fimmtudagur, 28. júlí 2011

Ný stjórnarskrá - hvað nú?

Neikvæðu á að mæta með jákvæðu. Niðurrifi á að mæta með uppbygginu. Einræði og kúgun á að mæta með auknu lýðræði. Þetta vill almenningur, en sérhagsmunahópar hafa gengið öndverða leið og náð að einoka íslenskt samfélag og beitt síðan aðstöðu sinni til þess að verja sjálftekna stöðu. Umræðunni hefur markvisst verið splundrað og átaka- og klækjastjórnmál stunduð.

Krafa almennings hefur verið að ná tilbaka sem af því hefur verið tekið og hafa borið miklar væntingar til Stjórnlagaráðsmanna. Þetta skynjuðum við nýkjörnir Stjórnlagaþingmenn, kjörnir, með góðum kosningum.

Valdahóparnir reyndu að draga úr áhrifum kosninganna og letja fólk til þess að mæta á kjörstað, en 83 þús. mann mættu og kusu. Margir vildu taka þátt í verkefninu og 523 buðu sig fram og 25 kosnir. Þá var beitt öðrum brögðum til þess að koma í veg fyrir að Stjórnlagaþing gæti hafið störf. En þeir sem kosnir voru skynjuðu hvers var vænst af þeim og öxluðu sínar byrðar. 25 einstaklingar með ákaflega ólíka sýn og mismunandi reynslu, en þeir voru góður þverskurður af samfélaginu.

Fyrir lá gríðarlega mikið efni. Niðurstaða þjóðfunda og Stjórnlaganefndar. Nýlegar stjórnarskrár annarra landa. Tekist var á um mörg mál, en alltaf lá fyrir einlægur vilji allra að ná sameiginlegri niðurstöðu og textinn var mótaður á löngum fundum. Allir gáfu eftir til svo sameiginleg niðurstaða fyndist. Textinn varð smá saman til og var borinn undir sérfræðinga og endurskrifaður og borin undir alla starfshópana og endurskrifaður og aftur borinn undir sérfræðingana og endurskrifaður.

Framúrstefnulegur mannréttindakafli varð til
Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt þjóðfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti og lýðræði að hornsteinum. Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar. Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að tjá hugsanir sínar. Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga. Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.

Öllum skal með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis. Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er. Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma.

Öllum skal tryggður réttur til að stofna félög í löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Öllum skal tryggður réttur til að safnast saman án sérstaks leyfis, svo sem til fundahalda og mótmæla. Réttur þessi skal ekki háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Tekið var á því hverjir ættu auðlindir landsins og hvernig þær skildu nýttar.
Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur. Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.

Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja, beint eða óbeint. Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Tekið var á misvægi atkvæða og kosningakerfunum, persónuvali kjósandans og flokkræðið minnkað.
Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt. Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu samtaka. Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt.

Störf Alþingis voru efld og skilin milli framkvæmdavaldsins og löggjafans gerð skýrari.
Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára. Þingnefnd eða fimmtungur alþingismanna getur óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. Ekki má afgreiða frumvarpið fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kannar hvers kyns athafnir og ákvarðanir ráðherra eða stjórnsýslu þeirra eftir því sem hún telur efni til. Skylt er nefndinni að hefja slíka könnun að kröfu þriðjungs þingmanna.

Beint lýðræði almenning tryggt, með málskotsrétti þjóðarinnar.
Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna.

Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal varða almannahag. Hvorki er hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni og ríkisborgararétt.

Alþingi fær skýrari verklýsingar og skil milli framkvæmdavalds og löggjafans gerð gleggri.
Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds hver á sínu sviði. Þeir bera hver fyrir sig ábyrgð á málefnum ráðuneyta og stjórnsýslu sem undir þá heyrir. Enginn getur gegnt sama ráðherraembætti lengur en 8 ár. Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og tekur varamaður þá sæti hans.

Ríkisstjórn tekur ákvarðanir sameiginlega um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni samkvæmt nánari ákvæðum í lögum. Meirihluti ráðherra þarf að vera á fundi þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi.

Þingnefnd, þriðjungur þingmanna, ríkisstjórn, sveitarstjórn, eða forseti Íslands, geta vísað til Hæstaréttar að dæma hvort lög, stjórnarathafnir eða athafnaleysi stjórnvalda samrýmist stjórnarskrá.

Tekið er fyrir að einn ráðherra geta án samráðs við aðra og án samþykki Alþingis gert alþjóðlega samninga.
Utanríkisstefna og almennt fyrirsvar ríkisins á því sviði er á hendi ráðherra í umboði og undir eftirliti Alþingis. Ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skal háð samþykki Alþingis.

Ráðherra gerir þjóðréttarsamninga fyrir hönd Íslands. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi, innsævi, landhelgi, efnahagslögsögu eða landgrunni, eða kalla á breytingar á landslögum, eða eru mikilvægir af öðrum ástæðum nema samþykki Alþingis komi til. Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst. Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.

Hvað gerir Alþingi nú?
Munu þingmenn Sjálfstæðismanna og Framsóknar reyna að bregða þúsund fótum fyrir niðurstöðu Stjórnlagaráðs? Hvað gerir almenningur? Hvað næst?.

Ég fékk nokkur svör á leið heim eftir fundi dagsins. Svarið hlýtur að vera þjóðaratkvæðagreiðsla, sagði ákveðin kona við mig á bílastæðinu. Hér er alltof mikið í húfi til þess að alþingismenn,undir þrýstingi sérhagsmunahópa og sjálftökufólks,fái sjálfdæmi til þess að leggja sínu dauðu hönd á ykkar vinnu. Sagði maður við mig út í búð.

Við viljum Þjóðaratkvæðagreiðsla strax, þar geta alþingismenn kosið um leið og ég, en þeirra atkvæði er jafngilt mínu. Það erum við öll þjóðin sem er að fá nýja stjórnarskrá. Sagði nágranni minn. Nú munu alþingismenn sýna sitt rétta andlit. Það er það sem við viljum og þá fáum við nýjar kosningar eftir réttlátum og nýjum reglum settum af fólkinu. Ekki flokkmaskínunum.

1 ummæli:

Kristján sagði...

Hver eru rök þín fyrir skylduaðild að félögum samkæmt 2. mg. 20. gr?