sunnudagur, 1. janúar 2012

Fyrirsjáanleg niðurstaða forsetans

Í viðtali við Ólafur Ragnar í gær kom fram að síðasti Icesave samningurinn hafi verið það góður og hann hafi ekki átt von á þjóðin myndi fella hann. Í dag tilkynnir hann að hann muni ekki bjóða sig fram í vor. Þetta var fyrirséð að mínu mati.

Í september skrifaði ég pistil þar sem m.a. kom fram að Ólafur væri búinn að átta sig á þeim afleiðingum sem myndu óhjákvæmilega koma fram og væri farinn að undirbúa vörn sína.

Allir stjórnmálaflokkarnir hefðu viðurkennt að Ísland hefði undirgengist ákveðnar skuldbindingar og Icesave-samningarnir snérust ekki um það, heldur með hvaða kjörum það yrði gert. Þar skipti öllu sú vaxtaprósenta sem gildir við endurgreiðslu á því láni sem Hollendingar og Bretar tóku til þess að gera upp skuldbindingar við innlánseigendur á Icesave.

Sú upphæð gæti allt að fimmfaldast frá þeim vaxtakjörum sem voru í síðasta samning sem Ólafur Ragnar setti fótinn fyrir í tækifærissinnuðu útspili. Það væri langt frá því að útséð að það útspil hefði verið sá happafengur sem hann vill halda fram.

Í Stjórnlagaráði var mikið talað um málskotsrétt forsetans, hvort setja ætti skorður við hvaða málaflokkum hann mætti skjóta til þjóðarinnar og hvort hann ætti að bera á ábyrgð sínum á eigin orðum og gerðum t.d. með afsögn Niðurstaðan varð sú að gera það ekki.

Túlkun Ólafs Ragnars á niðurstöðum Stjórnlagaráðs í september um að forsetinn ætti að vera afgerandi þátttakandi í stjórnmálum voru að mínu mati vel úthugsaðar af Ólafi. Sú túlkun hentaði mikið betur í æviminningunum og þeim vörnum sem hann yrði að grípa til þegar Íslendingum yrði gert að standa við staðfestar skuldbindingar þjóðarinnar.

Að lokum vill ég að gefnu tilefni að ég hef engan áhuga á að greiða þessar skuldir að óþörfu, en tel að samningar hefðu verið mun hagstæðari niðurstaða en væntanlegur dómur.

1 ummæli:

Ólafur sagði...

Sæll Guðmundur, þarna er frjálslega farið með hjá þér, það kom hvergi fram í viðtalinu að samningurinn hefði verið góður. Hins vegar kom fram að hann hefði verið mun betri en hinn fyrri og á því er mikill munur.