þriðjudagur, 9. október 2012

Hræðsluáróðurinn


Sé litið yfir þá umræðu sem á sér stað þessa stundina virðist það vera svo að hræðsluáróður fari vaxandi gegn tillögum Stjórnlagaráðs. Sérhagsmunagæslan er kominn á fullt.

Þegar umræðan berst að breytingum á stjórnarskránni tala sumir um að tillögur Stjórnlagaráðs snúist fyrst og síðast um auðvelda stjórnvöldum fullveldisframsal. Það væri bannað í núverandi stjórnarskrá en aftur á móti heimilað í frumvarpsdrögum Stjórnlagaráðs.

Máli sínu til stuðnings er síðan vísað í 2. grein núgildandi stjórnarskrá, „Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdavaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Einnig er vísað í 16. grein er þar sendur, „Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð og hefur forseti þar forsæti.  Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.“

Í þessum greinum er hvergi tiltekið bann sé við framsali.
 
Nú hefur Alþingi íslendinga sótt um inngöngu í ESB. Ef samningar nást mun hann einnig fela í sér nokkurt fullveldisframsal. Alþingi afgreiddi samninga við EES án þess að bera það undir þjóðina. Stjórnlagaráð vildi koma tryggilega í veg fyrir að þann leik væri hægt að endurtaka.  Það fullveldisframsal sem átti sér stað með afreiðslu Alþingis á EES samningnum var ekki borið undir þjóðina.
 
Í 111. grein í frumvarpi Stjórnlagaráðs stendur : „Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.“

Er hægt að taka skýrar til orða?
 
Fullveldisframsal verður að bera undir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, Alþingi verður að fara að þjóðarvilja. Hér er sannarlega ekki verið að lauma Íslandi inn í ESB án þess að þjóðin fái að segja sitt álit. Ætli stjórnmálamenn að færa sjálfstæði landsins til ríkjasambands, verður það ekki gert nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við megum ekki láta hagsmunaaðila komast upp með henda inn reyksprengjum með hræðsluáróðri til þess að hræða okkur frá því að taka afstöðu. Farið vel yfir gömlu stjórnarskrána og skoðið nýju tillögurnar sem voru unnar upp úr þeim þjóðarvilja sem þjóðfundurinn krafðist.

Engin ummæli: