þriðjudagur, 23. október 2012

Tilraun til valdaráns


Þar sem fjallað er um þjóðaratkvæðagreiðslur í núgildandi Stjórnarskránni skal niðurstaðan ætíð ráðast af vilja meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað og taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu. Sömu reglur hafa gilt hingað til um allar atkvæðagreiðslur til Alþingis og sveitarstjórna. Sama á við um þegar forseti Íslands beitir málskotsrétti sínum og beinir spurningum til þjóðarinnar.

Vald sem ekki er sprottið frá þjóðinni verður ekkert annað en ofbeldi sem beint er gegn henni. Vilji þjóðarinnar er vilji samfélagsheildarinnar og sá vilji fer saman við almannahagsmuni. Stjórnvald sem vill kallast réttmætt og búa þjóð sinni réttarríki, verður hverju sinni að lúta skilyrðislaust niðurstöðum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Á þjóðfundi var áberandi ákall um að hið endanlega vald væri í reynd og í verki hjá þjóðinni. Hávært ákall um meira lýðræði, skilvirkara og fjölbreyttara lýðræði. Virkt lýðræði.

Í þjóðaratkvæðagreiðslum eru mál sett í dóm allra kjósenda, þar sem æðsta valdið liggur. Þar er málið lagt undir alla þjóðina og úrslitin eru vitanlega í höndum meirihluta þeirra sem mæta á kjörstað. Þeir sem ekki mæta eru að fela öðrum að greiða atkvæði fyrir sig. Engum hefur hingað komið til hugar að taka til sín það vald að túlka með einum hætti eða öðrum hvernig flokka eigi ógreidd atkvæði.

Í öllum mestu lýðræðisríkjum heimsins lúta stjórnmálamenn án nokkurra skilyrða niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Þar gildir hið eina að öllum sé tryggður aðgangur að kjörklefa til þess að nýta sér vald sitt. Það eru svo þeir sem mæta á kjörstað sem ráða, t.d. í Sviss eru mál oft ráðin með 20 – 30% þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er hreint út sagt skelfilegt að hlusta á málflutning nokkurra þeirra þingmanna sem sitja á Alþingi íslendinga þessa stundina.

Það er grímulaus tilraun til valdaráns að skrumskæla lýðræðið og gera að engu niðurstöðu mikils meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað. Það er atlaga að lýðræðinu. Alþingi samþykkti að vísa spurningum um Stjórnarskránna til þjóðarinnar. Það getur ekki komið eftir á og gert tilraun til að takmarka vald kjósenda. Vald þjóðarinnar er stjórnarskrárvarið og það er hún sem setur stjórnvöldum leikreglur. Fulltrúar löggjafar- eða framkvæmdarvalds hafa ekki vald til þess að virða að vettugi niðurstöðu óskilyrtrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svisslendingar, né nokkur önnur þjóð síðaðra manna, myndi breyta stjórnarskrá án víðtæks stuðnings. Að ætla sér að keyra áfram jafn stórt mál og þetta á grundvellijafn þessa ömurlega stuðnings sem það fékk er ofbeldi!

Nafnlaus sagði...

Árið 1918 þá voru greidd atkvæði um svokölluð sambandslög þar sem Ísland varð fullvelda ríki. Kjörsókn var 43,8% og greiddu 7,4% atkvæði sitt gegn fullveldi Íslendinga eða 3,24% kjósenda.

Í ljósi nýrra túlkunaraðferða sem felast í því að lesa atkvæði þeirra sem mættu ekki á kjörstað sem nei eða á móti þá ber að líta á sem að 69,44% kjósenda hafi hafnað fullveldinu á sínum tíma. Sem afleiðing af þessu verða kosningarnar um sambandsslitin árið 1944 að teljast ólögmæt enda ekki hægt að greiða atkvæði um að slíta einhverju sem var aldrei samþykkt á sínum tíma.

Verður því að teljast sem svo að Ísland sé hvorki fullvalda eða sjálfstætt ríki heldur sé enn undir stjórn danska ríkisins og þar með kominn í ESB. Þetta geta landsmenn þakkað tilskipunum frá Valhöll og LÍÚ.

Frábær pistill hjá þér að venju.
Takk Úlfur

Nafnlaus sagði...

Hárrétt, Guðmundur. Þetta tal þingmannanna er í rauninni óvirðing við okkur sem nýttum okkur kosningaréttinn.
Þorgrímur

Nafnlaus sagði...

Varðandi efstu athugasemdina, þá var stjórnarskrárbreytingin 1959 knúín í gegn með "ofbeldi", guðs blessunarlega, þ.e. knúin í gegn. Annars væru framsóknarmenn ennþá líklega 17 á þingi.

Þjóðinn verður að geta sett sér þá stjórnarskrá sem hún vill. Stjórnarskráin á að vera þau lög sem meirihlutinn vill en ekki þau lög sem minnihlutinn vill. Svo einfalt er það. Það má hins vegar vera ákveðin tregða í breytingum, t.d. varðandi staðfestingu (svo sem þing+kosning eða þing+þing, en það verður að vera til leið fyrir meirihluta landsmanna að setja sér stjórnarskrá.

Haukur

Nafnlaus sagði...

Það er ljóst að léleg kosningaþátttaka í ráðgefandi atkvæðagreiðslu um stjórnarskrána fer mjög í taugarnar á fylgismönnum þeirrar hugmyndar að endurskrifa stjórnarskrána staf fyrir staf.
Móðursýkisleg viðbrögð við umræðu um lélega þátttöku er ein birtingarmynd þess pirrings.
Já ég kalla það móðursýkisleg viðbrögð að kalla umræðu um þátttökuna "grímulausa tilraun til valdaráns".
Hvort sem fylgismönnum þessarar atkvæðagreiðslu líkar það betur eða verr þá sá helmingu þjóðarinna ekki ástæðu til að mæta á kjörstað. Það er í hróplegu ósamræmi við fullyrðinguna um "hávært ákall" þjóðarinnar.
Forystumenn núverandi stjórnarflokka hundsuðu fyrstu Icesave kosninguna og hvöttu kjósendur til að gera það sama. Þá var ákall þjóðarinnar hávært en ekki mikils virði í augum stjórnvalda og ekki minnist ég þess að pistilhöfundur hafi sýnt viðlíka viðbrögð við þeim ósóma sem forystumenn ríkistjórnarinnar sýndu stjórnarskránni. Þar var verið að framfylgja því stjórnarskrárbundna ferli að kjósa skyldi ef forseti neitar undirskrift.
Allur samanburður við útlönd er máttalaus tilraun til að réttlæta áhugaleysi þjóðarinnar á þessu meinta háværa ákalli þjóðarinnar.


Góðar stundir
Kristinn Daníelsson