fimmtudagur, 18. október 2012

Helgur gjörningur


Guðni Th. Jóhannesson hélt ákaflega áhugavert erindi á fundir Stjórnarkrárfélagsins í Iðnó í gærkvöldi. Hann nefndi það „Staðreyndir eru þrjóskar“  Guðni stiklaði á nokkrum staðreyndum um aðdraganda lýðveldisstjórnarskrárinnar og bar þær saman við nokkrar af fullyrðingum andstæðinga tillagna Stjórnlagaráðs og Þjóðfundar.
 
Hér benti Guðni á ummæli um að ástæðulaust sé að umbylta lýðveldisstjórnarkránni því hún sé svo „listilega smíðuð“ eins og forseti vor hefur sagt, eða ummæli höfundar Reykjavíkurbréfs um að hún sé „helgur gjörningur“, hvorki meir eða minna.

 
Guðni dró fram nokkur ummæli helstu stjórnmálaleiðtoga á Alþingi þegar rætt var um hina væntanlega lýðvelidstjórnarskrá fyrri hluta árs 1944. Hér verða aðeins nefnd nokkur dæmi:

 
Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis ... Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf.."

 
Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „... er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.

 
Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“

 
Brynjólfur Bjarnason, Sósíalistaflokki: „... nú er það svo að við stofnun hins fullvalda íslenzka ríkis ríður oss öllu framar á þjóðareiningu. ... Þess vegna held ég að flestir séu nú komnir á þá skoðun að það sem gert var með stjórnarskrárákvæðinu 1942 – að takmarka breytingar á stjórnarskránni við það sem leiðir af skilnaði við Danmörku og flutningi æðsta valds inn í landið, með öðrum orðum að útiloka fyrir fram öll þau deilumál sem ágreiningi gætu valdið – hafi verið hið eina rétta.“

 
Þetta útskýrir hina „rússnesku kosningu“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandsslit og lýðveldisstofnun vorið 1944. Fólk var framar öllu að kjósa um skilnaðinn við Danmörku.

 
Guðni kom einnig inn á ummæli sérfræðinganna, sem sögðu nær allir að sem einn að lýðveldisstjórnarskráin hefði verið saminn til bráðabirgða. Ólafur Jóhannesson lagaprófessor benti á nokkur atriði sem taka þyrfti til rækilegrar endurskoðunnar áður en gengið yrði frá framtíðarstjórnarskrá hins íslenska lýðveldis.

 
Ólafur Lárusson prófessor í lögum tók dýpra í árinni, en var þó varkár að eðlisfari. „Endurskoðun stjórnarskrárinnar er því eitt af verkefnum náinnar framtíðar. Lýðsveldisstjórnarksráin í þeirri mynd sem hún hefur nú, er aðeins sett til bráðabirgða.“

 
Í nýársávarpi sínu 1949 kvartaði Sveinn Björnsson undan séinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða : Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. … Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“

 
Það var einhugur um lýðveldisstjórnarskránna, sá einhugur snerist um að hún væri einungis til bráðabirgða.

Engin ummæli: