föstudagur, 8. júlí 2011

Tekst að rjúfa umsátrið um íslenskt samfélag?

Ég hef verið nokkuð duglegur við að rita pistla hér á Eyjuna, búinn að skrifa rúmlega 1.100 frá því ég hóf að skrifa hér haustið 2007. Hef að auki ritað mikið að heimasíður innan verkalýðshreyfingarinnar og í prentmiðla hér á landi og á hinum norðurlandanna. Fengið yfirleitt ákaflega jákvæð og málefnaleg viðbrögð, en verða viðurkenna maður sér stundum ekki tilganginn.

Einmitt þetta er umræðuefni margra þessa dagana, hversu lítið okkur miði og við séum frekar á öfugri leið og fjarlægjumst nágrannalönd okkar. Áberandi séu hvernig þeir vinni stjórnmálamennirnir sem leiddu yfir þjóðina spillinguna og sköpuðu forsendur Hrunsins og svo þeir sem nýttu sér þessa stöðu og drógu til sín milljarða króna. Það virðist sem það eiga að ráða áfram framgangi mála hér á landi tengsl við tiltekin flokkspólitísk öfl, það skiptir litlu hversu vel unnar og rökfastar framlagðar tillögur eru.

Margir vonuðust til þess að það góða sem myndi hljótast af Hruninu að sá tími myndi nú renna upp að hægt væri að tala opinberlega á heiðarlegan og opinskáan hátt. En tök valdastéttar stjórnmálanna á samfélaginu, þá sérstaklega armur tiltekins Flokks, eru gríðarleg, mikið meiri en ég hafði gert mér grein fyrir, það fyllir mann af sorg, já óendanlegum trega-Blús. Þessi hópur sem hefur þessi völd ætlar ekki að sleppa þeim. Þeir ásamt hjörð sinni, sem lifir í velvildarskjóli valdastéttarinnar, trúa því að engir aðrir hafi getu og burði til þess að stjórna landinu.

Þrátt fyrir að við blasi að það var vinnulag og stefna þessarar valdastéttar sem leiddi yfir landið Hrunið gengdarlausa spillingu og olli gríðarlegu eignatapi almennings og kaupmáttarhrapi. Erlendar vinaþjóðir væru búnar að aðvara þáverandi forsvarsmenn í íslenskum stjórnmálum allt frá árinu 2007. Sama á við aðvaranir frá aðilum vinnumarkaðs. Um þetta má m.a. lesa fyrstu pistlum mínum veturinn 2007 - 2008. Einnig segja viðbrögð tiltekins hóps manna úr Flokknum við því að kosið var til Stjórnlagaþings og tilraunum til þess að breyta Stjórnarskránni.

Þessi sjónarmið eru helsti dragbíturinn á að jákvæðar breytingar nái fram að ganga í íslensku samfélagi þar er barist fyrir viðskiptahöftum og sérhagsmunum til þess að verja hagsmuni fárra á kostnað almennings.

Þessi valdastétt vill endursegja söguna sér í hag og fyrirskipa almenning að trúi því að það sem hefur gerst eftir Hrun sé ástæða fyrir núverandi stöðu Íslands. Það er ekki í fyrsta skipti sem það er gert, sömu menn fengu sinn sagnameistara (sem valdastéttin setti sem prófessor við Háskóla Íslands!!) til þess að endursemja sögu síðustu aldar og var sjónvarp allra landsmanna fyrirskipað að kaupa þá þætti dýrum dómum og sýna á besta útsendingartíma. Samfara því að öllum grunnskólum skipað að kaupa seríuna og sýna hana öllum unglingum landsins reglulega.

Í dag berst valdastéttin heiftarlega og af fullri hörku gegn því að Stjórnarskrá sé breytt, krónunni verði viðhaldið, fiskveiðistjórnunarkerfinu verði ekki breytt, Íslandi haldið utan ESB, með áframhaldandi háu verðlagi á dagvöru, háum vöxtum og verðtryggingu. Þetta veldur því að að margir eru fara af landi brott eða lýsa því yfir að þeir að óbreyttu vilji ekki búa í svona samfélagi.

Í nýlegri skoðanakönnun kom fram að 98% ungs fólks ætlar að leita að störfum erlendis, það sér ekki framtíð sína í fiskvinnslu og landbúnaði, enda launin svo lág að fólk vill frekar vera á atvinnuleysisbótum en vinna þar. Það eru ekki einungis atvinnulaust fólk sem er að fara það er frekar velmenntað fólk sem lætur ekki bjóða sér svona þjóðfélag.

Rannsóknarskýrsla Alþingis er hlutlaus heimild um aðdraganda hrunsins og skilgreinir mjög vel þá ábyrgð sem menn báru. Listi mistaka og vanrækslu er langur, en við blasir skeytingarleysi þáverandi stjórnmálaleiðtoga og fylgismanna þeirra gagnvart staðreyndum. Framtíð landsins snýst um að ná fram breytingum til hagsbóta fyrir samfélagið allt.

Við stjórnlagaráðsmenn höfum upplifað mikla jákvæðni almennings í garð starfa okkar undanfarna mánuði. En erum þessa dagana að upplifa aukna ágengni flokksbundinna valdakarla í að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu ráðsins, þeir óttast greinilega að hér geti verið á ferðinni eitthvað sem gæti orðið þeim að farartálma í örvæntingarfullri viðleitni sinni í að viðhalda tangarhaldi sínu á íslensku samfélagi.

Tekst okkur í sameiningu að rjúfa þetta umsátur? Ef ég á segja eins og er þá vildi ég trúa því, en er farinn að efast um að það takist.

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Stjórnlagaráðið er eina von Íslands.

Það segi ég í fúlustu alvöru.

En greining Guðmundar á vandanum veldur mér vonbrigðum.

Því miður verður hann ekki aðeins rakinn til Flokksins.

Núverandi ríkisstjórn er hrein hörmung.

Enn veður spillingin uppi án þess að stjórnvöld grípi inn í.

Núverandi ráðamenn vernda af einhverjum ástæðum þá sem settu landið á hausinn sbr. Landsbankinn og fjölmiðlar Jóns Ásgeirs.

Vandinn er miklu alvarlegri og dýpri en fram kemur í grein Guðmundar.

Því miður.

Þakka annars góð skrif og upplýsandi.

Og svarið við spurningunni er: nei.

Það tekst ekki.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur
Ég held að það sé algerlega undir stjórnlagaráði sjálfu komið, sem og einstaklingum innan þess, hversu vel tekst til um breytingar í kjölfar þessarar vinnu. Mestu skiptir að niðurstaðan sé vel vönduð, skynsöm og rökföst, með almannahagsmuni að leiðarljósi, hafin yfir pólitíska hagsmuni og sérhagsmuni. Valdaklíkur og pólitískur subbuskapur eru einfaldlega hluti af öllum samfélögum og hér á landi er þetta síður en svo einskorðað við Sjálfstæðisflokkinn. Ef stjórnlagaráð fellur t.d. í sömu gryfju og sjávarútvegsráðherra gerði kvótamálinu, þ.e. að vera uppvís að afar óvönduðum vinnubrögðum, er hætt við að ráðið fái ekki breiðan stuðning skynsamra Íslendinga í öllum flokkum.
J

Nafnlaus sagði...

Hvað finnst þér um undirskriftasöfnun HSH? Sjálfur hef ég hikað við að skrifa undir af því þar vilja þau afnema verðtrygginguna (og segja ekkert hvað þau vilja í staðinn og hvaða mál það leysi að afnema hana)

Kristján sagði...

Góð grein Guðmundur, nú stendur baráttan um sérhagsmuni á Íslandi.

Nafnlaus sagði...

Mundu Guðmundur að valdastéttir eru jafn mikill hluti af þjóðinni og aðrir. Þeirra rödd má einnig heyrast og taka á jafn mikið tillit til skoðanna þeirra og annarra.

TómasHa sagði...

Er ekki rétt að upplýsa hvaða menn þetta eru? Svona vinnubrögð eiga auðvitað ekki að eiga sér stað.

Nafnlaus sagði...

Það bara verður að takast. Ef ekki þá fyrst tapast allt það fé sem glataðist í hruninu.

Nafnlaus sagði...

Vá - maður fær hroll og ekki efast ég eina mínútu um það sem þú skrifar hér. Hins vegar finnst mér hálfgerð svik hjá fólki sem VEIT um þessa menn og framferði þeirra þegar þeir vilja hvorki nafngreina þá eða segja frá atburðum. Það eru svik við fólkið og úr því að ástandið er svona alvarlegt ber þér hreinlega skylda sem þjóðfélagsþegn að segja frá því. Annars er hætta á að við tökum svona frásagnir sem enn eina "úlfur, úlfur" söguna þar sem ýjað er að einu og öðru en kjarkur engin til að standa við og upplýsa.

Þórdís B sagði...

Hvers vegna ætti það allt í einu að takast, þegar við, borgararnir (sem stundum heitum skuldarar og á 4 ára fresti heitum kjósendur), gerum ekkert til að hrinda því?
Fyrir utan allt annað, er brostinn á atgervisflótti fólks sem nennir ekki lengur að vera þrælar verðtryggingar og hríðfallandi lífsstaðals. Það eru eru ekki bara læknar sem eru að flytja út, það er tæknigeirinn líka, þótt fólk verði minna vart við það. Ert þú ekki einmitt búinn að vara við þeirri þróun mörgum sinnum?
En er nema von að fólk vilji flytja af landi brott þegar við erum með glæpalýð í banka- og stjórnkerfi sem hefur það helst að markmiði að ræna okkur, handónýtan gjaldmiðil sem hefur fallið um 80% síðan 2008 - fyrir utan spilltustu stjórnsýslu norðan Alpa?
Hér ráða ríkjum klíkuskapur og spilling og hafa ráðið alla tíð. Ég hef rætt íslensku verðtrygginguna við útlendinga, sem eru steinhissa á því að íslenskur almenningur láti sífellt rýja sig inn að skinni. Einn þeirra spurði hvers vegna fólk viðhefði ekki stanslaus mótmæli á Austurvelli.
Nei, við sættum okkur bara við að borga hæstu vexti í heimi, láta hirða allt af okkur og gera eignalaus eftir margra ára þrældóm.
Og á meðan svo er, verða engar breytingar til batnaðar né bjargar.

Guðrún Ægisdóttir sagði...

Guðmundur minn - í krafti fjöldans getum við haft þessa viðbjóðsklíku undir. Enginn er svo valdamikill að hann sé öruggur í þeirri stöðu til æviloka. Og við erum mörg, sem fylgjumst grannt með störfum stjórnlagaráðs, og bindum vonir okkar við það. Og- það er gott að þessir valdasjúklingar þurfa þó að opinbera sig, og stíga fram í dagsljósið sem slíkir, þegar þeir setja sig upp á móti ákvörðunum stjórnlagaráðs. Og þá eru þeir á berangri.

Nafnlaus sagði...

Andstaða við aðlögun að ESB hjá þjóðinni snýst ekki um að halda valdaklíku við völd. Týpískt að reyna að setja það fram þannig. Er það ekki dæmigert um valdníðslu hvernig Samspillingin hefur farið sínu fram með frekju og hroka í ESB umsókninni?? Eða erum við öll bara innilega heilaþvegin af valdaklíkunni, að þið ESB-sinnar ættuð að hafa vitið fyrir okkur? Hmmm... innlend spilling eða erlend yfirráð? Ekki erfitt val. Það er hægt að gera eitthvað við innlendri spillingu, minna við erlendum yfirráðum.

Annars sammála greininni almennt.

Eina lausnin við þessu ástandi eru persónukosningar og beint lýðræði. Veit ekki hvort það hljómar vel fyrir ESB-sinnum, þar sem meirihluti þjóðarinnar hefur ekki áhuga á aðild, já og m.a.s. meirihluti fyrir að draga umsóknina tilbaka.

Guðmundur sagði...

Það er umtalsverður meirihluti fyrir því að ljúka aðildarviðræðum og taka síðan afstöðu. Nei-sinnar óttast þetta umfram annað, það kemur glögglega fram í málflutningi þeirra. Ef litið er yfir þá sem eru áberandi í Já-fylkingunni þá kemur í ljós að það eru allt núverandi eða fyrrverandi Sjálfstæðismenn. Það er því harla einkennilegt að halda því fram að það séu einvörðungu Samfylkingarmenn sem vilji skoða hvað Íslandi muni standa til boða í samningum við ESB.

Það blasir við að það eru gríðarleg átök innan Sjálfstæðisflokksins og þar eru í raun tveir flokkar, en í daglegri umræðu, m.a. í pistlinum hér, er rætt um skoðanir og vinnubrögð þeirra sem eru Hrunverjahlut Flokksins sem eru í ástarsambandi við VG og forseta landsins, eða með öðrum orðum Heimsýnarhópinn.

Sá hópur stendur að Morgunblaðinu, sem er kominn niður í lægstu lægðir í lestri og flest sómakært fólk vill ekki láta lengur bendla sig við og einnig hið ríkisrekna Bændablað, og þarf ekki að fara mörgum orðum yfir það hvernig málflutningur þess blaðs er.

Nafnlaus sagði...

Hrunið kom utan frá.

Siðblindir útrásarvíkingar sem þóttust eiga bankana tæmdu þá innan frá og stálu af þjóðinni sparifé sem það hafði safnað sér upp.

Ég skil ekki fólk sem fattar þetta ekki.
Og ég skil ekki það fólk sem lætur sem að þetta hafi aldrei átt sér stað og vil sýkna útrásarvíkingana.

Það fólk sem ekki sér þjófnað útrásaríkinganna, hlýtur að vera jafn siðblint og útrásarvíkingarnir.

Nafnlaus sagði...

"Þeir ásamt hjörð sinni, sem lifir í velvildarskjóli valdastéttarinnar, trúa því að engir aðrir hafi getu og burði til þess að stjórna landinu."

Þar hefurðu held ég rangt fyrir þér. Þetta fólk veit vel að það er ekki best til þess fallið að stjórna. Það sem það óttast mest er að fólkið í landinu fatti það. Það væri oskandi að Besta floknum tækist að syna folki þetta. Þa fyrst gætum við byrjað að breyta til i politikinn herna.

Að öðru leiti er ég alveg sammála þessum ágæta pistli!

Einar

Guðmundur sagði...

Hef fengið harla einkennilegar aths. sumar hverjar ekki birtingahæfar.

Ef það vefst fyrir fólki hverjir fóru með stjórn efnahagsmála árin fram undir Hrun þá eiga viðkomandi ekki að vera að taka þátt í umræðu um samfélagsmál og kannski lesa pistilinn yfir aftur.

Ef það er ekki ljóst hverjir hafa barist hvað harðast gegn þeim málum sem eru talinn upp í pistlinum þá ættu viðkomandi að fara á endurhæfingarnámskeið, eins og einn fyrr.v. ráðherra orðaði það þegar rætt var um efnahagsstefnuna.

Takk fyrir gríðarlega margar heimsóknir eins svo oft áður.