föstudagur, 28. júní 2013

Afnemum verðtrygginguna


„Afnemum verðtrygginguna,“ var áberandi kosningaloforð nokkurra stjórnmálmanna þar á meðal Framsóknarmanna. Margir voguðu sér að spyrja við hvað væri átt, hvað það þýddi að afnema vertryggingu og hvaða lánaform yrði tekið upp í staðinn og fengu engin svör. Áköfustu stuðningsmenn afnáms verðtryggingar höfðu látið framkvæma skoðanakönnum þar fólk var spurt, : „Viltu afnema verðtryggingu?“  og 80% svöruðu „Já.“

Ég velti oft fyrir hvers vegna 100% sögðu ekki já og þar með að lýsa því yfir að þeir vildu að verðbólgan á Íslandi færi aldrei upp fyrir 3,5%, (það er við það mark sem verðtryggingin byrjar að tikka),  sem ég skildi spurninguna allavega þannig og hefði á þeim grunni svarað „Já.“

En það er einnig hægt að líta svo á að þau 20% sem sögðu „Nei“ vissu að ef verðtrygging yrði afnumin á Íslandi þýddi það að staðgreiða yrði vexti og flestir myndu ekki ráða við það þá gríðarlegu hækkun á afborgunum lána sem yrði í verðbólguskotunum.

Það er í raun sama á hvorn veginn þetta er túlkað þá er ljóst að þessi spurning er algjörlega marklaus, það hvernig þeir sem framkvæmdu þessa skoðanakönnun nýttu sér síðan 80% niðurstöðuna, segir okkur að þeir vissu nákvæmlega ekkert um hvað þeir voru að fjalla.

Enda er það komið í ljós, sé litið til ummæla núverandi stjórnaþingamanna sem höfðu hvað hæst um að þeir ætluðu að sjá til þess að verðtrygging yrði afnuminn þeir segja í dag, þar á meðal Frosti efnahagssérfræðing XB „Stefna á þann stöðugleika í efnahagslífi að verðtrygging virki ekki.“ Eða „Fólk ætti að íhuga vel sinn gang þegar það tekur verðtryggð lán.“ Hér kveður við allt annan tón en í kosningabaráttunni.

Það eru reyndar margir sem hafa undanfarinn misseri bent að afnám verðtryggingar sé ekki einhver einföld aðgerð og hluti skulda fólks hverfi við það að „Afnema verðtrygginguna.“ Þar á meðal undirritaður, en fékk ætíð það svar að ég væri á móti hagsmunum heimilanna og vildi tryggja herfang lífeyrissjóðanna og eitthvað enn ógeðfelldara. Hér vill ég benda á allnokkra pistla sem ég hef skrifað um þetta mál og svo þá umfjöllun sem þeir hafa fengið hjá tilteknum aðilum.

Framsetning helstu talsmanna um afnám verðtryggingar hefur nefnilega ætíð verið eð þeim hætti að þeir hafa gefið í skyn að lánakostnaður myndi lækka sem næmi því fjármagni sem fer inn í verðtryggingarkerfið. Eða með öðrum orðum, að til stæði að reka hluta lánakerfisins með neikvæðri ávöxtun.

Það var gert allt fram til setningu Ólafslaga upp úr 1980, þá voru það sparifjáreignendur og sjóðsfélaga lífeyrissjóða sem voru látnir greiða allan kostnaðinn af neikvæðri ávöxtun lána. Allur sparnaður þeirra var látinn brenna óbættur á verðbólgubálinu.

Sumir hafa haldið því fram að það séu stjórnir lífeyrissjóðanna sem standi í vegi fyrir því að þetta verði gert. Svo það sé á hreinu þá skulum við hafa það í huga að ef verðtrygging yrði afnumin myndu rekstrareikningar almennu lífeyrissjóðanna snarlagast. T.d. hefur verið bent á að ef verðtrygging hefði verið afnuminn um síðustu aldamót, þ.e. árið 2000, væri einstaklingur, sem í dag væri að fá 190 þús. kr. úr lífeyrissjóði á mánuði, fengi í dag einungis um 100 þús. kr. á mánuði.

Reyndar væri ójöfnuður lífeyrisþega þá orðin margfalt meiri en áður, því lífeyrisþegar í opinberu sjóðunum væru með sitt á þurru. Þetta kallaði reyndar á um 4 – 6% skattahækkanir því útgjöld Tryggingarstofnunar hefðu vaxið í réttu hlutfalli við fall útgjalda almennu lífeyrissjóðanna.

Peningar eru afskaplega óstöðugt mælistærð til einhvers tíma vegna annað hvort verðbólgu eða verðhjöðnunar. Það hefur kallað á önnur mælitæki til þess að reikna raunstærðir; hvort sem er að ræða raunlaun, raungengi eða raunlandsframleiðslu.

Vextir af verðtryggðum lánum eiga að vera lægri en af óverðtryggðum þar sem minna áhætta fylgir því að lána út. Verðtryggðir raunvextir eru fastmælum bundnir til framtíðar og því tryggðir eða öruggir. Nafnvextir skila aftur á móti óvissum raunvöxtum, þar sem enginn getur séð fyrir verðbólguþróunina.

Þeir sem vilja raunvexti verða því að greiða tryggingagjald. Tryggingargjaldið veltur hins vegar á því hversu mikil verðbólguhættan er. Ef lán heimilisins ber breytilega nafnvexti sem elta verðlagsbreytingar munu vaxtagreiðslur hækka verulega vegna hækkunar á vöxtum.

Stór og mikil verðbólguskot leiða til mikillar hækkunar á vöxtum sem geta hæglega gert mörg heimili gjaldþrota. Mun fleiri heimili hefðu orðið gjaldþrota í Hruninu ef þau hefðu ekki verið með verðtryggð jafngreiðslulán.

Í landi sem býr við reglubundin verðbólguskot hafa verðtryggð lán með jafngreiðslum fleytt heimilum á Íslandi í gegnum þessi skot. Vaxandi skuld er tilkomin vegna þess að mánaðargreiðslan dugar ekki fyrir raunvöxtum. Þannig hefur verðbólgan étið upp eigið fé í húsum fólks, vegna þess að mánaðargreiðslur hafa verið nokkuð stöðugar.

Þannig má færa rök fyrir því að verðtrygging hafi skapað ákveðið öryggi hjá bæði lánadrottnum og skuldunautum á Íslandi. Það er síðan hægt að deila um það hvort þetta form sé hagkvæmt, sanngjarnt eða öruggt. Það lá þó fyrir sæmileg þjóðarsátt var um þessa aðferðafræði fram að 2008.

Það sem hægt er og þarf að leiðrétta eru grunnvextir á Íslandi, sem eru að jafnaði 4-5% hærri en í nágrannalöndum, það er afleiðing mikillar og viðvarandi verðbólgu sem sveiflur krónunnar valda. Óverðtryggðir vextir eru um 3% hærri en verðtryggðir vextir, það er óeðlilega hátt.

Sveiflukennd króna veldur gríðarlegum kostnaði fyrir samfélagið vegna hins mikla vaxtamunar. Hvert vaxtaprósent kostar heimilin um 15 milljarða kr. á ári, eða um 18% af ráðstöfunartekjum. Hvert vaxtaprósent kostar atvinnulífið um 17 milljarða.kr. á ár og hið opinbera um 14 milljarða.kr. á ári.

Við erum mörg sem bíðum spennt eftir því að þingmenn taki nú loks til við að koma á stöðugleika í efnahagslífinu. Stöðugleiki í efnahags- og félagslegu tilliti er algjör forsenda árangurs í uppbyggingarstarfinu. Krónan búin að leika sitt hlutverk og býður einungis upp á höft, háa vexti og rýran kaupmátt. Aðild að ESB og upptaka evru eina færa leiðin úr þessum ógöngum og ætti því að vera forgangsverkefni allra.

3 ummæli:

Maron Bergmann sagði...

ÞEtta er afar einfalt, meðan við höngum á þessari handónýtu krónu þá verður verðtryggingin alltaf til. Og meðan bið höngum á krónunni og verðtryggingunni þá búum þurfum við að sætta okkur við ónýtt hagkerfi þar sem fáeinir græða á tá og fingri en við hin þurfum að gera okkur að góðu að lepja dauðann úr skel.

Nafnlaus sagði...

Viði eigum að styðja við bakið á Framsókn hérna og fá þá til að ganga plankann alla leiðina. Þá þarf ekki einu sinna að ýta við þeim. Allt kolfellur í kolgrænann sjóinn.
Verðtryggingin hefur verið sterkasta alibíið fyrir sjálfstæða mynt hingað til og því tími til kominn að ryðja henni úr vegi. Þá gæti farið að rofa til í hausnum á landanum.

spritti sagði...

Þetta er náttúrulega bara bilun.