Ég sá leikgerð Kjartans Ragnarssonar á Heimsljósi Halldórs Laxnes í Þjóðleikhúsinu í gærkvöld. Kjartan vinnur þarna úr fyrri leikgerðum byggðum á fyrstu hlutum Heimsljóss, Ljós heimsins og Höll sumarlandsins sem sýndar voru við opnun Borgarleikhússins. Í þessari sýningu er verk Halldórs tekið fyrir í heild sinni.
Játa að ég hafði lesið á netinu ummæli nokkurra um verkið og var búinn undir leiðinlegt kvöld þar sem sumir myndu sofa og nokkrir fara út í öðru hvoru hléinu.
Mér leiddist ekki, ég sá engan sofna og það fækkaði ekki í salnum. Verkið er langt, þrír og hálfur tími með tveimur kortershléum, en það rennur hnökralaust og heldur manni við efnið.
Það mætti vafalaust stytta verkið, en ég treysti mér ekki til þess að benda á hvað mætti fara út. Kjartan er flinkur leikhúsmaður trúr texta Halldórs og tekst að skapa heilsteypta og áhrifamikla sýningu þar sem dregin er upp skýr mynd af Ólafi Kárasyni. Athyglinni er beint að konunum í lífi hans og hversu mikil áhrif þær hafa á hann.
Myndin sem Halldór dregur upp af leiðtogum í verkalýðshreyfingu og hvernig afstöðuleysi getur leikið menn grátt, þegar reynt er að vera trúr öllum samsamar sig vel við þann veruleika sem ég þekki úr mínu starfi.
Leikararnir standa sig með prýði. Mér fannst Ólafía Hrönn bera af. Hún er reyndar ein af mínum uppáhaldsleikurum þannig ég er kannski hlutdrægur. Pálmi Gestsson fór hreint út sagt á kostum sem Pétur þríhross. Hilmir Snær stóð sig frábærlega, ég var ekki eins hrifinn af Birni Thors, hann er fínn leikari, en einhvern veginn passaði hann ekki við hlutverkið.
Mér finnst ein stjarna eins sumir þekktir leikgagnrýnendur hafa gefið verkinu alltof lítið, 3,5 væri nær lagi. Þeir sem ekki hafa gaman af miklum texta og dramatískum pælingum ættu að fara á aðrar sýningar. Mér fannst þessu laugardagskvöldi vel varið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli