föstudagur, 27. janúar 2012

Saksóknari Alþingis áminnir þingmenn

Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis sat fyrir svörum á fundi stjórnkerfis- og eftirlitsnefndar í gær ásamt Helga Magnúsi Gunnarssyni aðstoðarsaksóknara. Þar gagnrýndu þau þá umræðu sem fram hefur farið um mál Geirs H. Haarde fyrir Landsdómi. Þau bentu á að engar forsendur hefðu breyst í málinu gegn Geir H. Haarde sem styðji afturköllun ákæru á hendur honum.

Það sé Alþingis að taka ákvörðun um framgang málsins sem ákæruaðili. Það þyrfti að hafa orðið veigamikil breyting ef þingmenn ætli að draga tilbaka fyrri samþykktir, en alþingismenn verði að leggja fram greinargóðar ástæður ef þeir ætla sér að gera það.

Þau sögðust ekki sammála því að í þingsályktunartillögunni sé talað um að einhverjum höfuðákæruliðum hafi verið vísað frá. Það sé ekki rétt, málið hafi ekkert breyst. Sú fullyrðing að þetta kosti einhverja peninga eða tefji Hæstarétt, það séu heldur ekki efnisrök í málinu.

Það að einungis einn hafi verið ákærður, en ekki fjórir eða þrír eða hvernig menn vildu hafa það, hafi ekki verið brot á jafnræðisreglunni. Um þetta atriði var búið að fjalla um í dómi Landsdóms og hafi verið vel þekkt. Þetta gerist í sakamálum þegar tekin er ákvörðun um að ákæra einn en ekki annan, hvernig sem mönnum líður svo með það, sögðu þau.

Sagan segir okkur að þegar stjórnmálamenn segjast berjast fyrir réttlætinu og fyrir almenning, þá fyrst sé ástæða til þess að hafa varann á. Í rannsóknum á því hvað hafi gerst í stjórnmálum í vestrænum löndum undanfarna áratugi, þar sem stjórnmálamenn hafa beitt sér fyrir því að færa valdið til fólksins, kemur glögglega fram að valdið og auðurinn hafi með því færst til fárra. Mismunum hefur aukist umtalsvert.

Markaðurinn leiðréttir ekki hlut þeirra sem minna mega sín, andstætt því blasir við að hann tryggir enn frekar stöðu þeirra sem eru í efri lögunum.

Þegar skoðað er hverjir það séu sem fara fyrir stjórnmálamönnum í dag, kemur í ljós að það er undantekningalítið fólk sem kemur frá hinum efnaða hluta samfélagsins. Þetta fólk starfar í fullu samræmi við venjubundna leikjafræði um að tryggja eigin aðstöðu. Sé litið til þeirra sem berjast fyrir því að koma í veg fyrir að Landsdómur kalli fyrir vitni ofg taki málið til umfjöllunar, staðfestist þetta.

Þetta hefur verið að renna upp fyrir þeim sem hafa fylgst er vel með framvindu Landsdómsmálsins og annarra mála þar sem skoða á aðdraganda hrunsins og leiða fram þá sem voru í aðstöðu til þess að hafa áhrif á framvindu mála fram að hinu svokallaða hruni.

Engin ummæli: