt allt á svipstundu til hagsbóta fyrir fáa.
Sífellt þarf að huga að „rauðum strikum" og vera á varðbergi gagnvart dýrtíð og kaupmáttarrýrnun vegna hugsanlegrar gengislækkunar. Ætla má að slíkar aðstæður séu áhrifarík uppskrift að vinnudeilum. Veik króna stuðlar að verkföllum og óstöðugleika á vinnumarkaði. Það er verulegur ávinningur í því að nota mynt sem skipar traustan sess á alþjóðavettvangi, en upp á slíka stöðu býður Evran.
Forseti lýðveldisins hefur alloft sagt í erlendum fjölmiðlum að meginástæða þess að Ísland hafi sótt um aðild að ESB hafi verið efasemdir eftir hrun um að Ísland gæti staðið undir eigin gjaldmiðli. Hann bendir aftur á móti á að gengislækkun íslensku krónunnar hafi hinsvegar hjálpað íslenskum útflytjendum mikið í kreppunni en krónan sé enn um þrjátíu prósentum minna virði en árið 2008, en tekur ekki fram að 24 þús. heimili liggja í valnum.
Kaupmáttur íslenskra launamanna hefur fallið um 15% frá Hruni á meðan hann hefur vaxið um 3 – 15% í nágrannaríkjum okkar. Löndum sem eru innan ESB og eru annað hvort með Evru eða gjaldmiðil sem er fastengdur við Evru.
Nokkrir hafa ásamt forseta lýðveldisins nýtt bók nóbelshöfundar okkar Sjálfstæðu fólki til þess að skilgreina baráttu sína gegn ESB. Í sjálfu sér lýsir þessi bók vel hvert þessi eingrunarstefna mun leiða íslendinga, en það er reyndar hið gagnstæða sem þeir virðast telja ná með því að bera baráttu Bjarts í Sumarhúsum saman við baráttu sinni gegn ESB aðild.
Bjartur notaði allt sítt líf til þess að verða sjálfstæður. Hann er einþykkur hrotti sem fer illa með alla sína nánustu og hugsar aldrei um þarfir annarra en sjálfs sín. Hann berst alla ævi við að halda svokölluðu sjálfstæði sínu en færir fyrir það miklar fórnir og í sögulok hefur hann tapað öllu og er á leið enn lengra inn í heiði, á enn aumara kot.
Bjartur víkur aldrei góðu að nokkrum, segir aldrei neitt fallegt við nokkra sál. Hann leggur aldrei neinum lið. Halldór dregur upp mynd í bók af andstyggilegum manni. Fanti sem fór illa með konur sínar og skepnurnar á bænum. Allt skal lúta valdaþrá hans.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli