þriðjudagur, 3. janúar 2012

Kosningar og tillögur Stjórnlagaráðs

Umræðan tekur oft á sig hinar ótrúlegustu myndir, reyndar fyrirsjáanlegar hjá sumum einstaklingum. Oft veltir maður fyrir sér hver þekking stjórnmálamanna og jafnvel ráðherra eða fyrrv. ráðherra sé á lögum og gildandi reglum?

Tökum t.d. sameiningu ráðuneyta og fækkun ráðherra. Í mörg herrans ár hefur verið krafa um fækkun ráðherra og skilvirkari stjórnsýslu og margir komið að því máli. Þetta er í stjórnarsáttmálanum. Unnið hefur verið að þessu í ákveðnum skrefum á kjörtímabilinu, en nú er hrópað um einræðistilburði og einelti.

Í þessu sambandi má t.d. nefna margendurteknar fullyrðingar um að auðlindirnar lendi í höndunum á ESB. Í stofnsáttmála er skýrt tekið fram að auðlindir séu í höndum aðildarþjóðanna sjálfra. Danir og Bretar halda t.d. sínum olíulindum í Norðursjó, Finnar sínum skógum og þannig má lengi telja.

Einnig má benda á fullyrðingu um að skattborgarar eins ESB-ríkis muni koma til með að greiða skuldir annars. Slíkt er ekki heimilt samkv. stofnsáttmála Evrópusambandsins. Vitanlega gildir það ekki um ef ríki fara í eitthvað sameiginlegt verkefni. Það er gert að gefnu samþykki þeirra sem ætla að vera þátttakendur í viðkomandi verkefni.

Nú eru þeir sem ég tala um í fyrstu málsgrein, farnir að blanda væntanlegum forsetakosningum saman við ESB umræðuna. Það er gengið svo langt að fullyrða væntanlegur forseti muni ráða því hvort við göngum í ESB eða ekki. Svona mál verður að bera undir þjóðina sama hvaða skoðun sitjandi stjórnvöld eða forseti hafa.

Ólafur Ragnar hefur breytt ásýnd embættisins og það mun hafa áhrif á væntanlegt forsetakjör. Á næstu mánuðum mun fara fram mikil umræða um forsetaembættið og hvernig fólk vilji hafa það. Þessi umræða var áberandi innan Stjórnlagaráðs og varð til þess að ástæða þótti að setja skýrari ákvæði um embættið, ekki að það væri verið að breyta hlutverki forsetans, heldur frekar að staðfesta stöðu hans.

Öll stjórnvöld lenda í því að þurfa að afgreiða óvinsælar ákvarðanir. Ástandið eins og það hefur þróast hefur um of þóknast lýðskrumurum og á því verður að taka.

Í tillögum Stjórnlagaráðs er málskotsrétturinn gerður skýrari og hann aukinn. Almenningur fær einnig málskotsrétt án milligöngu forsetans. Með þessu er augljóslega verið að svara umdeildum athöfnum sitjandi forseta.

Einnig var rætt hvort setja ætti skýra ákvæði um að forsetinn haldi sig við ríkjandi stefnu og sé ekki að reka eigin utanríkisstefnu, eða vera með yfirlýsingar um hagsmuni launamanna sem ganga þvert á samþykkta stefnu samtaka launamanna.

Þessi atriði frumvarps að nýrri Stjórnarskrá voru sett ekki til þess að efla stöðu stöðu forsetaembættisins, heldur til þess að auka lýðræði í landinu. Styrkja þingræðið og aðkomu hins almenna kjósanda.

Ákvarðanataka og stefnumótun fari ekki eftir duttlungum og pólitískum skoðunum sitjandi forseta og svo deilum milli hans og sitjandi forsætisráðherra. Hér má vísa til tveggja mála, afgreiðslu fjölmiðlafrumvarps og svo Icesave samnings sem var með yfirgnæfandi meirihluta samþykki Alþingis.

Tilgangur Stjórnlagaráðs var ekki síst að sporna gegn því að fara í fyrra horf, þegar að engum umdeildum málum var vísað til þjóðarinnar og jafnvel ekki til sitjandi Alþingis. Hér var vísað til ástandsins eins og það var um síðustu aldamót. Í höndum tveggja ráðherra og nokkurra embættismanna sem sátu við hlið þeirra hvaða lögum og reglum var rúllað í gegnum hæstvirt Alþingi.

Öll þessi atriði þurfa að liggja skýr fyrir þegar þjóðin gengur til kosninga í vor. Það er því óhjákvæmilegt að búið verði að marka skýra stefnu hvernig frumvarp til nýrrar Stjórnarskrár verður afgreitt.

Engin ummæli: