laugardagur, 7. janúar 2012

Hundahald

Frá því að ég var 10 ára gamall fram undir tvítugt var ég á hverju sumri hjá föðursystur minni í sveit á stóru búi norður í Húnaþingi og fór þangað í nær hverju orlofi eftir að ég hafði lokið námi og fór að vinna. Þekki því vel til skepnuhalds og allra bústarfa.

Mér er fullkomlega ómögulegt að skilja hvers vegna sumt fólk er að halda hunda, meir að segja sumir marga hunda. Þetta kemur fram í hugann eftir fréttir undanfarinna daga vegna hunda sem hafa bitið börn, eða hunda sem er hent út um dyrnar vegna þess að eigandinn var búinn að fá leið á honum.

Hundar eru tilfinningaverur, ekki leikföng sem hægt að kasta út í horn eða á dyr. Þeir haga sér eins og húsbóndinn ætlast til af þeim. Fólk upplýsir mann um fáfræði sína á skepnuhaldi ef það heldur því fram að einhver hundategund sé hættulegri en önnur. Háttalag hunds endurspeglar eiganda sinn.

Það er ekki á allra færi að eiga hunda. Þeir þurfa allir uppeldi og sumir mjög strangt uppeldi. Doberman og Rotweiler eru ekki endilega allir hættulegir, en þeir eru öflugir. Í sumum löndum gilda strangar reglur um hundaeign öflugra hunda og þar þurfa tilvonandi hundaeigendur að taka ákveðin próf og fá leyfi til að halda hund af þessum tegundum.

Ég hef starfað í tvo áratugi hjá stéttarfélagi sem rekur mörg orlofshús og stórt tjaldsvæði. Það koma reglulega upp vandamál vegna hundahalds. Við starfsfólkið vitum af fenginni reynslu að það eru ekki hundarnir sem eru vandamálið, það eru eigendur þeirra. Sama á við um börnin, því kynnumst við vel þegar rætt er við foreldra barna sem hafa verið staðin að skemmdarverkum.

Í heilbrigðisreglugerðum og reglugerðum sveitarfélaga eru margskonar ákvæði um hundahald. Allsstaðar eru skýr ákvæði um lausagöngu hunda. Öll þekkjum við fréttir af því þegar lausir hundar hafa ráðist á búfénað. Borgarhundar þekkja ekki umgang við búfénað.

Það er bannað að hafa hunda í húsnæði sem er leigt er út, t.d. hótelherbergi og orlofshús, vegna þess að sumt fólk er með heiftarlegt ofnæmi gagnvart hundum. Þrátt fyrir þetta bann finnum við reglulega hundahár í rúmum og sængum orlofshúsa. Við höfum lent í nokkrum mjög alvarlegum ofnæmistilfellum þar sem fólk leigði hús hjá okkur og vaknaði upp með ofsaofnæmiskast og varð að fara á sjúkrahús.

Við starfsmennirnir fáum reglulega klögumál þar sem lítil börn þeirra hafa verið að leika sér á tjaldsvæðinu og foreldrar komu að þeim útbíuðum í skít í framan og á fötum þeirra, vegna þess að stórir hundaskítsdrjólar höfðu verið skildir eftir. Ég ætla að sleppa því að hafa eftir þau ummæli sem foreldrar barnanna þuldu yfir okkur starfsfólkinu.

Reglulega lendum við í deilum við menn sem sleppa hundum sínum lausum. Margt fólk er verulega hrætt við stóra hunda og flýr inn í fortjöldin. Hundar eru vitanlega ljúfir við eigendur sína, en það þarf ekki að gilda um aðra. Þegar við starfsmenn höfum svo rætt við eigendurna hafa þeir rifið kjaft og ekki gefið sig fyrr en við höfum skipað þeim að taka saman sitt dót og yfirgefa svæðið.

Ég hef nokkrum sinnum haft orð á því í pistlum hversu hvimleitt það sé þegar maður fer um göngustíga, t.d. Esjunnar, og þeir eru varðaðir plastpokum með hundaskít. Það er svo óendanlega ruglað að hafa fyrir því að pakka inn hundaskít og skilja svo plastpokann eftir á göngustígnum. Hver á að taka hann upp annar en hundaeigandinn sjálfur?

Það er mikill minni hluti hundahaldara sem er til vandræða og ættu að gera eitthvað annað en eiga hunda. En það eru þeir sem eru í raun að kalla mjög strangar reglur yfir alla hina. Það er reyndar eins og með allar reglur, þær eru settar vegna þessara 5% sem ekki er færir um að taka tillit til annarra.

Engin ummæli: