Sú hagstjórn sem ástunduð
hefur verið hér á landi frá lýðveldisstofnun, hefur birst landsmönnum í 25%
meðaltalsverðbólgu á ári síðustu 60 ár. 25% verðbólga samsvarar því að
fjórðungur árlegra tekna sé færður frá launþegum og sparifjáreigendum til
atvinnurekenda og hins opinbera. Þessu skila íslenskir launamenn með því að vinnuvika þeirra er lengri en annarsstaðar. Þannig næst svipaður kaupmáttur í gegnum 48 klst. vinnuviku og með 40 klst. vinnuviku í nágrannalöndum okkar
Íslenskir launþegar hafa sem sagt eytt 3
mánuðum á ári í 60 ár í að niðurgreiða íslenskt atvinnulíf og rekstur hins
opinbera. Þriðjung starfsævi okkar eyðum við í að greiða herkostnað
stjórnmálamanna, sem finnst eðlilegt að tryggja lágan launakostnað með
verðbólgu. Þeir tala um að verið sé að tryggja atvinnustigið, það er gert með
launalausri atvinnubótavinnu í þrjá mánuði á ári til þess að lagfæra
rekstrarafkomu fyrirtækjanna og hins opinbera.
Haustið 2008 varð efnahagslegt hrun á
Íslandi með víðtækum afleiðingum. Við okkur blasti gjörspillt kerfi, þar sem átti sér stað
gríðarleg misskipting. Nokkrar fjölskyldur höfðu komið því þannig fyrir að þær
nutu mun stærri hluta af þjóðarauðnum og höfðu dregið til sín mikil völd.
Hagdeildir
atvinnulífisins höfðu þá bent á frá árinu 2006 að gengi krónunnar væri 30% of hátt skráð vegna
þenslu og gríðarlegs innflutnings á erlendu lánsfjármagni og ofboðslegum
viðskiptahalla. Góðærið væri í raun yfirdráttur sem einhvertímann þyrfti að
greiða, og sumir komu með þá lausn að senda reikninginn til barna okkar með því að nýta sparifé yngri kynslóða í lífeyrissjóðunum til þess að greiða upp skuldir okkar í dag.
Hvergi í heiminum tókst að tapa
nándarnærri jafnmiklu fé, í hlutfalli við stærð hagkerfisins, á jafnskömmum
tíma. Undir stjórn og stefnu þessarar valdastéttar. Stefna hennar gerði það
mögulegt að taka lítið ríkisbankakerfi með sáralítil erlend umsvif og búa til
úr því bólu upp á ferfalda landsframleiðslu innan bankakerfisins og líklega
annað eins utan þess.
Gjaldþrot íslenska bankanna eru öll á
topp 10 lista þeirra stærstu í mannkynssögunni. Þessi stefna valdastéttarinnar
leiddi til ofboðslegar misskiptingar og ójafnaðar og fáir efnuðust gríðarlega á
kostnað fjöldans. Hér spilar krónan í einangruðu efnahagskerfi aðalhlutverkið.
En almenningur kaus frekar að hlusta á
stjórnarþingmennina, sem nýttu hvert tækifæri til að halda því á lofti hvað
allir hefðu það gott undir þeirra stjórn. "Traust efnahagsstjórn" var aðalklisjan, sem borin var fyrir kjósendur í kosningunum 2007. Þá höfðum við ráðherra og
Seðlabankastjórnarmenn sem ásamt Fjármálaeftirlitsmönnum fóru um heimsbyggðina
með aðalklappstýru útrásarvíkinganna, Forseta Íslands í broddi fylkingar í þeim tilgangi
að kynna hið Íslenska efnahagsundur og setja ofan í við þá sem voguðu sér að benda á hveert stefndi á Íslandi.
Það var þetta fólk sem leiddi íslenskt
efnahagslíf fram af björgunum, en á sama tíma þrættu forsvarsmenn Íslands við
erlenda eftirlitsaðila. Svo var komið að allar vinaþjóðir okkar neituðu að lána
Íslandi, nema þá í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ísland var þvingað til þess
að taka til í stjórn efnahagslífsins.
Nú höfum við kosið okkur ríkisstjórn sem
spilar á nákvæmlega sömu strengi, enda er hún samsett af nákvæmlega sama fólki.
Auðmönnum sem eru komnir til valda fjármagnaðir af þeim fjölskyldum sem hafa
hagnast ofboðslega á því að viðhalda þeirri stöðu sem Ísland hefur verið í og gegnum pilsfaldakapítalisma helmingskiptaflokkanna.
Hér spilað á sömu strengi og Forseti
landsins kynnti í glysdinnerum og spjallþáttum Bloomberg þegar hann fór um heimsbyggðina í fylgd með auðmönnum og spilaði á
þjóðrembinginn. Íslendingar væri hugrökk smáþjóð sem þurfi að verjast
utanaðkomandi ógn alþjóðlega gjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins.
Og söngurinn er byrjaður aftur : "Evrópa þarf að sanna sig fyrir Íslandi"!!!??? Hvar eru menn staddir í veruleikanum?
Það voru Íslendingar sem bjuggu til hið
stóra fjármálaklúður sem setti nánast allar fjármálastofnanir á hausinn hér á
landi og felldi gengi krónunnar um helming. Íslendingar hafa ætíð verið miklir
þiggjendur í erlendu samstarfi allan lýðveldistímann, en við sendum þeim tóninn þessa dagana.
"Við komumst til valda því við erum handhafar réttlætissins" segir hin nýja ríkisstjórn. Almenningur á Íslandi vill veiðigjald,
vill auðlindarentu eins og rétt og sjálfsagt er. Það er líka skynsamlegt út frá
öllum sjónarmiðum, hagfræðilegum sem. Meirihluti landsmanna vill ljúka viðræðum
við ESB og kjósa síðan um niðurstöðuna. Meirihluti landsmanna vildi fá að kjósa
um nýja stjórnarskrá. Allt þetta er komið í ruslafötu "ríkisstjórnar réttlætisins."
Mesta hagsmunamál íslenskra launamanna
er að koma böndum á hamfarastjórn slakra stjórnmálamanna og varðhunda
sérhagsmuna aðilanna, sem slá um sig þessa daga með innistæðulausum sigrum
byggðum á fölskum gjaldmiðli innmúruðum í höftum.
Til valda er komið fólk sem stefnir að
því að koma í veg fyrir að íslenskir launamenn búi við samskonar réttlæti og
tíðkast í þróuðum eins og t.d. á hinum Norðurlöndunum. Okkur er ætlað búa áfram
í landi þar sem hagsmunir 20% þjóðarinnar eru teknir fram fyrir hina.
Öllu var lofað, bara til þess að ná
völdunum aftur. Afnemum verðtrygginguna, hvað þýðir það, hvað á að koma í
staðinn?. Engu var svarað, bara ein innihaldslaus klisja og málið er komið í
nefnd réttlætisstjórnarinnar.
Fellum í burtu skuldir landsmanna.
Hvernig á að gera það? Hver á að borga? Engu var svarað, málið er nú komið í
nefnd þar sem á að kanna hvort þetta sé framkvæmanlegt.
Allt bendir til að hér verði komin innan
eins árs verðbólga upp á nokkra tugi prósenta, eða sama ástand og ríkti árin í
kringum 1980. Hraðferð 2007 sem ók fram af björgunum á fullri ferð án nokkurs
bremsufars, og tugir þúsunda heimila lágu í valnum
Þetta kerfi Íslensku valdastéttarinnar
tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus, það eru einungis 20% þjóðarinnar sem eiga rétt á að njóta réttlætisins. Hér eru hagsmunir
fárra í fyrirrúmi og þar eru ákvörðuð þau kjör sem almenning er boðið upp á.
Þau viðhorf, sem voru höfð að leiðarljósi við uppbyggingu á Íslensku samfélagi
á síðustu öld hafa glatast.
3 ummæli:
2007 hraðferðinni var lofað fyrir kosningar. -Og, hvað gerði hin íslenzka þjóð sjálfri sér til varnar?
Mikið óboðslega er ég sammála þér greinarhöfundur
Skyldulesning!
Haukur Kristinsson
Skrifa ummæli