sunnudagur, 23. júní 2013

Laffer = Gerum hina ríku enn ríkari


Ný ríkisstjórn hefur dregið upp úr skúffum sínum kenningar Arthur Laffer „Houdini hagfræðinnar.“ En þær voru nýttar af fyrri ríkisstjórnum XD og XB. Laffer er heimsþekktur fyrir „Voodoo Economics,“ sem snúast um hvernig við græðum öll á því að skattar á fyrirtæki og fjárfesta verði lækkaðir.

Laffer heldur því fram að ef skattprósenta á tekjur einstaklinga væri 0% fengi ríkissjóður augljóslega engar tekjur og sama væri upp á teningnum ef skattprósentan væri 100% af tekjum, þ.e. ef launþeginn fengi ekkert fyrir vinnu sína, þá hafi ríkissjóðs engar tekjur. Því sé best að vera þar mitt á milli.

Þetta er gott og gilt en það veit enginn hvar við erum stödd á Laffer-kúrfunni og hvað gerist ef skattprósentan er hækkuð frá því sem hún er í dag og hvenær hún fer yfir það gildi, sem gefi ríkissjóði hæstar tekjur? Viss störf munu leggjast af, sum flytjast til annarra landa og önnur hverfa undir yfirborðið og fólk fer að koma sér hjá því að greiða skatta.

Ekki er hægt að meta hvar hámarkið er á kúrfunni og það er háð efnahagsástandi og einnig skattlagningu í öðrum löndum. Nú eru t.d. mun hærri skattar í Noregi þangað sem flestir Íslendingar hafa leitað. Þannig að það eru ekki skattar sem skipta máli, heldur afkoman þegar heildarmyndin er skoðuð. 

Þessari stefnu var beitt af Ronald Regan í Bandaríkjunum eftir árið 1980 og leiddi til þess að allur afrakstur hagvaxtarins rann til tekjuhæsta hópsins og fjárfesta. Verkafólk sat uppi með kauplækkun og lengdi vinnutíma sinn í kjölfarið til að vinna gegn kjaraskerðingunni. Sjónvarpið sýndi fyrir nokkru kraftmikla kvikmynd um hvernig heilbrigðiskerfið virkar í Bandaríkjunum, það fór um flesta íslendinga þegar þeir sáu hvernig var farið þá sem minna máttu sín í þessu „Draumalandi“.

En samt vildu forsvarsmenn Íslensku frjálshyggjunnar fara þessa leið. Enda hefur frjálshyggjan ætíð verið klók og fljót að sjá út leiðir til þess að nappa góðu bitunum og hrifsa til sín sérréttindum og leggur síðan töluvert á sig að verja sína stöðu. Allt þetta þekkjum við Íslendingar mjög vel.

Á áratugnum fyrir Hrun var Íslenskt hagkerfi keyrt inn í sömu stöðu og tókst að skapa í Bandaríkjunum með Houdini hagfræðinni. Og afleiðingarnar urðu hinar sömu : Fámennur hópur að hrifsað til sín stærri hluta af þjóðarkökunni á meðan fátækum fjölgaði og þúsundir heimila urðu gjaldþrota.

Þessi staða var falin í meðaltalsútreikningum ríkisstjórna XD og XB. Í meðaltalsútreikningum birtist nefnilega ekki staða þeirra sem verst standa og þaðan af síður staða þeirra sem hafa það ofboðslega gott, það er að segja fjárhagslega séð.

Skattalækkanir sem voru framkvæmdar af ríkisstjórnum XD og XB náðu ekki til þeirra sem fátækastir eru en skiluðu sér aftur á móti ríkulega til þeirra sem mest höfðu milli handanna og nú er boðað sama fagnaðarefni fyrir hina ríku, enda kostuðu þeir kjör þessarar stjórnar og í farabroddi fara vellauðugir einstaklingar. Þetta var gert með þeim hætti að frysta skerðingarmörk sem leiddi vitanlega til þess að bætur til þeirra sem mest þurftu á því að halda minnkuðu og jafnvel hurfu alfarið.

Forsvarsmenn fyrri ríkisstjórna XD og XB héldu því fast að okkur launamönnum að það hafi verið frábæru starfi ríkisstjórna undanfarinna ára hversu gott allir hefðu það, allt fram að Hruni.

Hið eina sem verkalýðshreyfingin hefði áorkað hafi verið stutt verðstöðvun á árinu 1990, sem var kölluð Þjóðarsátt, svo vitnað sé til Hannesar Hólmsteins helsta efnahagsérfræðings Eimreiðarmanna. Endurskoðuð söguritun þessara manna segir svo að afleiðingar Hrunsins sé þeirri ríkisstjórn að kenna, sem tók við völdum eftir Hrun!!??

Prófessorar við Harvard og MIT hafa rannsakað mismunandi vinnutíma í vestrænum þjóðfélögum og kannað skýringargildi annarra þátta en skatta. Niðurstöður þeirra eru að skattar skýri aðeins lítinn hluta af breytilegu vinnumagni þjóða, það er styrkur og skýr stefna launþegahreyfinga sem skipti þar öllu máli ásamt umfangi velferðarríkja og tekjuskipting.

Einstaklingur í Bandaríkjunum vinnur að meðaltali 25,1 vinnustundir á viku en í Þýskalandi er meðaltalið 18,6 vinnustundir. Bandaríkjamaðurinn vinnur að meðaltali 46,2 vikur á ári en Frakkinn 40 vikur. Gögn, sem byggja á athugunum á vinnutilhögum, benda til þess að skattar útskýri aðeins lítinn hluta þessa munar.

Harvardmenn setja fram vel rökstuddar kenningar um að sterk verkalýðshreyfing á evrópskum vinnumarkaði sé meginástæða þessa munar á milli Bandaríkjanna og Evrópu, og þar stendur hæst hin þekkta krafa Norrænu verkalýðshreyfingarinnar “Styttri vinnutími, vinna fyrir alla”.

Þegar Ronald Reagan beitti stefnu Laffers í Bandaríkjunum upp úr 1980 leiddi það til þess að allur afrakstur hagvaxtarins rann til tekjuhæsta hópsins og fjárfesta, verkafólk sat uppi með kauplækkun og lengdi vinnutíma sinn í kjölfarið til að vinna gegn kjaraskerðingunni og hefur enn ekki komist út úr þeim skaða sem þetta leiddi til.

Engin ummæli: