Ég
sat trúnaðarmannaráðstefnu Rafiðnaðarsambandsins á Selfoss nú seinni hluta
vikunnar. Ráðstefnuna sátu um 100 trúnaðarmenn á vinnustöðum rafiðnaðarmanna víðsvegar
af landinu. Vitanlega var staðan í efnahagsmálum áberandi í umræðunni. Lögð var
áherslu á að stjórnvöld yrðu að skapa þær aðstæður að á Íslandi gæti ríkt
efnahagslegur stöðugleiki með meiri festu í gengi krónunnar og lágri verðbólgu.
Þolinmæði launamanna gagnvart óöguðum vinnubrögðum stjórnmálamanna er löngu
þrotin, það birtist m.a. í flótta launamanna frá landinu.
Í
ályktun sem var samþykkt einróma kom m.a. fram það væri óþolandi að árangur í
kjarabaráttu launamanna væri jafnharðan eyðilagður með gengisfellingum. Afleiðing
óagaðrar efnahagsstjórnunar valdi óstöðuleika krónunnar og mikilli verðbólgu,
sem veldur því að vextir hér á landi eru að jafnaði tvöfalt hærri, en í
nágrannalöndum okkar. Því er verðtryggingarkerfið hér á landi virkt, á meðan
það er nánast óvirkt í öðrum löndum.Rafiðnaðarmenn krefjast þess að tekið verði á skuldavanda heimilanna, en draga það í efa að afnám verðtryggingar sé hin eina sanna lausn vandans. Rafiðnaðarmenn gera sér grein fyrir því að vaxtastig hér landi er alltof hátt og með greiðsludreifingarþætti verðtryggingar er heimilum gert kleift að dreifa afborgunum yfir lengri tíma, en þetta býður jafnframt heim þeirri hættu að heimilin skuldsetji sig um of. Sveiflur í greiðslubyrði óverðtryggðra lána geta sveiflast með svo öfgakenndum hætti að flest heimili lenda í greiðsluerfiðleikum við hvert verðbólguskot.
Ef jafngreiðslukerfi verðtryggingakerfisins hefði ekki verið við lýði við Hrunið hefðu t.d. afborganir af 20 millj. kr. láni farið yfir 400 þús. kr. á mánuði, í stað þess að vera um 120 þús. kr. á mán. Það var tekinn mikil áhætta með því að hækka lánamöguleika upp 100%, það varð til þess að margir settu sig í þá stöðu að vera við ystu þolmörk í uppsveiflunni og lentu strax í vandræðum þegar niðursveiflan brast á.
Trúnaðarmenn rafiðnaðarmanna kalla eftir raunverulegum lausnum á skuldavanda heimilanna, í stað þess að endurtekið sé verið að drepa málum á dreif með óraunsæjum töfralausnum. Hugmyndum um að hverfa 30 ár aftur í tímann jafngiltu því að senda reikninginn fyrir umframeyðslu í dag til barna okkar. Þess er krafist að ráðist verði strax með skipulögðum hætti að rótum vandans með því festa gengi krónunnar á ásættanlegu gengi fyrir almenning og að tryggja síðan að sá gjaldmiðill sem hér er notaður til framtíðar verði stöðugur og svo hægt verði afnema gjaldeyrishöft innan skamms tíma.
Trúnaðarmannaráðstefna rafiðnaðarmanna telur að á skömmum tíma sé mögulegt í samvinnu við lífeyriskerfið að bjóða upp á hagstæð lán fyrir fjölskyldur sem eru að kaupa sínu fyrstu íbúð. Þetta mun hvetja ungt fólk til sparnaðar í samtengingu uppbyggingu réttinda í samtryggingar- og séreignakerfi lífeyrissjóðanna. Í tengingu við þetta kerfi væri hægt að byggja upp leigumarkað sem stæði tilboða sambærileg kjör til langs tíma. Þarna gætu verið ásættanleg fjárfestingartækifæri fyrir lífeyrissjóði og þurfa stjórnvöld í samvinnu við aðila vinnumarkaðsins að huga að gera þetta kleift m.a. með lagabreytingum.