sunnudagur, 15. janúar 2012

Gjaldmiðillinn og fullveldið

Á ráðstefnu ASÍ um gjaldmiðilinn í vikunni sýndu Ragnar Árnason prófessor við HÍ, Arnór Sighvatssonar aðstoðarseðlabankastjóri og Friðrik Már Baldursson prófessor við HR fram á að slök efnahagsstjórn undanfarna áratugi hafi skapað þann vanda sem við erum í með gjaldmiðilinn. Stjórnendur peningamála hafi gert alvarleg mistök í aðdraganda þess að gjaldmiðillinn ofreis og hrundi með falli bankanna í kjölfarið og gjaldþrots Seðlabankans.

Þeir sem stjórnuðu hér á landi á meðan þetta gerðist halda því fram að þeir hafi gert allt rétt og stöðugleikinn snúist bara um að hafa góða stjórnun á krónunni!!??

ESB andstæðingar verja krónuna á hverju sem gengur. Gott sé að hafa sveigjanlegan gjaldmiðil svo leiðrétta megi slaka efnahagsstjórn með því að færa peninga frá launafólki til útflutningsfyrirtækja. Það væri skerðing á fullveldi sérhagsmuna ef krónan væri lögð niður sagði Ragnar Árnason.

Í könnunum hagfræðinga kemur fram að jafnaði hafi um 30% tekna heimilanna undanfarna áratugi hafi horfið við þessar leiðréttingamillifærslur. Eignaupptaka hjá launamönnum er réttlætt með því að verið sé að halda uppi atvinnustigi í atvinnubótavinnu þar sem afraksturinn rennur milliliðalaust frá heimilunum til fárra efnamanna.

Í þessu sambandi má einnig líta til túlkunar á hugtakinu fullveldi. Hvað er fullveldi á tímum hratt vaxandi alþjóðlegra samninga og margháttuðum samskiptum ríkja? Hvernig stendur á því að þeir stjórnmálamenn sem stóðu að gerð EES samninga og margra annarra milliríkjasamninga fullyrða nú að innganga í ESB jafngildi afsali fullveldis?

Ísland hefur á undanförnum áratugum undirgengist umtalsverða skerðingu á fullveldi hvað varðar getu stjórnvalda til að ákvarða hvaða lög og reglur gilda hér á landi, þá helst til þess að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífsins. Fullveldi ríkja er í dag fremur hugsjón en regla, ekkert ríki er algert eyland í margþættum samskiptum nútímans þar sem Ísland er aðili að frjálsu flæði fjármagns og vinnuafls.

Ég hef starfað mikið á Norðurlöndum og veit að Danir og Svíar upplifa sig sem fullvalda ríki. Þeir hafa reyndar beinan aðgang að ákvörðunartöku innan ESB, en við ekki. Erum við kannski ekki fullvalda ríki á meðan Danir og Svíar eru það?

Hvernig á að halda uppi vitrænni umræðu þegar menn halda fram svona mótsögnum?

Ef við rennum yfir efnahagsstefnu Íslands frá 1993 hefur verið miðað að því að viðhalda hagvexti með opinberum inngripum. Nokkru fyrir aldamót fór að gæta ójafnvægis í þjóðarbúskapnum, í stað þess að beita auknu aðhaldi lofuðu stjórnvöld andstætt öllum hagfræðikenningum miklum skattalækkunum í kosningabaráttunni 1999, það var reyndar ein8ngis ger tá hæstu launum.

Svo kom næsta kosningaár 2003 og stjórnmálamennirnir yfirbuðu hver annan. Samið var um stærsta verkefni sem lagt hafði verið í hér á landi, álver og Kárahnjúkavirkjun og farið var í umfangsmestu framkvæmdir í vega- og jarðgangnakerfi landsins.

Seðlabankinn hækkaði vexti til þess að slá á þensluna, en það leiddi til þess að erlent fjármagn streymdi til landsins vegna vaxtamunar. Krónan styrktist og afkoma útflutningsfyrirtækja versnaði, en innflutningur jókst umtalsvert. Einkaneysla fór upp úr þakinu og viðskiptahallinn fór yfir 20%.

Árin 2006 – 2008 voru útflutningstekjur Ísland vegna vöru og þjónustu einungis um 5-7% af gjaldeyrisviðskiptum, hitt var vegna viðskipta þar sem fjárfestar voru að spila með krónuna og nýta sér vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa. Á þeim tíma frá því að tekinn var upp fastgengisstefna var krónan felld árið 2001 um 25%, árið um 2006 um 20% og svo í Hruninu um 50%. Fram að Hruni voru engar mótvægisaðgerðar kynntar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"skerðing á fullveldi sérhagsmuna" ???

Er maðurinn ekki í lagi að afhjúpa sig svona?

Það verur víst hver að fljúga eins og hann er fiðraður, jafnvel hænsn.

ÞÚB